Samgöngumál

Það er margt og mikið að gerast í samgöngumálum okkar eyjamanna þessa dagana. Fyrir það fyrsta, þá las ég í Fréttum (útgefið í Vestmannaeyjum) í síðustu viku grein, þar sem ritstjórinn Ómar Garðarsson kvartar sáran yfir Herjólfi, vegna þess að þar vanti bæði útvarp og tölvutengingar sem lofað hafði verið af núverandi rekstraraðilum. Sjálfur fór ég með skipinu á fimmtudaginn upp á land í fínasta veðri, en þar sem spáin var slæm seinnipartinn var hætt við seinni ferðina og til að kóróna það þá var hliðarskrúfan biluð morguninn eftir, þannig að skipið komst ekki af stað fyrr en upp úr kl. 10 . Veðrið var þá mjög slæmt og brimið það mikið í Þorlákshöfn, að gripið var til þess ráðs að fá lóðsinn þar til að hjálpa Herjólfi inn í höfnina. Ég fór aftur til eyja með fyrri ferð á sunnudag og þá hafði ástandið enn versnað, vídeótækin í skipinu voru biluð og einhver vandamál í sambandi við sjónvörpin í sjónvarpssal líka, og ein þernan sagði við mig, að það væri í raun og veru alt í drasli þarna umborð. Til að kóróna þetta, þá þarf skipið að fara núna í slipp, í vonandi ekki meira en tvo daga og á meðan verðum við að treysta á flug.

Ég frétti af því í gær, að fjöldi fólks hafði mætt í gær til að reyna að koma bifreiðum sínum til eyja, en því miður komust ekki allir með og þurfa sennilega að bíða, jafnvel alla vikuna eftir fari, en vonandi verður þetta bara tveir dagar.

Það er mjög merkilegt að lesa nýjasta bloggið hjá (vini) mínum, Sigursveini Þórðarsyni, sem nú alt í einu er farinn að heimta nýjan Herjólf (reyndar segir hann líka að Bakkafjara sé framtíðin) en merkilegt nokk, þá hefur Sigursveinn ítrekað haldið því fram, að kosið hafið verið um framtíðarsamgöngur okkar í bæjarstjórnarkosningunum 2006 og þar hafi nýjum Herjólfi verið hafnað og næsta skerf sé Bakkafjara. Vonandi hef ég þetta rétt eftir honum, en fyrir mér hljómar þetta svolítið vitlaust. Til að kóróna þetta, þá heyrði ég á Bylgjunni í gær, viðtal við bæjarstjórann okkar þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum vegna ástandsins á Herjólfi og segir meðal annars: "Við höfum vitað það í næstum fimm ár, að tími sé kominn á að skipta út Herjólfi fyrir nýtt skip." Þetta þykir mér mjög merkilegt, komandi frá bæjarstjóranum, því að ég veit ekki betur en að nú séu í gangi hugmyndir um að nota núverandi Herjólf í Bakkafjöru, eða þangað til Bakkafjöruferjan verður tilbúin, þetta hljómar altsaman frekar undarlega, en það kemur alt í ljós.

Á eyjar.net var nýlega viðtal við fjármálaráðherra, Árna Matt, þar sem hann var spurður að því, ef ég man rétt, sérstaklega hvaða samgöngubætur við gætum vænst á næsta ári og ég man ekki betur en hann hafi talað um að það eina sem hann sæi að við gætum fengið fram að Bakkafjöruferju, væri ein flugferð á dag, aukalega yfir sumarmánuðina, svo ekki er nú útlitið bjart. Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Mæltu manna heilastur.Kem bráðum og fæ í"soðið"

Ólafur Ragnarsson, 4.12.2007 kl. 16:01

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mér sýnist á því sem ég les hjá þér að menn séu ekki alveg með það á hreinu hvað þeir vilja.

Jóhann Elíasson, 4.12.2007 kl. 16:55

3 identicon

Passaðu þig bara að vera aðeins svartsýnari en þú ert.

Vil samt segja þér eitt, það þarf engann geimvísindamann til að finna það út að Herjólfur er löngu kominn á síðasta söludag eins og stóð á kassanum þegar hann var keyptur. Það tekur tíma að vinna að nýjum samgönguleiðum en á meðan ættu allir að vera sammála um að við þurfum annað skip sem þó virkar. Ef þú telur þig vera Eyjamann þá áttu ekki skjóta annan slíkan niður heldur standa saman með þeim í fá okkar málum framgengt í sameiningu, annars væri fínt fyrir þig að fara eitthvert annað bara og ekki trufla þá sem vilja leysa málin.

Enga neikvæðni, því hún gerir meiri neikvæðni. Neikvæðni er langum meira smitandi en jákvæðni.

Haraldur Pálsson (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 17:16

4 identicon

Sæll Georg..

 Hvernig væri nú að sleppa pólitíkini úr þessu og tala um hlutina eins og þeir blasa við núna.

ég er algerlega á þeirri skoðun að Bakkafjara sé framtíðin, en fyrir mér er það bara allt önnur umræða. Nýsmíði á nýjum Herjólfi mundi fastsetja samgöngur okkar í þeim skorðum sem þær eru í núna, og gera ekkert fyrir okkar samfélag að mínu mati. Að taka nýrra og stærra skip á leigu til að leysa þetta skip af hólmi ætti bara ekki að þurfa að koma bakkafjöru umræðuni við. Hvernig væri nú að fólk sameinaðist núna um að koma pressu á ráðamenn hvort sem þeir vilja Bakkafjöru eða ekki. Málin eins og þau blasa við okkur núna eiga að snúast um almennt öryggi fólks á siglingaleiðini Þorlálshöfn-Vestmannaeyjar. Menn eiga að láta þetta tækniþras um hvort Bakkafjara sé möguleg eða glötuð alveg til hliðar núna og sjá til þess að menn komist ekki að því að Herjólfur sé orðinn of gamall þegar hann endar á hafsbotni!

Beggi (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 18:30

5 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sælir strákar!

Fyrst um það sem Haraldur skrifar. Ekki tel ég mig nú vera svartsýnan og ekki einu sinni neikvæðan, heldur raunsær. Varðandi (skot) mín á (vin minn) Sigursveinn Þórðarson, þá hefur hann margsinnis tekið það fram í skrifum sínum að næsta skref okkar í samgöngumálum okkar sé Bakkafjara og því er ég ekki sammála, enda vitum við eyjamenn flest allir, að tími er kominn á Herjólf.

Beggi. Ég hef nú margsinnis tekið það fram, að skoðanir mínar snúast ekki um pólitík, en því miður hafa sumir eyjamenn reynt að snúa þessu upp í einhverskonar pólitík. Ég tek hinsvegar undir skoðun þína í sambandi við Herjólf og bendi á það að samkv. þeim nýjustu upplýsingum sem ég hef, þá eru upp hugmyndir um að nota jafnvel núverandi Herjólf fyrstu árin í Bakkafjöru. Þetta þykir mér algjörlega fáránleg hugmynd. Ég virði skoðanir þínar um að Bakkafjara sé framtíðin, en langar að benda þér á lítið dæmi, sem ég frétti af í dag um afleiðingar sem margir eyjamenn hafa áhyggjur af, að muni aukast með Bakkafjöru. Í dag og í gær var engin vinna í Godthaab, þrátt fyrir að þeir ættu töluvert af fiski (eftir því sem mér er sagt). Vandamálið er, að fiskurinn er fastur uppi á landi. Þó að aðstæður séu sérstakar núna, þá er alveg ljóst, að með Bakkafjöru mun þetta vandamál bara versna. kv.

Georg Eiður Arnarson, 5.12.2007 kl. 19:20

6 identicon

Sæll Georg.

 Þegar ég nefndi pólitík , var þessu ekki beint að neinum ákveðnum heldur var þetta almennt. Hvað Bakkafjöru varðar að þá veistu bara akkurat ekkert um hvernig ástandið hefði verið ef höfnin í Bakkafjöru hefði verið fullbúinn. Veit bara að á þeim dögum þar sem hægt er að fara fyrriferð en ekki seinniferð í þorlákshöfn, hefði verið hægt að flytja töluvert fleirri farþega uppí bakkafjöru ef hægt hefði verið að sigla þann tíma sem það tekur herjólf að fara fyrri ferð uppí þorlákshöfn og til baka. jafnvel þótt miðað yrði við að Bakkafjöruferja tæki 350 farþega og 40 bíla. Ég er af þeirri kynslóð að ég tel að það sé fátt sem maðurinn getur ekki tekist á við. Ég horfði nýlega á þátt í sjónvarpinu þar sem bandarískir verkfræðingar voru fengnir til að hanna hraðbraut frá miðborg Boston og út á flugvöllinn þar og því miður verður að segjast að ef við hefðum 10% af þeirri áræðni og þeim vilja til að takast á við erfið verkefni og þeir, að þá værum við betur sett í dag.. Þar hönnuðu menn hraðbraut í jarðgöngum. Það sem gerir það svo sérstakt er að þau göng voru "boruð" í eðju!. Þar fengum menn hugmynd um að gera holur í drulluna og dæla einhverjum frystivökva í þær svo jarðvegurinn héldi á meðan menn ýttu forsteyptum einingum á undan sér uns göngin voru fullgerð. Það eru eitthvað um 40 sjómílur upp í þorlákshöfn og einhverjar 7 sjómílur í fast land undan suðurströndini. Að það skuli taka mig tvo tíma og 45 mínútur að komast á fast meiginlandið árið 2007 er bara fáránlegt og algjörlega óásættanlegt! Það tekur mig svipaðann tíma að fljúga frá keflavík til London. Og skítt með það þó að mönnum takist að sneyða þessar 45mín af við góða skilyrði með stærri ferju. Tver tímar eru tveimur tímum of mikið í vitlausu veðri um borð í ferju. Fólk í eyjum verður að fara að sætta sig við það að þær kynslóðir sem eru að koma upp núna sætta sig ekki við svona þröngsýni.

Beggi (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 23:34

7 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Beggi, ég skil vel unga fólkið og óþolinmæði þess yfir því að komast ekki í bæinn þegar því hentar og á sínum hraða. Ég efast ekki um það að Bakkafjara getur orðið góður kostur yfir sumar mánuðina, en samkvæmt minni reynslu og annarra þá hafa margir eyjamenn áhyggjur af  vetrar mánuðunum, við þurfum að komast hér á milli alla daga ársins og það á að vera krafa okkar annað er ekki boðlekt. Varðandi Boston þá efast ég ekki um að allt sé hægt ef menn hafa bara nóg af peningum en það höfum við ekki og taktu eftir, ef farið verður í Bakkafjöru þá verða aldrei göng.

Ég vona það svo sannarlega að Bakkafjara verði okkur öllum til góðs, en þessi leið á miðað við að við erum flest að fara í bæinn er því miður ca 200 sinnum hættulegri en með Herjólfi og það getur engin hrakið með rökum. Gangi þér allt í haginn. kv.

Georg Eiður Arnarson, 6.12.2007 kl. 07:28

8 identicon

Segðu mér Georg hvernig færðu út þá tölu að þetta sé 200 sinum hættulegra? Hvernig fer fólk frá austurlandi  að því að keyra þarna á milli??

Ef þett er svona hættulegt (200 sinnum hættulegra!!) afhverju talaði þá frjálslyndi flokkurinn fyrir göngum til eyja?? Það þarf að keyra sömu leið útúr göngum eins og frá bakkafjörunni, nema viðbætist meiri keyrsla í gegnum göngin og hættulegri.

Steini (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 10:07

9 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Steini, Það er held ég viðurkennd staðreynd að með göngum þá gætum við farið þegar okkur hentar, en það munum við ekki geta með Bakkafjöru frekar en með Herjólfi.  Ég tek það hinsvegar fram að ég er ekki sérstakur talsmaður fyrir göngum. Varðandi þetta 200 sinnum, þá hef ég þetta eftir Jóni bernódussyni á siglingamálastofnun og hef sjálfur orðað þetta svona, en þar sem þetta hefur ekki verið rannsakað þá er hægt að segja 100 sinnum, 200 sinnum og jafnvel 1000 sinnum, staðreyndin er sú að eftir því sem ég veit best þá hefur engin eyjamaður látist um borð í Herjólfi frá upphafi, en 3 á og við suðurlandsveg á aðeins rúmu ári, en þér er velkomið að reikna þetta út. kv.

Georg Eiður Arnarson, 6.12.2007 kl. 10:42

10 identicon

Komiði sæl

Skiptir þetta hættumat í raun einhverju út frá keyrslunni séð.  Er eitthvað líklegt að við förum að sigla á þann stað þar sem minnst hætta verður við keyrslu á þjóðvegum Íslands.  Er það ekki bara einhver áhætta sem maður tekur á kassan ef maður ætlar sér að taka þátt í nútíma samfélagi.  Veltir einhver fyrir sér hvar er hættulegast að keyra þegar hann ákveður hvert hann fer í sumarfrí.  Ef maður vill vera alveg öruggur og treystir sér ekki á þjóðvegi landsins þá verður maður að vera heima hjá sér.  Og ef maður þarf nauðsynlega að fara í borgina þá er kannski öruggast að taka flug til að sleppa við að keyra eitthvað. 
Þetta hættumat sem var gert sneri að sjálfsögðu bara að siglingu milli lands og Eyja vegna þess að það er ekki hægt að ætlast til þess að siglingastofnun haldi í höndina á okkur allann þann tíma sem við erum ekki í Eyjum.
Ef við værum alltaf að hugsa um hvað  væri minnst hættulegast að gera þá væri vand-lifað.  Georg þú værir líklega að gera eitthvað allt annað en að stunda sjómennsku t.d.

kv
Egill Arnar

Egill Arnar (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 15:17

11 Smámynd: Frjálslyndi flokkurinn í Eyjafirði

Það er gott Georg að fleiri virðast vera að ná áttum í samgöngumálum. 

Frjálslyndi flokkurinn í Eyjafirði, 7.12.2007 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband