8.2.2023 | 21:18
Saga trillukarlsins (fimmti og síðasti hluti)
Eftir að ég hafði selt allt vorið 2018, þá get ég vissulega ekki neitað því að þá um sumarið sagðist ég vera hættur. Ég átti reyndar litla tuðru sem ég fór nokkrum sinnum á í sjóstöng, en það er erfitt, sérstaklega þegar einhver sjór er, svo ég fór að velta því fyrir mér þá um haustið að skipta kannski tuðrunni upp í einhvern lítinn bát, en þetta breyttist allt eftir starfsmannafund hjá höfninni fyrir jól 2018, en þar var kynnt að frá og með 1. maí 2019 ætti að fjölga hafnarvörðum úr þremur í fimm og gefa okkur meira frí í staðin fyrir laun, reyndar kom fram í kynningunni að við myndum ekki lækka um nema 20-30 þúsund, en miðað við þær forsendur sem gefnar voru á fundinum, þá reiknaði ég strax með ca. 30% launalækkun, sem gekk eftir. En fram að þessu var ekki ólagengt að við hafnarverðir værum með upp undir 100 næturvinnu tíma á mánuði, sem skilaði oft í kringum 700 þúsundir í útborguð laun, en eftir að breytingin tók gildi telst það orðið gott í dag ef menn ná 500 þúsund í peningum og þá með því að taka allar vaktir.
Þannig að strax á þessum fundi sagði ég að miðað við að með bakvakta og sumarorlofi og þá allt að fimm mánaða frí yfir árið, þá myndi ég fara og leita mér að bát, sem að ég og gerði.
Bátur nr. 9, Staðarberg.
Eftir nokkra leit rakst ég á þennan útslegna Víking 700 bát, sem ég frétti nokkru síðar eftir að ég keypti hann, að stórvinur minn Guðjón Arnar Kristjánsson, heitinn, hefði átt og smíðað, með fleirum á sínum tíma. Báturinn var þá í Keflavíkurhöfn í mjög slæmu ástandi, en hann var á góðu verði og ég kom með hann heim 1. febrúar 2019 og ég var svo heppinn að fá til liðs við mig vin minn Hallgrím Rögnvaldsson, sem tók að sér að skvera bátinn fyrir mig.
Reiknaði ég með að gera bátinn sjókláran fyrir ca. milljón, en í ljós kom að það var nánast allt ónýtt í kringum og undir vélinni. Einnig urðum við að skipta um stjórntæki, nýjar festingar fyrir altinatór og spildælu og stefnisrör og tengi reyndist vera ónýtt, komst ég því ekki í fyrsta róðurinn fyrr en í mars. Komu þá upp fleiri vandamál, dýptarmælirinn sýndi bara tóma vitleysu og sjálfstýringin hélt ekki stefnu og var síðar dæmd ónýt, en þar var ég svo heppinn að vinur minn, Þórarinn Sigurðsson kenndur við Geisla, bjargaði mér alveg þarna og fann m.a. bilaða sjálfstýringu sem hann gerði upp fyrir mig og gekk frá í bátnum, ásamt fleirum. Það er gott að eiga góða að.
Ein aðal ástæðan fyrir því að ég valdi að fara aftur á línu, var að fyrir fiskveiðiárið 2018-19 var ýsukvótinn aukinn um 40%, sem var eðlilegt enda ýsa út um allt, reyndar eins og núna, en áfallið kom svo aftur með ráðgjöf Hafró sumarið 2019 þegar þeir komu enn einu sinni með þetta eilífðar úps, skekkja í útreikningum og skáru ýsuna niður um 36%, ótrúlegt að einhver skuli taka mark á því sem kemur frá þessari stofnun.
En um vorið var allt klárt hjá mér og t.d. í byrjun maí náði ég tvisvar sinnum í 4 tonn í einum róðri. Einnig hjálpaði gríðarlega mikið til að mér var bent á aðila á suðurnesjunum sem að hugsanlega væri til í að kaupa fiskinn á föstum verðum, sem gekk eftir, og skilaði þetta því strax vel af sér.
Um haustið fór ég svo í skötuna og meðafla og gekk bara mjög vel.
Það sem var erfiðast að eiga við á þessum bát er, að hann gekk bara 6 mílur og fljótlega eftir að ég fór af stað með hann þarna í febrúar/mars 2018, tók ég þá ákvörðun að ég ætlaði að gefa þessu a.m.k. 2 ár og taka svo ákvörðun um framhaldið, þannig að í febrúar 2020 hugsaði ég minn gang og ákvað síðan að setja bátinn á sölu í mars, en var samt alveg tilbúinn í það að halda áfram ef hann seldist ekki. Fyrsta mánuðinn sem báturinn var á sölu spurði enginn um hann, en svo kom hingað ungur maður úr Þorlákshöfn og við fórum einn hring á bátnum, hann gerði mér tilboð sem var reyndar töluvert undir því sem ég setti á bátinn og fór hann með bátinn héðan frá Eyjum 1. maí sama ár.
Ég hafði reyndar boðið honum að hann mætti koma hingað aftur um haustið og ég skyldi kenna honum á línuveiðar og fórum við 6 róðra þarna um haustið, en ég hafði ákveðið að láta ekki veiðarfærin mín ekki með bátnum, enda kostar mér töluvert vesen við að eignast aftur línuveiðarfæri, en ég hafði selt allt saman 2018.
Ég hafði keypt mér lítinn leikfangabát til þess að leika mér á í sjóstöng og gerði það, en fann nú fljótlega að þetta að leika sér átti nú ekki alveg við mig, seldi hann vorið eftir.
Vorið 2022 fór ég að velta því fyrir mér, hvað ég vildi gera næst. Ein af ástæðunum fyrir því að ég seldi líka þennan síðasta bát var að mér leist ekkert á að fara á strandveiðar á 6 mílna bát og þegar ég renndi yfir öll þessi ár í þessu, þá var alltaf bátur nr. 7, sem mér hafði þótt svona vænst um, enda gengið ofboðslega vel á honum, en hann var rúmlega 7 tonna dekkaður bátur sem gekk alveg 8-9 mílur og spurningin var, hvort ég gæti fundið sambærilegan bát á þokkalegu verði.
Leitin hófst í lok maí með því að keyra alla austfirðina, skoðaði þar 4 báta og gerði þar tilboð í 1, sem ekki gekk. Bauð reyndar aftur í hann en fékk aftur nei. Skoðaði svo bát mánuði síðar vestur á Snæfellsnesi sem ég bauð í, en það gekk ekki heldur og ekki heldur með bát sem ég bauð í á Flateyri, en þarna eru nokkrir bátar sem eru allir á sölu ennþá í dag, og munu að mínu viti sennilega aldrei seljast, en strax þarna um sumarið hafði ég heyrt í vini mínum, Sigurjóni Þórðarsyni, á Skottu frá Hofsósi sem var einmitt, eins og flestir þessir bátar sem ég bauð í, en reyndar aðeins stærri 8,6 tonn. Bátinn skoðaði ég svo og prufaði í lok ágúst og í september náðum við saman og kom ég með bátinn til Eyja í september 2022.
Bátur nr 10, Skotta.
Með Skottu fékk ég 4 gamlar færarúllur, en það var reyndar ekkert línuspil á honum en því var nú fljót reddað hér í Eyjum. Ég fékk Hallgrím Rögnvaldsson í að standsetja bátinn með mér og Þórarinn í rafmagnið og þó svo að Sigurjón hafði verið búinn að gera helling fyrir þennan bát, þá var líka hellingur eftir, en m.a. setti ég nýjan kælir við vélina í síðustu viku.
Fyrsta róðrinum náði ég strax þarna í september og skilaði hann 4 tonnum, mest skötu. Í dag er ég búinn að róa 15 sinnum á bátnum og náð í einhver 30 tonn. Hef m.a. prófað að koma með tonn í honum, bara á dekkinu og ber hann það léttilega. Nú er ég búinn að setja rúllurnar upp, en veðráttan er ansi erfið núna, en þessi bátur er ekki á leiðinni á sölu og engin plön um slíkt og ég stefni á að setja hann á strandveiðar í sumar og róa í fríum, nema náttúrulega ef ráðherra verður búinn að eyðileggja strandveiðikerfið eða leggja það niður?
Spurt og svarað.
Ég held að ég sé nú búinn að svara öllum spurningum sem ég hef fengið á undanförnum árum, en ætla samt að svara þessu hérna aðeins skýrar.
Fyrsta spurning:
Hvar fjárfestirðu allan gróðann af sölunni á þessum bátum?
Þessu er nú fljót svarað, ég held að ég hafi aðeins einu sinni keypt bát án þess að taka lán og það var bátur nr. 9, en hann keypti ég með því að fresta því að borga skattana strax, en þurfti nú samt að taka aftur lán þegar ég keypti bát nr. 10, þannig að ef það var einhver gróði á þessu, þá fór það að mestu leyti í að borga vexti á okurlánum.
Spurning nr 2.
Hvað ertu búinn að eiga marga báta og hvað ætlarðu að eiga marga báta?
Fyrri spurningin er náttúrulega hér í þessari upptalningu hjá mér, en seinni spurninguna er kannski best að svar með orðum ágæts vinar míns sem er nú látinn fyrir mörgum árum síðan: Við erum nú ungir og sjáum til.
Spurning nr 3.
En hvenær ætlar þú þá að hætta?
Mjög erfitt að svara þessari spurningu, enda fer það að sjálfsögðu eftir því, hvernig heilsan verður en auðvitað líka hvernig kvótakerfið þróast.
En svo er aftur til annað svar og verð ég þá að vitna í samtal frá því í september 2005 sem var einhvern veginn þannig að ég hafði frétt að Dolli vinur minn væri nú orðinn eitthvað veikur, ákvað ég því að kíkja til hans. Hann bauð mér inn og bauð mér sæti og kaffi og ég spurði hann frétta, en heyrði ég strax á honum að það var óvenju þungt í honum hljóðið, ég reyndi að hressa hann við með því að spyrja hann, hvort hann væri ekki farinn að líta í kring um sig eftir nýjum bát, en þá sagði Dolli: Nei, þetta er búið hjá mér.
Ég sagði þá: Hvað er þá framundan?
Ekkert, sagði hann og settist niður þunglamalega.
Ég hváði og sagði: Hva, hvenær verður þá jarðarförin?
Þá sagði Dolli strax: Þú átt ekkert að mæta í jarðarförina hjá mér.
Ég hváði aftur við og sagði: Þú getur ekkert bannað mér að mæta í jarðarförina hjá þér.
Þá horfði Dolli beint í augun á mér og sagði: Goggi minn, ef þú vilt minnast mín daginn sem ég verð jarðaður, þá skaltu fara á sjóinn og fiska eins og þú getur.
Ég hugsaði mig um í smá stund, en sagði svo: Ég set eitt skilyrði, pláss á nýju Freyjunni þegar minn tími kemur, og það var glampi í augunum á Dolla þegar við tókumst í hendur um samninginn, og þar sem ég stóð nú við minn hluta af samninginum, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að Dolli stendur við sinn hluta og stundum verð ég svolítið spenntur fyrir því að komast þangað, þar sem að alltaf er blíða, allt fullt af fiski, ekkert kvótakerfi og engar skuldir, en vonandi eru nú nokkur á í það amk. en augljóslega er algjörlega ótímabært að fara að ég sé að fara að hætta að róa til fiskjar.
Nokkrir aðilar hafa lagt hönd á plóginn með mér í gegnum þessi ár og langar mig að þakka þeim alveg sérstaklega fyrir.
Fyrst Dolla fyrir öll góðu ráðin á sínum tíma.
Einari Guðlaugs, sem við jörðuðum um áramótin, en hjálpaði mér með beitninguna í mörg ár.
Hallgrímur Rögnvaldsson hefur verið ómissandi fyrir mig síðustu árin og ekki verra að geta leitað til Þórarins Sigurðssonar þegar eitthvað rafmagnsvesen er og ekki er verra að hafa vin minn Eyþór Harðarson með sér í liði, enda bjargað mér mjög oft um kvóta og sérstakar þakkir fær frúin fyrir að nenna að skrifa þetta með mér.
Fleiri mætti sjálfsagt nefna, en ég nefni þessa svona helst, en ætla að enda þetta á lítilli sögu af sjónum.
Það var í lok janúar nokkru eftir að Dolli hafði kvatt okkur. Ég fór á sjó seinnipart dags, lagði inni í Ál og var svo að draga um miðnætti til þess að reyna að klára vegna þess, að það átti að hvessa að austan undir morgun, en eins og gerist oft, þá var ég rétt rúmlega hálfnaður að draga þegar rauk upp austan bræla, en ég náði samt að klára að draga með herkjum.
Á leiðinni tilbaka var orðið aðgæslu veður yfir Álinn og ákvað ég því að taka stefnuna svona ca. beint á Heimaklett. Ég er rétt kominn inn á Flúðirnar, þar sem stundum getur verið mjög krappur sjór, þegar ég fæ á mig þetta rosalegan sjó, þannig að báturinn kastast á stjórnborðshliðina og það sem verra var, að tvö kör sem bundin voru bakborðsmegin í bátnum slitnuðu upp og köstuðust yfir í stjórnborðshliðina, þannig að báturinn var alveg á hliðinni, en mitt í þessum látum þá varð mér einhverra hluta vegna hugsað til Dolla og einhver furðuleg ró kom yfir mig. Ég bætti aðeins í vélina og keyrði bátinn upp, setti stefnuna svo beint upp í ölduna, setti á minnstu ferð og setti sjálfstýringuna á. Brölti svo afturá, dró körin til og festi þau eins og þau áttu að vera og keyrði svo í land.
Það er stundum gott að hafa góðan með sér.
Lokaorð.
Mig langar að þakka öllum fyrir sem nenntu að lesa þessa sögu. Það hafa reyndar nokkrir skorað á mig að setja þetta í bók og setja kannski einhverjar sögur úr fjöllunum með, en eigum við ekki að segja bara að við skoðum það eftir svona ca. 20 ár eða svo.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Skemmtilegt að lesa, takk fyrir mig.
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 9.2.2023 kl. 00:10
Frábærar greinar Georg. Takk.
Ragna Birgisdóttir, 9.2.2023 kl. 09:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.