31.12.2019 | 18:11
Áramót 2019
Það er svolítið skrýtið ár að baki, en 2019 átti að vera fyrsta heila árið, þar sem ég kæmi ekkert nálægt útgerð en breytingar á vaktarskipulagi hafnarinnar gerði það að verkum, að ég fór aftur í útgerð að hluta til snemma á þessu ári og gengið bara nokkuð vel, en spá mín frá því um seinustu áramót um allt að 40% launalækkun með breyttu vaktarkerfi hafnarvarða, hefur að mestu leyti gengið eftir og svolítið skrýtið að hlusta á hástemmdar lýsingar á því, hversu frábært það yrði fyrir hafnarverði að eiga meira frí, en sé allt talið saman, frídagar, sumarfrí og venjuleg helgarfrí þá á ég í dag sennilega frí allt að 7 mánuði ársins og klárlega næðu endar ekki saman hjá mér nema með tilkomu Blíðu VE, en árið í ár var 32. árið mitt í útgerð.
Klárlega er stærsti atburður ársins koma nýs Herjólfs og margir hafa spurt mig um það, hvenær ég ætla að fjalla um Herjólf IV, en að mínu mati er það algjörlega ótímabært að fjalla um skipið fyrr en í fyrsta lagi eftir ár í fullri drift og eins og allir vita, þá á eftir að klára að ganga frá búnaðinum sem á að gera það kleyft að hægt verði að sigla á rafmagni einu, sem og að fjölga kojum en vonandi verður þetta klárt á nýju ári og ég efast ekki um það, að þessi frábæra áhöfn Herjólfs muni halda áfram að gera sitt besta með þetta skip, en ég vil um leið hrósa bæjarstjórninni fyrir að tryggja það að Herjólfur III verði hérna amk. fyrstu 2 árin.
Heitasta málið á landsvísu eru þessi svokölluðu spillingarmál og ég neita því ekki að manni fannst það dapurlegt, að við Íslendingar séum á lista yfir spilltustu þjóðir í heimi, en kannski kom það flestum okkar ekkert á óvart. Ég held hins vegar að núverandi ríkisstjórn muni lítið geta gert til þess að breyta þessu og allar breytingar í rétta átt, verði því einfaldlega að byrja hjá okkur sjálfum og þá kannski sérstaklega hjá þeim, sem alltaf verja og kjósa þá flokka sem bera ábyrgð á þessari spillingu.
Í síðustu grein minni fjallaði ég um sérstaklega gott tíðarfar í haust og síðasta sumar og út frá trillusjónarmiðinu er nú mun skemmtilegra að hafa kallt og stillt veður, en mér finns alltaf gaman samt, þegar hann hvessir og hlýnar og sjá hvernig jarðvegurinn tekur strax við sér, sérstaklega gaman finnst mér þó að ganga upp með Hánni og heyra gargið í fýlnum þegar að hlýnar eins og nú. Eyjar eru svo sem alltaf fallegar, hvernig svo sem viðrar.
En á öllum áramótum eru einhver tímamót og það svo sannarlega á mínu heimili um þessi áramót, en kl ca. 2 í nótt, Nýársdag, eru nákvæmlega 30 ár síðan ég gekk inn á Hallarlund og hitta þar fyrir unga og fallega konu, sem er enn gullfalleg. Við gengum saman út af þessum skemmtistað þessa nótt fyrir 30 árum síðan og erum enn að ganga í takt. Hver hefði trúað því?
Í brúðakaupin okkar var spilað og sungið fyrir okkur eitt af okkar uppáhalds lögum og erindi úr því hljómar svona:
Grow old along with me
The best is yet to be
When our time has come
We will be as one
God bless our love
(höf. John Lennon)
Óskum öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs, takk fyrir það gamla.
Kveðja Georg og Matthilda
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Georg, gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gömlu árin. Þú skilar kannski nýárskveðju til eiginkonunnar.
Kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 13.1.2020 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.