Lundafréttir

Það er mjög undarlegt að lesa stöðugar frásagnir í fjölmiðlunum um mikinn pysjudauða og hrun í lundastofnum, og ég velti því fyrir mér, hvort að hér sé í gangi einhvers konar gúrkutíð, því mikið af þessum fréttum virkar á mig eins og einhverskonar æsifréttamennska.

Ég fór í lunda á þriðjudaginn suður í Kervíkurfjall, veiddi 120 lunda, mest ungfugl, og er það ánægjulegt, því eins og allir vanir veiðimenn vita, þá annaðhvort fjölgar ungfuglinum þegar líður á veiðitímann eða einfaldlega, það veiðist ekki neitt, en stofninn er sterkur fyrir því. Ég sagði frá því fyrir nokkru, að ég hefði rekist á nokkrar dauðar pysjur úti í Miðklett. Sömuleiðis hef ég heyrt fréttir af einhverjum pysjudauða frá sumum veiðifélögunum, en sumar sögurnar eru reyndar þannig að fjöldinn fer eftir því hver talar. Ég er núna búinn að ganga 5 fjöll og er staðan þessi:

Í Miðklettinum fann ég 14 dauðar lundapysjur, en það vakti athygli mína, að flesta voru þær í nágrenni við þar sem 3 máfshreiður eru. Í Heimakletti hef ég ekki ennþá fundið dauða lundapysju. Í Kervíkurfjalli er engin dauð lundapysja, sama gildir um Litlahöfða og eftir að hafa gengið Sæfellið í gær, þá fann ég eina dauða lundapysju, en það vakti athygli mína, að rétt hjá henni rakst ég á fyrstu kanínuna sem ég hef séð þarna í 3 ár og er ljóst að kanínan er ansi seig að bjarga sér, þrátt fyrir að margir hafi verið að eltast við hana þarna síðustu 3 árin.

Ég heyrði sögu í gær um pysjudauðann í Stórhöfða, sem vakti athygli mína. Áhugamaður um lundann fór og skoðaði svæðið þar sem fuglafræðingarnir hafa verið að fylgjast með og rannsaka og fannst nokkuð af dauðum pysjum þar. Það vakti hinsvegar athygli hans, að þegar hann gekk yfir í næstu brekku, þar sem engir fuglafræðingar hafa verið að störfum, þar var engin dauð lundapysja. Ég efast ekki um það, að verði lundinn fyrir mikilli truflun, þá muni hann hugsanlega afrækja pysjuna sína, en vonandi er þetta ekki svo?

Örstutt samantekt að lokum. Samkvæmt þeim sögum sem ég hef heyrt og kannað, þá hafa fundist ca. 150 dauðar lundapysjur í Vestmannaeyjum (það fundust aðeins 4 dauðar í Elliðaey í fyrradag) samtals, en miðað við að varpholunýtingin sé um 70 %, þá eru það aðeins 150 af ca. 800-900 þús lundapysjum. Hver segir svo að hér sé mikill pysjudauði. Vonandi kemst þetta allt saman á legg.

Meira seinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þú segir nokkuð, þetta hljómar eins og þú segir, eftir því hver segir söguna.

Gott mál. Vonandi komast þær flestar á legg.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 7.8.2008 kl. 18:07

2 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll félagi!Tek undir með Guðrúnu Þóru og kvitta hér með fyrir lestur á síðunni.Ég les hana alltaf,en set kannske ekki svo oft inn ath.Kært kvaddur

Ólafur Ragnarsson, 7.8.2008 kl. 19:47

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Þessar fréttir af lundanum hafa verið nokkuð spes þar sem allt var talið í góðu lagi stofninn, þar til skyndilega töldu Erpur fuglafræðingur og einhver hjá bæjarstjórninni sig sjá gríðarlega mikinn dauða og töldu að fuglinn væri mjög illa haldinn og hefði ekki æti sem hann hafði nokkuð af fyrr í sumar.

Það sem ég fór að velta fyrir mér þegar ég heyrði þessa frétt var að ef að fugl hefur ekki æti þá ætti það að koma smám saman fram þ.e. mælingar hefðu átt að sýna  jafnt og þétt að fuglinn næði ekki að þyngjast eða væri jafn vel að léttast.  Ætisskortur ætti ekki að koma á óvart.

Svo er það annað mál ef að menn hætta að veiða þegar hungur sverfur að stofni er það ekki ávísun á enn meira hungur þar sem fleiri illa haldnar pysjur verða um takmarkaða fæðuna.

Sigurjón Þórðarson, 9.8.2008 kl. 00:37

4 identicon

Einhvern vegin held ég að Georg verði rúmlega hálfnaður að eta síðasta lundann í Eyjum þegar hann viðurkennir að þeir séu allir farnir.

Rétt hjá Guðrúnu Þóru, það er ekki sama hver talar þe. vísindamenn og áhugafólk eða atvinnumenn í lundaveiði eins og Georg og félagar (tilbúnir allstaðar).

Lundinn á að njóta vafans.

ahugamadur (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 10:15

5 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Þakka Sigurjóni fyrir hans athugasemd og tek undir það, að það hlýtur að gilda það sama með lundann eins og fiskinn í sjónum, að ef menn ekki veiða og nýta svona sterkan stofn eins og lundastofninn er, og ætið er minnkandi, þá að sjálfsögðu svelta fleiri.

Varðandi þetta nafnlausa komment, þá er ég sammála því að lundinn á að njóta vafans, en spurningin er sú, hverjir vita betur um stöðu lundastofnsins, alvöru veiðimenn eða einhverjir áhugamenn?

Georg Eiður Arnarson, 9.8.2008 kl. 15:46

6 identicon

Goggi. Ég held að þessir alvöru veiðimenn (atvinnumenn) séu of blindir til að sjá hvað er að gerast í lundastofninum.

Kveðja.

Pétur Steingríms

Pétur Steingríms (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 05:53

7 identicon

Geta menn kallað sig alvöruveiðimenn þegar þeir eru svona blindir á ástand lundans?

Guðni Hjöll (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 00:18

8 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sælir strákar, gaman að sjá að Bjarnareyingar hafa fengið liðsauka úr Elliðaey, en svona bara fyrir ykkur, þá er hálfur mánuður síðan ég átti viðtal við Ómar Stefáns úr Bjarnarey þar sem hann var í ágætri veiði og sagði útlitið mjög bjart og í síðustu viku talaði ég við Þórarinn Sigurðsson, þar sem hann var nýkomin úr Elliðaey. Sagðist hann hafa gengið alla eyna og sagðist aðeins hafa fundið 4 dauðar pysjur, sem við hljótum að vera sammála um að er ekki óeðlilegt. Hins vegar er afstaða mín óbreytt frá því í fyrrasumar, þegar ég sagði:" Ef engar pysjur verða í haust, þá tel ég mjög hæpið að lundi verði veiddur á árinu 2008" og ég get sagt það sama núna, ef allt þetta góða útlit sem er búið að vera lungann úr sumrinu varðandi pysjuna, og það verði lítil eða engin pysja upp úr næstu mánaðarmótum, þá tel ég persónulega ekki verjandi að lundaveiðar verði stundaðar á næsta ári. Ástæðan er einföld, á síðasta og þessu ári var uppistaðan í veiðinni sterkir árgangar frá 2003-2005. 2006 er eins og við vitum algjör hörmung, 2007 undir meðallagi svo nú er bara að krossleggja fingur og vona hið besta, en mér finnst útlitið hafa versnað síðustu daga, en þetta kemur allt í ljós. 

Kveðja 

Georg Eiður Arnarson, 12.8.2008 kl. 13:39

9 identicon

Sæll Goggi

Þú mátt ekki misskilja skrif mín til þín, það er enginn Bjarnareyingur að ráðast á þig á blogginu, hvað þá að liðsauka þurfi frá Elliðaey. Við verðum bara að viðurkenna að ástandið á lundastofninum er mjög alvarlegt í dag en við erum bara greinilega ekki sammála um það. 

Kíktu inn á síðna Bjarnrey.is og sjáðu síðustu skrif mín þar. Við Ómar fórum í Bjarnarey s.l. sunnudag og bloggaði ég aðeins um ferðina og um það sem við sáum. Vorum við Ómar sammála um það að ástandið væri mjög alvarlegt og sorglegt að þetta væri að gerast.

Það er alveg rétt hjá þér Goggi, ástandið var ágætt í byrjun sumars og fram eftir júlímánuði en svo allt í einu breyttist eitthvað í náttúrunni og allt fór á versta veg hjá lundanum, því miður. Það sést mjög lítið af dauðum pysjum í brekkunum en ég held að það sé mikið af þeim dauðum neðanjarðar þ.e.a.s. í holunum, því miður.

Það hlýtur hver heilvita maður að sjá það að eitthvað mikið er að miðað við það sem hefur veiðst af lunda í sumar hér í Eyjum. Menn hafa verið að voma yfir þessu í úteyjunum en ekkert veitt því lundann hefur vantað. Hann hefur haldið sig einhversstaðar langt í burtu og unga fuglinn vantað að stórum hluta

 Kv.

Pétur.

Pétur Steingríms. (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 16:52

10 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Pétur , það er ágætt að við erum sammála að mestu leiti , en þú ættir að kíkja upp í klett núna hann er þakinn af Lunda . kv .

Georg Eiður Arnarson, 12.8.2008 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband