26.9.2007 | 21:12
Róður, kvótinn og Bakkafjara
Fór á sjó í gær eftir hádegi. Það var ennþá norðan kaldi, en lægði þegar leið á daginn, straumurinn var hinsvegar mjög mikill, þess vegna lagði ég línuna á ýsubotn og fékk um 100 kg á balann, aðallega ýsu og nokkrar fallegar lúður með. Það sem vakti mesta athygli mína, var gríðarlegt magn af kríu suður í sundum og greinilegt að eitthvað æti er þarna fyrir hana.
Áður en ég byrjaði að draga, heyrði ég í vini mínum, Hallgrími Rögnvaldssyni og heyrði þar þær slæmu fréttir að afleiðingar vegna niðurskurð á aflaheimildum á þorski hefur nú haft þau áhrif, að bróðir hans, sem rekið hefur línuveiðiskipið Guðrúnu VE, hefur ákveðið að leggja skipinu núna um mánaðarmótin og seta það á sölu missir þá öll áhöfnin vinnuna.
Það er svolítið skrýtið að horfa á þessar svokölluðu mótvægisaðgerðir við niðurskurði á þorskkvótum, þar sem ljóst er að þessir sjómenn fái ekki eina einustu krónu, frekar en útgerðarmaðurinn, svo eitthvað er nú bogið við þetta.
Og aðeins um Bakkafjöru. Ég hef verið að velta fyrir mér þessari rannsókn, sem Gísli Viggósson stóð fyrir. Þessi þrjú ár 2004-2006, sem skýrslan er byggð á er að mínu mati, sem byggt er á 20 ára reynslu á sjó, einhver þau bestu veðurfarslega á þessum 20 árum. Svo kannski má orða þetta þannig að því miður var veður mjög gott við Bakkafjöru þessi þrjú ár og því miður, eins og sagt er, það sem fer upp kemur aftur niður, samanber veturinn 2007, sem er sennilega sá harðasti síðustu 4 árin. Einnig segir í skýrslu Gísla, að gert sé ráð fyrir því að aldrei sé ófært á tímabilinu maí-ágúst. Sé mið tekið af t.d. sumrinu í sumar, þá er þetta eðlileg ályktun. Ég man hinsvegar eftir því, að fyrir áratug síðan komst ég ekki nema samtals 4 sinnum á sjó í júní og júlí vegna stöðugra suðlægra brælna. Svo skiljanlega er ég ekki alveg að kaupa þetta.
Ég ítreka svo að skoðanakönnunin hjá mér mun standa út þennan mánuð. Endilega takið þátt. Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil Georg, þetta eru ekki góðar fréttir ef Gúðrún Ve verður seld vegna skerðingar á aflaheimildu. Ætli þetta hafi einhver áhrif á þá sem dásama fiskveiðistjórnunarkerfið okkar?
kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 26.9.2007 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.