25.9.2019 | 20:19
Lundasumarið 2019
Lundaballið er um helgina og því rétt að gera upp lundasumarið 2019.
Þegar þetta er skrifað er pysjufjöldinn hjá Pysjueftirlitinu að detta í 8000, sem þýðir að miðað við alla þá sem ég hef séð fara með Herjólfi að morgni til með fulla kassa af pysjum án þess að fara með í vigtun, að heildartalan sé þá klárlega komin í amk 10.000 pysjur, sem þýðir að varp stofninn okkar telur amk milljón pör, en þetta er stærsta pysjuárið okkar í rúman áratug og sennilega alveg síðan 2005 og 2006, en 2006 er fyrsta árið þar sem menn fyrst urðu varir við að eitthvað mikið væri að, enda pysjan óvenju létt þá um haustið. 2007 var hún hins vegar í mjög góðu standi, en fjöldann vantaði.
Árið í ár hinsvegar, er 5. árið í röð þar sem við fáum nokkur þúsund pysjur og mér reiknast til að miðað við að bæjarpysjan sé 1% eða minna, þá sé heildar nýliðunin þessi 5 ár um 4 milljónir lunda. Haldi þetta áfram næstu árin, sem við öll vonum, þá ætla ég að vera svo bjartsýnn að spá því að lundastofninn nái hugsanlega fyrri stærð innan jafnvel 3-5 ára, en alltaf hefur verið talað um lundastofninn í Eyjum amk 8 milljónir fugla.
Margir hafa áhyggjur af hugsanlegu inngripi umhverfisráðherra, en ég varaði einmitt við þessum aðila í grein minni frá því vor þegar lundinn settist upp.
Margir hafa einnig velt upp spurningunni, hvernig í ósköpunum Náttúrustofa Íslands fær það út að lundastofninn telji aðeins um 2 milljónir para á öllu landinu okkar (að mínu mati er hann um 30 milljónir).
Ég hef nokkrum sinnum fjallað um hlut Erps í þessum lundatölum og flestir vita í dag að hann fer hringferð 2svar yfir lundatímann og telur lundaholur á litlum svæðum og reiknar þannig út fjöldann. Það er hins vegar marg sögð staðreynd, og ég ætla að vitna í orð fuglafræðings frá því um sumarið 2007.
Menn verða alltaf að hafa það í huga að þegar vísindamaður er að óska eftir styrkjum til rannsókna, þá fást einfaldlega engir styrkir nema útlitið sé litað nógu dökkum litum.
Persónulega tel ég að hugsanlega sé Erpur einfaldlega í einhvers konar hefndarhug gagnvart lundasamfélaginu hérna í Eyjum, enda hefur verið gert óspart grín að honum og hans vinnubrögðum á lundaböllum síðan hann kom hingað árið 2007, en það verður forvitnilega að sjá í haust hvernig hann túlkar þessa miklu aukningu á pysjum hérna í Eyjum, en ég hef rætt við aðila, bæði í Ísafjarðardjúpi, heimsótt Grímsey norður í landi (toppurinn á árinu), heyrt í ferðaþjónustuaðilum í Húsavík sem og við Papey. Allstaðar er lundanum að fjölga.
Stærsta áhyggjuefnið hér í Eyjum er eins og áður, að lítið sést af lunda hérna í sumar og sumir hafa velt því fyrir sér hvort það geti verið, að vegna ætisskort hafi ungfuglinn okkar fært sig eitthvað annað og jafnvel komi hugsanlega við í Eyjum í ágúst á leiðinni frá landinu.
Ég er ekki sammála þessari skoðun og tel að ef svo væri, þá ætti klárlega að fjölga verulega veiddum lundum annarstaðar sem hefðu verið merktir sem pysjur hér í Eyjum, en samkv. þeim upplýsingur sem ég hef, þá veiddist aðeins 1 lundi á Íslandi, sem merktur var í Vestmannaeyjum.
Í ár voru leyfðir 8 veiðidagar, 8-15 ágúst. Að venju fór ég ekki til veiða, ekki frekar en yfirgnæfandi meirihluti af veiðimönnum í Eyjum, en þeir sem fóru veiddu, eftir því sem ég veit best, milli 6-700 lunda. Mest af þessu var veitt 15. ágúst, en þá gerði mjög hagstæða austanátt, en mér skilst að meirihlutinn af þessu hafi verið ungfugl.
Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með öllum þeim gríðarlega fjölda af fólki sem var hérna um helgar við pysjuveiðar og það kemur mér ekkert á óvart ef stelpurnar mínar hafi bjargað um 3-400 pysjum.
En svona til gamans ein lítil, gömul pysjuveiðisaga frá mér:
Ég hef sennilega verið svona 11-12 ára gamall og staddur við bæjarbryggjuna ásamt fullt af fólki, nýkomið myrkur og allir að bíða eftir að pysjurnar fara að fljúga. Það var oft erfitt að fá kassa, en ég hafði græjað mig með víðri peysu, sem ég hnýtti fyrir að neðan og tróð svo bara pysjunum inn á mig. Það var oft æði mikið fjör undir peysunni og ekki óvanalegt að maður var oft mikið klóraður eftir annasamt kvöld, en þetta tiltekna kvöld tóku nokkrir krakkar eftir því að pysja hafði lent uppi á mjölgeymslu Ísfélagsins, stóð þar á brúninni norðan megin og horfði yfir allt mannhafið. Sumir tóku til við að stappa og klappa til að sjá hvort hún flygi ekki niður, en ekki haggaðist hún, svo 2 ofurhugar tóku sig til og klifruðu upp ljósastaurinn austan við mjölgeymsluna og upp á þak. Við krakkarnir stilltum okkur út um allt planið til að vera tilbúin að grípa pysjuna, en ég ákvað að stilla mér upp við girðinguna við höfnina, ef henni skyldi nú takast að fljúga þangað, svo hún kæmist ekki í höfnina. Loksins þegar hún flaug, þá fór hún fyrst niður og svo hátt upp, yfir allan krakkahópinn, rétt áður en hún kom að girðingunni þar sem ég stóð, lækkaði hún aðeins flugið, svo ég stökk upp og náði taki á löppunum á henni, náði svo betra taki og stakk henni inn á mig og labbaði ansi góður með mig í burtu.
Já, lundaballið er um helgina og ég ætla að reyna að mæta. Óska að sjálfsögðu öllum gleðilegrar skemmtunar og efast ekki um að þetta verði flott ball hjá Bjarnareyingum og munum, að lundinn mun koma til Eyja löngu eftir okkar dag í milljóna tali.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.