30.9.2008 | 20:21
Bland í poka
Fór á sjó í gær kannski fyrst og fremst til að hressa mig við eftir þetta hrikalega lundaball í Blíðukró (set inn myndir í næsta bloggi).
Fékk heldur betur að finna fyrir Kára á sjónum í gær, var m.a. með eitt tengsli suður á Nýja hrauni og var versta veðrið sennilega á meðan ég var þar, 16-18 metrar eða svo, en það lægði þegar leið á daginn, sem betur fer. Aflinn var 1200 kg á 10 bjóð, en það merkilega var að á eitt bjóðið sem ég lagði hérna rétt utan við Urðarvita, fékk ég eitt stykki stóra brama á aðeins 20 faðma dýpi, svo það er greinilegt að þessi fiskur er búinn að vaða hér yfir allt. Þessi hinsvegar, verður étinn á mínu heimili á morgunn.
Ég sá engan lunda á sjónum í gær, svo hann er loksins farinn, enda hef ég enga pysju séð í nokkra daga, en það vakti athygli mína að s.l. föstudagskvöld var, eftir því sem mér er sagt, kynning niðri í Miðstöð á nýrri bók um lundann. Því miður komst ég ekki á þessa kynningu, en þar kom m.a. fram, að höfundur telur stærsta vandamál lundans í dag vera fyrst og fremst ofveiði á loðnu. Að ofveiðin leiði sem sé af sér að fiskurinn í sjónum fái ekki nóg af loðnu og snúi sér þar af leiðandi að sílinu. En þetta þarf að sjálfsögðu að rannsaka betur. Hitt atriðið sem vakti sérstaka athygli mína er að höfundurinn (man ekki nafnið á honum), sagði að lundastofninn hefði verið í sögulegu hámarki síðustu árin, sem er merkilegt nokkuð algjörlega í samræmi við það sem ég hef verið að segja. Það breytir hins vegar ekki því, að ef nýliðun fari að bregðast ár eftir ár, þá gefi það að sjálfsögðu auga leið að stofninn minnkar.
Það gengur mikið á í fjármálaheiminum þessa dagana og maður heyrir af gríðarlegu tapi af hlutabréfum, ég ætla rétt að vona það, að hitaveitupeningarnir okkar séu á góðum stað.
Er búinn að setja nokkrar góðar greinar inn á www.heimaklettur.isundanfarið, m.a. eftir Kristinn H. Gunnarsson, Alþingismann, Grétar Mar Jónsson, Alþingismann, Guðrúnu Maríu, aðstoðarkonu Grétars og Ólaf Ragnarsson, eðal bloggara.
Meira seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.