7.8.2008 | 17:08
Þjóðhátíðin og Bakkafjara
Þjóðhátíðin var frábær eins og alltaf. Toppurinn að mínu mati var flugeldasýningin á laugardagskvöldið, sem er alltaf að verða flottari og flottari. Brekkusöngurinn var líka góður, sem og brennan. Eini gallinn við brekkusönginn var að mér fannst vanta hjá Árna Johnsen, að hann bæði fólk (eins og hann gerir stundum, en ekki núna) um að fá sér sæti í brekkunni, því að því miður var hreint ótrúlega mikið af fólki á ferðinni allan brekkusönginn og trufluðu þá sem vildu sitja og taka þátt. Dapurlegast var þó aðkoman að hvíta tjaldinu okkar á sunnudeginum, þar sem öðru ljósinu okkar hafði verið stolið og hitt skemmt, en við náðum þó að redda því.
Það hefur vakið mikla athygli og umfjöllun, þessar tuðruferðir inn í Bakkafjöru og þær hremmingar sem sumir lentu í. Það er alveg ljóst, að þegar að og ef þessi Bakkafjöruhöfn verður tilbúin, þá munu margir freistast til að skjótast hérna yfir á tuðrum og illa búnum bátum og er það miður. Þó að þetta virki ekki löng vegalengd, þá getur þetta verið ótrúlega langt þegar eitthvað kemur uppá. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess, að einn ágætur vinur minn, sem ég var að spjalla við í gær, og hefur verið dyggur stuðningsmaður Bakkafjöru frá upphafi sagði við mig:"Þarna á alveg örugglega eftir að verða alvarlegt slys."
Einnig hefur mér verið bent á það, að mikill meirihluti bæjarfulltrúa annaðhvort á, eða hefur aðgang að tuðru eða bát og sumir vilja meina, að þar með sé komin ein af aðal ástæðum þessa fólks fyrir því að vilja fá Bakkafjöru. Ekki vil ég trúa því, en svona til gamans, smá reynslusaga af þessu hafsvæði frá mér:
Haustið 1987 keypti ég mína fyrstu trillu, hún var aðeins eitt og hálft tonn, og þegar ég stóð í bátnum, þá horfði ég yfir stýrihúsið. Í apríl 1988 fór ég mína síðustu sjóferð á þessari trillu. Það var alveg logn þennan dag, spegilsléttur sjór og veðurspáin góð. Ég sigldi inn á Danskahraun, norður úr Elliðaey. Ég hafði nýlega fengið mér eina tölvuvindu, ég setti slóðann út og ýtti á start. Það tók rúlluna ca. 5 sek. að renna niður á botn, um leið og slóðinn var kominn á botn, tók ég eftir því að það voru farnar að koma háar og miklar undiröldur af austan og mér sýndist hann ætla að fara að vinda, svo ég ýtti á upp takkann á tölvurúllunni. Það tók rúlluna 10 sek. að hífa slóðann upp, en áður en slóðinn var kominn upp voru komnir austan 20-25 metrar og snar vitlaust veður. Ég veit ekki hversu langan tíma það tók að berja í land, eða hversvegna báturinn sökk ekki eða vélin stoppaði, því að öldurnar gengu einfaldlega yfir bátinn og á tímabili tók ég eftir því að öldurnar voru farnar að ganga ofan í bátinn og upp úr hinumegin. Allan þennan tíma jós vélin yfir sig sjó, en stoppaði ekki. Ég hef oft lent í sjávarháska og miklum brælum sem eiga það til að skella á hér í eyjum fyrirvaralaust og viðurkenni það fúslega, að mér óar við því að fólk fari að þvælast inn í Bakkafjöru á tuðrum og illa búnum bátum. En mínar skoðanir á Bakkafjöru eru, held ég, öllum ljósar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
skil ekki alveg afhverju þú dregur höfnina sem er óbyggð inn í þennann tuðru og "anti bakki" umræðu þína. Er það bara ekki jákvætt að menn fari hérna á milli í höfn með hafnargörðum heldur að reyna að lenda á sandinum. Og verðum við ekki að treysta á skynsemi fólks? mér finnst þessi rök þín ekki góð. Er þetta einn af þeim punktum sem þú vilt að fólk hafi í huga varðandi bakkafjöru, að ef við byggjum hana að þá fara misgáfaðir menn við misjafnar aðstæður að reyna sigla hérna á milli í allavega veðrum. Vitlausir menn finn sér alltaf farveg fyrir heimsku sína. En auðvitað geta vond veður alltaf skollið á með engum fyrirvara og þá getur illa farið, jafnt hjá vönum sem og óvönum. Ég fagna umferð einkaaðila hvort sem það er á sjó eða í lofti. Eigum við að berjast fyrir því að bakkaflugvöllur verði fjarlægður vegna þess að hann hefur hvatt til þess að einkaflugvélum hefur fjölgað gríðarlega hér á suðurlandi?? Veður breytist jafnfljótt í lofti og sjó. Við verðum alltaf ósammála Goggi minn um þetta verkefni og ég er tilbúinn að sætta mig við það, en það sem mér gremst mest í öllu þessu eru ómálefnaleg komment eins og þetta. Hvernig það er hægt að nota illa útbúnar tuðruferðir fífldjarfra einstaklinga sem rök gegn Hafnagerð í Bakkafjöru eru mér algerlega óskiljanlegar. Finnst þér það í alvöru þegar þú lest þetta blogg yfir að þetta séu rök sem vert er að skoða? Eigum við að banna fólki að búa í nágrenni við jökla vegna hættunar sem því gæti stafð af honum ef það færi illa búið uppá hann á vélsleða. Að blanda saman skynsemi tuðrueiganda og Hafnarmannvirkjagerð í Bakkafjöru eru rökleysa Goggi minn. Held að það væri betra að höfða til almennrar skynsemi tuðrusjófarenda og blanda þessum málum ekki saman.
Beggi (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 12:53
Sæll Beggi , ég sé nú ekkert nýtt í þínum skrifum sem ég hef ekki svarað áður en tek það fram að ég skrifaði þetta vegna þeirra athugasemda sem ég vitna í , en ég lofaði að nefna engin nöfn . Reynslusaga mín er hinsvegar einkvað sem fólk ætti kannski að hafa í huga . kv .
Georg Eiður Arnarson, 8.8.2008 kl. 23:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.