Vikulok í eyjum

Fór á sjó síðastliðna nótt upp úr kl. 1 eftir miðnætti. Vindur var hægur, en snjókoman það þétt, að ég varð að treysta algjörlega á plotterinn. Frekar leiðinlegt var í sjóinn, en þegar tíðin er búin að vera svona erfið verður maður að nota öll tækifæri. Ég var með 14 bala og lagði þá alla við Bjarnareinna. Fiskiríið var ágætt, eða 2,4 tonn og var ég kominn heim um hálf fjögur eftir hádegi.

Það er mjög ánægjulegt að sjá að eyjamenn séu aftur að taka við sjúkrafluginu fyrir eyjamenn og vonandi batnar þjónustan við það.

Ég sé að það er verið að kvarta yfir því á eyjavefjunum, að það taki viku að fá tíma hjá lækni hér á sjúkrahúsinu (ég hef reyndar lent í því að bíða í tvær vikur), svo vonandi verður sú staðreynd þegar þar að kemur, að það taki aðeins ca. 1-1 1/2 klukkutíma að komast á annað sjúkrahús, þegar Bakkaferjan verði komin í gagnið, ekki til þess að þjónusta heilsugæslunnar verði skert hér í eyjum.

Smá kvörtun frá mér. Ég fór með vinnubílinn í skoðun um mánaðamótin nóv./des. á síðasta ári, fékk þar athugasemd sem ég var búinn að kippa í liðinn þremur dögum seinna, hringdi svo strax í Frumherja til að panta tíma í endurskoðun, en var þá sagt að ekki yrði skoðað frekar í des. og það var ekki fyrr en um miðjan jan. á þessu ári, sem ég fékk að vita að næsta bifreiðaskoðun, yrði í eyjum á tímabilinu 18.-25. feb. Frekar léleg þjónusta og mikill munur frá því sem áður var.

Ég hitti í vikunni tilvonandi (hugsanlega) nýjustu leikmenn ÍBV í fótbolta, sem komnir eru alla leið frá Brasilíu, mér leist ágætlega á strákana, en veit lítið um knattspyrnu getuna hjá þeim. Ég lenti hinsvegar á spjalli við mann, sem á strák sem er að ganga á þessu ári upp úr öðrum flokki í meistara flokk og var sá ekki mjög hrifinn af þessum nýju leikmönnum okkar. Ég get að vissu leiti tekið undir þetta hjá honum og ég velti því fyrir mér, hvort það geti virkilega verið að í ÍBV verði í sumar jafnvel 7-8 erlendir leikmenn. Ef svo fer, þá lýst mér frekar illa á það, enda ekki góð skilaboð sem við erum að senda strákunum okkar héðan úr eyjum og svo spyr ég, hvernig verður þetta þá ef liðið okkar kemst upp í úrvalsdeild í haust? Verða þá keyptir enn fleiri leikmenn fyrir þar næsta leikár? Ég veit að þetta er mjög umdeilt hér í eyjum og geri mér vel grein fyrir því, að það geti verið erfitt að fá fólk til að vinna í sjálfboða vinnu fyrir flokka sem eru kannski ekki nógu sterkir til þess að vera að berjast um titla, en þannig hefði ég samt viljað hafa þetta, til þess að geta gefið krökkunum okkar fleiri tækifæri til að blómstra. Og þar að auki, er það ekki rétt að skuldir ÍBV hafi sjaldan eða aldrei verið meiri?   Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: þorvaldur Hermannsson

Sæll Goggi,Segðu mér er atvinnuástandið slæmt í Eyjum núna heldur fólkinu áfram að fækka??Ég er voða hræddur um að Ísfélagið og Vinslustöðin muni seija upp einhverju af fastráðnu fólki eftir loðnuvertíð.kv 

þorvaldur Hermannsson, 2.2.2008 kl. 14:40

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll valdi , já útlitið er ekki gott enda nýbúið að segja öllum upp á Eyjaberg , og svo hefur enginn Loðna fundist ennþá . kv .

Georg Eiður Arnarson, 2.2.2008 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband