Meira um Bakkafjöru

11 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

 

Sæll Grétar!

Smá viðbót frá mér. Ég var að lesa yfir það sem þú hefur verið að skrifa, og meðal annars segir þú að enginn eyjamaður hafi opinberlega sett út á þessa framkvæmd, svo mig langar aðeins að rifja upp. Bloggvinur minn, Jóhann Elíasson skrifaði athyglisverða grein á blogginu sínu, þar sem meðal annars kemur fram gagnrýni hans á þetta svokallaða norska áhættumats fyrirtæki, sem gaf það út, að það væri 6 sinnum hættulegra að sigla til Þorlákshafnar en Bakkafjöru, eða sem sé, að hálftíma sigling x 1 deilt í 3 tímar x 6 (hvað skyldu þeir hafa fengið borgað fyrir þetta rugl?). Guðmundur organisti hefur gagnrýnt harðlega í skrifum sínum og lýst ekki á þetta. Ég veit hinsvegar ekki, hvaða reynslu og þekkingu hann hefur á málinu. Gísli Jónasson hefur marg ítrekað skrifað greinar um Bakkafjöru, þar sem hann gagnrýnir þessa hugmynd harðlega. Gísli er alinn upp undir eyjafjöllum og þekkir fjöruna og brimið eins og lófann á sér. Gagnrýni hans byggist fyrst og fremst á því, að höfnin verði of lítil, að hún þurfi bæði að ganga lengra út og að varnargarðar þurfi að vera helmingi hærri, en að hans áliti, mun þessi höfn, eins og hún er teiknuð af Gísla Viggóssyni, hugsanlega hverfa á stuttum tíma (eða allavega vera ófær dögum og vikum saman). Sveinn Rúnar Valgeirsson, skrifaði mjög góða grein í Fréttum í sumar, þar sem hann útskýrir hversu fáránlegt það er, að í skýrslu Gísla Viggóssonar, sé gert ráð fyrir því, að í verstu veðrum, geti ferjan hugsanlega tekið niðri á rifinu fyrir utan höfnina, og að á hornunum við innsiglinguna á höfninni þurfi að setja einhverskonar stuðpúða, sem ferjan geti þá farið utan í, þegar erfitt er að komast inn í höfnina. Sveinn Rúnar er einn af okkar reyndustu sjómönnum og reynir í grein sinni, að útskýra, að skip sem tekur niðri í slæmi sjóveðri geti í versta falli slegið flötu í stórsjó, og geti þá bæði verið mjög hættulegt og erfitt að bakka út úr þeim aðstæðum (þetta tel ég ekki boðlegt og ekki þess virði að taka svona séns). Nýlega lenti ég á spjalli við Sigmund Jóhannsson. Sigmund er einn okkar fremstu teiknurum og reiknimeisturum, og útskýrði hann fyrir mér á einfaldan hátt, hversvegna hann vill ekki Bakkafjöruhöfn. Hann einfaldlega reiknaði dæmið frá upphafi til enda, út frá hagkvæmnis sjónarmiði. Hans útkoma varð þessi: það er einfaldlega mun hagkvæmara að fara með stærra og gangmeira skipi til Þorlákshafnar, vegna þess að Bakkafjöru leiðin er 27 km lengri (lágmark) og verður, þegar allt er talið upp, mun dýrari kostur. Mín skoðun á þessu öllu er óbreytt, ég vill frekar stærra og gangmeira skip heldur en Bakkafjöru, og í raun og veru, þá stend ég við það sem ég sagði hérna fyrst. Núna stendur þetta mál upp á bæjarstjórann, ætlar hann að hundsa bæjarbúa, eða ætlar hann að leyfa okkur að kjósa um þetta stærsta mál eyjamanna, sem varðar okkur öll? Auðvitað vona ég, að þessi gagnrýni á Bakkafjöru verði bara af hinu góða og fyrst og fremst til þess að betur verði vandað til verksins (ef þetta verður að veruleika). Ég mun hinsvegar ekki hætta að gagnrýna þessa hugmynd, og það er stór spurning, hvort ekki væri betra fyrir okkur öll og bæjarstjórnina, að kjósa um þetta, til þess að vilji meirihluta bæjarbú sé þá alveg á hreinu. En eins og þetta er sett upp í dag, þá mun ég kenna bæjarstjóranum um, ef illa fer. Meira seinna.

Georg Eiður Arnarson, 10.9.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd [Innskráning]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Ja þú segir nokkuð Georg, ég er sammála ykkur með að varnargarðarnir verða að ná út fyrir sandrifið og náttúrulega vera nógu háir, og ég er sannfærður um að Bakkafjara er framkvæmd að jafnvirði gagna og að ríkið vilji ekki bora rannsóknarholur er þeim rétt líst, það er aldrei hlustað á okkur fólkið sem munum nota samgöngurnar mest. Ég er samála þér með það að leifa okkur að kjósa um samgöngurnar okkar.

Helgi Þór Gunnarsson, 10.9.2007 kl. 11:57

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Helgi, ég er sammála þér með lengri varnargarða en málið er að þá kostar höfnin 15 til 20 miljarða og það verður aldrei . Þess vegna eigum við meðal annars að fá frekar það sem við þekkjum og treystum, bara aðeins stærri og gangmeiri Herjólf.

Georg Eiður Arnarson, 10.9.2007 kl. 14:50

3 Smámynd: Grétar Ómarsson

Ég geri bara copy/paste á sama hátt og þú.

Sæll Georg, 

þú segir orðrétt,

"Ég hef rætt við marga eldri og reyndari sjómenn heldur en ég er, og eru þeir nánast undantekningalaust allir sammála um það, að þessi Bakkafjara verði meira og minna ófær tvo til þrjá mánuði að jafnaði yfir vetrarmánuðina. Ef það er rétt, þá tel ég það ekki vera boðlegt í samgöngumálum okkar."

Þarna talar þú um menn sem þú hefur rætt við, þessir mörgu og reyndu menn gætu verið þeir sömu og skrifað hafa um þessi mál í fjölmiðla, ég er sammála þér að það er ekki boðlegt ef Bakkafjara verður ófær meira og minna í 3 mánuði.

Heldur þú að þessir framkvæmd væri á skrifborðinu ef fræðimenn teldu Bakkafjöru ófæra meira og minna í 3 mánuði á ári? 

Svo skrifar þú,

"og meðal annars segir þú að enginn eyjamaður hafi opinberlega sett út á þessa framkvæmd."

Ég sagi aldrei að enginn Eyjamaður hafi opinberlega sett út á þessa framkvæmd, Georg, ég les blöðin, og veit vel að Gísli Jónasson og Guðmundur organisti hafa gagnrýnt ferjulægið á Bakkafjöru, ég get tekið undir margt sem kemur fram í þeirra skrifum en þeir hafa enn ekki sannfært mig um að þetta sé glapræði.

Ég segi orðrétt.

"ekki ætla ég að gera lítið úr þeirra rökum þó ég hafi persónulega ekki heyrt einn einasta mann mótmæla Bakkafjörunni."

Þarna er ég ekki að vitna í menn sem skrifað hafa opinberlega um Bakkafjöru, heldur frekar menn sem ég ræði við í kaffispjalli um alla Eyju. Bara svo það sé á hreinu!

Ég hef séð skoðanir Jóhanns Elíassonar og Guðmundar organista ásamt annarra og mun ég aldrei gera annað en að virða skoðanir þeirra á þessum málum.

Sigmund er snillingur og tel ég eðlilegt að hlíða á skoðanir hans á Bakkafjöru, þó held ég að hans útreikningar séu ekkert merkilegri en útreikningar fræðimanna sem unnið hafa við rannsóknir á Bakkafjöru.

Þó get ég tekið undir margt sem kemur fram hjá Gísla Jónassyni, ef varnargarðurinn þarf að vera helmingi hærri og lengri þá er það í góðu lagi mín vegna, þess vegna segi ég að það skiptir mig engu hvort framkvæmdin kosti 5 milljarða eða 50 svo lengi sem þetta sé gert á öruggann og góðan máta, ég verð að trúa og treysta þeim mönnum sem ákváðu að skella þessari framkvæmd á koppinn, enda standa þeir og falla með þeirri ákvörðun.

Ég veit ekki með ykkur F-lista fólk en ég get tekið undir margt sem þið hafið bent á, þó verð ég að viðurkenna að ég sé ekki hag Eyjanna fyrir brjósti með að bjóða upp á áframhaldandi ástand í samgöngumálum, sem er nýr Herjólfur með tilheyrandi hömlum.

2 ferðir á dag er engin framtíðarlausn, stærra skip þýðir áfram orkufrekt skip sem þarf enn að sigla 40 mílur til Þorlákshafnar, rekstrarkostnaður skipsins verður hár sem bitnar á fargjöldunum, ef fargjöldin lækka ekki mun það fyrst og fremst bitna á okkur Eyjamönnum.

Hver er meginástæða fólksflóttans frá Eyjum síðustu ár? Ekki veit ég ástæðuna en tel þó að samgöngumálin gætu spilað stóra rullu í þeim málum.

Með stórbættum samgöngum sem ég tel að ferjulægið í Bakkafjöru sé, mun margt breytast til hins betra, ferðir yrðu tíðari milli lands og Eyja, sem er aukið frelsi fyrir okkur, auðveldara verður að koma á aukaferðum yfir háannatíma ef þörf er á, ferðamenn sem eiga leið um Suðurland munu frekar skreppa til Eyja í dagsferð sem er jákvætt, fargjöld munu lækka í samræmi við lækkun rekstrarkostnaðar skipsins, þó sumir telji svo ekki vera.  

 Meira síðar,

 Kveðja, 

Grétar Ómarsson, 10.9.2007 kl. 18:34

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Grétar, ég sé ekkert nýtt í þínum skrifum, en sé þó að þú minnist ekki á Sveinn Rúnar Valgeirsson, sem skrifaði fína grein í Fréttir s.l. sumar (þú hlýtur að geta nálgast hana). Finnst þér virkilega boðlegt að vera staddur umborð í ferju, með konu og börn, ferju sem hugsanlega tekur niðri á rifinu fyrir utan Bakkafjöru, og þarf síðan að troða inn í höfnina, með því að fara utan í stoðirnar á innsiglingunni í Bakkafjöru. Eitthvað segir mér, að fólk sem lendir, hugsanlega, í svona reynslu, muni ekki hafa áhuga á að reyna það aftur. Aðeins varðandi fólksflótta frá eyjum. Ég er á þeirri skoðun, að ef fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Árni Mathiessen, hefði ekki tekið þá vafasömu ákvörðun, að setja í kvóta tegundir eins og t.d. keilu, löngu og skötusel, þá byggju hér í Vestmannaeyjum sennilega 2-300 manns fleiri heldur en er í dag. Og aðeins þetta; ég hef enga trú á því að bættar samgöngur milli lands og eyja, verði til þess að fólk flytji til Vestmannaeyja. Það hefði kannski verið möguleiki með göngum, en sjálfur var ég persónulega aldrei spenntur fyrir göngum, enda líkar mér ágætlega að búa á eyju.

Tvær ferðir á dag með stærri og gangmeiri Herjólfi. Og skipi sem getur flutt hátt í 300 bifreiðar og milli 800-1000 manns í ferð, er að mínu mati mun betri kostur, heldur en að geta með Bakkaferju, 250-300 bifreiðar á dag og í mesta lagi 1200-1500 manns, miðað við að það sé alltaf fært. Þar að auki er auðvelt að bæta við auka ferðum með skipi sem gengur yfir 20 mílur eins og Smyrill gerir.

 Mjög margir hafa komið að máli við mig að undanförnu og líst þeirri skoðun sinni að þessi Bakkafjöru hugmynd, sé dæmd til að mistakast, en ekki vill ég taka svo djúpt í árinni. Ein spurning á þig að lokum: finnst þér ekki rétt að við Vestmannaeyingar fáum að kjósa um þetta ? (kosningin þarf ekki að vera bindandi). kv.

Georg Eiður Arnarson, 10.9.2007 kl. 20:55

5 Smámynd: Heiða  Þórðar

Vá! Bara allt í gangi hérna.....innlitskveðja bara og njóttu það sem eftir lifir kvölds.

Heiða Þórðar, 10.9.2007 kl. 21:33

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Skeleggur málflutningur Georg, ef ég hefði ekki verið sannfærður um að Bakkafjöruruglið væri ekki framkvæmanlegt, hefðir þú endanlega sannfært mig með þessum skrifum.  TIL HAMINGJU!

Jóhann Elíasson, 10.9.2007 kl. 22:20

7 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sæll Georg, 

Ég sá grein Sveins Rúnars Valgeirssonar á sínum tíma, ekki ætla ég að rengja hann frekar en einhvern annan í þessari umræðu.

En dómsdagsspár þínar eru farnar að fara út í hreina öfga núna, og finnst mér niðurrif þín á Bakkafjöru orðin svolítið öfgakennd, svo ekki sé meira sagt.

Ert þú að segja að Árni Matt sé fólksflóttavaldur hér í Eyjum? Ég hefði skilið það ef það væri atvinnuleysi í Eyjum en svo er ekki, þannig að svona rök kaupi ég ekki.

Þú hlítur að geta nefnt eins og 10% af því fólki sem yfirgaf Eyjuna vegna þess að kvóti var settur á þessar fisktegundir sem þú nefndir hér að ofan, 20-30 manns.

Varðandi Samgöngurnar, þá tel ég að kröfur fólks um betri samgöngur séu aðrar í dag en þær voru fyrir 40 árum, í þá daga þótti eðlilegt að skreppa einu sinni til tvisvar upp á land á ári, nú eru bara breyttir tímar.

Þú segir,

Mjög margir hafa komið að máli við mig að undanförnu og líst þeirri skoðun sinni að þessi Bakkafjöru hugmynd, sé dæmd til að mistakast, en ekki vill ég taka svo djúpt í árinni.

Hverjir eru þessir mörgu? þeir hafa farið fram hjá mér, og ég get ekki betur lesið út úr þínum skrifum að þú sért að segja að þetta sé nánast dæmt til að mistakast.

Þú spyrð mig hvort mér finnist ekki rétt að við Vestmannaeyingar fáum að kjósa um þetta?

Svar mitt er, 

Jú, það hefði mátt kjósa um þetta til að fá allann vafa um hvað Eyjamenn vilja, EN!  þá fyrst hefðum við Eyjamenn þurft að bera skaðann af misheppnaðri Bakkafjöru ef hún klikkar í framkvæmd.

Ef kosið er um þessi mál verður sú kosning að vera bindandi að mínu mati, því annars fer allt í sama farveg og áður, innbyrðis deilur um alla Eyju hvað skal gert og hvað sé best að gera.  

Núna þurfum við þess ekki, vegna þess að við tókum ekki lokaákvörðunina um gerð ferjulægis við Bakkafjöru, heldur var það fyrst og fremst samgönguráðuneytið og Vegagerðin sem áttu lokaorðið í þessu máli, nú standa þeir og falla með sinni lokaákvörðun.

Jóhann, hvað var það í skrifum Georgs sem sannfærði þig endanlega um það sem þú kallar Bakkafjöruruglið?

Annað sem ber að hafa í huga, ég hef séð á blogsíðu Jóhanns og annara að kostnaður við framkvæmdir á bakkafjöru munu sennilega fara vel fram úr áætlun, menn eru farnir að tala um það áður en framkvæmdir hefjast?, merkilegt!

í dag er rekstrarkostnaður Herjólfs um 600 milljónir á ári samkvæmt tölum frá samgönguráðuneytinu og vegagerðar, það eru 6 milljarðar á næstu 10 árum 12 milljarðar á næstu 20, hvernig á að ná þessum kostnaði niður með nýju, stærra og hraðskreiðara skipi? olíuverð mun ekki lækka á næstu 20 árum, það er öruggt.

það kostar að flytja nokkrar hræður 40 mílna leið með tilheyrandi áhöfn og öðru, ég tala ekki um ef skipið fer nánast tómt aftur til baka.

Segjum að dæmið á Bakkafjöru gengur ekki upp í fyrstu þá er ekkert sem segir okkur að menn gefist bara upp, og eftir verður minnisvarði Kristjáns möllers.

Ég trúi að þótt ferjulægið kosti þjóðina 12 milljarða vegna lengingar á varnargörðum og öðru þá mun það verða hagkvæmara fyrir þjóðina alla, ekki síst okkar Eyjamanna.

nóg um það í bili. 

Kær kveðja, 

Grétar Ómarsson, 11.9.2007 kl. 01:09

8 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Einkar athyglisverðar umræður um þessi mál. Grétar þú virðist trúa ansi blint á útreikninga sérfræðinganna um hvernig sandburði megi nánast stýra með einföldum aðgerðum og einnig setja niður varnargarða eins og það sé einfaldara en drekka vatn. Alla hluti má reikna út og eftir því sem tölurnar eru fleiri hljómar aðgerðin einfaldari, öruggari og pottþéttari. Við skulum líta aðeins á hvernig útreikningarnir hjá sérfræðingunum virka í raunveruleikanum. Varnargarður byggður í Grímsey sem nokkuð örugglega var útreiknaður af vitringunum, hann hvarf í orðsins fyllstu merkingu í einu góðu brimi. Uppbygging Austur- fjörutangans í innsiglingunni á Hornafirði, allt saman útreiknað og pælt með móteli af svæðinu sem átti að líkja eftir aðstæðum og hver árangur verkefnisins yrði. Það skal tekið fram að þarna var verið að reyna að láta náttúruna sjá um að halda góðu dýpi við fjörutangann og halda honum á sama stað. Árangurinn lét ekki á sér standa, dýpið er gott við fjörutangann, en hvað varð um allan sandinn? Jú hann safnast fyrir utan innsiglinguna sem gerir það af verkum að það fer að brjóta úr öldu við 2,8 metra ölduhæð sem áður var um það bil 3,8 metrar. Það leiddi af sér umræðu um hvernig skildi brugðist við og eftir því sem ég best veit er það vandamál enn til staðar. Þetta sínir okkur það að útreikningar sem gerðir hafa verið á náttúruöflunum á þessum stöðum standast ekki. Er nema von að margir skuli efast um þessar framkvæmdir? Hvað ætla menn að gera ef þessir varnargarðar jafnvel bara annar sópast burt? Halda áfram að sigla í Bakkafjöru meðan annar er byggður upp. Halda menn virkilega að það þurfi ekki að hreinsa burt það grjót sem dreifist um þegar og ef garðarnir sópast niður? Ég bara spyr?????

Hallgrímur Guðmundsson, 11.9.2007 kl. 08:43

9 Smámynd: Jóhann Elíasson

Grétar, þú hefðir átt að lesa það sem ég skrifaði áður en þú fórst að gaspra, ég sagði að ef ég hefði ekki verið sannfærður um að þetta gæti ekki gengið, þá hefði Georg sannfært mig.  Málið er að Georg hefur verið málefnalegur í málefnaflutningi sínum.  Eins og Hallgrímur bendir á þá eru sérfræðingar Siglingastofnunar langt frá því að vera óskeikulir, þeir hafa ekki verið tilbúnir til að hlusta á menn sem kunnugir eru staðháttum hingað til og það er ekkert sem bendir til að breyting verði þar á.  Við verðum að sætta okkur við þá staðreynd að við verðum að lúta náttúruöflunum og það það að ætla sér að gera almennilega höfn fyrir opnu hafi á einum varasamasta stað sem hugsast getur, er nokkuð sem er mjög vafasamt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.  Í skýrslu um höfn í Bakkafjöru, sem starfshópur um höfn í Bakkafjöru gerði fyrir Vegagerðina http://vgwww.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Skyrsla_styrihops/$file/Bakkafjara-Sk%c3%bdrsla%20st%c3%bdrih%c3%b3ps.pdf, segir að hafnargerðin sé möguleg vegna þess að Bakkafjara sé í skjóli af Vestmannaeyjum, við lestur skýrslunnar sér maður að þetta er svo mikil fölsun og til að bæta gráu ofan á svart er kort sem á að sýna þetta sem einhverja staðreynd.  Ég fullyrði að sandrifið hefur ekki safnast saman fyrir utan Bakkafjöruna vegna skjóls frá Vestmannaeyjum, heldur vegna þess að Markarfljótið rennur til sjávar þarna austanvið og hefur þar af leiðandi áhrif á hreyfingu sandsins þarna fyrir utan.  Ég endurtek að eftir að hafa "hent" miklum fjármunum í þetta "Bakkafjöruævintýri", þá verða stjórnvöld ekki tilbúin til að setja nema mjög litla fjármuni til samgangna til Eyja og því miður held ég að Vestmannaeyingar sitji uppi með lakari samgöngur en eru í dag, eftir þessi ósköp.

Jóhann Elíasson, 11.9.2007 kl. 09:59

10 Smámynd: Grétar Ómarsson

Er þetta ekki komið út í algjört rugl núna, hvenær hef ég lýst yfir að ég trúi blint á útreikninga sérfræðinga?

Á ég frekar að trúa ykkur og ykkar útreikningum? held ekki. 

Ég hef ekki tíma í að svara ykkur núna, geri það kannski í kvöld.

Bið að heilsa í bili.

Kveðja, 

Grétar Ómarsson, 11.9.2007 kl. 12:44

11 Smámynd: Sigursveinn

Þetta af afskaplega athyglisverð umræða. Ég hef svo sem lengi vitað að Georg sé á móti Bakkafjöru og allt í góðu með það. En menn verða að vega og meta málið í heild sinni en ekki hlaupa til með sleggjudóma. Þannig virkar þessi umræða á mig.  Það er engu líkara en það séu eintómir tréhestar að vinna hjá Siglingastofnun. Menn sem vita ekkert í sinn haus. Hallgrímur rifjar upp tvö mál sem hafa ekki gengið upp hjá þeim. En hvað með öll önnur dæmin? Þetta er ekkert fyrsta hafnargerðin sem þessir menn koma að. Mér skilst reyndar að útgerð sé enn stunduð á Hornafirði, þannig að höfnin hlýtur að virka...

Það er mín skoðun að menn eigi að fara varlega að tala niður alla hluti. Við munum eftir umræðunni um "drápsfleyið" Herjólf fyrir  komu hans hingað til lands. Sú umræða var okkur ekki til framdráttar. Það hafa margir skipað sér í flokk sérfræðinga varðandi Bakkafjöru og fara fram með fullyrðingar sem þeir þurfa svo aldrei að standa við.  Starfsmenn Siglingastofnunar þurfa að standa við stóru orðin og vanda sig eftir því. Sjálfur hef ég ekki hundsvit á hafnargerð og verð því að lesa mig til, hlusta á rök manna og meta mína skoðun eftir því. 

Og niðurstaðan hjá mér er sú að þetta er mögulegt og þetta mun verða mikil lyftistöng fyrir samfélagið í Eyjum. 

Þeir sem talað hafa hæst gegn Bakkafjöru hafa verið nefndir hér að ofan. Margt athyglisvert hefur komið fram í þeirra skrifum en ekkert sem fast er í hendi. Ekkert frekar en hjá sérfræðingunum. Þetta eru spár manna um hvernig þetta mun koma út.

Og þá spyr maður. Á ég að treysta menntuðum mönnum sem hafa reynslu af hafnargerð eða öðrum sem hafa lítið fyrir sér annað en sína reynslu af svæðinu og tilfinningu?

Fyrir mér er þetta ekki spurning. Ég treysti á sérfræðinganna sem hafa reynsluna af hafnargerð. Með fullri virðingu fyrir hinum.  

Sigursveinn , 11.9.2007 kl. 13:39

12 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Grétar!

Mig langar að byrja á því að þakka bæði Hallgrími og Jóhanni fyrir þeirra komment, og benda þér, Grétar, á, að báðir hafa þeir skrifað ýtarlegar og góðar greinar um Bakkafjöru á sínar heimasíður.

En þá að þínu síðasta. Þú skrifar að ég sé með öfgafullar dómsdagsspár. Ekki er ég sammála því, en held að þú sért að skrifa um þar sem ég lýsi hugsanlegri ferð inn í Bakkafjöru, þar sem ferjan hugsanlega tekur niðri á rifinu fyrir utan fjöruna. Þessi hluti er ekki saminn af mér, heldur er ég að vitna í skýrslu Gísla Viggóssonar, bara svo það sé alveg á hreinu. Það að fara út í þessa framkvæmd, vitandi af þessum möguleika, þykir mér alveg fráleitt.

Varðandi hlut Árna Mathiessen í fólksflótta eyjamanna (sem allir gera sér grein fyrir) þá er það staðreynd, að kvótasetning á þeim tegundum sem ég hef nefnt áður, er fyrst og fremst hans ákvörðun, og ég held að það sé nánast sama hvaða sjómann þú spyrð í Vestmannaeyjum, nægir þar að telja upp t.d. skip eins og Guðna Ólafsson VE, Byr VE og Sæfaxa VE og fleiri, flestir þeir sjómenn og verkafólk sem störfuðu á þessum skipum eða við vinnslu á aflanum, misstu vinnuna. Þú hlýtur að vita það, eins og aðrir eyjamenn, að hér hefur fækkað um 100 manns á ári, síðustu árin. Ef þú getur bent mér á einhverja aðra ástæðu en kvótakerfið, væri gaman að sjá það.

Ekki ætla ég að reyna að fara að telja upp fólk með nöfnum, en nægir þar að vitna í tölur um brottflutta og aðflutta síðustu árin.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur ítrekað gefið það upp, að Bakkafjara sé valkostur þeirra númer 2 á eftir göngum og þýðir þá lítið að benda á Ríkisstjórnina, ef eitthvað klikkar.

Ég vill fá að kjósa um þetta, og mér er alveg sama, hvort kosningin sé bindandi eða ekki.

Aðeins í sambandi við þá skoðun þína, að ef það þurfi að lengja varnargarðana, þá verði það gert. Í skýrslu Gísla Viggóssonar, er sá möguleiki kannaður að lengja garðana út fyrir rif. Niðurstaða hans er sú, að slíkt yrði of kostnaðarsamt og einnig yrði sandburður inn í slíka höfn svo mikill, að það myndi kosta mikið fjármagn að halda henni opinni.

Að lokum ætla ég að enda með þessu. Ég hef lesið vel og vandlega allt, sem þú hefur skrifað og í raun og veru sé ég aðeins tvær ástæður fyrir stuðningi þínum við Bakkafjöruhöfn. Í fyrsta lagi telurðu, að þetta verði mun ódýrara fyrir okkur, en gleymir greinilega að meirihluti eyjamanna fer beina leið til Reykjavíkur, sem þýðir að með Bakkafjöru, er leiðin bæði lengri og dýrari. Hin ástæðan sem ég sé hjá þér, er trú þín á því, að með Bakkafjöru losnir þú við sjóveikina, en ýmsar efasemdir hef ég um það.

Ég hef hitt fjölmarga eyjamenn að undanförnu, sem eru ekki hrifnir af Bakkafjöru, en mjög fáa, sem eru hrifnir af Bakkafjöru. Það sem vekur athygli mína er að meirihluti þeirra, sem eru hlynntir þessu, virðist vera yngra fólkið hér í eyjum sem ég er voðalega hræddur um, að hafi því miður ekki þá reynslu, sem við eldri höfum og láti fyrst og fremst stjórnast af hræðslu við sjóveiki.

Ég vona það svo sannarlega, að allar þær athugasemdir, sem ég og fleiri sjómenn höfum gert við þessa Bakkafjöru hugmynd, séu ekki allar réttar, en því miður, við lestur skýrslu Gísla Viggóssonar, sýnist mér, því miður, að svo muni samt vera. kv.

Georg Eiður Arnarson, 11.9.2007 kl. 14:09

13 Smámynd: Katrín

Hér er bara allt að gerast.  Skemmtilegar umræður og ekkert skítkast.  Segið svo að ekki sé hægt að ræða málin yfirvegað

Hef satt að segja ekki sett mig inn i þessa umræðu þó skömm sé frá að segja.  Mér dettur alltaf í hug Jonni á Bakka og hans góða frú.  Hvað ætli  honum finnist um þetta allt? 

Katrín, 11.9.2007 kl. 19:54

14 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sæll Georg,

Þessar ýtarlegu og góðu greinar sem þessir ágætu menn skrifuðu finn ég bara ekki þrátt fyrir ítarlega leit, það eina bitastæða sem ég rakst á var grein sem jóhann skrifar á bloggið eftir andsvar Elliða til Grétars þann 22 ágúst sl. 

Mér persónulega fannst broslegt að sjá hversu mikil lof Jóhann fékk fyrir þennan pistil sinn, sem að mörgu leiti var honum ekki til framdráttar á nokkurn hátt að mínu mati. 

fullyrðingar Jóhanns um að Elliði telji sig vita engu minna til sjávar og aðstæðna til sjós en Grétar Mar voru rangar,  Prófið að lesa aftur yfir greinar beggja aðila og athugið hvort þið sjáið eitthvað annað út úr skrifum hans. 

Ætli Elliði hafi nefnt sjóveiki sína ef hann hefði ætlað að gera sig af einhverjum sérfræðingi í þessum málum, ég efa það.

Mig langar að nota tækifærið og lýsa hér með eftir ýtarlegum og góðum greinum um Bakkafjöru sem birst hafa á bloggsíðum hjá Jóhanni Elíassyni og Hallgrími Guðmundssyni. 

Varðandi dómsdagsspá þína eða einhvers annars.

Þegar þú Georg kemur með lýsingu á mögulegu vandamáli í innsiglingu í Bakkafjöru án þess að vitna í Gísla Viggós, eða einhvern annan, þá lít ég svo á að lýsingarnar á mögulegu vandamáli komi frá þér, eðlilega eru dómdagsspárnar orðnar þínar ef ekki er vitnað í heimildarmann eða heimildarmenn.  

 Varðandi Árna Mattiesen og niðurrif hans í atvinnumálum og um leið skipaflota Eyjamanna.

Kvótakerfið og skerðing afla ásamt að setja nokkrar fisktegundir í kvóta hefur örugglega eitthvað að segja, en ég held að sú kenning að það sé meginástæðan fyrir fólksflóttanum frá Eyjum á ekki við rök að styðjast?.

Er atvinnuleysi í Eyjum? ég veit ekki betur en að skip hafi ekki komist á sjó vegna manneklu, ég veit ekki betur en að sum af okkar fiskiskipum eru mönnuð að stórum hluta af aðkomumönnum, hver er ástæðan? 

Þú vilt kenna Árna Matt um fólksflóttann að mestu leiti, en eins og þú veist þarf fleiri til að samþykkja breytingar á kvótakerfinu en sjávarútvegsráðherra.

 Varðandi kosninguna um Bakkafjöru

Ég er sammála þér með kosninguna, réttast hefði verið að kjósa um málið, en hvernig hefðir þú sett upp kosningaseðilinn? og hefðir þú sætt þig við kosninguna ef Bakkafjara yrði ofaná? 

Varðandi lenginguna á varnargörðunum.  

Eins og ég hef sagt áður og segi aftur, ég hef ekkert vit á varnargörðunum né neinu öðru varðandi þessa framkvæmd, ekki frekar en flestir ef ekki allir sem tekið hafa þátt í umræðunni hér að ofan. 

Ég hef séð skrifað um þessa hluti og meðal annars hef ég seð hugmynd um möguleika á lengingu á varnargörðunum, ef það er hægt er það gott mál, ef það er dýrt, þá get ég lítið gert við því.

Varðandi sandburðinn.

Gísli Viggósson gæti haft rétt fyrir sér varðandi sandburðinn, ekki ætla ég að rengja hann í neinu sem hann segir, ekki frekar en aðra, en á ég að taka mark á honum frekar en öðrum?

 Varðandi ferðakostnaðinn.

Ég veit ekki hvernig í ósköpunum þú ferð að því að sjá það út að ferðakostnaðurinn lækki ekki, í fyrsta lagi þá mun ferðakostnaður lækka með styttri vegalengd skips frá eyjum upp á Bakka, það þarf engann stærðæðing til að sjá það út.

þú reiknar sennilega með því að fara einn með skipinu á orkufrekum bíl er það ekki?

Ég á fjölskyldu sem fylgir mér oftast þegar við förum upp á land, þegar börnin eru með tökum við ávallt klefa, sérstaklega vegna barna okkar sem ekki eru sjóhraust, bara klefinn kostar 1.620 krónur með afslætti sem nægir í bensín til Reykjavíkur frá  Bakkafjöru.

Ég greiði múna 1.215 krónur fyrir einn fullorðin 1.215 fyrir bíl og 405 fyrir elsta barnið, sem er að jafnaði MEÐ AFSLÁTTARKORTI.

Heildargreiðsla fyrir fjölskylduna er þá 5.620 krónur aðra leið og 11.240 fram og til baka og ekki gleyma að þá á ég eftir að frá Þorlákshöfn til Reykavíkur og til baka.

Með minna skipi sem siglir 1/6 af gömlu siglingaleiðinni, og mun þar af leiðandi leiða til minni olíukreksturs, Þetta sama skip þarf færri í áhöfn, mun það ásamt annara  smáatriða augljóslega leiða til lækkunar fargjalda að mínu mati. 

Ég velti fyrir mér reikningsdæmi Georgs og spyr sjálan mig að því hvenig í ósköpunum hægt sé að fá út að dýrara verði fyrir Eyjamenn að ferðast frá bakka en frá þorlákshöfn, ég hlakka til að sjá útreikninga hans ef hann vill vera svo vænn að birta þá hér.

Varðandi Sjóveikina ENN OG AFTUR !!

Georg hvort er betra að vera með kvef í 2 daga eða í viku? ég segi 2 daga...... ertu hissa? sama lögmál gildir líka með að vera sjóveikur í korter eða 2 tíma, ég kann betur við að vera sjóveikur í korter.

Ég vona að þetta verði til þess að þú áttir þig á hvað ég á við.

Annað... ég er fyrst og fremst að hugsa um aðra sem eru virkilega sjóveikir og kvíða því í hvert sinn sem farið er um borð í Herjólf, ég hef verið á sjó og ég hef verið sjóveikur eins og ég hef áður sagt hér oftar en einu sinni, sjóveikin breytir ekki öllu fyrir okkur en það hefur helling að segja fyrir börnin og aðra sem ekki eru jafn sjóhraustir og þú.

Gísli Viggósson gaf ekki út Biblíu um Bakkafjöru, ekki frekar en fræðimenn sem stundað hafa rannsóknir á svæðinu, þess vegna finnst mér umræða ykkar um spádóma með Bakkafjöru vera gengin of langt. 

 Kveðja,

Grétar Ómarsson, 12.9.2007 kl. 14:32

15 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Góða kvöldið Grétar, ég hef því miður ekki tíma í þetta núna en langar að benda þér á nokkrar greinar um Bakkafjöru  eftir vin minn og bloggvin Ólaf Ragnarson (solir). Svara hinu á morgun. kv. PS, gott hjá þér með skólabíl þar er ég þér allvel sammála.

Georg Eiður Arnarson, 12.9.2007 kl. 21:42

16 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sæll Georg,

Ég skoða bloggið hjá Ólafi Ragnars.

kveðja.

Grétar Ómarsson, 12.9.2007 kl. 23:25

17 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Birti hér úr skrifum Sigursveins. "Þannig virkar þessi umræða á mig.  Það er engu líkara en það séu eintómir tréhestar að vinna hjá Siglingastofnun. Menn sem vita ekkert í sinn haus. Hallgrímur rifjar upp tvö mál sem hafa ekki gengið upp hjá þeim. En hvað með öll önnur dæmin? Þetta er ekkert fyrsta hafnargerðin sem þessir menn koma að. Mér skilst reyndar að útgerð sé enn stunduð á Hornafirði, þannig að höfnin hlýtur að virka... "  Mikið rétt Sigursveinn höfnin virkar vel og hefur alltaf gert, enda er ekkert verið að tala um hana, ég var að benda á aðkomuna að innsiglingunni, höfnin er þessu máli algjörlega óviðkomandi enda engin vinna við hana framkvæmd í þessum aðgerðum. Ég vil einungis benda á þá hluti sem farið hafa á allt annan veg en útreikningarnir sögðu til um, það er ekki allt pottþétt sem lítur glæsilega út í vasatölvuútreikningum og mótelsamlíki sem líkja á eftir náttúruöflunum svo einfalt er það. Vissulega hafa margir hlutir gengið vel upp og hef ég aldrei haldið öðru fram. Það er rétt Grétar ég hef ekki skrifað um þetta á minni síðu, ég skrifaði um þetta mál hjá Hönnu Birnu og síðan hér. Þegar ég tala um að þú virðist trúa blint á útreikninga sérfræðinganna er það mitt mat á málflutningi þínum, ekki yfirlýsingum þínum. Og er mér algjörlega frjálst að tjá mig um hvað mér finnst um það ekki satt? Ef menn fara út í þessar framkvæmdir skulum við vona að þær heppnist vel. Ef það verður raunin að þetta mistekst hver tekur á sig ábyrgðina? Erum við ekki að tala um nokkuð dýrt tilraunarverkefni, við skulum síðan hafa það á hreinu að tilraunardýrið er samgöngur Vestamannaeyinga. Svo eitt sé alveg á hreinu er ég ekki á móti bættum samgöngum eyjamanna, ég vil einungis að menn vandi sig vel og skoði með bæði augun opin fyrir því sem gæti klikkað í þessu öllu saman. Við sem sjóinn stundum eigum einn hræðilegan óvin og það er grunnbrot, Grétar það er verið að bjóða hann velkominn með þessa framkvæmd, þetta staðreynd sem verður að horfa á, það er full seint að skoða málið eftir heimsóknina frá þessum óvin sem við óskum okkur að við hittum aldrei.

Kv. Halli

Hallgrímur Guðmundsson, 13.9.2007 kl. 09:12

18 Smámynd: Sigursveinn

Sæll Hallgrímur...Það sem ég er að benda á er að þó þú getir grafið upp einhver atriði sem ekki hafa gengið sem skyldi í framkvæmdum hér við land þá er ekki þar með sagt að allt sem þessir menn gera sé vitleysan ein. Hvað með Þorlákshöfn? Er hún svona örugg? Miðað við það sem ég heyri þá er hún fjarri því að vera góð höfn. Það féllu fjölmargar ferðir Herjólfs niður síðasta vetur. Hvers vegna?  

Sigursveinn , 13.9.2007 kl. 09:58

19 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Sæll Sigursveinn. Ég er ekki að segja að allt sem þessir menn gera sé tóm þvæla. Ég er einungis að benda á að það er ekki allt pottþétt sem reiknað er út. Og er þá ekki réttlætanlegt að málin séu skoðuð frá sem flestum hliðum? Um Þorlákshöfn er bara þetta að segja, hún er margfalt betri og öruggari höfn en það sem á að byggja upp í Bakkafjöru. Og það er ég nokkuð viss um að margir eru mér sammála í því. Svo annað sé á hreinu varðandi mínar skoðanir á þessu þá er það eitt sem mér mjög hugleikið og það heitir siglingaröryggi sem sagt öryggi þeirra sem við þetta þurfa að búa og annar sem hugleiðanlega nýta sér þessar samgöngur. Hvernig er hægt að tala um öryggi þegar gert er beinlínis ráð fyrir því að ferjan skelli til botns og jafnvel kastist utan í varnargarðana sem byggja á. Gaman þætti mér að sjá framan í þig kallinn minn eftir svoleiðis rússíbana ferð.

kv. Halli

Hallgrímur Guðmundsson, 13.9.2007 kl. 14:49

20 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Grétar!

Ástæðan fyrir því að ég svari svona seint er þessi, að mínu mati furðulega grein, sem þú skrifaðir á þína síðu í gærkvöldi og hefur verið aðeins að velkjast fyrir mér.

Í þeirri grein sýnist mér, að þú fallir í þá gryfju að byrja að rangtúlka mín skrif, og annarra og nánast alveg á mörkunum að þú sért kominn í hálfgert skítkast í þeirri grein. Þannig að ég ætla ekki að svara neinu í þeim skrifum og vona að þú komist upp úr þeim forarpolli, sem þú reynir greinilega að draga fullt af ágætu fólki, sem er fyrst og fremst áhugafólk um bættar samgöngur milli lands og eyja.

Ekki get ég lesið úr mínum skrifum að ég kenni Árna Matt. um ástæðuna fyrir því, að hér hefur fækkað um 1000 manns á rúmum áratug, en ég nefni 2-300 manns, og stend við það og ítreka spurningu mína úr þessum lið, þ.e.a.s. getur þú nefnt einhverja aðra ástæðu fyrir flótta manna héðan, en kvótakerfið.

Og aðeins varðandi ástæðuna fyrir því, að hér vantar oft sjómenn á báta. Er nema furða, þó að sjómenn grípi hvert tækifæri til að fara í önnur störf, þegar sífellt er lesið yfir þeim af ríkisstjórnini

, að sjómönnum muni fækka og eigi að fækka. Sama gildir fyrir verkafólk í fiskvinnslu. Sjálfur get ég alveg viðurkennt það, að ef mér byðist sæmilega launað starf í öðru, myndi ég sennilega fara.

Varðandi kosningu um Bakkafjöru, þá er það mjög einfalt. Spurningin yrði þessi: Hvort viltu Bakkafjöru, já eða nei. (Næsti kostur er að sjálfsögðu, stærra, gangmeira skip). Ég myndi sætti mig við hvaða niðurstöðu sem er, og viðurkenni það alveg að ég reikna frekar með því, að þið, íhaldsmenn, myndu beita ykkur fyrir Bakkafjöru og þá gæti ég líka hætt þessum skrifum.

Varðandi ferðakostnaðinn. Ég hef enga trú á því, að það verði neitt ódýrara með Bakkaferju heldur en Herjólfi, en það kemur allt í ljós, en í viðbót við ferjugjaldið bætist bensín í bæinn og rútuferð, fyrir þá sem eru ekki á bíl, sem kemur að öllum líkum að kosta 3000 kr á mann.

Varðandi sjóveikina, þá er hún vissulega erfið, en ég verð að viðurkenna það, að mér þykir þetta eina atriði, sjóveiki, vera ansi veik rök fyrir því að fara í þetta Bakkafjöru ævintýri.

Ég er sammála því, að Gísli Viggósson gaf ekki úr Biblíu um Bakkafjöru. Ég tel sjálfan mig hinsvegar ekki heldur vera með neina spádóma, allavega ekki án þess að einhver rök séu með, og ítreka ég enn og aftur, að skoðun mín á Bakkafjöru, byggir fyrst og fremst á tveimur hlutum: Skýrslu Gísla Viggóssonar, þar sem honum tekst að sannfæra mig um, að Bakkafjara sé mun lakari kostur, en þrisvar sinnum stærri Herjólfur. Hitt atriðið er mín eigin reynsla, eftir að hafa róið hérna í 20 ár og rætt auk þess við mikinn fjölda, eldri og reyndari sjómanna, heldur en ég er.

Að lokum langar mig að þakka þeim fjölmörgu eyjamönnum, sem komið hafa að máli við mig að undanförnu og tekið undir minn málaflutning, einnig langar mig að skila kveðju frá þingmanninum okkar Grétar Mar, vill hann einnig þakka þeim fjölmörgu eyjamönnum, sem hafa hringt í hann og tekið undir málflutning hans í þessu máli.

Eitt atriði enn, Grétar. Ég hef áður skrifað um suðurlandsveginn, og þar sem enn eitt banaslys var þar í fyrradag, og eftir mjög góða umfjöllun um þennan hættulega veg á stöð 2, ítreka ég fyrri skoðun mína, þarna vill ég helst ekki að eyjamenn þurfi að fara í hvert skipti sem þeir fara í bæinn.

Georg Eiður Arnarson, 13.9.2007 kl. 14:50

21 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Grétar!

Ástæðan fyrir því að ég svari svona seint er þessi, að mínu mati furðulega grein, sem þú skrifaðir á þína síðu í gærkvöldi og hefur verið aðeins að velkjast fyrir mér.

Í þeirri grein sýnist mér, að þú fallir í þá gryfju að byrja að rangtúlka mín skrif, og annarra og nánast alveg á mörkunum að þú sért kominn í hálfgert skítkast í þeirri grein. Þannig að ég ætla ekki að svara neinu í þeim skrifum og vona að þú komist upp úr þeim forarpolli, sem þú reynir greinilega að draga fullt af ágætu fólki, sem er fyrst og fremst áhugafólk um bættar samgöngur milli lands og eyja.

Ekki get ég lesið úr mínum skrifum að ég kenni Árna Matt. um ástæðuna fyrir því, að hér hefur fækkað um 1000 manns á rúmum áratug, en ég nefni 2-300 manns, og stend við það og ítreka spurningu mína úr þessum lið, þ.e.a.s. getur þú nefnt einhverja aðra ástæðu fyrir flótta manna héðan, en kvótakerfið.

Og aðeins varðandi ástæðuna fyrir því, að hér vantar oft sjómenn á báta. Er nema furða, þó að sjómenn grípi hvert tækifæri til að fara í önnur störf, þegar sífellt er lesið yfir þeim af ríkisstjórnini

, að sjómönnum muni fækka og eigi að fækka. Sama gildir fyrir verkafólk í fiskvinnslu. Sjálfur get ég alveg viðurkennt það, að ef mér byðist sæmilega launað starf í öðru, myndi ég sennilega fara.

Varðandi kosningu um Bakkafjöru, þá er það mjög einfalt. Spurningin yrði þessi: Hvort viltu Bakkafjöru, já eða nei. (Næsti kostur er að sjálfsögðu, stærra, gangmeira skip). Ég myndi sætti mig við hvaða niðurstöðu sem er, og viðurkenni það alveg að ég reikna frekar með því, að þið, íhaldsmenn, myndu beita ykkur fyrir Bakkafjöru og þá gæti ég líka hætt þessum skrifum.

Varðandi ferðakostnaðinn. Ég hef enga trú á því, að það verði neitt ódýrara með Bakkaferju heldur en Herjólfi, en það kemur allt í ljós, en í viðbót við ferjugjaldið bætist bensín í bæinn og rútuferð, fyrir þá sem eru ekki á bíl, sem kemur að öllum líkum að kosta 3000 kr á mann.

Varðandi sjóveikina, þá er hún vissulega erfið, en ég verð að viðurkenna það, að mér þykir þetta eina atriði, sjóveiki, vera ansi veik rök fyrir því að fara í þetta Bakkafjöru ævintýri.

Ég er sammála því, að Gísli Viggósson gaf ekki úr Biblíu um Bakkafjöru. Ég tel sjálfan mig hinsvegar ekki heldur vera með neina spádóma, allavega ekki án þess að einhver rök séu með, og ítreka ég enn og aftur, að skoðun mín á Bakkafjöru, byggir fyrst og fremst á tveimur hlutum: Skýrslu Gísla Viggóssonar, þar sem honum tekst að sannfæra mig um, að Bakkafjara sé mun lakari kostur, en 30 % stærri Herjólfur. Hitt atriðið er mín eigin reynsla, eftir að hafa róið hérna í 20 ár og rætt auk þess við mikinn fjölda, eldri og reyndari sjómanna, heldur en ég er.

Að lokum langar mig að þakka þeim fjölmörgu eyjamönnum, sem komið hafa að máli við mig að undanförnu og tekið undir minn málaflutning, einnig langar mig að skila kveðju frá þingmanninum okkar Grétar Mar, vill hann einnig þakka þeim fjölmörgu eyjamönnum, sem hafa hringt í hann og tekið undir málflutning hans í þessu máli.

Eitt atriði enn, Grétar. Ég hef áður skrifað um suðurlandsveginn, og þar sem enn eitt banaslys var þar í fyrradag, og eftir mjög góða umfjöllun um þennan hættulega veg á stöð 2, ítreka ég fyrri skoðun mína, þarna vill ég helst ekki að eyjamenn þurfi að fara í hvert skipti sem þeir fara í bæinn.

Georg Eiður Arnarson, 13.9.2007 kl. 14:57

22 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sæll Georg,

Ertu ekki farinn að tala í hringi núna?  

Þú segir,

Í þeirri grein sýnist mér, að þú fallir í þá gryfju að byrja að rangtúlka mín skrif, og annarra og nánast alveg á mörkunum að þú sért kominn í hálfgert skítkast í þeirri grein. Þannig að ég ætla ekki að svara neinu í þeim skrifum og vona að þú komist upp úr þeim forarpolli, sem þú reynir greinilega að draga fullt af ágætu fólki.

Hvað í skrifum þínu rangtúlka ég? hvar er skítkastið? og hvað er ég að reyna að draga fólk í?. 

Varðandi fólksflóttann.

Manstu af hverju við fórum að tala um fólksflóttann í upphafi? hver var sú ástæða? Þarf ég að nefna hana aftur? eða byrjuðum við að ræða kvótakerfið?

Bara svo eitt sé á hreinu, ég er ekki íhaldsmaður, en þú mátt kalla mig hvað sem er  ef þér líður betur með það.    

 Varðandi ferðakostnaðinn

 Ég nenni ekki að ræða við þig um ferðakostnaðinn, tel mig vera búinn að svara því.

 Eru rök mín með Bakkafjöru orðin eingöngu vegna sjóveiki?

hef ég ekki talað um styttri siglingatíma, fleiri ferðir, ódýrari fargjöld, ásamt öðru?

Varðandi Suðurlandsveginn, þá stendur til að tvöfalda hann og veit ég ekki betur en að sú framkvæmd sé komin á teikniborðið, annars er alltaf hræðilegt að horfa upp á alvarleg umferðarslys á þjóðvegum landsins.

Grétar Ómarsson, 13.9.2007 kl. 23:34

23 Smámynd: Grétar Ómarsson

skrifum mínum átti þetta víst að vera,

Grétar Ómarsson, 14.9.2007 kl. 01:19

24 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Góðan dag. Eins og ég hef áður sagt er ég ekki á móti bættum samgöngum eyjamanna það er skylda samfélagsins að þau mál séu í góðu lagi. Ég vil að menn vandi til verka og skoði alla hluti með bæði augun opin. Við verðum að hafa eitt í huga og okkur ber skylda til þess að skoða, það er siglingaröryggi. Sem mér finnst einhvern veginn verða töluvert út undan í þessari umræðu. Ég set inn Hlekk á það sem ég skrifaði í athugasemdir hjá Hönnu Birnu á sínum tíma um  þetta mál. Ég óska Vestmannaeyingum alls hið besta og vonandi komast menn að niðurstöðu sem flestir sættast á. Það er mín von að menn geti rætt þessi mál án þess að fara á bólakaf í skotgrafirnar, það er engum til framdráttar og hjálpar málinu ekki á nokkurn veg.  Ég ætla að hafa þetta lokaorð mín um þessar umræður, takk fyrir mig

kv. Halli

Hallgrímur Guðmundsson, 14.9.2007 kl. 10:12

25 identicon

Sæl Öll sömul..

Ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni við skrif þín Grétar. Sem betur fer er fullt af fólki sem telur að þetta muni ganga upp, og sem betur fer er það unga fólkið sem fer mikinn þar. Staðreyndin er jú sú að við komum til með að þurfa mest á þessum samgöngum að halda. Ég ætla ekki að fara út í nein tækniatriði hvað varðar þessi umræddu mannvirki því ég er bara flugnemi og hef ekkert vit á því sem á að gera, annað en það að við erum með okkar besta fólk í hafnarmannvirkjagerð í málunum. Ætla að minna þig á það Georg að það var eld eld eld gamall maður að nafni Archimedes sem lét sér detta þann fáránlega hlut í hug að það væri hægt að láta járn fljóta og ekki bara járn heldur nánast hvaða efni sem er svo lengi sem það uppfyllti ákveðin eðlisfræðileg skilyrði. Ekki nóg með það heldur skýrði hann líka fyrirbærið: buoyancy eða flotation og er þetta lögmál að virka fínt þegar þú rúllar út fyrir hafnarkjaftinn á "blíðuni" þinni........

Friðberg Egill Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 16:06

26 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Grétar.

Ég var á sjó í allan dag, þess vegna svara ég svona seint.                                                                                                                                                                                                           

Þegar þú skýrir hóp fólks frjálslynda hópinn og ert þá sennilega að meina það fólk, sem ég vitna í, í mínum skrifum, þá þykir mér það mjög dapurt, því að þó að ég sé frjálslyndur, þá er þarna fólk sem ég veit ekki betur en hafi verið jafnvel t.d. í sjálfstæðisflokknum alla sína æfi. Þetta flokka ég að vera nánast skítkast. Einnig telur þú upp nokkur atriði í grein þinni, sem þú segir vera skoðanir hópsins, en eru, ef þú læsir vel yfir alt það sem ég hef skrifað, fyrst og fremst tilvísanir í skýrslu Gísla Viggóssonar. Fyrstu viðbrögð mín, sem sjómanns, voru það að þarna værir þú nánast kominn í drullupoll, en ætla nú ekki að erfa það frekar.

Aðeins varðandi styttri siglingatíma, fleiri ferðir og ódýrari fargjöld. Um þetta hef ég nokkrum sinnum skrifað. Styttri siglingatími, já vissulega, ef það er fært og aftur á móti mun lengri keyrsla á höfuðborgarsvæðið og þar á meðal á þessum hættulega vegi, suðurlandsvegi. Sama gildir með fleiri ferðir, það hljómar vel, vonandi verður þér að ósk þinni þar. Sama gildir með ódýrari fargjöld, vonandi verður það rétt hjá þér, en þú hefur ekkert í hendi og mér segir svo hugur, að þegar búið verður að henda mörgum milljörðum í að gera Bakkafjöruhöfn, að það muni örugglega kosta sitt að fá að nota hana.

Margir hafa rætt við mig að undanförnu og lýst yfir óánægju við það að bæjarstjórnin hafi sett Bakkafjöru sem valkost númer 2, en mig langar að nefna eitt samtal. Niður í skúr kom til mín Óskar í Áhaldaleigunni og lýsti fyrir mér sinni skoðun á samgöngumálum okkar. Óskar er fyrst og fremst gangnamaður og er óhress með niðurstöðuna þar. Varðandi Bakkafjöru segir hann:"Allt í lagi, það er búið að ákveða þetta, gott og vel, en við viljum ekki sjá sama klúður og í öðrum ferjumálum okkar Íslendinga. Allir þekkja Grímseyjarferjumálið, einnig hafa bæjarbúar í Stykkishólmi lýst yfir mikilli óánægju með nýju ferjuna, vegna þess að hún var hönnuð og teiknuð af vegagerðinni og siglingamálastofnun, en þegar á reynd, þá eru heimamenn, í vissum vindáttum, í stór vandræðum með að komast að bryggju."

Ég get verið sammála Óskari í þessu, vonandi verða athugasemdir mínar og annarra til þess, að betur verði vandað til verks, en ég stend við það og endurtek, enn einu sinni, ég hefði frekar vilja fá sambærilegt skip og Smyril og siglingaleiðina, Vestmannaeyjar-Þorlákshöfn.

Þakka Hallgrími fyrir hans skrif. Gott að fá komment frá mönnum, sem hafa róið árum og áratugum við suðurströndina. Meira seinna. kv.

Georg Eiður Arnarson, 14.9.2007 kl. 20:14

27 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Þetta er mikil umræða um Bakkafjöru og nokkuð málefnleg hjá flestum. Alla vega hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hvaða skoðanir menn hafa á þessum framkvæmdum og þeim mönnum sem að þeim standa. Mér hefur oft dottið í hug setningar úr viðtalsbók Hans Kristjáns Árnasonar við Gunnar Dal heimspeking en þar segir meðal annars: Það er oft hlegið að brautryðjandanum. Brautryðjandin  þarf oftast að standa einn. Brautryðjandinn þarf ævinlega að berjast við tvo hópa manna. Almenning sem hlær að honum, og virta fræðimenn sem leggja fram lærðar sannanir fyrir heimsku hans.

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.9.2007 kl. 22:13

28 Smámynd: Grétar Ómarsson

Sæll Georg,

Ég byrja á að vitna í orð þín eins og svo oft áður, þú segir

þegar búið verður að henda mörgum milljörðum í að gera Bakkafjöruhöfn, muni það örugglega kosta sitt að fá að nota hana.

Af hverjum einasta bensínlítra sem þú setur á bílinn þinn greiðir þú rúmlega 60% beint í ríkiskassann, þeir fjármunir eiga að renna í að bæta samgöngur um land allt.

Þegar farið er í stórar vegaframkvæmdir er ekki venjan hjá vegagerðinni að setja upp vegatálma til að fjármagna þær framkvæmdir.

Af hverju ætti vegagerðin að byrja á því núna?

Hvað heldur þú að tvöföldun Reykjanesbrautar hafi kostað? og hvað kostar að aka hana núna? Ég gæti tekið mörg svipuð dæmi en held að ekki sé þörf á því hér.

Það er margt fróðlegt sem komið hefur fram í umræðunni um Bakkafjöruna, vonandi verður það til þess að vandað verður til verka með okkar stærstu byltingu í samgöngumálum síðan byrjað var með áætlunarferðir milli lands og Eyja.

Þegar ég nefndi "frjálslynda hópinn" á blogginu mínu átti ég ekki von á því að sumir tækju því sem skítkasti enda sé ég litla niðurlægingu í því nafni þó sumir túlki það svo.

Þó ég tali um frjálslynda hópinn þarf ekki að tengja þann hóp við pólitík.

Ég veit ekki betur en þú Georg kennir mig við íhaldið sem er í góðu lagi mín vegna, en seint skal ég taka því sem skítkasti að þinni hálfu.

Nú las ég skýrslu Gísla Viggóssonar aftur, bara til að reyna að sjá það sama og þú sást úr þeirri skýrslu, það breytti engu um skoðun mína á Bakkafjöru.

Varðandi þá sem telja að Bakkafjöruverkefnið sé ansi dýrt tilraunarverkefni, vil ég benda á að, allstaðar í kringum okkur er verið að skapa og framkvæma mannvirki sem byrja sem fokdýr frumraun, það er eðlilegt að svo stórt verkefni eins og Bakkafjöruhöfn er sé gagnrýnt í ljósi þess að það gæti mistekist.

Það er í eðli mannsins að takast á við verkefni sem ekki hafa verið framkvæmd áður, hvort sem það er að fara til tunglsins, byggja píramída, háhýsi, stíflur, hafnir, eða annað, stundum heppnast verkefnið, stundum ekki, en hvernig komumst við að því hvort framkvæmd á ferjulægi við bakkafjöru sé möguleg?. Með því að láta á það reyna.

Ég persónulega hef enga trú á að ráðamenn setji samgöngur milli lands og Eyja til hliðar ef Bakkafjöruverkefnið fer illa, þá verður einfaldlega farið í að útvega nýja, stærri og hraðskreiðari ferju.

Þetta verða mín lokaorð í þessari umræðu.

Grétar Ómarsson, 15.9.2007 kl. 02:38

29 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Grétar

Ég er sammála þessu með bensínskattinn, en reynslan hefur kennt okkur það, að í hvert skipti, sem við fáum nýtt skip, eða fleiri ferðir (samanber núverandi skip) hefur fargjaldið altaf hækkað. Hvernig þetta verður með Bakkaferjunni, veit enginn, en vonandi verður þér að ósk þinni.

Ég er hinsvegar ekki sammála þér í því, að það sé hægt að bjóða eyjamönnum upp á einhverskonar tilraunarverkefni eins og þessa Bakkafjöruhöfn og verð að viðurkenna, alveg eins og er, að ég hef greinilega aðeins minni trú á ráðamenn heldur en þú, og tel, að þó að þessi Bakkafjara verði klúður, þá munum við þurfa að sitja uppi með þá niðurstöðu í þó nokkur ár.

Mér finnst við hafa farið yfir þetta málefni nánast alveg frá a-ö og er ég nokkuð sáttur við málflutning okkar beggja, þó við séum ekki sammála, þá er umræðan bara af hinu góða.

Mig langar hinsvegar að enda þetta með einni spurningu, sem ég hef borið upp áður. Það er þessi spurning, hversvegna eru eyjamenn að fara frá Vestmannaeyjum? Ég hef lýst minni skoðun á því og kenni þar fyrst og fremst kvótakerfinu um, en þú ræður því, hvort þú svarar þessu.

p/s Mig lanar að þakka þér sérstaklega fyrir þessa spurningu, sem þú ert með á forsíðunni hjá þér. Þetta hefur, að mínu mati, orðið til þess, að enn fleiri eyjamenn hafa lesið þessa umfjöllun okkar og verður vonandi til þess að þrýsta enn frekar á bæjarstjórann að leyfa okkur að kjósa um þessa tvo valkosti. (Þó ég sé á þeirri skoðun að hann hreinlega þori því ekki og sé einfaldlega hræddur um að tapa).kv.

Georg Eiður Arnarson, 15.9.2007 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband