22.11.2007 | 22:54
BB eða Blíða og Bakkafjara
Fór á sjó klukkan eitt síðastliðna nótt með 16 bjóð. Veðrið var ca. norðan 10 metrar og skítakuldi, en lægði sem betur fer þegar leið á morguninn. Aflinn var um tvö tonn, mest ýsa og var ég búinn að ljúka löndun og kominn inn í höfn kl. 15:30 og blasti þá við mikið bál í Kaffi Kró, en nú er sem betur fer búið að slökkva eldinn og ætla ég að vona það að þetta hafi engin áhrif á reksturinn þar.
Margt og mikið hefur skeð tengt Bakkafjöru síðan ég skrifaði síðast um þessi mál. Meðal annars fór hópur eyjamanna af stað með undirskriftarsöfnun, með áskorun um að leyfa okkur að kjósa um framtíðarsamgöngur okkar. Ekki fannst mér koma neitt rosalega margar undirskriftir út úr þessu, en taka verður tillit til þess, að þetta var lítið auglýst og stóð í mjög stuttan tíma. Miðað við reynslu mín af minni skoðanakönnun, þá þarf svona undirskriftasöfnun að standa í allavega mánuð og vera vel og rækilega auglýst og er ég þá ekki í nokkrum vafa um það, að hefði þannig verið staðið að málum, hefðu komið allavega 2000 undirskriftir. Ég hafði sjálfur velt því fyrir mér að fara sjálfur af stað með svona undirskriftarsöfnun og ýmislegt annað, sem hægt er að gera, en hafði hafnað því, einfaldlega vegna þess, að mér finnst ég alveg hafa gert nóg, enda tel ég mig ekki vera neinn sérstakan hatursmann gegn Bakkafjöru.
Mig langar að þakka vini mínum, Páli Scheving, fyrir hans grein um Bakkafjöru. Ég er honum sammála í flest öllum atriðum. Vissulega er margt, sem bendir til þess að Bakkafjara gæti orðið gott tækifæri fyrir ferðaþjónustuna yfir sumarmánuðina, og tek undir þá skoðun hans að aðal áhyggjuefnið varðandi Bakkafjöru, eru frátafir yfir vetrarmánuðina og hvaða áhrif þær hefðu á flutninga á t.d. bæði vörum og fiski og vaknar þá sú spurning, hver ber ábyrgðina t.d. ef ég sel fisk á fiskmarkaði Vestmannaeyja á ákveðnu verði, fiskurinn kemst ekki til kaupandans á tilsettum tíma og kaupandinn neitar að borga uppsett verð, vegna seinkunnar á afhendingu. Hver ber þá tjónið?
Mig langar aðeins að segja nokkur orð, um þá (vini mína) Sigursvein Þórðarson og Kjartan Vídó. Sigursveinn hefur skrifað reglulega um Bakkafjöru og er, eins og allir sjá, mjög svo fylgjandi Bakkafjöru. Kjartan Vídó er ritstjóri á eyjar.net og hefur samviskusamlega birt flest alt í umræðunni um Bakkafjöru, en stundum hefur mér fundist hann vera kannski einum og hliðhollur, en hann á að sjálfsögðu rétt á að hafa sína skoðun á málinu. Fyrir nokkru síðan hringdi ég í Kjartan, bæði til að forvitnast um hans skoðanir og annað. Það sem vakti mesta athygli mína, er að Kjartan sagði mér,að hans skoðun á málinu snérist fyrst og fremst um það, hvar hann stæði í pólitík og ég hlyti að vita, hvar hann stæði í pólitík. Ég sagðist nú alveg gera mér grein fyrir því, að hann væri íhaldsmaður, en benti honum á það að það væru foreldrar hans líka, en þau væru samt bæði á móti Bakkafjöru, svo ekki snýst þetta um pólitík.
Sigursveinn Þórðarson hefur ítrekað lýst því yfir á bloggi sínu, að kosið hafi verið um Bakkafjöru í Bæjarstjórnarkosningunum árið 2006. Mér þykir þessi skoðun hreint ótrúlega vitlaus, en svona til gamans, þá er ég núna búinn að tala við bæði fulltrúa D-lista í bæjarstjórn og V-lista, og þar sem ég var sjálfur í framboði F-listans, þá er það hér með staðfest að enginn af þessum aðilum taldi sig vera að kjósa um Bakkafjöru í kosningunum 2006, enda voru öll framboðin með göng sem fyrsta valkost, og ég bendi á það, að það var ekki fyrr en sumarið 2007, sem göng voru endanlega slegin af, af núverandi samgönguráðherra og ekki bara það, heldu hvernig á að hafa verið hægt að kjósa um Bakkafjöru 2006, þegar skýrsla Gísla Viggóssonar, um hvort hægt sé að gera höfn þarna er ekki skilað til okkar fyrr en febrúar 2007, svo það liggur í augum uppi, að þessi rök Sigursveins eru ótrúlega vitlaus, ég tala nú ekki um, þegar tillit er tekið til þess, að hann hefur margra ára reynslu sem fréttamaður á Fréttum í eyjum og maður hefði haldið, að hann myndi nú fylgjast aðeins betur með. En það er nú svo, þegar menn skortir rök, þá er kannski einfaldast að búa sér til rök.
Svona til gamans og upprifjunar, hver voru helstu baráttumálin fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2006? Fyrir mér voru það fyrst og fremst tvö atriði. Það fyrsta: atvinnumál, þar sem við á F-listanum komum fram með stórar og miklar hugmyndir um uppbyggingu á stórskipahöfn fyrir Eiðinu, með möguleikum á þurrkví og legu fyrir stærstu farþegaskip, mér þótti það fyrst og fremst ánægjulegt að bæði hin framboðin tóku þessa hugmynd okkar á lofti og settu hana inn í sína stefnuskrár og mér skilst að það sé búið að álykta um þetta í bæjarstjórn, en mér segir svo hugur, að fyrst F-listinn er ekki til að fylgja málinu eftir, þá verður þetta lítið annað en ályktun. Hitt atriðið, sem varð í raun og veru eitt heitasta málið fyrir kosningarnar, var bygging knattspyrnuhús í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórnar meirihluti D og V lista vorið 2006, hafði þá um veturinn samþykkt að byggja hálft knattspyrnuhús, en þegar leið að kosningum, þá tók ég eftir því í ferðum mínum um fyrirtækin í bænum, að eyjabúar virtust almennt vera á móti þessu, svo það kom mér ekki á óvart, þegar íhaldsmenn gáfu það út, rétt fyrir kosningar, að þeir ætluðu sér ekki að standa við samþykkt fyrri meirihluta, en lofuðu jafnframt á fundi með íþróttahreyfingunni að bæta vetraraðstöðu fyrir knattspyrnuna. Að mínu mati er ekki nokkur vafi á því, að þetta tryggði íhaldsmönnum glæsilegan sigur í kosningunum. Mín skoðun á knattspyrnuhúsi er í raun og veru einföld. Það er marg sannað, að íþróttir er eitt það besta sem við getum gert fyrir börnin okkar, bæði til að þroska þau og þjálfa, kenna þeim aga og til að halda þeim frá allskonar óreglu, því nægar eru freistingarnar í dag. Varðandi útkomu okkar á F-listanum úr þessum kosningum, þá kom það mér ekki á óvart, enda hafði ég spáð þessari útkomu, nánast upp á atkvæði, en aðal málið er þetta: Frjálslyndir eru búnir að stimpla sig inn í Vestmannaeyjum og eru komnir til að vera. Bæði D og V-listi beittu sér sérstaklega gegn okkur og meira að segja heyrði ég haft eftir sumum frambjóðendum þar, að þeir mæltu frekar með því við fólk að það kysi frekar hinn stóra flokkinn, frekar heldur en að fá annan bakara.
Að lokum, aðeins um Bakkafjöru. Ég vona það svo sannarlega, að mín skrif og annarra verði fyrst og fremst til þess, að enn betur verði vandað til verksins, en ég verð að segja það, að þó að við Elliði bæjarstjóri séum ekki sammála að öllu leyti, þá er ég mjög óhress með það, ef rétt er, að honum hafi verið vikið úr stýrihópnum um Bakkafjöru, vegna þess að bærinn ætli sér að bjóða í þetta verkefni og tek líka undir áhyggjur bæjarstjórnarmanna um hversu lítinn áhuga samgönguráðherra sýnir í því, að koma og ræða við okkur og auglýsi því hér með eftir samgönguráðherra. Haldi hann áfram að forðast okkur, þá kæmi það mér ekki á óvart, þótt atkvæði samfylkingarmanna í Vestmannaeyjum, kæmi til með að fækka enn meira í næstu Alþingiskosningum. Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Georg og Hanna.
Þið eigið heiður skilinn fyrir að halda á lofti máli sem varðar stórt samfélag hér á landi af dugnaði og einurð.
Megum við af ykkur læra í því efni segi ég enn og aftur.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 23.11.2007 kl. 01:58
Sæll Goggi.
Ég veit ekki alveg hvernig þú færð það úr samtali okkar að ég sé fylgjandi bakkafjöru útaf stjórnmálaskoðunum mínum. Mig minnir að ég hafi sagt þér að ég væri hvorki fylgjandi þessari framkvæmt né á móti henni og það kemur stjórnmálaskoðunum mínum ekkert við. Foreldrar mínir hafa sjálfsagt einhverja skoðun á þessari framkvæmt en ég hef ekkert rætt um hana við þau og skoðanir þeirra móta ekki mínar skoðanir.
Ég hef skrifað um það á eyjar.net að ég vil fá lausn á núverandi samgönguvanda eyjanna. Það er búið að ákveða að fara í Bakkafjöru og sú framkvæmt kemst í framkvæmd fyrsta lagi árið 2011 og þangað til munu eyjamenn tapa miklum fjármunum. Það er vandamál sem ég vil sjá stjórnmálamenn einbeita sér að.
Það sem ég hef birt um samgöngumál eða önnur mál sem tengjast stjórnmálum reyni ég að fá allar hliðar fram. Ég hef haft samband við einstaklinga og boðið þeim að senda inn greinar um hinn ýmsu málefni til að koma sínum skoðunum á framfæri. Ég birti það sem ég tel að eyjamenn lesi og birti sem mest af því efni sem ég kemst yfir. Aldrei færi ég að blanda mínum persónulegu skoðunum inn í eyjar.net nema þegar ég skrifa undir nafni. Ég rek eyjar.net og þarf að passa mig að halda hlutleysi gagnvart öllum. Vefurinn myndi tapa trúverðuleika sínum ef að persónulegar skoðanir mínar færu mikið í loftinu enda eru Vídó-ar þekktir fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum.
kv frá Salzburg
Kjartan Vídó
Kjartan Vídó, 23.11.2007 kl. 08:49
Sæll Kjartan, minnið hjá mér er í topp standi og samtal okkar nánast orðrétt. Ég tek undir áhyggjur þínar varðandi það að ekkert muni gerast næstu 4 árin, en að öðru leiti þá virði ég þínar skoðanir sem og annarra. kv.
Georg Eiður Arnarson, 23.11.2007 kl. 11:46
Ég hef stórar áhyggjur af því hvernig næstu 4 ár verða, hvað varðar samgöngur, en ég hef nú meiriáhyggjur af árunum sem á eftir þeim koma og því hver framtíð Vestmannaeyja verður.
Jóhann Elíasson, 23.11.2007 kl. 13:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.