1.10.2007 | 11:26
Vestmannaeyjar í dag
Fór á sjó í gær með 12 bjóð. Veðrið var fallegt en svolítið þungur sjór, en slétti þegar leið á daginn. Afli var ágætur, eða tæp 2 tonn, þar af ca. 1200 langa og 500 ýsa. Það versta er að þá er sennilega löngukvótinn búinn þetta árið og þarf ég að leigja mér löngukvóta það sem eftir er af þessu fiskveiðiári (ellefu mánuðir eftir).
Það sem vakti mesta athygli mína í umræðum helgarinnar, er þessi svokallaði styrkur upp á 200.000, sem atvinnulaust landabyggðafólk getur fengið til að hjálpa sér við að flytja annað (og þá yfirleitt á höfuðborgarsvæðið). Hver segir svo að draumur íhaldsmanna um eitt stórt borgarríki sé ekki enn við lýði? Það er verst að í þessum hugmyndum, eftir því sem mér skilst, þá sé talað um stórt höfuðborgarsvæði, með litlum kjörnum á norður, austur og suðurlandi, en hvergi nokkur staðar, eftir því sem mér skilst, minnst á bæjarfélög eins og t.d. Vestmannaeyjar. Svo maður spyr sig, erum við eyjamenn ekki með, eða á að leggja okkur niður? (Mér skilst reyndar að fráfarandi formaður framsóknarmanna hafi einhvern tímann sett fram svona hugmyndir, þ.e.a.s. um borgarríki).
Á morgun ætla ég að leggja land undir fót og fara í bæinn og svo á suðurnesin. Á miðvikudaginn er meiningin að fljúga til Tenerife og baka sig þar í viku, í rigningunni, því síðast þegar ég fór á Canarý í vikuferð sást sólin ekki nema í tvo tíma þá vikuna. Var ég vinsamlegast beðinn um að koma ekki aftur.
Varðandi skoðanakönnunina hjá mér (vinstra megin á síðunni, neðst) um Bakkafjöru, já eða nei, þá mun hún standa til 15. okt. Nú þegar hafa liðlega 100 kosið og ef við gefum okkur að c.a. fjórir séu á bak við hvert atkvæði, miðað við meðal fjölskyldi, þá er ég mjög ánægður með það, en vonast að sjálfsögðu eftir því, að fleiri taki þátt. Eins og ég hef skrifað áður, þá er þetta sennilega eini möguleiki okkar til að segja skoðun okkar á þessu máli, enda er íhaldið ekki vant því að hlusta á skoðanir annarra en sinna eigin og þessi svokallaði V-listi í eyjum virðist vera algjörlega skoðana- og áhugalaus um málið, enda kannski ekki furða, þar sem að fólk í þeim lista virðast vera svona hálfgerðir afgangar úr hinum og þessum flokkum.
Ég reikna nú með því að það séu tölvur þarna úti, þannig að ég geti fylgst með og sett inn athugasemdir, ef með þarf.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Georg þetta er góður pistill hjá þér. Ég er sammála þér að þessi 200,000 kr. styrkur til að koma sér burtu frá eignum sínum á landsbyggðini vakti furðu mína. En er þetta ekki gott dæmi um það hvað þessir blessaðir ráðamenn okkar eru gjörsamlega veruleikafyrtir.
Góða ferð í sólina,
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 1.10.2007 kl. 12:02
Sæll Georg. Segið þið að það slétti sjó? Fyrir norðan töluðum við um að það væri að slá á ölduna og að það væri hvítt í báru þegar hvasst var og brotnuðu upp öldurnar. Ég er sammála með ferðastyrkinn en held reyndar að það sé bara verið að tala um tímabundna vertíð eins og var í gamla daga þegar fólk fór frá Raufarhöfn t.d. á vertíð í Vestmannaeyjum. Ef við ætlum að leggja af byggðir markvisst verður að kaupa húsin af fólki til að losa um átthagafjötrana. Mér finnst reyndar að fólk eigi að hafa val og það stöndum við fyrir í FF þ,e, að búa til tækifæri og valmöguleika en ekki alltaf að stýra öllu með forsjárhyggju. Ég hef reyndar upplifað það að komast ekki burt og það er ferleg tilfinning. Skemmtu þér vel á Canarí sólarkveðja Kolbrún.
Kolbrún Stefánsdóttir, 2.10.2007 kl. 18:57
Það er orðið langt síðan ég var til sjós á Breiðafirðinum en þá var "hvítt í báru" notað um gott sjólag. Merkingin er augljóslega dregin af því að það er ekki stilla, eða gráð, hafflötinn gáraði lítillega (u.þ.b. 4 gömul vindstig) og það sást "hvítt í báru".
Goggi, góða ferð til Tenerife og komdu hvíldur og sprækur til baka. Kolla, sjáumst á fundinum á Grand.
Sigurður Þórðarson, 3.10.2007 kl. 00:33
Sæll Georg
Nú er Valdi kominn á bloggið aftur eg var að kaupa nía tölvu.Nú er ég fluttur til Reykjavíkur og líkar lífið aldeilis vel.
Verður ekki erfitt fyrir þig að róa eftir kvótaniðurskurðinn ?
þorvaldur Hermannsson, 6.10.2007 kl. 12:18
Aðeins meira um sjólagið. Það er held ég algengt að sjómenn segi að það sé að slétta sjó. Einnig að hann sé að ganga niður. Þá var einnig sagt: Það er ágætisveður en skýtur aðeins í fuglsbríngu. það merkti held ég ágætt veður þó hvitnaði í báru.
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 6.10.2007 kl. 21:48
Það er rétt hjá þér Sigmar, ég man eftir að hafa heyrt þessi orðtök til sjós. lifið heil.
Helgi Þór Gunnarsson, 7.10.2007 kl. 22:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.