Bakkafjara. Ég sendi inn eina spurningu (árið gert upp)

Að gefnu tilefni ein spurning frá mér: Er það ekki rétt skilið hjá mér að samkv. mælingum ykkar í Bakkafjöru, verði skipið að vera lágmark 67 m. að lengd, en samkv. bæklingi sem samgönguráðherra dreifði hér í eyjum um síðustu helgi er gert ráð fyrir því að skipið verði aðeins 62 m. ?
Gaman væri að fá svar við þessu. 
 

Takk fyrir fyrirspurnina.  
Við könnumst ekki við að öldumælingar í Bakkafjöru gefi upp að lámarks lengd skips eigi að vera  67 metrar.  Lengd skips, sem líklega gefur minnstu hreyfingu miðað við algengustu öldu á rifinu, er talin vera 50-60 m eða þá tvöfalt lengra skip þ.e. 120 metrar og lengra.  Hreyfing skips er hins vegar háð mörgum þáttum, eins og til dæmis lögun skipsins, kenniöldu, öldulengd, siglingahraða o.s.frv.  Gert er ráð fyrir að ferjan verði milli 60 til 70 metrar að lengd og að skipið verði prófað í líkanstöð en þar verða mismunandi öldur keyrðar og hreyfingar skipsins mældar. Það getur verið að slíkar mælingar muni hafa áhrif á ákvörðun um lengd skips.

Til viðbótar við þetta, hefur mér verið sagt að landeyjarhöfn eigi að vera það lítil og þröng, að þar geti í mesta lagi 70 m skip snúið.

Í tilefni af því að það er ár síðan ég byrjaði að blogga og fylgjast sérstaklega með Bakkafjöru-duflinu, þá er mín niðurstaða þessi:

Þegar veðurfar er svona erfitt eins og síðastliðið ár hefur sýnt okkur, þá er nokkuð ljóst að frátafir geta orðið allt að tveir mánuðir á ári, en sem betur fer, marga dagana aðeins hluta úr degi. Ég er mjög ánægður með það, að mér sýnist að flestir eyjamenn séu farnir að gera sér grein fyrir því, að þó að styttri sigling sé mjög freistandi, þá sé það alveg ljóst að frátafir verði mun fleiri heldur en með núverandi Herjólfi, en vonandi munu fleiri ferðir gera það að verkum að áhrifin verði ekki eins slæm og sumir halda.

Ég hef verið spurður að því að undanförnu, hvers vegna ég sé hættur að skrifa: Bakkafjara, ófært, þegar það er ófært samkv. dufli. Mér finnst bara eitt ár í umfjöllun um þetta atriði, þó mikilvægt sé, orðið nóg frá minni hendi, enda er ég (þrátt fyrir að sumir haldi það) enginn sérstakur andstæðingur Bakkafjöru, en ég ítreka þó mína skoðun á því, að ef ég hefði haft eitthvað um málið að segja, þá hefði ég orðað það eins og ég hef svo oft gert áður, ég hefði viljað fara af stað strax vorið 2006 að finna stærra og gangmeiri Herjólf á núverandi siglingaleið, gefa þannig þeim sem hafa verið að rannsaka Bakkafjöru lengri tíma og einnig nota tímann til að klára rannsóknir varðandi göng.

 Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem skrifað hafa athugasemdir við umfjöllun mína um Bakkafjöru síðastliðið ár, ég tel mig hafa reynt að gera mitt besta til að svara öllum eftir bestu getu, en ítreka þá ósk mína að vonandi verði skrif mín fyrst og fremst til þess að skapa raunsæa og opna umræðu um samgöngumál okkar, og að betur verði vandað til verksins.

Takk fyrir mig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband