Við skulum rétt vona að þetta sjónarmið verði ekki ofaná( verst að svona er þetta að stórum hluta orðið í dag)

Sjávarútvegur viðheldur ekki byggð

Sjávarútvegur getur ekki tryggt núverandi byggðamynstur, sem myndaðist við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi, á tímum þegar strandsiglingar voru mikilvægari samgönguleið en vegakerfi landsmanna.
Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings banka, á málþingi um sjávarútvegsmál og byggðaþróun sem Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál stóð fyrir í Háskóla Íslands í gær.

Ásgeir varaði við því að sjávarútvegur fari í sama far og landbúnaður fór í um miðja síðustu öld með niðurgreiðslum og höftum, þjóðin hafi ekki efni á því. Allar tilraunir til þess að þröngva sjávarútvegi í þann farveg að viðhalda núverandi byggðamynstri muni hola þessa atvinnugrein innan.
„Af hverju er það slæmt að fimm stór fyrirtæki eigi 80 prósent af aflaheimildunum? Ef þau geta borgað sæmileg laun, borgað sína skatta, geta skilað sínu og búið til verðmæti er ekkert að því," sagði Ásgeir. Hann sagði enga skynsamlega ástæðu fyrir banni við fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi. Engin ástæða sé til að óttast að sjávarútvegsfyrirtæki verði stór, kraftmikil og alþjóðleg.

Fólksfækkun á landsbyggðinni á undanförnum árum hefur ekki einskorðast við sjávarbyggðir, sagði Sveinn Agnarsson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, í erindi á málþinginu í gær.

Hann sagði rannsóknir sínar ekki hafa leitt í ljós neitt tölfræðilegt samband milli fólksfækkunar í sjávarbyggðum og sölu aflaheimilda úr bæjarfélögunum. Miklu meira máli skipti hvar aflinn sé unninn, enda virðist samdráttur í landvinnslu á sjávarfangi skila sér í fólksfækkun. Þess vegna sagði Sveinn það áhyggjuefni að á síðasta ári hafi ríflega helmingur af botnfiskafla sem landað var hér á landi ekki verið unninn í landi, heldur ýmist unninn um borð í togurum eða seldur óunninn úr landi. Það hafi aukist verulega á undanförnum árum og árið 1992 hafi tveir þriðju hlutar aflans verið unninn í fiskvinnslum í landi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hvernig í ósköpunum hefur Ásgeir Jónsson komist að þessari niðurstöðu?  Á þessu málþingi talar maðurinn út og suður, ekki bara í höfuðáttirnar heldur einnig í allar undiráttirnar og út úr þessu kemur eitt allsherjar rugl sem ekki er nokkur leið að fá neinn botn í.  Til að mynda talar hann um ágæti þess að "kvóti" safnist á fáar hendur en svo í næsta orði talar hann um að sjávarútvegur geti farið í sama far og landbúnaðurinn gerði um miðja síðustu öld, ef ekki er hægt að kenna samþjöppun "kvótaeignar" um og arfaslakri fiskveiðistjórnun um, veit ég ekki hverju?  Og þegar Sveinn Agnarsson heldur því fram að fólksfækkun hafi orðið annars staðar en í sjávarbyggðunum.  Í sjálfu sér er kannski hægt, með góðum vilja hægt að samsinna þessu, þegar samgöngur gáfu tilefni til sló hinn 78 ára gamli bóndi Sigurður á Ysta-Seli til og flutti á elliheimili á Akureyri en þar til nýi vegurinn kom að bænum í fyrra var ekki um það að ræða að flytja frá jörðinni.  Mér heyrðist nú á þessum fyrirlestrum hjá Ásgeiri Jónssyni og Sveini Agnarssyni væri mannlegi þátturinn ekki í hávegum hafður.

Jóhann Elíasson, 2.9.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband