17.11.2007 | 21:01
Þangað fer ég aldrei aftur
Á hverjum degi sjáum við í dagblöðunum mikið af bílaauglýsingum. Brimborg er eitt af þeim fyrirtækjum sem auglýsir grimmt nýja og notaða bíla, og tökum notaða bíla uppí. Fyrir rúmum mánuði síðan hringdi ég í Brimborg og talaði við sölumann notaðra bíla og bað hann um að gefa mér upp verðhugmynd á jeppann á heimilinu. Hugmyndin hjá mér var sú að losa mig við bensíndrekann fyrir betri fólksbíl. Viðbrögðin hjá sölumanninum voru góð og sagði hann mér að koma með bílinn, því að þeir yrðu að sjálfsögðu að láta yfirfara bílinn á verkstæðinu hjá sér. Mætti ég þegar um var samið og hóf að leita mér að bíl. Þá fyrst sagði sölumaðurinn mér, að þessi tegund, Cherokee sport, væri erfið tegund í endursölu og gætu þeir því ekki tekið hann upp í annan notaðan, nema þá með því að lækka hann fyrst úr 900 þúsundum í 700 þúsund, fyrir skoðun. Eftir skoðun komu fram athugasemdir eins og t.d. að ég átti eftir að fara með bílinn í skoðun og það væri rispa á öðru framdekkinu m.a. og lækkuðu þar með bílinn minn aftur og nú niður í 580 þúsund og tilkynntu mér um leið, að ekki væri hægt að lækka frekar þá bíla, sem ég hafði skoðað hjá þeim. Þótti mér þetta frekar léleg kaup og kvaddi með það sama. Í síðustu viku, eða rúmum mánuði eftir þessa ferð, þá ákvað ég, eftir að hafa rætt nokkrum sinnum við einn sölumanninn og farið með minn bíl í bæði í skoðun og allsherjar yfirhalningu, án þess að fram kæmi nokkur athugasemd, að reyna aftur og hafði ég þá merkt við nokkra bíla hjá Brimborg sem ég hugðist skoða og sölumaðurinn lofað mér, að gera mér betra tilboð. Mætti ég með minn bíl í skoðun aftur og eftir töluverða leit, valdi ég mér bíl, sem mér leist svona þokkalega á. Eftir nokkurra klukkutíma bið kom loksins sölumaðurinn með algjörlega nýja niðurstöðu úr skoðun frá verkstæði Brimborgar, þar sem tvær athugasemdir voru gerðar við minn bíl, sem höfðu ekki komið fram áður. Fyrri athugasemdin var: gat á mottu bílstjóra megin og hin athugasemdin var að við prufu, kviknaði gult aðvörunarljós í mælaborði. Ég spurði sölumanninn, hvernig þeir höfðu farið að því að kveikja aðvörunarljós í mælaborði og sagði hann mér, að í prufu hefði vélin verið sett í botn og þá kviknaði aðvörun og þess vegna gætu þeir ekki tekið bílinn upp í annan. Ég spurði hann afhverju þeir reyndu ekki að finna bilunina og laga hana, en var mér sagt að það væri ekki í þeirra verkahring. Ítrekaði líka sölumaðurinn við mig, að þetta væri líka tegund, sem þeir væru ekki hrifnir að taka uppí. Kvaddi ég hann með því að segja, að í þessa bílasölu kæmi ég aldrei aftur og lofaði honum um leið, að ég skyldi skrifa þessa sögu á bloggið hjá mér. Nú er ég kominn heim og kannski runninn mesta reiðin yfir þessum vinnubrögðum, aðvörunarljósið í mælaborðinu er horfið og var ég í raun og veru hættur við að skrifa þessa sögu, en þá var mér sögð önnur saga af eyjamanni, sem átti viðskipti við þetta sama fyrirtæki fyrir rúmu ári síðan. Hafði sá keypt nýjan bíl hjá Brimborg á raðgreiðslum, en orðið fyrir því að látast um veturinn. Reyndu þá ættingjarnir að skila bílnum, en var því hafnað og þeim tilkynnt, að eina leiðin til að losna við þennan bíl væri að láta hann upp í dýrari bíl. Ekki veit ég, hvort aðrar bílasölur séu betri eða verri, en ég mun alveg örugglega ekki fara aftur í Brimborg.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll, Georg Eiður !
Þetta er mikil raunasaga; hverri þú skýrir frá, hérna. Vil benda þér á, að nú er einn spjallsíðuhafanna hér; á Mbl. vefnum, Egill Jóhannsson forstöðumaður téðrar Brimborgar; hrekklaus og vænn drengur, hver vill hvers manns vanda leysa.
Fannst rétt; að koma þessu að, þótt eigi hafi ég sjálfur skipt, við Brimborgu. Væri ekki úr vegi, að þú settir þig í samband við Egil, um forsorgun og lausnir allar, á þeim meinbaugum, hverja þú hlaust, af hálfu undirsáta Egils.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 21:19
Þetta er ljót saga, en því miður ekki sú eina frá Brimborg, þær eru orðnar svo margar svona sögurnar, sem ég hef heyrt af viðskiptum manna við Brimborg, að ég er farinn að trúa þeim.
Jóhann Elíasson, 17.11.2007 kl. 22:08
Þessi téður Egill hlýtur að svara fyrir Brimborg!
Helgi Þór Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 00:14
Heill og sæll Georg, það eru nú líka til góðar sögur af Brimborg sem ég hef heyrt, en því miður eru þeir mjög slæmir með að meta bíla niður sem þeir eru að taka uppí þá bíla sem þeir selja, eins og gat á mottu þetta er ótrúlegt. Ég keypti mér nýjan bil fyrir nokkrum mánuðum og fór þá í brimborg og skoðaði þar bnýjan bil sem mér leist vel á, ég ræddi við einn sölumanninn um hvað ég fengi fyrir minn bil og verð á þeim nýja. Án þess að vera að tíunda orðaskipti mín og sölumannssins var ég fljótur að sjá að ég hafði ekki áhuga á að eiga viðskipti við þetta umboð. En ég ítreka það að ég hef líka heyrt góðar sögur af mönnum sem hafa átt viðskipti við Brimborg.
Umboðin eru misjöfn og vilja náttúrulega alltaf borga sem minnst fyrir bílana sem þeir taka uppí, en mín reynsa er sú að Toyota umboðið er það besta sem ég hef verslað við, bæði eru varahlutir ekki mjög dýrir, verkstæðið sanngjarnt miðað við það sem ég hef verslað við Toyota og öll þjónusta umboðs mjög góð.
kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 18.11.2007 kl. 21:30
Já Georg, það er ekki öll vitleysan eins heldur aðeins mismunandi eins og ég hef oft áður sagt.
Prúttmarkaður eða fagmennska er það sem fyrst kemur í hugann.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 19.11.2007 kl. 02:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.