21.10.2007 | 21:49
Bakkafjara
Ég hef verið ásakaður um að tala fyrst og fremst gegn Bakkafjöru. Ekki er ég alveg sammála því, þó vissulega ég hafi margar efasemdir um þessa framkvæmd, þá vona ég svo sannarlega, að hún verði okkur eyjamanna til góðs. Mig langar að nefna nokkur sjónarmið til viðbótar við það sem á undan hefur komið.
Í gær lenti ég á spjalli við þá mága, Þór Vilhjálmsson og Kidda hans Dolla á Sjónarhól (mér þykir það sérstaklega ánægjulegt á sjá þetta nafn á bát í eyjum, Dolli á Sjónarhól, enda var Dolli einn besti vinur minn, síðustu tuttugu árin sem hann lifði). Bæði Þór og Kiddi eru mjög fylgjandi Bakkafjöru. Aðal rökin sem Þór taldi upp, eru þau t.d. veruleg stækkun á atvinnusvæði Vestamannaeyinga. Ekki er ég mjög trúaður á því, en vonandi verður það rétt. Báðir komu þeir hinsvegar með það, að fjölmargir ættingjar þeirra ofan af landi veigra sér við að koma til eyja, nema með flugi, enda er mikið af þeirra fólki, að þeirra sögn, væru ekki með þeim sjóhraustari. Það er alveg rétt, að mikið af því fólki sem vill ekki siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn, er það vegna sjóveiki, er það vel skiljanlegt. Vonandi, ef af þessu Bakkafjöru ævintýri verður, að fólk losni við sjóveikina, allavega verður sjóferðin styttri, en mín reynsla segir mér það, að hálftíma sigling í slæmu sjóveðri, geti nú líka orðið sjóveiku fólki erfið og ekki gott að eiga kannski eftir að keyra tvo tíma til að komast í bæinn.
Eitt greip ég hjá Þór, og það var þegar ég nefndi við hann, þann möguleika að Bakkaferjan, samkvæmt því sem Gísli Viggósson segir, lendi í því að taka niðri á rifinu og þurfa þá jafnvel hugsanlega að bakka út úr briminu til að rétta skipið af,(Vísa i grein Sveins Rúnars Valgeirssonar fyrr í sumar) Þór er reyndur sjómaður frá fyrri tíð og sá ég á honum, að honum leist nú ekki alveg á þetta, en þetta breytir samt ekki því, að hann og Kiddi eru fylgjandi Bakkafjöru.
Í dag heyrði ég í vini mínum, útgerðarstjóranum í Ísfélaginu, Eyþóri Harðarsyni. Eyþór er, eins og flestir vita, í stjórn Ægisdyra og hefur unnið mikið í gangamálum, en það sem vakti athygli mína er, að Eyþór er algjörlega á móti Bakkafjöru og orðaði hann það þannig, að Bakkafjara væri bæði tímaeyðsla og vitleysa.
Ég ákvað í morgun að hringja upp á Bakkaflugvöll. Ég gleymdi reyndar að spyrja um nafn, en átti annars ágætt samtal við þann sem þar stjórnar. Sjónarmiðið sem ég fékk þar, var að hann hefði verið mjög efins í upphafi, en er samt kominn á þá skoðun í dag, að ef það fáist nógu miklir peningar í þetta, þá verði þetta klárað. Ég spurði hann m.a. út í ágæta mynd, sem bæjarstjórinn okkar er með á blogginu sínu, vegna uppgræðslu á Bakkafjöru og sagði hann mér, að sáð hefði verið síðastliðið vor í c.a. 50 fm. Það væri þegar farið að skila sér og í raun og veru væri hann ekki í nokkrum vafa um það, að það væri hægt að græða upp ströndina, en það muni kosta bæði mikið fé, mikinn tíma og mikla vinnu. Varðandi reynslu hans af fjöruborðinu, sagði hann mér nokkrar sögur af því, hvernig skip, sem lentu í fjörunni jafnvel hurfu eftir stuttan tíma. Hinsvegar nefndi hann líka nokkur dæmi um skip, sem hefðu komið upp í fjöru í stórstraums brælum og borist töluvert upp fyrir fjöruborðið. Þau væri jafnvel sjáanleg mörgum áratugum seinna, t.d. nefndi hann stefni á skútu, sem strandaði í Bakkafjöru 1920, ennþá sæist í stefnið, þrátt fyrir allan þennan tíma. Varðandi áhættumatið var hann mér sammála um það, að vissulega væri Bakkafjöru leiðin mun hættulegri, miðað við að fara á höfuðborgarsvæðið, en hann sagði mér líka þá skoðun sína, að margir settur fyrir sig þennan akstur, en það myndi hverfa með reynslunni. Eitt greip ég þó hjá honum, varðandi frátafir og var hann mér sammála um það, að mun oftar yrði ófært í Bakkafjöru, heldur en í Þorlákshöfn. Nánast lítið hefur verið rætt við hann og aðra bændur varðandi landakaup og vegagerð að fjörunni, en hann sagði það sína skoðun, að það yrði sennilega lítið vandamál. Mikið hefur verið talað um sandfokið í fjörunni. Vildi hann koma því á framfæri, að það sem við eyjamenn köllum sandfok, sé fyrst og fremst fíngert ryk, sem þyrlast upp, því sandurinn sé það þungur að hann fari ekki hátt, og gaf hann lítið fyrir þá skoðun, að í Bakkafjöru yrði boðið upp á frían sandblástur á bílum. Þakkaði ég honum fyrir samtalið og hans sjónarmið. Vonandi einhver hafi ánægju af að lesa þetta. Meira seinna.
Ítreka áskorun á bæjarstjórann að leyfa okkur að kjósa um þetta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Georg þú hefur sennilega talað við hann Einar á Bakka flugumsjónarmann á Bakkaflugvelli.
Helgi Þór Gunnarsson, 23.10.2007 kl. 00:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.