29.7.2008 | 23:15
Meiri lundafréttir
Engin veiði var um helgina og greinilegt að lundinn er að fara langan veg eftir einhverju æti, sem honum líkar betur heldur en það sem er hérna heimavið. Dagurinn í gær og í dag byrjuðu alveg eins en enduðu frekar ólíkt. Í gær lét ég skutla mér út í Miðklett, vindur var suðaustan kaldi en bjart yfir. Ég var rétt kominn upp í Miðklett þegar hann fór að bæta all hressilega í vindinn og til að bæta gráu ofan á svart, þá gerði bæði grenjandi rigningu og svarta þoku. Þetta varð til þess að ég ákvað að labba bara yfir klettinn og láta sækja mig út á Eiði, sú ákvörðun var hins vegar til þess, að það fjölgaði í fjölskyldunni, því á leið minni yfir Heimaklett rakst ég á pínulitla lundapysju á göngustígnum, sem greinilega hafði dottið úr holu sinni, en ekki gat ég séð hvaða hola það væri, svo nú er hún komin í kassa og raðar í sig fiski dag og nótt.
Í dag, hinsvegar, lét ég líka skutla mér út í Miðklett í hægum austan vindi og gerði hið besta veður og alveg rosalegt lundaflug og náði ég í 320 lunda í dag. Það dapurlega þó við ferðina, að eins og ég var farinn að búast við eftir langvarandi austan brælu, þá er farið að sjást ein og ein dauð pysja, það kemur mér hins vegar ekki á óvart vegna þess, að eins og mörg undanfarin ár, þá virðist lundinn sækja mjög í að fara eitthvert langt vestur og gefur því auga leið að langvarandi austan rok tefur fyrir því að hann komist til baka og alveg ljóst að eitthvað af pysju hefur ekki lifað það af, en þannig er nú einu sinni náttúran. Framundan eru hins vegar hægir vindar (ef spáin stenst) og því ljóst að útlitið er mun betra núna, enda var frameftir öllum morgni í morgun og í gær, mikið af lunda með síli í nefinu. Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.