9.1.2008 | 15:20
Göng
Á morgun, fimmtudaginn 10. janúar verður haldinn fundur á vegum FF í Café Kró, þar sem þingmenn FF munu tala og svara fyrirspurnum og á sunnudaginn ætlar síðan samgönguráðherra að halda fund í Höllinni, þess vegna finnst mér alveg kjörið að skrifa um eitthvað sem ég hef aldrei skrifað um áður, þ.e.a.s. göng.
Ég held að flest allir eyjamenn séu sammála um það, að auðvitað væru göng besti kosturinn fyrir okkur. Vandamálið er, að göng eru líka dýrasti kosturinn, eða hvað? Ef litið er til lengri tíma, þá er ljóst að hvort sem hér verði Herjólfur áfram eða Bakkaferja, þá þarf reglulega að endurnýja skipið með tilheyrandi kostnaði og halda því við. Ef ég man rétt, þá voru útreikningar Ægisdyra manna þannig, að þeir reiknuðu með að aukning á bílaumferð til og frá eyjum yrði það mikið, að um 200 þús. bílar myndu fara þá leið árlega og með því að rukka gjald í göngin, 2500 kr á bíl, þannig fengist 1 milljarður á hverju ári, fyrir utan það framlag sem við erum að fá á hverju ári frá ríkinu vegna Herjólfs, þannig að miðað við göng, sem myndu kosta 30-40 milljarða þá væri hægt að borga þau upp á 30 árum.
Ég velti því hinsvegar fyrir mér, hvað ég væri tilbúinn að borga fyrir að geta komist milli lands og eyja hvenær sem er sólarhringsins, allan ársins hring og ég verð að viðurkenna alveg eins og er, að ég væri þess vegna tilbúinn að borga 5000 kr. fyrir bílinn, að því gefnu að ekkert þurfi að greiða fyrir farþegana. Miðað við 30-40 milljarða göng, þá er ljóst að með því að borga 5000 kr fyrir bílinn, tæki helmingi styttri tíma að borga göngin.
En er þetta svona einfalt? Ég átti ágætt samtal á síðasta ári við Árna Johnsen, þar sem hann útskýrði sínar hugmyndir um göng, sem ganga fyrst og fremst út á það að gera sambærileg göng og eru víða í Færeyjum, þ.e.a.s. göng sem eru einfaldlega boruð og malbikuð og nánast lítið annað gert. Ég bað nýlega kunningja minn og jarðeðlisfræðing um að útskýra fyrir mér á einfaldan og skýran hátt muninn á jarðlögum í eyjum og Færeyjum. Útskýringarnar voru mjög einfaldar og skýrar. Ef við gefum okkur það, að jarðlögin í Vestmannaeyjum séu ca. nokkur hundruð þúsund ára gömul, þá eru jarðlögin í Færeyjum 50 milljón ára gömul, svo það gefur auga leið, að þarna er talsverður munur, fyrir utan það að sjálfsögðu, að í eyjum búum við, við reglulegar jarðhræringar á meðan slíkt er algjörlega óþekkt í Færeyjum.
Þannig að mín skoðun er sú: Ef einhvern tímann verða gerð göng milli lands og eyja, verða þau sennilega að vera þríbreið, þ.e.a.s. með akrein í sitthvora áttina og einhverskonar neyðarafdrep eða neyðargöng, sem væru sérstaklega styrkt og þannig frágengið að fólk gæti annaðhvort gengið eða ekið út úr göngunum, ef eitthvað kæmi upp á. Þetta þýðir líka, að sennilega þyrfti að steypa göngin langleiðina og jafnvel setja styrkingar á veikustu köflunum. Þetta þýðir að sjálfsögðu, að mjög hæpið hlýtur að teljast að hægt sé að gera slík göng fyrir minna en 50-60 milljarða, en með því að rukka 5000 kr. á bíl þá væri samt hægt að borga göngin upp á ca. 30 árum. Þetta eru kannski ekki mjög nákvæmar útreikningar hjá mér, en þetta er, svona gróft séð, mín skoðun. Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll þetta verður svolítið langt hjá mér í þetta skiptið,
Það sem truflar mig svolítið við hugmyndina um göng er það að Ísland er á flekaskilum eins og það kallast í jarðfræðinni þar sem tvo jarðskorpufleka rekur í sundur. Hreyfing þeirra veldur svo jarðskjálftum og eldgosum hér í landi (ef ég man rétt úr jarðfræðinni í menntaskóla). Ef flekaskilin liggja í grennd við Vestmannaeyjar þá finnst mér svolítið ógnvekjandi að fara í gegnum göng þar sem eldgos getur byrjað að gjósa þá og þegar, en kannski er það bara mín hræðsla.Ég persónulega kann að meta það að Vestmannaeyjar eru eyja ótengd við meginlandið því það gerir að mínu mati samfélagið þéttara og betra.
Ég sjálf verð óskaplega sjóveik um borð í Herjólfi en samt sem áður myndi ég kjósa nýjan Herjólf þar sem sjaldan falla úr ferðir og hann fer hraðar og tekur fleiri bíla í stað þess að fá Bakkaferju sem ,,getur" gengið oft og er snögg en missir úr margar ferðir vegna ófærðar. Þetta er nú bara mín persónulega skoðun þó Bakkaferja sem gengur mörgum sinnum á dag á milli, allan ársins hring og missir ekki úr ferð hljómi auðvitað best.
Það sem ég myndi vilja fá á hreint er..
Hvað kostar nýr Herjólfur? Hvað kemst hann hratt á milli? Hvað getur hann tekið marga bíla?
Hvað þarf að leggja mikla peninga í að Bakkafjaran og ferjan verði að einhverju sem ,,virkar"? Er þetta framkvæmanleg hugmynd? Ef forsendurnar breytast ekki frá því sem þær eru núna hvenær verður þetta tilbúið? Hve marga daga á ári munu ferðir falla niður og hvað gera menn þá? Verður siglt til Þorlákshafnar í staðinn þá daga? Hvernig hyggjast menn leysa öll þessi mál? Mun það vera hættulegra að sigla á milli Vestmannaeyja og Bakka en Vestmannaeyja og Þorlákshafnar?
Þetta eru hlutir sem ég myndi gjarnan vilja fá svör við og ef ég fengi að ráða þyrfti að halda kynningu á Bakkaferjunni og nýjum Herjólfi og leyfa Vestmannaeyingum að kjósa hvorn kostinn þeir vilja heldur því ef göngin munu kosta fleiri tugi milljarða þykir mér ólíklegt að stjórnvöld samþykki það í bráð.
Að lokum, segjum svo að Vestmannaeyingar yrðu ánægðir með nýjan herjólf sem tekur 2-3 sinnum fleiri bíla og gengur á milli á 1 klst og 45 mínútúm en kostar 2 milljarða. Megum við þá fá þessa 4 milljarða sem ganga af miðað við Bakkaferjuhugmyndina til uppbyggingar í bæjarfélaginu?
Hildur
Hildur Sif (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 01:25
Sæl Hildur! Afsakið að ég svara svona seint, en ég var á sjó í alla nótt og í dag.
Varðandi fyrsta hlutann, þá er ég ekki jarðeðlisfræðingur, svo þú verður að leita annað með þá spurningu. Varðandi nýjan Herjólf, þá getur þú bæði skoðað myndir af Smyrli með upplýsingum í bloggfærslu minni frá 05.01.2008 og séð sennilega um 60 myndir af sama skipi inni á Heimaklettur.is, undir myndir úr Færeyjaferð. Miðað við að áætlað er að Bakkaferjan kosti um 1800 millj. þá er ekki óeðlilegt að áætla að sambærilegt skip og Smyril kosti um 3 milljarðar.
Varðandi frekari fjármagn í Bakkafjöru, þá kom fram á fundinum með bæjarstjórnar meirihlutanum í eyjum, að þeir telji sig hafa vilyrði fyrir frekari fjármagni í framkvæmdina og í raun og veri gera þeir sér vel grein fyrir því að 5,6 milljarðar muni aldrei duga til fyrir þessari framkvæmd.
Varðandi síðustu spurninguna, þá eru þessir peningar eyrnamerktir Bakkafjöru, og bara Bakkafjöru. Eitt enn, í sambandi við áhættumat á báðum siglingaleiðum,framkvæmt af Norsku fyrirtæki. Niðurstaða þess var sú að siglingaleiðin til Þorlákshafnar væri 6 sinnum hættulegri en upp á Bakka, eða eins og ég reikna það, Bakki x hálftími = 1 og Þorlákshöfn x 3 tímar = 6. Ef við hinsvegar tökum vegina inn í dæmið, þá er Bakkafjara mörg hundruð sinnum hættulegri leið, miðað við erum öll að fara á höfuðborgarsvæðið. Takk fyrir að koma á fundinn . kv.
Georg Eiður Arnarson, 11.1.2008 kl. 22:40
Sæll aftur Georg og takk fyrir svarið,
Mér fannst mjög gaman að koma á fundinn, það var bæði fróðlegt og skemmtilegt.
Í sambandi við áhættumatið, hvernig er hægt að gera áhættumat á Bakkafjöru áður en allar forsendur eru fyrir hendi um málið? Nú segja Bæjarstjórnarmenn að meira fjármagn eigi að vera lagt í verkefnið og því eiga eflaust einhverjar breytingar eftir að vera gerðar á framkvæmdinni. Ég er ekki viss um að nægar upplýsingar liggi fyrir að svo stöddu til að hægt sé að taka mark á þessu áhættumati og að auki, á áhættumatið við um alla daga ársins að meðaltali eða bara þegar skipin sigla í blíðskaparveðri?
Þar sem þessir 5,6 milljarðar hafa verið teknir frá ,,handa Vestmannaeyingum" finnst mér skrítið ef ráðamenn þjóðarinnar myndu vilja fá 2,6 milljarða til baka ef Vestmannaeyingar vilja frekar nýjan Herjólf. Eigum við þessa peninga ekki skilið og gætum við ekki nýtt þá í t.d. uppbyggingu spítalans? Mér finnst þessir peningar eigi að vera eyrnamerktir Vestmannaeyingum ekki Bakkafjöruverkefninu og því eigi þeir að fá að kjósa hvaða leið í ferðamáta milli lands og eyja þeim líst best á.
Ég segi enn og aftur, látum Eyjamenn kjósa um hvað þeir vilja. Lýðræðislegar kosningar og ég skal jafnvel bjóða mig fram í sjálfboðaliðavinnu við að sitja og skrá kjörsækendur. Þetta verður okkar hausverkur ef það fer illa og þá er eins gott að það höfum verið við sem völdum þá leið en ekki einhver annar :-)
Takk aftur Georg fyrir greinagott svar en þú veist vonandi að ég er ekki að óskapast út í þig heldur fyrirkomulagið á þessu öllu saman :)
Hildur Sif
Hildur Sif (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 00:23
Sæl Hildur,
Varðandi kosningu um samgöngumál okkar, þá hef ég bæði óskað eftir henni á blogginu hjá mér, í bæjarblöðunum og meira að segja skrifað áskorun þess efnis á bloggsíðuna hjá bæjarstjóranum. Hann hefur hinsvegar ekki séð ástæðu til að svara því, en ég tók þó eftir því snemma í haust að hann var spurður um þetta í viðtali í Vaktinni og svaraði hann því þá til, að aldrei hefði áður verið kosið um málefni okkar eyjamanna á þann hátt, og vísaði hann öllu slíku til samgönguráðherra.
Varðandi þetta svokallaða áhættumat, þá held ég að það hafi verið fyrst og fremst hugsað sem einhverskonar áróður gegn nýjum Herjólfi, en er að sjálfsögðu misheppnað ef vegirnir eru teknir inn í dæmið.
Ef þig vantar svör við einhverjum spurningum varðandi samgöngumál okkar, þá reikna ég fastlega með því að við sjáumst í Höllinni annað kvöld, því þar er maðurinn sem getur svarað, samgönguráðherra.
Georg Eiður Arnarson, 12.1.2008 kl. 10:31
finnst þér 5000 fyrir bílinn ekki soldið mikið ?
10.000 kall fram og til baka...
mér þætti það of mikið persónulega, og yrði það þess valdandi að ég held að maður færi mun sjaldnar en annars
Árni Sigurður Pétursson, 15.1.2008 kl. 12:34
Sæll Árni , já þetta yrði dýrt fyrir þá sem eru einir en mjög hagkvæmt fyrir fjölskyldufólk og ferðamenn sem koma með rútu . kv.
Georg Eiður Arnarson, 15.1.2008 kl. 14:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.