Sumar vikur eru merkilegri en aðrar

Í síðustu viku fór ég tvisvar á sjó og fiskaði tæp 4 tonn á 30 bjóð.

Fimmtudagurinn 10. var ansi stór dagur hjá mér. Það byrjaði strax um morguninn með því að ég fékk já við gagntilboði sem ég hafði gert vegna sölu á húsinu okkar, en með þeim skilyrðum að við værum búin að losa húsið fyrir 1. mars. Þremur tímum seinna vorum við búin að skoða 2 hús sem við vorum að spá í, tveimur tímum sinna sat ég á fundi með þingmönnum FF og fulltrúum meirihlutans í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Þar fór Grétar Mar á kostum eins og vanalega og máttu þeir bæjarstjórnar menn sín lítils í rökræðum við hann (aðeins var minnst á Bakkafjöru). Fundurinn var að öðru leiti góður og málefnalegur. Eftir fundinn var boðið í mat með þingmönnum okkar á Fjólunni. Kl. 20 hófst síðan opinn fundur hjá FF, ágætis mæting var, eða ca. 30 manns. Fimm mínútum áður en fundurinn hófst frétti ég það að ég væri orðinn fundarstjóri og þurfti að byrja fundinn með þessari skemmtilegu spurningu:"Hver á annars að tala fyrst?" Þau sem töluðu voru, Grétar Mar, síðan Ásgerður Jóna, Guðjón Arnar og loks Kristinn H. Öll áttu þau frábæra framsögu og er okkur eyjamönnum mikill heiður í því að fá þessa forystusveit FF í heimsókn. Eftir fundinn þurfti ég að rjúka heim, náði að leggja mig í ca. tvo tíma áður en ég fór á sjóinn.

Á sunnudaginn fór ég á fund í Höllinni, þar sem m.a. samgönguráðherra upplýsti okkur um framtíðarstefnu sína í samgöngumálum okkar eyjamanna og hef ég nú þegar skrifað um þann fund hér á bloggsíðunni minni og sent inn eina spurningu til siglingamálastofnunar.

Á laugardeginum fórum við síðan og skoðuðum þau tvö hús sem við vorum mest spennt fyrir, hugsuðum svo málið fram á mánudag og gerðum svo tilboð í annað þeirra og eftir aðeins klukkutíma umhugsunarfrest fengum við já, svo fram undan eru flutningar og mikið að gerast.

Af þeim landsmálum sem vöktu mesta athygli mína það sem af er þessu ári, þá er það t.d. umdeild ákvörðun heilbrigðisráðherra um að fella niður komugjöld fyrir börn á heilsugæslu en hækka verulega gjaldið á aldraða og öryrkja. Auðvitað þiggjum við þetta, við sem erum barnafólk, en mér finnst þetta persónulega rangt, því flest okkar sem eigum börn erum yfirleitt útivinnandi og á besta aldri á meðan öryrkjar og aldraðir eru nánast undantekningalaust á strípuðum bótunum og þurfa oftar að nota þessa þjónustu.

Dómur mannréttindastofnunnar í kvótamálinu vakti líka athygli mína, ég hinsvegar get ekki metið hversu mikil áhrif hann hefur í raun og veru en tel alveg ljóst, að nú sitji hópur lögfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar í að reyna að túlka dóminn sér í hag.

Árni Mathiesen er enn og aftur kominn á milli tannanna á fólki og nú vegna umdeildra ráðninga. Ekki ætla ég að tjá mig um það, ég hef hinsvegar fylgst mjög náið með Árna sl. áratug og hef þess vegna frekar lítið álit á manninum (sérstaklega meðan hann var sjávarútvegsráðherra). Það sem vekur hinsvegar mesta athygli mína, er að Árni Mathiesen er nánast horfinn í skuggann af núverandi sjávarútvegsráðherra Einars Kristins, vegna ótrúlegra heimskulegra vinnubragða hanns síðustu vikur og mánuði.  

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Sammála þér! Ekki viss um að niðurfelling á komugjöldum barna sé það sem kemur sér best. Önnur komugjöld hafa hækkað að sama skapi og meira en sem nemur þessari niðurfellingu. Öryrkum og öldruðum munar um þessa hækkun og eins og þú bendir réttilega á er flest barnafók útivinnandi. Það mætti fella niður komugjöld barna öryrkja til að mæta þeim hóp.

Ég sé að þú hefur haft í nógu að snúast, gott að vita til þess að þingmenn FF eru duglegir að láta sjá sig og ræða við fólk.  Fer ekki að fjölga hjá ykkur í FF úti í Eyjum eftir frammistöðu Sjálfstæðismanna????

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.1.2008 kl. 20:12

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Góður pistill, oft skemmtilegt að líta um öx og rifja um það sem maður er að fást við.

Ester Sveinbjarnardóttir, 19.1.2008 kl. 20:17

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Frábær pistill hjá þér!  Gangi þér og þínum vel með flutningana. Knús yfir til þín

Margrét St Hafsteinsdóttir, 19.1.2008 kl. 23:25

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Georg.

Já það má segja að það hafi verið nóg við að vera hjá þér, til lukku með nýtt hús.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 19.1.2008 kl. 23:50

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ekki vantar aflann.  Er bara ekki meiri fiskur í hafinu en sérfræðingarnir hjá HAFRÓ vilja meina?  Til hamingju með nýja húsið.  Bestu kveðjur

Jóhann Elíasson, 20.1.2008 kl. 16:01

6 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk fyrir þetta , ég réri tvisvar á síðasta sólahring svo ég er frekar lúinn . kv .

Georg Eiður Arnarson, 21.1.2008 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband