30.12.2007 | 23:44
Bakkafjara og fleira og fleira
Soldið síðan ég skrifaði síðast, svo mig langar að byrja á því að óska öllum gleðilegra hátíða.
Mig langar að byrja á því að þakka Guðmundi Pedersen, rekstarstjóra Eimskips, fyrir skýr og greinargóð svör, varðandi aðfinnslur mínar og annarra eyjamanna um ástandið um borð í Herjólfi og sérstaklega er gott að vita hér með, við hvern maður á að hafa samband ef við eyjamenn höfum eitthvað út á Herjólf að setja.
Tek undir árnaðaróskir til Margrétar Láru og fjölskyldu hennar með hennar árangur og ítreka fyrri skoðun mína á því, að ef við ætlum að eignast fleiri svona glæsilega fulltrúa okkar á íþrótta sviðinu, þá þarf að klára þetta knattspyrnuhús strax.
Fyrir jól kom enn eitt glæsilegt nýtt skip til eyja, Dala Rafn og óska ég eigendum á áhöfn innilega til hamingju með skipið. Eyjamenn hafa verið duglegir á þessu ári að koma með ný skip til eyja. Það eru hinsvegar nokkur atriði, sem vekja athygli mína á þeim breytingum sem orðið hafa á bátaflota síðustu tvö árin og þá sérstaklega þetta atriði, þar sem útgerðarmenn leitast við að skipta út stórum togskipum, sem þurfa að halda sig fyrir utan tólf mílna veiðilögsöguna fyrir mun minni skip, sem geta verið að veiðum upp að allt að þrem mílum frá landi. Það sem mér finnst merkilegast við þetta er, að þarna eru útgerðarmenn að breyta sínum útgerðum í samræmi við breytta gönguleið fisksins, en á sama tíma er í togararalli Hafró, sem lagt er til grundvallar fyrir kvótum á Íslands miðum, togað á sömu stöðum og togað var fyrir 20 árum síðan. Er ekki eitthvað bogið við þetta?
Mig langar líka að taka undir sjónarmið Bergvins Oddssonar (Bedda á Glófaxa) sem kom fram í ágætu viðtali í Vaktinni (útgefið í eyjum) í síðustu viku, um að síðasta vertíð hafi sennilega verið einhver besta þorskveiðivertíð í Vestmannaeyjum síðustu 10-15 árin. Svo er nema furða, þó manni kvíði töluvert fyrir komandi vertíð, því hvað á maður að gera við allan þorskinn, ef Hafró hefur rangt fyrir sér?
Herjólfur fór ekki í dag og spurning hvort hann fari á morgunn og alveg ljóst að eyjamenn eru að vakna upp við vondan draum um það, hversu mikilvægar daglegar samgöngur eru fyrir okkur og ljóst að ég þarf enn einu sinni að skrifa setningu sem ég hef bæði skrifað og sagt ótal sinnum síðastliðin tvö ár. Við þurfum stærri og hraðskreiðari Herjólf STRAX.
Margir eyjamenn hafa rætt við mig um Bakkafjöru að undanförnu. Þeir sem eru fylgjandi Bakkafjöru eru nánast undantekningalaust annaðhvort mjög sjóveik eða sjóhrædd, svo það má alveg segja þetta þannig, að hræðsluáróður þeirra sem eru fylgjandi Bakkafjöru virki, því hvað er betra til árangurs við að fjölga stuðningsmönnum, en að telja sjóveiku fólki trú um það, að það losni við sjóveikina með Bakkafjöru. Í dag lenti ég á spjalli við fólk, sem þarf vegna vinnu sinnar að fara reglulega til Reykjavíkur, en á ekki bíl. Þetta fólk er á þeirri skoðun, að með Bakkafjöru, þá muni ferðalagið kosta þau mun meira en í dag og að frátafir verði mun fleiri, því eins og vinur minn, Páll Scheving orðaði það í grein fyrir nokkru, þá er það mjög vafasamt að tala um að fært sé, þegar ófært er að morgni og þú átt erindi í bæinn, en þú kemst seinni partinn.
10. janúar nk. verður haldinn opinn fundur í Café Kró (nánari auglýst síðar), þar sem mér skilst, að allir þingmenn FF ætli að mæta og jafnvel líka núverandi formaður kvennahreyfingar FF, Ásgerður Jóna Flosadóttir. Þarna gefst eyjamönnum tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri við alþingismenn okkar. Heitt verður á könnunni og vonumst við eftir góðri mætingu. Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já innilega Gleðilega hátíð Georg, já frábært að byrja nýja árið með stæl.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 31.12.2007 kl. 02:52
Gleðilegt ár, takk fyrir góð kynni á árinu 2007
Ester Sveinbjarnardóttir, 1.1.2008 kl. 00:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.