18.10.2007 | 19:27
Róður á Blíðu
Fór á sjó í fyrradag, eftir að hafa beðið allan daginn eftir því, að vindinn lægði og vitandi það að veðurspáin næstu vikuna væri mjög slæm, þá ákvað ég að fara á sjóinn kl. 18 í fyrradag. Veðrið var mjög slæmt, eða c.a. norðan 15 metrar, svo ég fór beint í skjól við Bjarnareyna og lagði þar 8 bjóð. Eftir tveggja tíma legu byrjaði ég að draga og fékk 100 kg. á bjóð, nánast eingöngu ýsu. Eftir að hafa gert að fiskinum og landað honum, fór ég heim, var klukkan þá orðin þrjú um nóttina. Fékk ég mér að borða og fór svo aftur af stað til að ná öðrum róðri, áður en hann brældi aftur. Fór ég með 10 bjóð með mér og var byrjaður að leggja kl. 5, rétt fyrir birtingu, um átta leitið, hafði ég lagt níu bjóð og dregið tvö, en hætti við að leggja síðasta bjóðið, því þá var kominn austan kaldi. Hóf ég þá að draga með enn meiri hraða, því hann spáði suð-austan stormi seinni partinn. Um hádegi átti ég eftir tvö bjóð, sunnan við Bjarnarey og var þá komin austan 14 metrar og talsverður sjór, og það sem verra er, straumurinn var á móti vindinum. Fékk ég tvisvar á mig góða öldu og fylltist dekkið hjá mér við seinni ölduna. Náði þó að klára að draga og reyndist aflinn vera um 1100 kg. á 9 bjóð og var ég kominn heim kl. 15:00.
Það sem vakti mesta athygli mína þennan sólarhringinn, er að þegar ég var að leggja í fyrri róðurinn, þá kom þar að fyrrverandi skipstjórinn á Guðrúnu VE, til að kveðja, enda hefur hann nú selt allar eigur sínar í Vestmannaeyjum og eftir því sem hann sagði, á hann síður von á því að hann leggi fyrir sig sjómennsku í framtíðinni. Þetta þótti mér frekar dapurt, enda Sigmar skipstjóri með einum af okkar reyndustu mönnum í Vestmannaeyjum og mikill missir af honum.
Annað sem vakti líka athygli mína, er að þegar ég var að ljúka við að landa úr seinni róðrinum, þá kom þar að vinur minn Óli Gísli, sem hefur í mörg ár starfað í saltfiski, bæði hjá öðrum og sjálfum sér. Fyrir tæpu ári síðan hóf hann að kaupa og verka þorsk sjálfur í salt, en eftir að niðurskurður í þorski varð að veruleika, hefur þorskurinn hækkað það mikið í verði, að grundvöllurinn fyrir hans vinnu er farinn og ég gat ekki betur heyrt á honum, en að hann væri jafnvel að hugleiða það að fara frá eyjum. Svo spurning mín er þessi, hvað hafa þessir tveir menn út úr þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum (því ekki getum við öll farið að mála).
Það sem mér þykir verst í þessu öllu, eru þessi skilaboð sem við fáum reglulega, bæði frá núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn, um að fiskverkafólki og sjómönnum þurfi að fækka, það eigi að hagræða og við eigum að gjöra svo vel að finna okkur eitthvað annað að gera. Þessu er ég ekki sammála og þessu þurfum við að breyta.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Georg þetta er góður pistill hjá þér, gaman að fá fréttir af róðrinum og fikiríi. En einnig ömurlegt að heyra um afleiðingar af "besta fiskveiðistjörnunarkerfi í heimi" Er ekki merkilegt að menn skuli en vera að verja þetta kerfi.
kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.10.2007 kl. 22:29
Sæll Simmi, þeir sem eiga kvótann og skuldirnar verja það , við þá er ekki að sakast því það eru stjórnvöld sem leggja línurnar og ráða ferðinni .kv.
Georg Eiður Arnarson, 18.10.2007 kl. 22:43
Þetta er alveg skelfilegt ástand - en þetta kusu menn yfir sig.
Magnús Þór Hafsteinsson, 22.10.2007 kl. 14:23
PS: Birti þennan pistil á www.xf.is nú í vikunni.
Magnús Þór Hafsteinsson, 22.10.2007 kl. 14:24
Takk fyrir að bjóða okkur í þessa róðra með þér suður af Bjarnarey. Lifandi frásögn
Það yrðu dapurleg örlög ef þessi þáttur í þjóðlífinu , sem fylgt hefur okkur frá landnámi, leggðist af og rétturinn til að stunda fiskveiðar sér og sínum til lífsviðurværis færðist með öllu yfir til fáeinna kvóta "eigenda" eins og allt virðist stefna í.
Auðvitað er hægt að umbylta þessu ástandi..til þess þarf að ná víðtækri samstöðu á hinu pólitíska sviði. Það gerum við ekki sundraðir heldur sameinaðir..eða er það ekki ?
Sævar Helgason, 22.10.2007 kl. 17:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.