22.4.2008 | 18:18
Lundaráðstefnan
Það var fínasta mæting á lundaráðstefnuna í fyrradag og margt mjög merkilegt sem þar kom fram. Til að byrja með langar mig að samgleðjast þeim á setrinu, því að í máli þeirra kom fram að miklir fjármunir hefðu fengist að undanförnu til að stunda m.a. lundarannsóknir og er það að sjálfsögðu ánægjulegt.
Í máli Erps kom fram, að hugmyndir hans um lundaveiðistopp í sumar séu fyrst og fremst tillaga og byggist ekki á því, að lundastofninn sé í einhverri hættu eins og staðan er í dag, heldur fyrst og fremst á því, að menn hafi áhyggjur af því að síðustu 3 árin, séu aðeins fyrstu 3 árin af lélegri nýliðun lundastofnsins og að þess vegna sé rétt að grípa inn í núna. Ég spurðist fyrir um nýliðunina á árinu 2005 (sem að mínu mati var í góðu meðallagi) en að mati Erps, væri nánast engin og rökin hjá honum fyrir því voru þau, að tveggja ára lundinn hefði átt að skila sér sem 28% af veiddum lunda s.l. sumar. Ég spurði hann, hvort það væri ekki möguleiki að sá lundi gæti hugsanlega skilað sér í sumar, enda síðustu 3 ár í alla staði mjög undarleg hjá lundanum í eyjum, en eitthvað fátt var um svör.
Annað atriði sem kom fram í máli Erps er nýliðun á árinu 2007. Útreikningarnir voru einhvernvegin þannig: Áætlaðar lundaholur í Vestmannaeyjum, 1.300 þús. Farið var í 1.300 holur, eða 0,1 % (ég held reyndar að holufjöldinn sé töluvert meiri, en það er að sjálfsögðu erfitt að finna það út). Samkvæmt útreikningum Erps, þá komu pysjur út úr liðlega 16% holanna og fær hann það út, að á síðasta ári hafi 82.000 pysjur komist á legg. Það sem mér þykir undarlegast við þessa tölu er í samræmi við fyrri grein mína um lundann, þ.e.a.s. 2.000 pysjur vigtaðar í Sædýrasafninu. Annað eins, eða um 2.000 pysjur lenda í höfninni eða eru ekki vigtaðar, samt. 4.000 pysjur og eru því samkv. útreikningum Erps 5% af öllum lundapysjum í Vestmannaeyjum, sem lenda í bænum eða höfninni. Þetta tel ég vera alrangt og ætla að halda mig við að bæjarpysjan sé vel innan við 1/2% og nýliðun á síðasta ári samkv. því allavega 300.000 pysjur.
Varðandi veiðina í sumar, þá verður fundur haldinn þegar ástæða verður talin til og lagðar fram tillögur frá veiðimönnum og þótti mér ánægjulegast, að því var lofað að tillit yrði tekið til veiðimanna á heimalandinu.
Það athyglisverðasta sem kom frá Bæjarráðsmönnum, eru hugmyndir um að stofnuð verði veiðifélög um veiðar á Heimaey, og höfum við nokkrir nú þegar rætt þetta, kannski má segja að merkilegast við þetta, sé hugsanlegur viðsnúningur í Bæjarstjórninni, vegna þess, að oft hefur verið sótt um einkaleyfi á hin og þessi fjöll, en því hefur hingað til alltaf verið hafnað.
Það kom greinilega fram í máli rannsóknaraðilanna, að nú eigi að taka til í skráningu lundaveiðigagna og er það bara ágætt, en það kom greinilega fram á fundinum, að í þeim málum er pottur víða brotinn.
Ein spurning kom fram, sem ég svaraði og langar að bæta við svarið, það er ástæðan fyrir hruni lundastofnsins í Færeyjum. Upp úr aldamótunum 1900 komu nokkur kaupskip til Færeyja og báru með sér skæðan rottufaraldur, sem á nokkrum árum eyddi upp nánast öllum lundanum í Færeyjum og á ferð minni í Færeyjum 2006, var mér t.d. sýnd lundabyggð í Suðurey, sem hafði talið 60.000 pör, en þar var ekki einn einasti lundi lengur og engin ummerki lengur um holur. Eftir mikla leit í Suðurey, rakst ég á nokkra lunda sem héldu sig utan í björgum þar sem algjörlega ókleyft var að, sama má segja um aðrar fuglategundir sem við þekkjum, að hér í eyjum halda sig utan í jafnvel minnstu klettum, en reyndar eru veiddar nokkur þúsund lundar í eyjunni Mykinesi við Færeyjar, en hún er það brött og hafnaraðstæða nánast engin, að stór skip komast ekki þar að.
Þó ég sé ekki alfarið sammála Erpi og þeim að öllu leyti, þá er ég mjög ánægður með fundinn og vona það að haft verði fullt samráð við veiðimenn um framhaldið og get alveg tekið undir það, að vissulega á lundinn að njóta vafans, en ég er ennþá á þeirri skoðun að margt bendir til þess, að lundastofninn sé í dag jafnvel í sögulegu hámarki. En nóg um það, takk fyrir mig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Georg, ég er sammála þér, það er alveg óhætt að veiða eins og hver getur því það er svo lítið brot af stofninum sem er snúið úr, ég vona bara að maður fái lunda á þjóðhátíðinni, kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 22.4.2008 kl. 23:15
Það er vonandi að rétt ákvörðun verði tekin í framhaldi af þessum rannsóknum.
Ekki ætla ég að dæma um hvort mikið eða lítið sé um lunda eða hvort rétt sé að gera hlé á veiðum. En maður hlýtur að spyrja sig hvort ekki sé eitthvað að, því nokkurnveginn það eina sem ég hef heyrt síðustu árin er einmitt að pysjan verði alltaf í minna magni í bænum ár hvert.
Það getur verið rangt hjá mér en alltaf finnst mér hljóðið verða verra og verra með hverju árinu. Kanski það sé bara svartsýni og svekkelsi í foreldrum sem hafa þurft að hugga börnin sín eftir dapra "veiði"
Vona að lundaveiðimenn hugsi um stofninn framyfir eigin hagnað af lundaveiði hvort sem er af peningalegu sjónarmiði eða af ævintýramennskunni og gefi honum frí ef þess þarf, sem ég svo aftur á móti vona að ekki þurfi..
Við þekkjum það nú svosem að td sjómennirnir okkar sjá meiri fisk í sjónum en fiskifræðingarnir gera og kanski er það bara eins með þessa fræðinga.
Frábærir pistlar hjá þér alltaf. Nokkuð sammála þér oftast.
Stefán Þór Steindórsson, 23.4.2008 kl. 09:56
Sæll Stefán , þarna hittirðu naglann á höfuðið , "svekkelsi foreldra og barna vegna lélegrar veiði " málið er nefnilega það að síðustu 3 árin hefur Pysjan skilað sér óvenjulega seint og yfirleitt eftir að skólar eru byrjaðir . kv .
Georg Eiður Arnarson, 23.4.2008 kl. 10:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.