11.5.2008 | 11:22
Sjóstöng o.fl.
Hún byrjaði frekar illa, sjóstöngin, hjá mér og endaði frekar illa hjá öllum. Fyrir það fyrsta, þá tognaði ég á fingri á fimmtudaginn og aðstoðarmaðurinn komst ekki með og til að kóróna það, þá komst aflahæsti veiðimaðurinn frá því á síðasta ári ekki til eyja, en hann átti að vera umborð hjá mér, þannig að í staðinn fyrir að fara með fjóra veiðimenn, þá fór ég með þrjá veiðimenn. Veðrið var frekar erfitt fyrri daginn framan af, en lagaðist þegar leið á daginn. Gallinn var sá, að þegar hann loksins lægði alveg gerði alveg gríðarlega sterkan straum. Það góða við strauminn er, að í fyrsta skipti í mörg ár fékkst lúða umborð hjá mér, en sú ánægja stóð því miður ekki mjög lengi, því á leiðinni í land, fréttum við að á öðrum bát hafði fengist mun stærri lúða. Fiskiríið var að sjálfsögðu misjafnt eftir bátum, en mér sýnist aflinn umborð hjá mér hafi verið á milli 500-600 kg. Þar af helmingurinn á eina stöng.
Seinni dagurinn er öllu verri, því þegar við vöknuðum í morgunn var kominn austan 20 og var mótið slegið af kl. 8 í morgun. Þannig að lokatölur eru þessar: 37 veiðimenn veiddu samtals 7 tonn af blóðguðum fiski, mest þorsk.
Þar sem ég er hættur að tala um Bakkafjöru, þá langar mig að segja nokkur orð um Landeyjarhöfn. Í Fréttum s.l. fimmtudag, útgefið í eyjum, er viðtal við Gunnlaug Grettisson, forseta bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, þar sem hann segir m.a.:" Mikið af fólki er að flytja til Vestmannaeyja, vegna þess að Landeyjarhöfn er væntanleg." Ég er sammála Gulla að hugsanlega geti fólk flutt til eyja á næstunni, en ég er ansi hræddur um að það hafi lítið með Landeyjarhöfn að gera. Ég held miklu frekar, að þegar harðnar á dalnum á höfuðborgarsvæðinu, eins og nú er að gerast, þá er það alþekkt að fólk flykkist út á landsbyggðina, svo kannski má segja sem svo, að þarna séu ákveðin sóknartækifæri fyrir eyjamenn, t.d. er mjög ánægjulegt að bæjarstjórnin skuli halda áfram á mjög myndarlegan hátt að vinna að helsta stefnumáli F-listans fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar, þ.e.a.s. það hefur verið tekin ákvörðun um að á næstu 3 árum verði settar 700 milljónir í stórskipahöfn (og er þá reiknað með að ríkið setji 60 % á móti). Þetta er mjög ánægjulegt og í algjöru samræmi við stefnu Frjálslyndra. Einnig er mjög ánægjulegt að hér á að fara að reisa vatnsverksmiðju sem á að selja á erlendan markað, svo vissulega eru líkur á því að ný störf geti orðið til á næstunni. Einnig kemur fram í máli Gunnlaugs að mikið ásókn sé í lóðir í Vestmannaeyjum. Þetta mál þekki ég aðeins, því verktakinn sem keypti af okkur gamla húsið, hefur eftir því sem mér er sagt, sótt um nánast hverja einustu lóð sem losnar hér í eyjum, keypt upp fullt af eldri húsum, en eitthvað virðist vera lítið um framkvæmdir í bili, og spurning hvort að fjármálakreppa bankanna spili ekki stórt inni í þar eins og annarsstaðar.
Næsta vika er mjög spennandi, því að á þriðjudaginn rennur út hugsanlega síðasta tækifæri hjá bæjarstjóranum okkar, að gera tilboð i rekstur Landeyjarhafnar og í raun og veru er erfitt að segja til um það í dag, hvort af þessu verður eða ekki. það er hinsvegar nokkuð ljóst, að bærinn þarf að lækka verulega sitt tilboð og spurning hvort að þarna sé hugsanlega verið að búa til nýja fjárhagslegan bagga á eyjamönnum og í raun og veru er alveg með ólíkindum, hversu hart bæjarstjórinn sækir að fá þessa Landeyjarhöfn og virðist í dag vera tilbúinn að gera nánast hvað sem er til þess að þetta verði að veruleika, en það skýrist vonandi í vikunni.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:25 | Facebook
Athugasemdir
Leitt að heyra hvernig fór með sjóstöngina. Alltaf mikið lagt í hana og mikil stemning, man ég þó aldrei færi ég.
Fróðleg lesning, vona að íbúaþrónunin sé í raun jákvæð hjá ykkur Eyjamönnum en er ansi hrædd um að ástæðan fyrir fjölgun sé einmitt sú sem þú nefnir. Oftar en ekki er sóst eftir velferðarþjónustunni á landsbyggðinni þegar harðnar í dalnum á höfuðborgarsvæðinu.
Það verður fróðlegt að fylgjast með samningaviðræðum á milli ráðamanna Eyjamanna og Vegagerðarinnar. Einhverra hluta vegna virðist bæjastjórinn ekki líta á það lengur sem forgangsmál að bærinn komi að samgöngmálunum, nóg sé að þau verði ,,í góðum höndum".
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 11.5.2008 kl. 14:56
Sæll Georg Hvernig væri nú að kveikja ljós í ganginum og athuga hvort þú sjáir ekki eithvað sem gæti verið jákvætt við Landeyjahöfn Held að þetta sé orðið manist hjá þér kveðja Helgi Lása
Helgi Lása (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 22:32
Sæll Helgi , það er margt jákvætt við Landeyjarhöfn , en vandamálin það mörg sem og vafamálin að ég tel þetta ekki verjandi .
Það er gott ljós í ganginum hjá mér en ef þig vantar peru þá á ég auka . kv .
Georg Eiður Arnarson, 12.5.2008 kl. 00:43
Ánægjulegt að fólki sé að fjölga í Eyjum, ég er nú ekki á því að fyrirhuguð höfn í Bakkafjöru sé ástæðan. Við verðum bara að vona að sjóstöngin gangi betur næst.
Jóhann Elíasson, 12.5.2008 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.