Stormur

Enn ein stormviðvörunin í kortunum og því rétt að gera upp stóra storminn.

Nóttin byrjaði ekki vel hjá mér, ég vaknaði fyrst upp úr 1 við einhver læti uppi á þaki, fór því út og kíkti en sá ekki neitt. Tókst ekki að sofna aftur og þegar klukkan var að ganga í 4 fóru óhljóðin í þakinu hjá mér að versna, klæddi ég mig því og fór út. Það var ekki fyrr en ég labbaði bak við húsið, að ég sá að kjölurinn syðst á þakinu var byrjaður að réttast upp austan megin. Hafði ég þegar samband við Björgunarfélagið, sem að sjálfsögðu mættu fjölmennir örskömmu síðar og eftir að hafa metið aðstæður var ræstur út kranabíll. 2 björgunarsveitarmenn drifu sig upp og redduðu málinu, en fyrir mína hönd og annarra eyjamanna sem þurftu að leita til þeirra þessa nótt, vil ég færa alveg sérstakar þakkir, þið eruð frábær öllsömul, takk fyrir. 

Ég mætti í vinnu kl 8, en þetta var fyrsta nóttin síðan ég byrjaði sem hafnarvörður, að ákveðið var að hafa hafnarvörð á vakt alla nóttina. Nóttin var að mestu tíðindalítil, en m.a. fór vakthafandi hafnarvörður tvívegis til að líta eftir Blátindi. Ég hafði hins vegar áhyggjur af því, hvað myndi gerast í þessum stormi á háflóði sem var þarna um hálf 10 um morguninn. Vorum við 3 í bílnum á leiðinni til þess að kíkja eftir honum, þegar við sjáum Blátind koma siglandi eftir höfninni. Við vissum þá þegar að hann myndi sökkva, vegna þess að eitt af því sem gert var til þess að reyna að tryggja það, að hann losnaði ekki af Skanssvæðinu, eins og gerst hafði síðasta vetur þegar hann féll á hliðina í einhverjum storminum, var að hafnarverðir voru sendir með dósabor til þess að gera nokkur göt, aftast og neðst á bátnum, þannig að hann myndi fyllast í hvert skipti sem félli að og ætti því ekki að ná að lyfta sér og rífa af sér allar þær festingar sem voru í kring um hann.

Viðbrögð okkar voru að hafa samband við Lóðsinn sem var gerður sjóklár á meðan við fórum og hentum okkur í galla. Þá kom upp annað óhapp, en þegar Lóðsinn var gangsettur kom í ljós að hann var með í annarri skrúfunni og drapst því á vélinni, fórum við því í átt að Blátindi á aðeins annarri vélinni, ég held að öllum hafi verið ljóst að það hefði verið gríðarlegt áfall, ef Blátindur hefði farið niður á miðri höfn. Þegar við komum að honum, flaut þá þegar yfir dekkið á honum, en við vissum hins vegar, að þar sem við höfðum al málað hann síðasta sumar og einnig sett nýja glugga í stýrishúsið, þá væri meira flot í honum heldur en fyrir þá aðgerð. 

Strax var tekin sú ákvörðun að koma honum að Skipalyftunni, þar sem gott væri að vinna við hann eftir að hann væri sokkin og í raun og veru tel ég að það hafi verið kraftaverk að þetta skyldi takast jafn vel og raun bar vitni.

Bærinn hefur tekið þá ákvörðun að honum verður lyft af botninum og komið inn í lyftuna hjá Skipalyftunni og honum þannig lyft upp, vonandi gengur þetta allt eftir. Það er að sjálfsögðu síðan bæjaryfirvalda að taka ákvörðun um framhaldið, hvað það verður ætla ég svo sem ekkert að hafa neina sérstaka skoðun á, en saga þessa báts er mjög mögnuð og mikilvægt að hún verði varðveitt.

Þetta veður sem þarna gekk yfir sýndi okkur kannski, hversu lítil við erum í raun þegar á reynir. Sem betur fer urðu engin slys á fólki, en þessi dagur var mjög sérstakur fyrir okkur hafnarverði, enda strax um leið og Blátindur var farinn niður tók við eltingarleikur á eftir flotbryggjum, sem flutu upp af festingum sínum, bæði inni í smábátahöfn og löndunarbryggjurnar inni í pytti, en ég fékk þá lýsingu niðri á bæjarbryggju, að þegar sjórinn fór sem hæst fór hann yfir rafmagnskassann sem er nyrst á bæjarbryggjunni, sem þýðir að ölduhæðin fór rúmlega hálfan metir yfir bæjarbryggjuna.

Enn og aftur, Björgunarsveitir sem voru að alla nóttina, fyrir hönd okkar allra, kærar þakkir.

Georg Eiður Arnarson

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband