Bakkafjara, hugsanlega kafli nr 666 ( skyldi einhver vera búinn að fá nóg ?)

Mig langar að byrja þennan kafla á því að taka undir orð Magnúsar Kristinssonar í Fréttum, útgefið í Vestmannaeyjum, í dag og í raun og veru var eins og ég hefði skrifað þetta sjálfur. Þessi skoðun Magnúsar kemur mér reyndar ekki á óvart, vegna þess að ég tel að mikill meirihluti Vestmannaeyinga séu á þessari skoðun, eða eins og ég hef svo oft orðað það: Stærri, gangmeiri Herjólf strax.

Það hefur vakið athygli margra, hversu hart sjálfstæðismenn sækja það að fá þessa Bakkafjöru og á köflum hafa væntingar sumra þeirra minnt mig á annað mál, sem tengdist eyjum fyrir nokkrum árum síðan, eða þegar Keiko kom til eyja og hitti ég m.a. einn þáverandi bæjarstjórnarmann, sem lýsti því yfir að nú yrðum við öll rík. Eitthvað varð nú lítið um ríkidæmið vegna Keikos, en í minningunni má þó segja það, að nokkrir eyjamenn fengu þó vinnu við þetta, hingað kom töluvert af erlendu fólki sem vann við þetta og ég kynntist lítillega og kunni ágætlega við, en fyrst og fremst, þá minnist ég Keiko, fyrst og fremst fyrir nokkrar ánægjulegar stundir fyrir framan sjónvarpið, horfandi á Spaugstofumenn sem fengu mikið efni út úr Keiko. Kannski er þetta ekki alveg sambærilegt og Bakkafjara, en mér finnst eins og væntingar sumra séu á þann veginn, að með Bakkafjöru verðum við öll rík.

Í fyrradag lenti ég á spjalli við eldri mann hér í bæ, sem ég er búinn að þekkja meirihlutann af minni ævi og hef mikið álit á og m.a. rætt nokkrum sinnum við um Bakkafjöru, sá hafði þetta að segja núna:" Af hverju viltu hætta við Bakkafjöru?" og ég svaraði:"Ég hef aldrei verið, eins og þú veist, sérstaklega hlynntur Bakkafjöru, en ég tel að þar sem líkurnar á því, að ef þetta gangi upp, þá muni rísa höfn sem hugsanlega keppir við höfnina hér í eyjum og tel ég að þar með sé endanlega, að mínu mati, staðfest að þetta sé lang versti kosturinn fyrir okkur eyjamenn í samgöngumálum okkar." Spurði ég hann, hversvegna hann væri að skamma mig fyrir að vilja hætta við Bakkafjöru og fékk það svar, að ég ætti að vita það, eins og hann, að íhaldsmenn hefðu ákveðið þetta fyrir mörgum árum síðan. Ég sagði honum það, að vissulega hefði ég heyrt þessa kjaftasögu oft og mörgum sinnum, en ég hefði ákveðið að leyfa mér það, að efast um að hún væri sönn, vegna þess einfaldlega að ég trúi því ekki, að menn séu svo vitlausir að ákveða svona mikilvæga hluti löngu áður en rannsóknum var lokið.

Tvö atriði tengd Bakkafjöru vöktu athygli mína s.l. hálfan mánuð, í fyrsta lagi, gríðarlegt landbrot vegna sjógangs í Vík í Mýrdal, þar sem, eftir því sem heimamenn segja, sjórinn hefur brotið sér um 350 m í áttina að þorpinu á aðeins liðlega 30 árum. Einnig vakti athygli mína ferð manna á mótorhjólum í fjörunni hér á móti, þar sem einn þeirra varð fyrir því að hjólið drap á sér í fjöruborðinu og neyddist maðurinn til að sleppa hjólinu til að bjarga sjálfum sér úr briminu, en brimið var svo mikið að mótorhjólið tók út, og sést að öllum líkindum aldrei meir. Það er ekkert nýtt, að fólk sem er ekki vant því að eiga við náttúruöflin, vanmeti náttúruna. Þetta hljómar svolítið eins og:" Eigum við að skreppa upp í Vík í Mýrdal og fá okkur ís." Meira seinna .


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Menn eru ekki á réttri leið þarna, finnst mér. Það er enginn vafi í mínum huga að þessi leið er löngu ákveðin.

Það fer ótrúlega lítið fyirr bæjarstjóranum ykkar núna

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 28.3.2008 kl. 00:42

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Georg.

Óhjákvæmilega situr í manni efi varðandi það atriði að menn viti hvað þeir eru að fara út í þarna.

Væntanlega væri ófært núna hvað veður varðar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 28.3.2008 kl. 00:46

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

"Þrjú tonn af sandi" söng hljómsveitin Haukar hérna um árið - ég er ansi hræddur um að tonnin af sandi verði aðeins fleiri en 3 þarna áður en framkvæmdum lýkur ef þeim þá lýkur nokkurn tíma.

Jóhann Elíasson, 28.3.2008 kl. 09:06

4 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þetta er með ólíkindum hvernig bæjarstjórinn okkar hagar sér.  Nú þegar augu allra eru að opnast fyrir því  hve arfavitlaus þetta Bakkafjöruævintýri er þá snýr bæjarstjórinn sér undan og skrifar um stórskipahöfn. Hann virðist svo raunveruleikafyrtur að halda það, að stórskipahöfn verði byggð samtímis byggingu hafnar við Bakkafjöru.  En það er engum bannað að láta sig dreyma.

Þorkell Sigurjónsson, 28.3.2008 kl. 11:55

5 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Georg, þetta með að trúa og að hlutir eru trúlegir á vel við í þessu Bakkafjörumáli, ég persónulega trúi því að auðvaldið hafi verið búið að ákveða höfn á suðurströndinni og ég veit það fyrir víst að svo sé, af því er ég á móti byggingu hafnar upp í Bakkafjöru, ég er einfaldlega drulluhræddur um að Eyjarnar verði elliheimili eftir 20-30 ár.

Helgi Þór Gunnarsson, 28.3.2008 kl. 19:46

6 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Kom þessi bæjarstjóri ykkar úr Ceeriospakka eða beint úr "stuttbuxnadeildinni"...?

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 28.3.2008 kl. 21:05

7 identicon

Ætli hann hafi ekki komið sömu leið og þú kæri Hafsteinn.

Halldór (IP-tala skráð) 28.3.2008 kl. 22:01

8 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Takk fyrir athugasemdirnar öll , ég er sammála ykkur öllum og þá sérstaklega því sem Helgi skrifar en ætla mér að leifa mér að efast um að þetta sé löngu ákveðið ( allavega á meðan ég fæ engar sannannir fyrir því ) ég veit vel að Bakkafjöru höfn hefur verið í umræðunni í mörg ár en það hafa göng líka verið .

 Varðandi bæjarstjórann okkar þá þekki ég hann ekki nægilega vel til að geta úttalað mig um hann, en mér sýnist hann vera í sama vanda og margir sem á undan hafa komið , það er að segja það hlýtur að vera erfitt að stjórna á sama tíma og vera með allt gamla íhaldið á bakinu , en mér sýnist vera farið að örla á því að sumir séu með þingmanninn í maganum . Ég þekki hinsvegar foreldra hans ágætlega og kann afskaplega vel við þau . kv .

Georg Eiður Arnarson, 28.3.2008 kl. 22:11

9 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Nei andskotinn, það mundi ég vita um Halldór....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 28.3.2008 kl. 23:57

10 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Ef satt á að segja um okkur,

er sekur hver einasti flokkur

um straklega hrekki,

enda stjórnmálin ekki

okkar sterkastahlið, ef þá nokkur

Höfundur Jóhann S. Hannesson

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 30.3.2008 kl. 00:20

11 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er góð limra, Þorsteinn Valdimars hefði varla gert þetta betur...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 30.3.2008 kl. 01:11

12 Smámynd: Sigurbrandur Jakobsson

Sæll Georg þetta er flott hjá þér. Sammála þér að lausnin er að endurnýja Herjólf. Það er styttra frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og allra helstu samgönguæða til og frá landinu og um landið. Auk þess er kominn mjög góð höfn í Þorlákshöfn sem er nýbúið að endurnýja. Ég hef enga trú á svona tilraunamensku eins og Bakkafjaran verður.

Bestu kv

Sigurbrandur Jakobsson, 4.4.2008 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband