9.8.2008 | 15:41
Makríll
Ég vill byrja á að taka það fram, að lundagreinin sem ég skrifaði í fyrradag var skrifuð áður en ég frétti af ákvörðun bæjarstjórnarinnar, en ég mun fjalla um þá ákvörðun síðar.
Nýjasta gullæðið í Íslenskum sjávarútvegi er makríllinn og er mjög ánægjulegt að sjá hve vel gengur. Þingmenn FF í suðurkjördæmi hafa verið duglegir síðustu árin að benda á það, að makríllinn sé sóknartækifæri okkar og mér er sagt að hásetahluturinn á Huginn í síðasta mánuði hefur losað liðlega 4 milljónir (sel það ekki dýrara en ég keypti það) og er það mjög ánægjulegt, ekki bara fyrir áhöfnina, heldur líka fyrir bæjarfélagið í heild, því að eins og ég hef áður skrifað, þá er útgerðin lífæð Vestmannaeyja og að sjálfsögðu eigum við eyjamenn að vera í forystuhlutverki varðandi nýtingu makrílsins.
Nýlega var nefndur við mig sá möguleiki að fara á minni bátum, eins og gert er í Noregi, og veiða með krókum makríl til manneldis og hef ég mikinn áhuga á því, en vandamálið er að sjálfsögðu að það er dýrt að starta svoleiðis, en sem betur fer eru það stórar og sterkar útgerðir í eyjum, að þær munu ráða vel við það. Við höfum hér allt sem til þarf, bæði reynda sjómenn, nóg af skipum og niðursuðuverksmiðju, ef út í það er farið, en lykilatriðið er að sjálfsögðu það að standa rétt að málinu í upphafi, þ.e.a.s. kynna sér betur veiðarfærin og aðferðirnar, vinnsluna og markaðinn. Þarna held ég að við eigum virkilega sóknartækifæri.
Hermann Kristjánsson á Sjöfninni gerð tilraunir fyrir 2-3 árum til að veiða makríl með krókum, en undirbúningur var kannski ekki alveg réttur, enda sagði hann það, að loksins þegar hann hitti í torfu og byrjaði að fiska, þá fór allt í flækju og er gott dæmi um það, að menn þurfa að kynna sér málið betur áður en af stað er farið.
En öllu góðu fylgja einhverjir gallar. Eitt af því sem að fylgt hefur þessum makríl sem flætt hefur Íslandsmið (bara núna í sumar er ég búinn að verða var við makríl á færi austur af Portlandi og vestur fyrir Surt og nýlega veiddist makríll á sjóstöng úti fyrir vestfjörðum) er að ég hef haft áhyggjur að því, ásamt fleirum, að hugsanlega sé þessi makríll að koma hingað til að lifa á síli. Ef það er rétt, þá er þar kominn ansi harður keppinautur um sílið og skýrir þar af leiðandi, t.d. hversvegna lundinn hefur þurft að fara langt eftir æti síðustu árin. Ef þetta er rétt, þá er það enn mikilvægara fyrir okkur að hefja sem fyrst veiðar á makríl á heimamiðum og langar að benda á, að ég sá t.d. í Fréttablaðinu núna í vikunni viðtal við kokk sem lýsti því yfir, hversu góður makríllinn væri á grillið.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Georg.
Var undir Fjöllunum um helgina og sá ekki betur en menn væru að veiðum fyrir framan, grunnt frá ströndinni og velti fyrir mér hvað væri verið að fiska þar akkúrat núna þegar menn eru almennt búnir með kvóta.
Það er ljóst að við þurfum að aðlaga okkur breyttum aðstæðum.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 11.8.2008 kl. 00:45
Menn eru nú ekki meira búnir með kvóta en það, að hér er ekkert skip í höfn nema vinnslustöðvarskipin sem að hafa alltaf stoppað um þennan tíma.
Allir aðrir eru á sjó að reyna að ná sínum kvóta.
Fjölmörg skip hér sem að eru í stökustu vandræðum með að ná sínum kvóta.
Árni Sigurður Pétursson, 12.8.2008 kl. 19:32
Sæl Guðrún , þarna voru sennilega færabátar að leita að Ufsa en það er hægt að fá nóg af honum á leigu .
Varðandi það sem Árni skrifar , þá er búið að hagræða svo mikið að það þarf helst að vera mok allt árið HJÁ ÞESSUM BÁTUM SEM ERU EFTIR . kv .
Georg Eiður Arnarson, 12.8.2008 kl. 22:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.