9.12.2018 | 15:58
Uppgjörið 3 og vonandi síðasti hluti
Ætla að reyna að klára þetta hér og nú.
Eitt af þeim málum sem hvað mesta athygli vakti var bókun mín um að sett yrði saman nefnd til undirbúning fyrir það að einstaklingar eða fyrirtæki vildu fara í vistvæna orkuframleiðslu, hugmyndin er mjög víðtæk og til dæmis gæti ágæt hugmynd Davíðs í Tölvun um rafvæðingu ökutækja bæjarins rúmast þar, en þetta var snarlega fellt af meirihlutanum.
Ýmsar hugmyndir um breytingar á smábáta bryggjustæðum, bæði lagði ég fram og ræddi, en lítið er að frétta af framkvæmdum.
Það eina sem ég lagði fram á þessu tímabili og séð fyrirspurn um frá fyrrum leiðtoga Eyjalistans er varðandi Blátind, en það er ánægjulegt að hann sé loksins kominn á sinn stað og vonandi sér núverandi meirihluti sóma sinn í að fara í nauðsýnlegar lagfæringar á honum.
Það gekk mikið á um áramótin 2015-2016 og greinin sem ég skrifaði þá vakti mikla athygli, en hugmyndin á bak við greinina sem ég skrifaði á þeim tíma var einfaldlega sú, að kanna hvort möguleiki væri á því að fara einhverja aðra leið við að ná frístundakortinu í gegnum meirihlutann, en á þeim tíma lá fyrir að meirihlutinn hafði í annað skiptið á tveimur árum, fellt hugmyndina um frístundakort. Tveimur mánuðum eftir að ég skrifaði umrædda grein lagði meirihlutinn til á bæjarstjórnarfundi í lok febrúar 2016, að tekin yrðu upp frístundakort að ósk Eyjalistans frá og með áramótunum 2016-17. Ég mætti á þennan bæjarstjórnarfund og tilfinningin hjá mér fyrir þessu var svona sennilega ekki ósvipuð og hjá aðalleikaranum í Shawshank Redemption, hann fór í gegn um skít og óþverraskap og kom út svolítið rifinn og tættur, en að öðru leiti alveg tandur hreinn. Margt í kring um þetta mál olli mér miklum vonbrigðum og ekki hvað síst viðbrögð bæjarfulltrúa minnihlutans og fyrir þá sem þekkja málavexti, þá hef ég enn ekki fengið neina afsökunarbeiðni frá meirihlutanum í ráðinu en ég fékk samt stuðning og langar að þakka 3 aðilum fyrir greinarskrif sín á þessum tíma. Fyrst Guðmundur Þ.B., Þórarinn Sigurðsson og nokkru seinna Ragnar Óskarsson, kærar þakkir fyrir stuðninginn strákar.
Síðasta bókun mín í þessu ráði var varðandi ósk um viðbótar fjármagn í utanhússframkvæmdir á Fiskiðjunni, en þar bókaði ég að ég harmaði það, að framkvæmd upp á 158 milljónir stefndi í að fara í allt að 300 milljónir, en mig minnir að í sumar hafi verið birtar tölur um að heildar utanhússframkvæmdir á Fiskiðjunni væru komnar yfir 260 milljónir.
Í ágúst 2016 hætti ég í Framkvæmda- og hafnarráði í samræmi við sveitarstjórnarlög frá 2007, þar sem kemur fram að í mínu tilviki ég, sem hafnarvörður gæti ekki setið í stjórn hafnarinnar og mig minnir að það hafi verið leiðtogi Eyjalistans sem lagði það til að við skiptumst á ráðum og ég færi þá yfir í Umhverfis-og skipulagsráð og samþykkti ég það, en ég veit ekki í dag, hvor okkar sér meir eftir því að hafa samþykkt þetta, en sennilega hefði ég hafnað þessu ef ég hefði vitað hvernig framhaldið yrði.
Starfið í Skipulagsráði gekk bara nokkuð vel framan af og það var ekki fyrr en komið var fram á vor 2017 sem ég fór að gera mér grein fyrir því að þetta væri ekki allt svona slétt og fellt eins og meirihlutinn vildi meina.
Ég fjallaði um afgreiðslu ráðsins á Vestmannabraut 61a og 63b í jóla- og áramóta blaði Eyjalistans. Ég fjallaði einnig í fyrsta hlutanum um afgreiðslur byggingafulltrúa. Það mál hefði aldrei orðið jafn stórt og erfitt ef meirihlutinn hefði bara komið hreint fram, en annars ætla ég ekki að fjalla meira um það.
Ég óskaði eftir umræðum um framtíðar skipulag og lagfæringar á veginum við haugasvæðið, mál sem ég var beðinn um að taka upp. Ég bókaði um slysahættu varðandi staðsetningu Léttis á Vigtartorgi, sem mér skilst að bæjarfulltrúi meirihlutans hafi gert lítið úr, en þetta hafði áhrif, í dag er engin slysahætta af Létti og vonandi fæst fjármagn í að lagfæra þetta skip, enda mikil saga á bak við það.
Ég bókaði um lagfæringar við Gaujulund. Viðbrögð meirihlutans í þessu máli ollu mér vonbrigðum, sem og viðbrögð núverandi formanns ráðsins og Njáls, en ég hef rætt þetta mál við þau bæði, en Jónas, sem séð hefur um Gaujulund árum saman, er eftir því sem ég veit best búinn að taka ákvörðun um að hætta að hugsa um þetta vegna brotinna loforða um vatn og rafmagn inn á svæðið.
Síðasta bókun mín í ráðinu var á síðasta fundinum mínum, en þar var tekin fyrir ósk frá 2Þ ehf, um viðbótar steypusíló (ekki viss um að nafnið sé rétt)við vinnusvæði sitt á Flötunum, en íbúar á svæðinu hafa ítrekað mótmælt þessu. Málið er hins vegar flóki vegna þess, að þetta svæði er skilgreint sem iðnaðar svæði. Í umsókninni kom fram, að óskað væri eftir þessu vegna óvissu um siglingar í Landeyjahöfn og í bókun meirihlutans var gefið tímabundið leyfi, eða frá mars fram í október, en bókun mín var þannig, að að gefnu tilefni vildi ég benda umsækjanda á að samgöngurnar væru ekkert að fara að lagast næsta haust.
Þegar ég lít til baka á sumt af því sem gekk á, þá fer maður að efast um að leiðtogi Eyjalistans hafi í raun og veru verið sá sem réð ferðinni hjá Eyjalistanum og sem dæmi um það, þá var tekin umræða snemma á kjörtímabilinu um það hvort við með þessa félagshyggju tengingu, sem sumir vilja meina, ættum ekki að leggja fram tillögur um það að Vestmannaeyjabær tæki að sér 1-2 flóttamanna fjölskyldur. Þetta sló leiðtoginn strax af borðinu og sagðist hafa samið við bæjarstjórann þáverandi, um að Eyjalistinn myndi ekki leggja fram neinar slíkar hugmyndir á kjörtímabilinu. Mér þótti skrítið að enginn mótmælti þessu, svo ég spurði leiðtogann á þennan hátt: "Ok, gott og vel, en hvað fáum við í staðinn?" og svarið: "Ekkert."
Á síðasta ári ræddi ég m.a. hugmyndir um að komið yrði upp sjóbaðsaðstöðu og ylströnd í Vestmannaeyjum, sem ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn setti á stefnuskrá sína í vor. Einnig ræddi ég í báðum ráðum um hugmyndir um stórskipahöfn fyrir Eiðinu, en þessi mál og fleiri lagði ég aldrei fram formlega vegna þess að leiðtoginn var á móti þeim.
Að lokum þetta. Tíma okkar Sonju hjá Eyjalistanum er þar með endanlega lokið og ég ætla að leyfa mér að segja það, að ég tel að svo sé fyrir fullt og allt, en þessi tenging Eyjalistans við Framsóknarflokkinn, þar sem t.d. núna 2 af 3 efstu eru gall harðir Framsóknarmenn, líkar mér alls ekki og meira að segja hugsa ég að ef valkostirnir væru aðeins Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkur, þá myndi ég sennilega kjósa Sjálfstæðisflokkinn, án þess að fara nánar út í það.
Mig langar að þakka Sonju Andrésdóttur fyrir samstarfið. Við stóðum okkur vel og erum stolt af þeim málum sem við náðum í gegn. Mig langar líka að senda sérstakar þakkir til Hönnu Birnu Jóhannsdóttir í Suðurgarði, en á árum áður störfuðum við saman í pólitík. Hanna sagði alltaf við mig, að það sem væri mikilvægast fyrir fólk sem væri að skipta sér af, væri að koma sér upp pólitísku nefi og já Hanna, þetta virkar, en kosningarnar fyrir 4 árum sem og kosningarnar í vor, sem og vinnubrögð uppstillingarnefndar Eyjalistans við að koma okkur Sonju út eða neðar á lista, sem og vinnubrögð meirihlutans í nefndum og ráðum, allt náði ég á einn eða annan hátt að lesa fyrir fram.
Takk allir fyrir stuðninginn. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa þegar ég nenni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.