25.12.2018 | 14:53
Jól 2018
Það eru margar hefðir í kring um jólin, skatan á Þorláks og síðan margs konar kjötmeti, en eitt af því sem mér þykir hvað mikilvægast er ferðin upp í kirkjugarð á aðfangadag og gaman að sjá, hversu margir mæta á hverju ári.
Í aðdraganda að jólum kemur út jólablað Fylkis með myndum af öllum þeim Eyjamönnum sem látist hafa á árinu og maður uppgötvar það, að eftir því sem maður verður eldri þá þekkir maður orðið í amk. sjón svo til alla sem eru þarna á myndunum. Kannski eðlilega, maður er nú kominn á seinni hlutann.
Í ár voru ótrúlega margir sem maður tengist sterkum vináttuböndum, fólk sem maður hafði náð að kynnast á ævinni og á einhvern hátt snert mann, sumir að sjálfsögðu meira en aðrir.
Einn af þeim sem kvaddi óvænt snemma hausts var vinur minn Bergvin Oddsson. Við Beddi vorum við sömu flotbryggju og hittumst stundum daglega og ræddum þá oft bæði sjávarútvegsmál og pólitík. Það var gott að tala við Bedda, enda var hann ekkert að skafa utan af hlutunum.
Á meðan ég starfaði í stjórn Sjóve þá þurfti ég oft að leita til Bedda varðandi bæði lán á bátnum og honum sjálfum og aldrei kom ég að tómum kofanum og stuðningur hans við Sjóve algjörlega ómetanlegur. Maður upplifði því að hluta til ákveðinn spenning á árinu yfir því að Beddi var að koma með glænýjan bát. Töluverðar tafir urðu á því, en svo loksins kom báturinn, en svo skyndilega veikindi og síðan var Beddi skyndilega farinn. Maður varð eiginlega orðlaus yfir þessu en svona er víst gangur lífsins.
Ef það er eitthvað sem ég hefði viljað segja við Bedda að lokum, þá væri það bara: Takk fyrir að vera vinur minn.
Að sjálfsögðu votta ég aðstandendum Bergvins sem og öllum þeim sem misst hafa ástvini innilegar samúðarkveðjur.
Aðfangadagur og jólapakkarnir hafa aðeins breyst á síðustu árum, en ég minnist þess að á meðan systir mín Inga Rósa lifði, en hún lést í lok janúar 2015, þá voru pakkarnir frá henni til barnanna okkar alltaf svolítið sérstakir og í raun og veru voru pakkarnir sem slíkir alveg sérstök jólagjöf, enda gerði Inga Rósa alveg sérstaklega mikið af því að festa utan á pakkana allskonar skraut og fígúrur og stundum sælgæti líka og við söknum þess í dag, en við vorum reyndar svo heppin að þegar ég og konan giftum okkur fyrir 10 árum síðan, þá sendi Inga Rósa okkur í brúðkaupsgjöf skrapalbúm með myndum af öllum fjölskyldumeðlimum og m.a. myndir sem ég hafði aldrei séð áður, en albúmið er alveg rosalega vel skreytt og m.a. með tengingum við reglur um siglingar á sjó og að sjálfsögðu með myndir af öllum bátum sem ég hef átt fram að þeim tíma, en albúmið er sérstakur dýrgripur á heimilinu.
En jólin eru ekki bara sorgarjól, þau eru að sjálfsögðu gleðijól og á mínu heimili svolítið sérstök í ár, en í ár fengum við að hafa hjá okkur 2 af barnabörnum okkar, Írena Von 19 mánaða og Anna Jórunn rúmlega 3 ára, og það var svolítið sérstakt að vera aftur farinn að upplifa það að sjá pínulitla skó úti í glugga, að maður tali nú ekki um pakkaslaginn í gær sem var ansi fjörugur og manni var eiginlega létt þegar yfir lauk.
Fyrir mína hönd og mína fjölskyldi vil ég óska öllum gleðilegra jóla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.