21.12.2021 | 21:38
Það er því miður staðreynd að þrátt fyrir að við Íslendingar teljumst með ríkari þjóðum heims, er hér gríðarleg fátækt og þá sérstaklega hjá eldra fólki, öryrkjum og ekki hvað síst einstæðingum og einstæðum foreldrum. Þetta þekki ég að hluta til af eigin reynslu. Þegar ég var ungur drengur hér í Eyjum vorum við þrjú systkinin heima hjá mömmu sem var einstæð móðir. Þá gerist það að nokkrum dögum fyrir jól að bankað var að dyrum. Mamma fór til dyra og ég heyrði að það voru einhverjar konur þarna. Stuttu síðar kom ég inn í eldhús þar sem mamma sat á stól og grét hljóðlega. Þegar ég spurði hverju sætti, kom í ljós að félag hér í bæ hefði verið að færa henni peningaupphæð til þess að létta undir hjá henni sem einstæðri móður rétt fyrir jólin. Þó að peningarnir kæmu sér klárlega vel, þá skynjaði ég afskaplega mikla sorg í rödd móður minnar. Það er nefnilega ekki auðvelt hlutskipti að vera fátækur og eiginlega enn verra að aðrir skuli taka eftir því, þó að fátækt sé að sjálfsögðu ekkert til að skammast sín fyrir. Svona er nú ástandið hjá fjölmörgum einstæðum foreldrum. Aldrei man ég eftir því að okkur systkinin hafi skort nokkuð en sjálfsagt ýtti þetta undir það hjá mér að finna snemma leiðir til þess að vinna mér inn pening. Víst er þó að seint muni komast með tærnar þar sem móðir mín hafði hælana hvað varðar dugnað og útsjónarsemi. Fyrir um 30 árum, þegar ég og mín kona vorum nýbyrjuð að búa og elsta dóttir okkar var þá á öðru ári, ákváðum við að konan yrði heima vegna þess hversu dýrt það var að hafa börnin okkar tvö hjá dagmömmu og á leikskóla. Tíðin þá um haustið var ofboðslega erfið og ef ég man rétt, þá held ég að ekki hafi gefið á sjó einn einasta dag í desember. Sem betur fer hafði mér tekist að komast í smá vinnu í frystihúsi, en þá einmitt var bankað uppá hjá okkur. Þá hafði verið bent á okkur hjá verkaliðsfélaginu og var þar mættur fulltrúi félagsins með peningastyrk. Styrkurinn kom sér vel fyrir okkur en ég neita því ekki að þetta var ákveðið áfall. Engu að síður vorum við að sjálfsögðu afskaplega þakklát fyrir stuðninginn. Fyrir um áratug fréttum við af því, að ein besta vinkona okkar hjónanna, einstæð móðir, ætti mjög erfitt fyrir jólin. Við tókum því þá ákvörðun, þegar við vorum að versla inn fyrir jólin, að fylla poka af margskonar matvælum og færa henni. Að sjálfsögðu varð hún afskaplega þakklát fyrir, en maður skynjaði líka þessa tilfinningu að svona átti þetta náttúrulega aldrei að vera. Já, það er gríðarleg fátækt á Íslandi og því miður svo, að sumt fólk skammast sín svo mikið að það neitar sér um það að leita aðstoðar, sleppir í staðinn að leita lækna í veikindum að ekki sé minnst á afþreyingu. Erfiðast er þetta að sjálfsögðu hjá fjölskyldufólki og flestir reyna allt sem mögulegt er til þess að láta börnin ekki líða skort, en þetta er ótrúlegt í svona ríku landi og maður spyr sig, hvar eru þingmennirnir sem öllu lofa fyrir kosningar en segja svo, þegar þeir eru búnir að mynda meirihluta að þetta sé bara allt of dýrt. Flokkur fólksins lofaði strax í upphafi að hjálpa þeim sem minna mega sín. Ég er stoltur að því að hafa tekið þátt í kosningabaráttunni með fólki sem stendur við það sem það lofar og frábært að fátækt fólk eigi loksins alvöru þingmenn til að berjast fyrir sínum málstað. Ég er í undirbúningsstjórn fyrir stofnun kjördæmaráðs Flokks fólksins í Suðurkjördæmi og við ætlum að sjálfsögðu að láta til okkar taka á nýju ári. Ég óska öllum gleðilegra jóla
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
« Síðasta færsla | Næsta færsla »
Í alvöru, gríðarleg fátækt? Hvaða lýsingarorð notum við þá um önnur lönd, t.d. nágrannalöndin? Hungursneyð?
Einar Sveinn Hálfdánarson, 22.12.2021 kl. 23:45
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.
Búsettur í Vestmannaeyjum. Trillukall og lundakall. Gsm 8693499-torshamar@internet.is
Er búinn að opna facebook síðu
Uppfært á 3 mín. fresti. Skýringar
Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.
Athugasemdir
Í alvöru, gríðarleg fátækt? Hvaða lýsingarorð notum við þá um önnur lönd, t.d. nágrannalöndin? Hungursneyð?
Einar Sveinn Hálfdánarson, 22.12.2021 kl. 23:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.