19.3.2008 | 22:45
Bakkafjara og fleira
Það er mjög dapurlegt að ráðamenn Rangárþings eystra skuli ekki geta staðið við fyrra samkomulag um eignarhlutfallið á Landeyjarhöfn og þá sérstaklega þetta atriði, þar sem þeir segjast vilja hafa meiri áhrif á frekari uppbyggingu hafnarinnar í framtíðinni. Það er alveg ljóst að með þessu er verið að gefa tóninn um að Landeyjarhöfn eigi að starfa í samkeppni við Vestmannaeyjahöfn. Varðandi þetta svokallaða samkomulag, þá man ég vel eftir því að í Höllinni í feb. í fyrra komu fram spurningar um þetta atriði, og sjálfur spurði ég Arnar Sigurmundsson um þetta atriði, og hélt ég að ég hefði skilið hann rétt að það væri sem sé tryggt að Landeyjarhöfn yrði í 60% eigu eyjamanna. Framganga ráðamanna í Rangárþingi eystra er kannski gott dæmi um það, hversu lágt fólk er tilbúið að leggjast í von um gróða og í raun og veru mjög undarlegt, því það er að sjálfsögðu alveg augljóst mál, að með því að allir þeir ferðamenn sem sækja eyjar sjóleiðina munu að sjálfsögðu koma víða við í Rangárþingi eystra. Mín skoðun er óbreytt, ef eyjamenn koma ekki til með að ráða 60% yfir sínum samgöngumálum (ferjuhöfn), þá finnst mér að við ættum kannski að skoða betur aðra möguleika.
Af öðrum fréttum, þá er vertíðin hafin fyrir alvöru og fiskiríið síðustu daga verið nánast alveg með ólíkindum. Á sunnudaginn var ég með á þriðja tonn á tólf bala, fór svo á sama stað á mánudag með tólf bala og fékk hátt á fjórða tonnið. Einnig er gríðarlegt fiskirí í netin þessa dagana og raunar nánast í öll veiðarfæri. Vandamálið hinsvegar er að, fiskverðið hefur hrunið algjörlega á fiskmörkuðum og samkv. heimildum, þá fór meirihluti leiguliða útgerða ekki einu sinni á sjó síðustu tvo dagana, enda getur enginn róið og borgað með sér.
Stærsta fréttin að mínu mati í síðustu viku er samt af heimsókn fiskifræðinga til eyja í síðustu viku, þar sem, eftir því sem mér er sagt, kom fram í máli eins fiskifræðingsins sú stórfrétt að nýlega hefði veiðst þorskur í Barentshafi, sem hafði verið merktur af fiskifræðingum við Íslandsstrendur. Þetta er í samræmi við það sem margir sjómenn hafa oft sagt, að fiskurinn hafi sporð og fari ekki alltaf eftir því sem Hafró segir. Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð ábending, fiskurinn er nefnilega með sporð. Frábært að heyra að aflinn sé vænn, ekki veitir af.
Ertu hissa á mönnum í Rangárþingi eystra? Er það ekki alltaf svo með mannskepnuna; gróðrarvon breytir mönnum og loforð verða einskins verð. Gömul saga og ný. Hefði verið eðlilegt að ganga frá skriflegu, bindandi samkomulagi á sínum tíma
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.3.2008 kl. 23:20
Sæll Georg, það er ekki ný frétt fyrir mér að Bakkafjöruhöfn eigi bara að vera ferjuhöfn, ætli séu 15 mánuðir síðan að ég heyrði það fyrst svo fékk ég það staðfest hjá Eyjamanni sem vinnur hjá siglingarmálastofnun, og ég trúi því að auðvaldið ætlar sér að byggja stórskipahöfn, þannig að sveita fólkið veit þetta og vill auðvita sneið af kökunni, svo annað Georg við ráðum engu um samgöngur til og frá Eyjum akkúrat engu. Kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 19.3.2008 kl. 23:42
Það er ótrúlegt að einhver skuli svo mikið sem að láta sér detta í hug, að Rangárþing muni gangast inná það að ríkið byggi höfn...í þeirra landi og þeir skrifi uppá það að þeir hafi ekkert með hana að gera? Auðvitað verður þessi höfn, ef höfn skildi kalla, á þeirra könnu, það geta allir séð og verði þeim að góðu. Að halda að þar verði byggð einhver stórskipahöfn í samkeppni við Vestmannaeyjar er í besta falli barnalegt og ef svo undarleg humynd kæmi upp eða teldist raunhæf í framtíðinni, sem verður að efast um, þá væri það væntanlega vegna þess að Vestmannaeyjar gætu ekki sinnt verkefninu, eða að fyrir lægju einhver önnur not fyrir slíka höfn? Vonandi gengur þetta verkefni upp og Eyjamenn fái þá ferjutengingu sem þeir vilja, það er aðalmálið er það ekki og að það kosti ekki allt of mikið hvorki fyrir þjóðina eða þá sem ferðast?
Það eru miklar fréttir af þorskgengd víða í kringum landið, sérstaklega hérna á vertíðarsvæðinu og verður að telja með hreinum ólíkindum ef ráðherragungan bætir ekki við heimildir í þorskinum, eins og hann hefur heimild til ennþá.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.3.2008 kl. 09:35
Sæll Hafsteinn , Rangárþing var búið að samþykkja 40% þeirra og 60% eyjamanna , og þar fyrir utan þá er þetta land þarna í fjörunni nánast einskis virði og enginn hefur litið við því áður. Ég hef ekki áhyggjur af því að þarna rísi stórskipahöfn heldur frekar að þarna rísi löndunarhöfn í samkeppni við Vestmannaeyjahöfn og eyjarnar missi þar með sína helstu tekjulind . Ekki gott mál því að við höfum því miður ekkert annað .
Varðandi Þorskinn þá held ég því miður að þar sé sama hlið upp á teninginum og varðandi td gengið og svokallaðar mótvægisaðgerðir , það er of stutt síðan það var kosið , kannski skeður einkvað rétt fyrir næstu kosningar . kv .
Georg Eiður Arnarson, 20.3.2008 kl. 10:30
Sælir strákar, ég er drulluhræddur um að það verði samt raunin, ef menn komast að því eftir smá reynslutíma að það verði að stækka varnargarðana út fyrir sandrifið þá er ég hræddur um að þeir grafi sandinn út fyrir stórskipahöfn, því miður er þetta það sem ég óttast mjög mikið, því það er möguleiki á því
Helgi Þór Gunnarsson, 20.3.2008 kl. 10:38
Blessaður Georg! Það er að mér finnst, afar langsótt að það verði um fisklandanir að ræða við bryggju sem er sérbyggð fyrir þessa einu ferju, sem mér skilst að verði bundin við bryggjuna á tveggja tía fresti eða minna allan daginn? Þar fyrir utan er enginn til að taka fisk þarna fyrr en í Reykjavík í aðra áttina og Hornafirði í hina. Auðvitað gæti nóttin orðið nothæf í myrkraverk en það er langsótt líka. Að öllu samanlögðu mundi ég fagna því í þínum sporum ef þið þyrftuð ekki að setja þessa vitleysu inná hafnarsjóðinn ykkar. Þetta verður ekkert nema grátur eftir meiri peningum frá fjárveitingavaldinu, eitthvað sem flestir ættu að vilja vera lausir við?
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.3.2008 kl. 10:46
Það er rétt Helgi, það er full ástæða til að óttast ýmislegt þarna, en að sú óvissa leiði okkur í stórskipahöfn þarna finnst mér langsótt, það hefur nú ekki gengið of vel að kreista út það sem hefur þurft hérna í Þorlákshöfn, hvað þá þarna ef enginn væri tilgangurinn nema vegna ferjunnar?
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.3.2008 kl. 10:52
Sæll Hafsteinn, hvað segir þú þá um það að Björgunarfélagið hér í Eyjum fór nokkuð margar ferðir upp í bakkafjöru með rannsóknarhóp á vegum siglingarstofnunar og þeir fóru jafn margar ferðir austur í Vík í Mýrdal, það segir mér að þeir (auðvaldið)ætla sér að byggja höfn á suðurströndinni fyrir skipafélögin sem þeir eiga sjálfir. Snemma á síðasta ári hitti ég Jón Bernódusson hér í Eyjum og ég spurði hann að þessu og satt að segja varð hann kindalegur í framan og vildi ekki svara mér, ég sagði við hann að það væri allt í lagi ég skildi það vel að hann gæti ekki sagt neitt, eftir þetta samtal okkar er ég mjög hræddur um að þarna verði byggð stórskipahöfn.
Helgi Þór Gunnarsson, 20.3.2008 kl. 11:15
Sælir strákar , Hafsteinn þú ættir að lesa viðtal við Unni Brá inni á eyjar.net, þar talar hún meðal annars um áframhaldandi uppbyggingu á höfninni.
Helgi varðandi stórskipahöfn þá minnir mig að það hafi komið fram á fundinum með Gísla Viggóssyni , að kostnaður við slíka höfn í Bakkafjöru yrði svo gríðarlegur að hæpið væri að slík fjárfesting myndi borga sig . Stórskipahöfn á að sjálfsögðu að rísa við Eiðið á Heimaey ( mín skoðun ) . kv .
Georg Eiður Arnarson, 20.3.2008 kl. 15:12
Strákar, kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Hún gerir nú ekki annað á meðan en hún dregur út peninga í hafnarbætur þarna á sandinum þessi stúlkukind, ég segi nú ekki annað. Annars er margt ólíklegra en að einhver þingmannskjáninn hafi komið þessum hugmyndum í kollinn á henni, en það skal ég fullyrða hér og nú, að það verður kaldur dagur í helvíti þegar það skeður og við örugglega allir dauðir.....að minnsta kosti...
Auðvitað átti að fara vestur fyrir Eyjar og setja alvöru skip á þessa rútu til Þorlákshafnar, sem hefði styrkt stórskipahöfn á báðum stöðum, í Eyjum og Þorlákshöfn og stórbætt samgöngurnar milli lands og Eyja. En svona vill bæjarstjórinn ykkar hafa þetta og vonandi lukkast það, þó ég sé vantrúaður.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.3.2008 kl. 17:51
Nú er ég sammála þér Hafsteinn Viðar, en hlynntastur ég göngum, en ef göng eru ekki gerleg þá hefði ég viljað stórt skip í Þorlákshöfn. Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 22.3.2008 kl. 00:15
Jæja, kæri minn Georg.
Þú veist eins og ég að allar framkvæmdir við Landeyjahöfn eru farnar af stað.
Það þýðir ekkert að lemja hausnum við stein og segja ,,gangmeiri Herjólf strax" Það er firra og fjarstæða. Það er búið að ákveða Landeyjahöfn. Það má vel vera að við í Rangárþingi eystra höfum náð að að plata ykkur eyjamenn, en hvað um það.
En ég ætla samt ekki að vera með skæting, Georg og aðrir frjálslyndir í eyjum eru vinir mínir - og verða. En það fer pínu í taugarnar á mér þegar eyjamenn ætla sér að ,,gamsast" með okkar lönd og olnboga okkur til hliðar til að ná landi.
Hafsteinn...ég vinn ekki í banka!
Benóný Jónsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 00:34
Ég held Benóný að enginn hafi platað Eyjamenn, nema hugsanlega einhverjir þeirra menn, í bland við "Sturlunga". Það er laukrétt þarna verður engu haggað, eins og ég hef sagt í meira en ár og nú verðum við að vona það besta.
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 30.3.2008 kl. 01:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.