25.7.2008 | 13:37
Að gefnu tilefni (lundafréttir)
Það er hálf undarlegt að lesa forsíðuna á Fréttum í gær, þar sem segir: Veiðin aðeins brot af því sem eðlilegt er. Þetta hljómar frekar neikvætt, en er ósköp eðlilegt vegna þess, að í staðinn fyrir að veiðar hefðust 1. júli var ákveðið að veiðar hefðust 10. júlí. Síðan kemur: Ungi fuglinn sést varla ennþá. Allir vanir veiðimenn vita það, að yfirleitt kemur ungi lundinn ekki fyrr en seinni partinn í júlí og oft jafnvel ekki fyrr en í ágúst. Þess vegna er ósköp eðlilegt að framan af júlí sé uppistaðan í veiðinni fullorðinn fugl, en það er þó misjafnt eftir árum (sá hinsvegar mjög undarlega forsíðugrein í 24 stundum í fyrradag, þar sem Erpur Snær heldur fram fullyrðingum, sem allir vanir veiðimenn vita að er algjörlega út í hött). En nóg um það, í grein Frétta er rætt við þrjá veiðimenn.
Ívar í Elliðaey segir að það vanti alveg ungfuglinn. Ekki veit ég til þess að Ívar sé mikill lundaveiðimaður, en ég hringdi að gamni mínu í Þórarinn Sigurðsson (Tóta í Geisla) og spurði hann þessarar spurningar:" Er það ekki rétt hjá mér að ungi fuglinn skili sér að öllu jöfnu ekki fyrr enn seinni hlutann veiðitímans inn í veiðina"? og svarið var:" Það er alveg rétt"
Ég hringdi síðan áðan í Halldór Sveinsson í Álsey og var Halldór bara nokkuð bjartur með ástandið, en tók það skýrt fram, að hann hefði aðeins farið í einn dag út í eyju og gæti því kannski ekki alveg metið ástandið, en tók það skýrt fram að miðað við það sem hann hefði séð hingað til, þá væri ekki ástæða til annars en að veiða til 15. ágúst, enda ástandið mun betra en fræðingar hafa haldið fram.
Að lokum hringdi ég í Ómar Stefánsson og var hann þá staddur úti í Bjarnarey. Lítil veiði var í Bjarnarey í morgun, en í gær, hinsvegar, veiddi hann 200 lunda og vakti það athygli hans, að það var nánast eingöngu unglundi (sjálfur veiddi ég 180 lunda í gær, nánast bara ungfugl). Þetta er mjög gott upp á framhaldið og sagði Ómar m.a. frá því, að á ákveðnum stað í Bjarnarey væru lundaholurnar mjög grunnar, hefði hann skoðað í þær margar, væri lundapysja í hverri einustu holu og mikið af síli í holunum.
Varðandi það að stoppa veiðarnar núna um mánaðarmótin, þá sagði Ómar það, að hann sæi enga ástæðu til þess að stoppa veiðarnar, enda lundi út um allan sjó kringum Bjarnarey og greinilega mikið æti og m.a. á meðan ég var að tala við hann sagði hann, að hann sæi fleiri hundruð ritur vera að steypa sér í sjóinn við Bjarnarey og greinilega mikið síli þarna á ferðinni.
Ég hef að undanförnu rætt við veiðimenn úr flestum veiðifélögum og hef í raun ekki ennþá hitt einn einasta veiðimann, sem sér einhverja ástæðu til að stoppa veiðarnar um næstu mánaðarmót og er ég því algjörlega sammála, enda er ástandið á lundastofninum í algjöru samræmi við það sem ég hafði spáð fyrirfram. Lundastofninn í Vestmannaeyjum telur margar milljónir og ég er svo bjartsýnn, að ég hef fulla trú á því, að löngu eftir minn síðasta dag muni lundinn koma til Vestmannaeyja í milljóna tali. Eina sem ég hef áhyggjur af eru þessir svokölluðu sérfræðingar, því eins og dæmin sanna, þá hafa sérfræðingar oft á tíðum valdið mun meiri skaða í lífríkinu með óþarfa inngripum (eins og t,d Hafró ) heldur en menn hefðu trúað fyrirfram.
Meira seinna
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Facebook
Athugasemdir
Það væri sterkur leikur hjá ykkur að skrá niður aldursdreifinguna á aflanum auk fjölda fulga, þ.e. ef þið gerið það ekki nú þegar. Margt forvitinlegt gæti komið út úr þeim niðurstöðum, hygg ég.
Mér sýnist þetta svipað og hjá reynslu sjómanna og vísindalegs álits sérfræðinganna, mikið misræmi á fræðum og staðreyndum.
Flott að fá þetta innleg
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 25.7.2008 kl. 18:52
Sæll Georg, það er ekki öll vitleysan eins, ef við heimfærum þetta upp á kvótakerfið eins og Guðrún gerir þá held ég að veiðin væri fljót að detta niður, finnist þér ekki skrítið að henda öllum ungfugli af því að verðið væri minna fyrir hann, svoleiðis er það gert út á sjó, kær kveðja.
Helgi Þór Gunnarsson, 25.7.2008 kl. 21:23
Sæll Goggi
99,9 % veiðimanna eru sammála um það að lundinn hagar sér ekki eins og hann er vanur.
99,9 % veiðimanna eru sammála um það að það vantar árganga inn í stofninn þ.e. vantar stóran hluta af ungfuglinum í stofninn og veiðina.
Allir eru sammála í dag, að þetta er mun mun betra ástand en það var 2005, 2006 og 2007. Nú er pysja í mörgum holum og lundinn er að bera í hana á fullu, sem betur fer.
Því miður eru blikur á lofti í Breiðafirðinum. Allt gekk fuglinum í haginn í vor en nú er sílið þar horfið og unginn sveltur. Í fréttum í hádeginu í dag var sagt að fullorðni fuglinn væri að yfirgefa ungann, væri búin að gefast upp. Sama og hefur gerst hjá okkur s.l. sumur. Vonandi sleppum við hér í Eyjum.
Kveðja.
Pétur Steingríms.
Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 26.7.2008 kl. 13:05
Mér sýnist sem þetta sé rétt mat hjá þér að það sé fullþörf á því að hafa áhyggjur af "sérfræðingunum".
Sigurjón Þórðarson, 27.7.2008 kl. 11:14
Sæll Pétur, þú setur þarna fram 3 fullyrðingar, þeirri fyrstu er ég nokkuð sammála en tel að þarna séu einfaldlega um breytingar í náttúrunni að ræða.
Önnur fullyrðingin um að það vanti árganga inn í stofninn er ég algjörlega ósammála og hef í raun og veru ekki ennþá hitt veiðimann, sem er þér sammála í þessu, en eins og þú veist Pétur, þá verða menn að sjálfsögðu að fara í lunda til þess að sjá hvernig ástandið er í raun og veru.
Þriðja fullyrðingin er svona svolítið út í loftið, því að við vitum ekki, hvernig pysjunni kemur til með að reiða af fyrr en eftir ca. mánuð, en get bara endurtekið það, sem ég hef svo oft sagt, 2005 árgangurinn var mjög sterkur pysjuárgangur en samt fyrsta árið þar sem pysjan var seinni á ferðinni heldur en í venjulegu ári. 2006 árgangurinn var, ef mið er tekið af bæjarpysjunni, mjög lélegur. 2007 árgangurinn var kannski undir meðallagi, en ítreka mína fyrri skoðun þar. Erpur Snær fullyrðir að nýliðun 2007 hafi verið ca. 82.000 pysjur, ég tel hinsvegar að miðað við það magn sem við sáum sem bæjarpysju, að nýliðun 2007 hafi verið ca. 250-300 þús. pysjur. Kv .
P,S ég átti mjög merkilegt samtal við Ævar Pedersen í gær en hann stýrir ransóknum í Breiðafirðinum , því miður vildi hann ekki leifa mér að vitna í sig og mun ég virða það .
Georg Eiður Arnarson, 27.7.2008 kl. 11:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.