24.8.2008 | 16:13
Ætla eyjamenn að horfa upp á síðustu lundapysjurnar í ár..........
........sveltar til dauða núna í sept.? Ástæðan fyrir þessari fyrirsögn er þessi: Ég fór á sjó þrisvar í síðustu viku (fiskaði liðlega 5 tonn). Síðasti róðurinn var á fimmtudaginn og réri ég þá austur á Rófu, sem er neðansjávar fjalllendi í ca. 20 mín. keyrslu á trillu austan við Elliðaey. Þar tók ég eftir því að mikið var af lunda á sjónum og mjög mikið af lunda á ferðalagi til og frá fjörunni í Landeyjarsandi. Þetta kemur ekki á óvart, vegna þess, að það er alþekkt að þegar æti bregst í kringum eyjarnar þá sækir lundinn inn í fjöru. Auk þess var ég að lesa viðtal við Val Bogason inni á eyjafréttum um sílarannsóknir sumarsins, þar sem hann segir m.a. "Eitthvað var af síli inni í Bakkafjöru." Mér var bent á það í dag, að frá og með 1. sept. opnast fjaran fyrir snurvoðabátum og er þeim þá leyfilegt að fiska í fjörunni alla leið frá Þorlákshöfn að Dyrhólaey. Þetta er að sjálfsögðu hörmulegar fréttir fyrir lundann og ég trúi ekki öðru en að allir þeir fjölmörgu eyjamenn, sem vilja að lundinn njóti vafans láti nú í sér heyra.
Það hefur mikið gengið á að undanförnu, en til þess að kanna ástandið á lundanum, þá skrapp ég eftir kvöldmat í gærkvöldi með tveimur af börnunum mínum og gengum við allt Kervíkurfjallið og hluta af Sæfellinu. Mikið var af lunda í Kervíkurfjallinu, en lítið í Sæfelli, en þrátt fyrir ýtarlega leit fundum við enga dauða lundapysju, en ég ætla að setja inn annað blogg á eftir eða í kvöld, þar sem í eru nokkrar myndir úr ferðinni. Einnig ætla ég að kynna til sögunnar Ella bæjarstjóra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.