10.11.2024 | 21:59
Suðureyjargöng (Færeyjar) vs. Heimaeyjargöng
Nú liggur fyrir að nefnd, sem skoða á möguleikann á göngum milli lands og Eyja, er að skila af sér en mér finnst dapurlegt að lesa, og þá sérstaklega greinar eftir frambjóðendur sem setið hafa í ríkisstjórnarmeirihluta s.l. 7 ár og eru í flokkum, sem m.a. hafa haft undir höndum innviðarráðuneytið og ætla núna, rétt fyrir kosningar að fara að lofa göngum. Ekki mjög trúverðugt, að maður tali nú ekki um þá staðreynd að í sumum tilvikum eru þetta flokkar sem hugsanlega eru ekki að ná manni á þing.
En hvernig er samanburðurinn við frændur okkar í Færeyjum?
Nú liggur fyrir að hafinn er undirbúningur að því að gera göng milli Sandeyjar og Suðureyjar, eða 22,8 km löng og er áætlað að göngin þurfi að fara niður á 180 m dýpi og muni kosta einhverstaðar á milli 80-100 milljarða íslenskra króna, en í Suðurey búa ekki nema innan við 5000 manns, eða svipað og hér í Eyjum, en í dag er Suðurey þjónustuð af ferjunni Smyril sem fer 2-3 ferðir á dag milli Suðureyjar og Tórshavn, en vegalengdin er svipuð og á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafna, en Smyril gengur liðlega 20 mílur. Vegalengdin á milli Heimaeyjar og lands er ca. 18 km og myndi því göng að öllum líkindum kosta einhverstaðar á milli 60 og 70 millarða, en það er enginn vafi á því að þau myndu borga sig upp á nokkrum árum eða áratugum.
Svolítið sérstakt að hugsa til þess að frændur okkar í Færeyjum með aðeins liðlega 50 þúsund íbúa skuli fara létt með það að gera hver göngin á eftir öðrum og fjármagna það sjálfir, á meðan hér gerist eiginlega ekki neitt en samt erum við ca. 8 sinnum fleiri heldur en Færeyingar.
Ég ætla því að nota þetta tækifæri og skora hér með á frambjóðendur í suðurkjördæmi að hætta að tala um göng, en lofa þess í stað að þeir munu beita sér fyrir því að klára fjármögnun á rannsóknum á hugsanlegum göngum og taka svo framhaldið eftir það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góðan og blessaðan daginn
Mig hendir það oft að lesa Moggabloggið og gerðist það síðast nú í morgun.
Oft hendir það menn einnig að taka upp á því að bera saman vegamál og samgöngur á Íslandi og í Færeyjum enda þótt reyndar sé (að minni hyggju) ólíku saman að jafna. Í báðum tilvikum er að vísu um að ræða úthafseyjar í Atlantshafi en samt…
Hvað er ólíkt í þessu samhengi?
a) Á Íslandi búa nálægt 400.000 mannns og þjóðvegakerfið utan bæja og þéttbýliskjarna er á að giska um 13.000 km
= um 32 m á íbúa.
b) Í Færeyjum búa nálægt 50.000 manns og þjóðvegakerfi eyjanna utan bæja og þéttbýliskjarna mun, að því er ég best veit, um 450 km (= Rvk.–Ásbyrgi um þjóðveg eitt og sé ekið um Hvalfjarðar- og Vaðlaheiðargöng)
= um 9 m á íbúa.
Hlutföllin eru samkvæmt þessu nálægt því að vera einn á móti þremur og hálfum Færeyingum í vil. Þyrfti því tæpa eina og hálfa milljón íbúa á Íslandi til þess að „jafna leikinn (hlutföllin)“.
c) Berggrunnur Færeyja er um 60 milljón ára gamall og miklum mun þéttari í sér en gengur og gerist hérlendis. Elsta berg á Vestfjörðum mun (að hámarki (!)) um 18–20 milljón ára gamalt. Þá er það alkunna að Vestmannaeyjar eru hluti af virku gosbelti og berggrunnurinn bráðungur, sundurleitur og laus í sér, sjá t.d.
Vísindavefurinn: Hvað eru Vestmannaeyjar gamlar?
Af þessu má ráða að gangagröftur ætti að vera að öllu jöfnu miklum mun auðveldari viðfangs í Færeyjum en hérlendis. Um þetta atriði mætti jafnvel hafa samband við verkfræðinga.
Loks má spyrja: Á manni ekki að standa á sama þótt einhverjir haldi fram einhverri skoðun í Moggabloggi, jafnvel þótt þær hugmyndir og skoðanir fái engan veginn staðist nánari skoðun?
Helgi Guðmundsson
Helgi Gudmundsson (IP-tala skráð) 11.11.2024 kl. 17:30
Nokkur orð í belg, það má benda Helga á að það á eftir að rannsaka bergið milli Landeyja og Vestmannaeyja. Það er því ekki hægt að slá föstu fyrirfram hvernig göngin verða. Svo má benda á að svo kölluð "Concrete tunnel" með "concrete segments" hafa verið lögð í gegnum mýrlendi án erfiðleika og einmitt vegna þess að hver jarðvegurinn er glúfur. Hægt er að legga slík jarðgöng til eyja en svona göng hafa aldrei verið lögð á Íslandi en er þekkt fyrirbrigði þegar borað er undir borgir og jarðvegurinn er laus í sér.
https://www.youtube.com/watch?v=jTlo6nrDfkg
Birgir Loftsson, 12.11.2024 kl. 13:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.