Uppgjörið annar hluti

Og já flestir sem rætt hafa við mig um fyrsta hlutann eru sammála mér um það, að hann hafi verið allt of langur. Eina ráðið við því er að breyta því og verður þetta því sennilega í 4 hlutum.

Annað sem mig langar að taka fram á þessu stigi og svara þá um leið nokkrum sem rætt hafa þetta við mig, þetta uppgjör er ekki sett fram í þeim tilgangi að hefna sín á einhverjum eða ná sér niðri á einhverjum, þó svo að ég geri mér alveg grein fyrir því, að margir á Eyjalistanum verði ósáttir. Ég heyrði líka í Sjálfstæðismanni í vikunni sem vildi endilega að ég nafngreindi fólk, það verður ekki gert, enda er þetta fyrst og fremst ég að standa við loforð mitt um að segja sannleikann um það sem gekk á á síðasta kjörtímabili.

Það var svolítið merkilega að fylgjast með umræðunni í sumar um frístundakortið, sem að sjálfsögðu allir flokkar vilja eigna sér í dag, og mjög sérstakt að sjá Sjálfstæðismenn gera það, eftir að hafa fellt þetta í tvígang í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.

Sannleikurinn er hins vegar sá, að þetta mál rataði inn á stefnuskrá Eyjalistans eftir vinnu í vinnuhóp sem Sonja Andrésdóttir sat í og ég man ekki betur en að málið hafi komið frá henni, þó svo að við á Eyjalistanum höfum öll á sinn hátt tekið þátt í því að berjast fyrir þessu máli, þá langar mig nú samt að benda fólki á það, sem langar að þakka sérstaklega einhverjum fyrir að hafa komið þessu máli af stað, að þakka þá Sonju fyrir, eða það er amk mín skoðun. Þetta mál mun hins vegar koma fram aftur í síðasta hluta uppgjörsins.

Sonja starfaði í fræðsluráði, þar sem hún lagði ma. fram tillögu um að afnema vísitölutryggingu leikskólagjalda, en það var ekki samþykkt. Hún lagði einnig fram tillögu um að það yrði sumar frístund til að hjálpa foreldrum sem væru í vandræðum með börnin sín eftir skólann á vorin, það var samþykkt. Einnig tillögu um að allir bekkir grunnskólans fengu ókeypis ritföng, það var ekki samþykkt í fyrstu, en síðan myndaðist ákveðin umræða um þetta í samfélaginu og klárlega stuðningur við þetta hjá bæjarbúum. Lagði hún þá fram tillöguna aftur og þá var hún samþykkt.

Að sjálfsögðu tók hún síðan þátt í öllu því sem meirihlutinn lagði fram, en með þessum bókunum bókaði hún oftar og meira heldur en báðir bæjarfulltrúarnir til samans í sínum nefndum. 

Fyrsti fundur minn í nefnd var strax í nóvember 2014, en ég hafði verið beðinn um að taka sæti Eyjalistans í stjórn Náttúrustofu suðurlands. Það var svolítill aðdragandi að þessum fundi, en fyrr þennan sama dag og fundurinn var, þá hitti ég þáverandi fulltrúa Eyjalistans í Umhverfis- og skipulagsráði, sem sagði mér frá því að seint kvöldið áður var haldinn auka fundur í skipulagsráði með mjög stuttum fyrirvara, þar sem tekið var fyrir aðeins eitt mál, þ.e.a.s. tillaga bæjarstjórans um að þessa svokölluðu verndaráætlun um verndun fuglastofnana okkar og um fjöllin okkar. 

Ég kveikti nú strax á því hvað þarna væri í gangi, þarna ætlaði sem sé meirihlutinn að afhenda ríkinu yfirráð yfir fjöllunum okkar í Vestmannaeyjum. Viðbrögðin hjá mér voru mjög sterk og ég hringdi út um allt í aðila sem ég vissi að gætu náð eyrum bæjarstjórans. Á fundinum mótmælti ég þessu máli síðan, því miður gleymdist að bóka mótmælin, en að hluta til dugði þetta því þegar málið var síðan tekið fyrir í bæjarstjórn þá greiddi bæjarstjórinn sjálfur atkvæði gegn málinu. Málið var hins vegar samþykkt í fyrstu atrennu, þar sem m.a. minnihlutinn klofnaði eins og meirihlutinn. Bæjarstjórinn hins vegar setti málið á frost og þegar það var síðan tekið fyrir aftur, þá var það fellt með 6 atkvæðum gegn 1. 

Ég hóf störf í Framkvæmda- og hafnarráði snemma haust 2015. Ég ætla ekki að taka þetta í einhverri ákveðinni röð heldur bara eftir minni. Á fyrsta fundi sem ég sat, komu á fundinn fulltrúar slökkviliðs Vestmannaeyja, enda þekkt vandamál húsnæðismál slökkviliðsins. Ýmsar staðsetningar hafa verið ræddar, t.d. neðsta hæðin í Fiskiðjunni en það vakti athygli mótmæli við þeirri niðurstöðu vinnuhóps um að leggja til að það verði byggð ný aðstaða við malarvöllinn. Ég ætla hins vegar að lýsa yfir stuðningi við þessa staðsetningu, það eru stofnbrautir í allar áttir frá þessari staðsetningu. Varðandi útlit á húsinu, þá má alltaf laga það til en þetta mál þarf að fara að klára, enda slökkviliðið löngu búið að sprengja utan af sér núverandi húsnæði. 

Næsta mál er tekið var fyrir var útboð á utanhússviðgerðum á Fiskiðjunni upp á 158 milljónir, ef ég man rétt. Í samráði við leiðtoga Eyjalistans bókaði ég hins vegar að réttast væri að setja frekar meiri fjármuni í stækkun og viðbyggingu Hraunbúða. Hinn bæjarfulltrúi Eyjalistans var hins vegar mjög óhress með að tengja þessi mál saman, en fyrir því lágu hins vegar alveg skýr rök. Meirihlutinn hafði þá þegar klúðrað umsókn um styrk til framkvæmdasjóðs eldri borgara, sem var hafnað vegna formgalla ef ég man rétt og þetta virkaði og ég ætla enn og aftur að óska öllum bæjarbúum til hamingju með opnun á glæsilegri viðbyggingu við Hraunbúðir í janúar á þessu ári, en ég mætti að sjálfsögðu við opnunina.

Nýlega fjallaði eyjar.net um tillögu mína um hlið á flotbryggjur, en nú er komið eitt hlið. Tillaga mín hins vegar á sínum tíma var ekki samþykkt, en hún gekk að sjálfsögðu út á það að setja hlið á alla landgangana. Manneskjan sem bað mig um að leggja fram þessa tillögu situr núna sem fyrsti varamaður Eyjalistans í Framkvæmda- og hafnarráði, þannig að tillagan hlýtur að verða flutt aftur á þessu misseri, enda augljóst að þetta milljóna tjón sem varð í sumar hefði aldrei orðið ef komin hefðu verin hlið.

Ég bókaði um hrunmatið af mörgum ástæðum, en þetta sumar fylgdist ég með því og tók eftir að sum skemmtiferðaskipin, sem eru með mikið af tuðrum sem sigla í allar áttir, voru stundum að safnast saman áður en þau sigldu inn aftur í víkinni rétt austan við Dönskutó í Heimakletti, rétt hjá þar sem hrundi stór skella úr núna í haust.

Einnig höfum við séð uppbyggingu á varmadælu verkefninu við rætur á Hánni, þar sem klárlega á eftir að hrynja úr og til að útskýra málið betur, þá var eftir jarðskjálftana árið 2000 send fyrirspurn frá Vestmannaeyjabæ til Umhverfisstofnunnar um að gert yrði hrunmat. Viðbrögð Umhverfisstofnunnar voru þau, að senda fyrirspurn á Ingvar Atla Sigurðsson, jarðeðlisfræðing, og þáverandi yfirmann Náttúrufræðistofu suðurlands í Vestmannaeyjum. Ingvar sendi umhverfisstofnun kort af Vestmannaeyjum, þar sem hann litaði fjallsbrúnirnar í Vestmanneyjum til að benda þeim á, hvaða svæði þeir ættu að skoða en Umhverfisstofnun sendi síðan kortið áfram til Vestmannaeyja með þeirri skýringu að þetta væru svæðin sem við ættum að varast, þannið að alvöru hrunmat hefur því aldrei verið gert í Vestmannaeyjum og svo sannarlega eru þó nokkrir staðir, sem réttast væri að vara ferðamenn við, enda vill enginn sem starfar í ferðaþjónustunni upp á borð þá neikvæðu umræðu sem slys vegna hruns gæti kostað okkur.

Ég bókaði ítrekað þann möguleika okkar eyjamanna að fjölga komu skemmtiferðaskipa til Vestmannaeyja, en það liggur fyrir athugun á því að ódýrasta leiðin væri sú að koma fyrir flotbryggju fyrir Eiðinu yfir sumar mánuðina, tengja síðan landgang við krana sem myndi hífa landganginn niður að bryggjunni þegar það þurfti að nota hann.Áætlaður kostnaður er ca 30 miljónir. Ég tengdi þetta líka við mögulega aðkomu t.d. þeirra á Ribsafari að nýta sér þessa aðstöðu þegar vont væri fyrir klettinn. Einnig fína hugmynd frá Pétri Steingríms að byggja á eða við Eiðið safn í kring um fyrsta björgunarbátinn í Eyjum. Vandamálið við þetta væri kannski helst það að koma farþegunum frá Eiðinu inn í bæ, enda helsta iðnaðarsvæði okkar Eyjamanna þarna í kring, en ég reiknaði alltaf dæmið þannig, að fólk yrði flutt til og frá Eiðinu með rútum. Það væri þá ákveðin staður þar sem farþegar gætu safnast saman niðri í bæ eða farið í rútuferð. Tillagan var ekki samþykkt og það sem olli mér kannski enn meiri vonbrigðum var að amk. annar bæjarfulltrúinn greiddi atkvæði gegn tillögu minni og það þrátt fyrir að hafa áður samþykkt hana þar sem ég lagði hana fram á fundi Eyjalistans.

Að gefnu tilefni vil ég taka það fram þegar ég stoppa núna, að aldrei lagði ég fram neinar tillögur eða bókanir án þess að ræða málið fyrst við leiðtoga Eyjalistans, en ekkert af þessum málum hefur verið flutt aftur frá því um haustið 2015, enda hætti ég í ráðinu um sumarið 2016. Að sjálfsögðu er öllum, sem sitja í nefndum í dag, hvort sem er fyrir meiri eða minni hlutann, velkomið að flytja þessar tillögur aftur.

Meira mjög fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband