23.5.2021 | 21:14
Af eggjum og öðrum auðlindum
Það má með vissu segja að hér í Eyjum drjúpi smjör af hverju strái. Fjöllin eru full af fuglum og eggjum og sjórinn fullur af fiski (sem reyndar sumir telja að sé orðið einkaeign í dag, en nánar um það síðar).
En í þessari grein ætla ég aðeins að fjalla um eggjatökuna hjá mér í ár ásamt gömlum minningum og svara um leið spurningum sem ég þarf ótrúlega oft að svara.
Fýllinn
Ég hirti mitt fyrsta fýlsegg, minnir mig, 13 ára gamall en ég hafði veri þá í gistingu hjá frænku minni vestur í blokkum í nokkra daga og einn daginn lagði ég leið mína inn í dal og gekk upp með Hánni að vestanverðu og fyrir tilviljun klifraði ég upp á eitt nes sem ég sá þarna og rakst þar á fýl á eggi. Eggið hirti ég og fór með það til frænku minnar sem notaði það til að búa til dýrindis pönnukökur og þar með var ég kominn á bragðið.
Næstu 25 árin á eftir stundaði ég eggjatöku mest megnis í Duftþekju og náði ma. annars stærsta árið að týna yfir 2000 egg. Undanfarin ár hins vegar hef ég farið á önnur fjöll sem ekki eru jafn erfið og t.d. í fyrra safnaði ég ca. 150 eggjum. Í ár hins vegar, kom strákurinn minn með mér í þetta og náðum við að safna liðlega 600 eggjum (á ca. 20 eftir ef einhverjum langar í soðið).
Það er tvennt sem ég er oftast spurður af og svara alltaf á sama hátt. Í fyrra lagi þá hef ég oft verið spurður út í þá skoðun nokkurra fuglafræðinga og náttúrufræðinga um að fýllinn sé farfugl. Þetta er hins vegar al rangt hjá þeim, enda þekkja sjómenn þetta vel, fýllinn hérna á miðunum allt árið. Það eina sem gerist reglulega er að þegar það frystir mjög mikið, þá virðist fýllinn færa sig djúpt suður fyrir Eyjar en kemur svo alltaf aftur um leið og hlýnar.
Hin spurningin er sú: Hversu oft verpir fýllinn?
Nú er það þannig að þar sem menn fara í fýlsegg þar sem hann verpir mjög þétt, þá er ekkert óeðlilegt að menn haldi að hann sé byrjaður að verpa aftur þegar þeir koma í annað eða jafnvel þriðja skiptið, að þá virðist vera annað varp í gangi, en svo er ekki. Ég hef í gegnum árin og áratugina hreinsað það marga staði þar sem fýlnum hefur tekist að fela hreiðrið sitt mjög vel, ég hef aldrei fengið tvisvar egg í sama hreiðrinu, en merkilegt nokkuð voru tvær undantekningar í ár, en ég lenti tvisvar í því, að fá 2 egg í einu í sama hreiðrinu. En svo fattaði ég þetta að fýllinn sem sat á, sat bara á öðru egginu, hitt, sem var í bæði skiptin svolítið minna, var orðið ískalt. Ég ætla mér því að leyfa mér að giska á það, að þarna hafi einhver ungfýll, sem hefur verið kominn alveg í spreng, verpt sínu eggi en verið síðan rekinn í burtu hörðum vængi af eigandanum af hreiðrinu, enda passar fýllinn vel upp á sitt hreiður, en það er greinilegt að fýlnum er að fjölga.
Mávurinn
Ég hef alltaf tekið mávseggin með á þeim svæðum sem ég tíni, en mávurinn byrjar að verpa 10 dögum á undan fýlnum, amk. þeir fyrstu, en ég fór upp í Blátind þann 4. maí, enda er þekkt að mávurinn byrjar að verpa 2. maí. Átti ég von á því að fá 1-2 egg, en fékk 10. Skýringin er að mínu mati gríðarlega gott fæðis framboð við Eyjar, en mávurinn verpir endalaust og það þekki ég nokkuð vel og hann hættir ekki fyrr en hann er kominn með 3 egg í hreiðrið.
Fyrir liðlega 20 árum síðan var ég orðin rosalega leiður á mávapari sem var alltaf með hreiður í klettunum fyrir aftan efsta lundaveiðisætið í Miðkletti og truflaði alveg rosalega lundann og fældi hann í burtu með látum, svo ég ákvað eitt árið að ég skyldi ræna hann bara allt sumarið. Byrjaði strax í maí og svo júní og alveg fram undir 20. júlí, en þá var ég búinn að taka 18 egg frá þessu sama pari. Í byrjun september sá ég svo í sjónaukanum þetta sama par vera að þvælast með 3 unga í klettunum efst í miðkletti.
Að lokum nokkur orð um lundann
Það hefur verið svolítið um það að mönnum finnst lítið sjást af lunda. Það er eðlilegt, hann á að vera í miðju varpi núna, eða allavega byrjaður að verpa og sést því lítið á meðan, helst að sjá hann seint á kvöldin að viðra sig aðeins. Ungfuglinn hins vegar kemur yfirleitt ekki fyrr en svona í fyrsta lagi í byrjun júlí, þegar hann fer að elta sílisfuglinn upp í fjöllin. Vonandi sjáum við mikið af honum í sumar og mikið af pysju í haust.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.