Lundaveiðatímabilið í sumar.

15 ágúst síðastliðinn lauk lundaveiðitímanum í sumar. Tímabilið í sumar er merkilegt fyrir margar sakir. Merkilegast er kannski sú ákvörðun nokkurra veiðifélaga í bjargveiðifélagi Vestmannaeyja að ákveða áður en lundaveiðitíminn hófst að veiða eingöngu í soðið. Fyrir mitt leiti, þá gat ég á þeim tímapunkti tekið undir þetta en sjálfur setti ég þó þann varnagla við að miðað við að mjög lítið sást af ungfugli bæði í fyrra og hitti fyrra, þá gæti miðað við 30 ára reynslu mína, komið mikið af ungfugli í sumar (sem síðar kom í ljós, elstu veiðimenn í Vestmannaeyjum muna ekki annað eins magn af lunda). Ég hef rætt við marga veiðimenn, bæði af heimalandinu og úteyjum, og sýnist mér að heildarveiðin í sumar sé ca 30,ooo lundar. En miðað við það magn sem var á ferðinni hér í sumar, þá er ljóst að ef veiðimenn hefði beitt sér við veiðarnar á fullu, þá hefðu veiðarnar sennilega orðið 100-130 þúsund lundar. Lærdómurinn af þessu sumri er sá að miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá tel ég að sennilega hefði verið skynsamlegast af hefja ekki veiðar fyrr en 10 júlí (ystaklettsmenn voru þeir einu sem byrjuðu 1 júlí). Miðað við að svo virðist vera sem varpið hafi verið töluvert seinna í ár. Lítið sést ennþá af bæjarpysju en mín skoðun á því er sú að varpfugl hafi látið töluvert undan síga vegna stækkunar hafnarinnar í Vestmannaeyjum, svo ég tel það nokkuð eðlilegt. Hins vegar í öðrum fjöllum, þar sem mennirnir hafa ekki þrengt að fuglinum, þar sýnist mér útlitið vera nokkuð gott, enda mikið af sílisfugl. Útlitið fyrir næsta sumar tel ég vera alveg óráðið ef við fáum upp sambærilegt ástand og á síðasta ári, þá tel ég ekki óhætt að veiða, nema í mesta lagi í soðið. Verði hins vegar útlitið eins og þetta sumar, þá tel ég óhætt að veiða, en teldi skynsamlegast að byrja kannski aðeins seinna á veiðunum. Og að lokum þetta. Það er allt í lagi að einhverjir örfáir aðilar í bjargveiðifélagi Vestmannaeyja, ákveði að þeir ætli bara að veiða í soðið, en ef það á að gilda fyrir alla veiðimenn (líka fyrir okkur á heimalandinu), þá er það algjört lagmark að við okkur sé rætt. Fyrir nokkru síðan fór ég og heimsótti félaga mína á setrinu. Færði þeim meðal annars sílis sýni sem ég hafði fundið og ræddi þá við þá um hvernig þeim þætti staðan vera. Þeir voru almennt á því að gríðarmikið magn af lunda væri á ferðinni í Vestmannaeyjum en það sem mér þótti undarlegast var sú skoðun þeirra að mögulega væru þetta hugsanlega að einhverju leyti, flækingslundi frá öðrum stöðum. Tel ég það vera algjöra vitleysu. Það er ljóst að það þarf að rannsaka og fylgjast betur með og greinilegt að engin niðurstaða getur orðið á fyrsta ári rannsókna. Svo vonandi verður það áfram í höndum okkar eyjamanna að stjórna lundaveiðum í Vestmannaeyjum. Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Georg hvernig útskýrir þú þetta með fækkun á varpfugls vegna stækkun hafnarinnar.

Helgi Þór Gunnarsson, 1.9.2007 kl. 09:36

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Helgi, Veiðistaðir í Hettu og vatnskilum hafa gefið sífelt minni veiði af sér síðustu árinn, eða frá því að höfnin fór að byggjast í átt að klettinum. Auk þess segja mér eldri og reyndari menn en ég þetta. Þó að mikið sjáist af Lunda stundum í Heimakletti þá get ég staðfest að síðustu árinn hefur ungfugli fækkað á þessum svæðum á meðan honum fjölgar austur í Heimakletti.kv.

Georg Eiður Arnarson, 1.9.2007 kl. 11:47

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Góðan daginn Gerorg, já það getur nú vél verið að athafnarsvæðið í kringum skipalyftuna skapi mikinn hávaða og þar af leiðandi fælir ungfuglinn frá samanber rituna hún hefur fælt frá aðra fugla í björgum. með sjómannakveðju, ég er að fara á sjó núna kl 16. spjöllum eftir 6 daga.

Helgi Þór Gunnarsson, 1.9.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband