Eyjar eftir gos

Í dag eru 35 ár frá því að eldgosið í Heimaey byrjaði. Ég man vel eftir þessari nóttu. Ég var átta ára (á níunda ári) og í minningunni sé ég fyrir mér eldrauðan himininn yfir eyjunni og mikinn hávaða. Ég man eftir því þegar móðir mín, Margrét Júlíusdóttir, dró mig og tvö yngri systkini mín niður að bryggju til að fara í fiskibáti til Þorlákshafnar. Mikill fjöldi var við höfnina, en í minningunni voru flest allir eyjamenn rólegir og yfirvegaðir, þrátt fyrir að menn höfðu áhyggjur af því að höfnin kynni að lokast, áður en flotinn kæmist úr höfn (segi kannski meira frá þessu seinna).

Ég var að hlusta á Bylgjuna í morgun og var þar fjallað lítillega um eldgosið og sagt frá því að eyjamenn hefðu verið liðlega 5000 um gos, en aldrei náð þeirri tölu aftur. Þetta er að vissu leyti rétt, en í mínum huga ekki, því að á árunum 1980 og fram yfir 1990 var skráður íbúafjöldi hér frá tæplega 4700 og upp í 4923 þegar mest var, en á þessum árum var líka það sem áður var kallað vertíð í eyjum og ekki ólíklegt að miðað við allan þann fjölda aðkomufólks sem komu hingað á vertíð á árum áður, hafi slagað í að vera nær 6000 heldur en 5000. Þetta hefur hins vegar breyst mjög mikið, vegna kvótakerfisins og þá sérstaklega eftir að framsalið hófst. Í dag búa í Vestmannaeyjum liðlega 4050 manns, en stóri munurinn er sá, að nú kemur enginn á vertíð í eyjum.

Ég sá í viðtali við bæjarstjóra okkar, að hann lýsti yfir ánægju sinni yfir því að aðeins hafi fækkað um 36 skráða í eyjum á síðasta ári. Við sem störfum hinsvegar í sjávarútvegi hér í eyjum, vitum það hins vegar, að nú þegar hafa margar fiskvinnslur gripið til þess ráðs að flytja inn erlent vinnuafl til þess að reyna að fylla upp í þau störf í sjávarútvegi, sem heimamenn fást ekki lengur í. Ástæðan fyrir því er í raun og veru augljós; skilaboðin frá ríkisstjórninni eru alveg skýr, það mun fækka störfum í sjávarútvegi og það á að fækka störfum í sjávarútvegi. Ég hins vegar tek það fram að ég tek að sjálfsögðu hinum nýju eyjamönnum fagnandi.

Ég var að lesa í síðustu viku viðtal við Kristinn H. Gunnarsson, þingmann FF, þar sem hann lýsti breytingunum sem urðu í Bolungarvík með núverandi kvótakerfi. Lýsingin var einhvern veginn þannig, að áður en núverandi kvótakerfi byrjaði, bjuggu um 1300 manns í Bolungarvík. Á síðasta ári bjuggu þar (eftir því sem segir í viðtalinu) ca. 800 manns og þar af ca. 300 manns sem eru af erlendum uppruna og starfa fyrst og fremst í sjávarútvegi. Vonandi hafði ég þetta alveg rétt eftir.

Á fundi sem ég sat með fulltrúum meirihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyja, kom fram m.a. að meirihlutinn hefði tekið þá ákvörðun að reyna að rífa bæjarfélagið upp með því að horfa fyrst og fremst jákvæðum augum og með bjartsýni á framtíð eyjanna út á við. Þetta er svo sem ágætis mál og í raun og veru má segja sem svo að margt jákvætt er í ákveðnum farvegi til að fjölga atvinnu tækifærum í eyjum, t.d. er ennþá verið að skoða möguleika á stórskipahöfn, endurnýjun uppitöku tækja Skipalyftunnar (sko xF virkar) og ýmislegt fleira.

En það er líka til önnur framtíð hér og kannski ekki alveg eins jákvæð og björt. T.d. kom til mín maður í gær og sagði mér frá því að samkvæmt hans heimildum, væri fjöldi eyjamanna alvarlega að hugsa um að flytja héðan, einnig fékk ég þær fréttir að einn af fáum eyja bloggvinum mínum hefði nýlega misst vinnuna og hefur tekið þá ákvörðun að flytja í bæinn með sig og sína fjölskyldu, einnig lenti ég á spjalli við sjómann hér nýlega sem var að reyna að selja mér húsið sitt til þess að flytja upp á land, þrátt fyrir að hann væri í mjög góðu plássi og með ágætis tekjur hér í eyjum, og gaf hann mér þá ástæðu að hann, eins og svo margir sjómenn, hefði alveg skilið skilaboðin frá ríkisstjórninni og vildi tryggja sig og sína fjölskyldu með því að flytja upp á land, þar sem fleiri atvinnu tæki eru, ef þetta skyldi versna hér. Og til að kóróna þetta, þá frétti ég af því í síðustu viku, að Guðjón Rögnvaldsson, sem lagði bát sínum, Guðrúnu VE, í haust (þar misstu 14 vinnuna) hefur tekið þá ákvörðun að hætta vinnslu sínni í Eyjaberg og hefur nú þegar sagt upp öllum starfsmönnum sínum þar (á síðustu vertíð unnu þar 30 manns), svo ekki er nú alveg bjart yfir því. Það sem er kannski furðulegast við þetta allt saman, er sú ákvörðun hjá mér og minni fjölskyldu að þegar við loksins losnuðum við gamla, þreytta húsið okkar, þá tókum við þá ákvörðun að kaupa bæði helmingi stærra hús og liðlega helmingi dýrara, en það er nú svo, hér viljum við lifa og starfa áfram, en spurningin er sú hvort ekki væri bara betra fyrir okkur öll, ef bæjarstjórnin okkar færi að horfa svolítið raunsætt á það sem er að gerast í kringum okkur, í staðin fyrir að virðast lifa í einhvers konar draumaheimi.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Ég man ágætlega eftir þessari nótt. Var á unglingsaldri og hélt fyrst að það væri kviknað í austur á Kirkjubæ. Annað kom síðan í ljós. Ekki man ég eftir því að fólk hafi verið sérstaklega hrætt. Við komumst síðan til lands með Gjafari og tveimur dögum seinna fórum við pabbi með m.b. Gunnari Jónssyni frá Reykjvík til að tæma húsið og koma búslóðinni okkar upp á land. Það var ákveðin upplifun fyrir peyjann að koma til baka og verða vitni að atganginum sem var við að bjarga dótinu. Allt fljótandi í bjór. Menn klæddir í furðulegar "múderingar", sumir með gamla hermannahjálma og ólíklegustu menn að keyra vörubíla. Þvottavélar, ískápar og mublur settar í sömu stroffuna og híft um borð. Ekki mikið verið að velta fyrir sér rispum og einhverju smávægilegu hnjaski sem stofustássið varð fyrir. En allt fór þetta vel.

Eyjarnar urðu kannski aldrei þær sömu eftir gos. Mikið af rótgrónum Eyjamönnum komu ekki til baka og austurbærinn hvarf að mestu. En uppbyggingin gekk vel og það er til marks um samstöðu og samhug Eyjamanna hversu vel tókst til.

Ég á mjög sterkar rætur í Eyjum og verð alltaf Eyjamaður. Reyni að koma sem oftast til Eyja og börnin mín, þó fædd séu á fastalandinu, eru á vissan hátt Eyjamenn líka í gegnum tengsl og veru í Eyjum. En óneitanlega hefur maður séð í gegnum árin hvernig hnignunin hefur sett mark sitt á allt samfélagið. Atgervisflótti, glötuð tækifæri og "ólög" sem grafið hafa undan samfélaginu. Kjarkurinn og áræðið hefur minnkað og stundum finnst mér fólk vera fullt af þrælsótta og hafi bara sætt sig við ríkjandi ástand. Eyjarnar eru besta verstöð landsins, ekkert annað en "ólög" hafa breytt því að innanmeinið sem herjar á samfélagið grasseri áfram og að endingu geri útaf við samfélag sem áður var það fremsta hér á landi. Engar mótvægisaðgerðir sem felast í fjölgun opinberra starfsmanna eða að mála skúra í eigu ríkis eða bæjarsjóðs koma í veg fyrir að samfélög rotni innan frá. Það þarf alvöru aðgerðir! Aðgerðir sem fólgnar eru í því að opnað verði fyrir aðgengi allra að auðlindinni og þetta lénsskipulag sem verið hefur við lýði verði afnumið. Þá fyrst munu staðir eins og Eyjar rísa til fyrri vegs og virðingar vegna yfirburðar aðgengis að auðlindinni.

Aðgerða er þörf strax, en ekki einhverntíma í fjarlægri framtíð. Fiskveiðistjórnunarkerfið verndar ekki fiskistofnana og hefur ekki byggt þá upp. Það hefur heldur ekki aukið arðsemi. Skuldsetning í greininni hefur aukist 14 fallt frá því kerfið var tekið upp og sífellt fleiri grömm af þeim gula fara í greiðslu vaxta. Það þarf samstöðu, samstöðu fólks í sjávarbyggðum, til að varpa þessu oki af okkur. Vonandi opnast einhver vitræn umræða um þessi mál þegar umræðan um álit Mannréttindarnefndar SÞ fer að taka á sig einhverja mynd við Austurvöll. En ég er efins um það. Held að stjórnmálin séu orðin svo samgróin kvótakerfinu og einnig að skilningur fólks (sérstaklega stjórnmálamanna) sé þverrandi á að það þurfi að framleiða verðmæti og selja til útlanda til að hægt sé að búa hér úti í miðju ballarhafi.

Sjálfum finnst mér að breyta eigi fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann hátt að setja eigi t.d. 3ja mílna "sveitarstjórnarlögsögu" (Þrjár mílur í kringum Eyjar) og leyfa öllum sem heimilisfesti eiga í viðkomandi byggð að sækja sjóinn með færi og línu og skilyrða að aflanum sé landað og hann unninn í heimabyggð. Þá finnst mér að hverfa eigi frá kvótakerfinu og taka upp sóknardagakerfi. Bjóða árlega út á markaði með frjálsu framsali tiltekinn fjölda daga. Allur afli kæmi þá í land. Ég hef engar áhyggjur af kvótaveðsetningunni. "Verðmætið" myndi færast úr kvóta yfir á annan "rétt", réttinn til að veiða og hugsanlega myndu skipin fá annað og meira verðmæti í slíku kerfi.

Vona að sá dagur komi að við afléttum þessu oki af okkur. Gerist það ekki, er ég ekki svo viss um að Eyjranar eigi sér mikla von. 

Hagbarður, 23.1.2008 kl. 13:37

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk fyrir þetta Hagbarður , ég er sammála þér að mörgu leiti enn í bili, vertu alltaf velkominn heim aftur . kv .

Georg Eiður Arnarson, 23.1.2008 kl. 18:21

3 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Minningin um Gosnóttina hlýtur að vera sterk í hugum allar Eyjamanna. Enn skilur þjóðin ekki það ærðuleysi og fumleysi sem einkenndi ykkur þessa örlagaríku nótt. Hver maður virstist standa sem einn, ekkert hik, pat og læti. Ótrúleg viðbrögð sem allir geta lært af.

Sú mynd sem þú dregur af Eyjalífinu hér að ofan er hrikaleg en því miður sönn. Sjávarbyggðirnar eru að hrynja, sums staðar hefur sú þróun staðið nokkuð lengi yfir, sbr. Bolungarvík og fleiri byggðir á Vestjförðum. Að horfa á blómlega útgerð og byggðir þurrkast út er hrikalegt. Engin leið að réttlæta þá þróun. Ég trúi ekki öðru en að aðrar leiðir hafi verið færar. Höfundar þessarar stefnu enn við völd. Hvernig má það vera?? Því miður á þetta eftir að versna. Þeir sem geta, reyna auðvitað að þrauka því fólk vill búa í sínu samfélagi.
Hvernig hyggjast ráðamenn byggja upp úr rústunum? Kannski verður það ekki markmiðið. Það er augljóst að þeir ætla Vestfjörðum að verða sumarbústaðarparadís fyrir auðmenn í framtíðinni.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 23.1.2008 kl. 21:47

4 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæl Guðrún , ég hef oft skrifað þessa setningu " það getur bara versnað. Vandamálið er að til hvers ætti Sjálfstæðisflokkurinn að breyta um stefnu í kvótamálinu á meðan landsmenn kjósa þetta yfir sig ?  kv.

Georg Eiður Arnarson, 23.1.2008 kl. 23:46

5 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég man vel eftir gosinu, sá það frá meginlandinu.  Við fengum frí í skólanum í nokkra daga því skólstjórinn okkar fór til þess að flytja fólk frá Þorlákshafnarbryggju.

Ester Sveinbjarnardóttir, 24.1.2008 kl. 22:40

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Georg. Það hefur alltaf loðað við Íslendinga að þeir standa þétt saman þegar hörmungar ganga yfir eða slys verða. Yfirvegaðir og fumlausir, eins og þið kallið það hér á síðunni, vinna þeir að því sem gera þarf eins og einn maður. Annað er svo upp á teningnum þegar allt leikur í lyndi og huga þarf að framtíðinni. Þá hefur hver sína persónulegu skoðun á hlutunum og kýs kannski það sem verst er fyrir heildina í kosningum til sveita- og landsstjórna. Ég varð svo reið þegar ég las pistilinn þinn og man svo vel hvernig þetta var í minni heimabyggð í "den" Held að nú sé íbúafjöldinn meira en helmingi minni en þegar ég flutti og mest gamalmenni og útlendingar. F.S. Svona er þetta bara frá mínum bæjardyrum séð. Góða helgi Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 26.1.2008 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband