Lundasumarið 2017

Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera upp lundasumarið að venju.

Mjög skrýtið lundasumar, en mikið af lunda kom hingað í vor en í júní og stærsta hluta júlí sást varla nokkur lundi í Eyjum. En að sjálfsögðu mætti lundinn tímanlega fyrir Þjóðhátíð og framhaldið þekkjum við 5000 bæjarpysjur komnar amk. enda þekkjum við það að ekki nenna allir að fara með í vigtun. 

Ég hef spurst fyrir um það að undanförnu, hvað menn telji að hægt sé að tala um að sé nokkurn veginn eðlilegt magn af bæjarpysju miðað við árin áður og flestir eru á því að þegar komið er yfir 5000 sé einfaldlega ástandið mjög gott og að öllum líkindum mjög nálægt að vera eðlilegt og gott varp. 

Leyfðir voru 3 veiðidagar um miðjan ágúst, en að venju fór ég ekki til veiða, en miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá heyrist mér að veiðin gæti losað svona ca. 300 lunda, sem gerir enn eitt árið veiðarnar sjálfbærar, en að mínu mati er kannski stærsta vandamálið það að þar sem tíminn er svona takmarkaður, þá heyrir maður á þeim sem fóru til veiða að töluvert hafi verið af fullorðnum fugl í veiðinni. Að mínu mati, til þess að auka líkurnar á því að menn veiði frekar ungfugl, þá tel ég að rétt væri að skoða breytingar á þessum veiðum en þó án þess að auka veiðarnar og þá t.d. með því að hver veiðimaður fengi að hámarki 2 veiðidaga, en þá kannski á lengra veiðitímabili?

Tók reyndar eftir því í síðustu viku að Náttúrustofa Íslands er búin að setja lundann og fýlinn á válista. Stofnar sem telja tugi milljóna á Íslandi og t.d. lundinn klárlega á uppleið og eina leiðin að mínu mati til þess að útskýra það er, að sennilega hefur ríkið verið að boða niðurskurð á fjármunum til stofnunarinnar, enda er þetta tóm þvæla.

Toppurinn á sumrinu hjá mér var sá sami og í fyrra, en ég náði að heimsækja perlu norðursins, Grímsey, í sumar og að mörgu leyti var þessi ferð betri en áður, því að ég var svo heppinn að komast með heimamönnum í siglingu í kring um eyjuna í renniblíðu, en mér hafði verið sagt frá því, að austanmegin á Grímsey væri stærsta álku byggð í heimi, en að fá að sjá þetta með eigin augum var alveg með ólíkindum. Einnig er þeim megin klettur sem heitir Latur. Mjög svipaður í stærð og ummáli og kletturinn Latur sem er norðan við Ystaklett. Munurinn er hins vegar sá, að á Lat þeirra Grímseyinga verpa 450 svartfuglar. Vonandi fær maður að koma þarna einhvern tímannn aftur. 

En lundaballið er framundan. Ég er reyndar á vakt um helgina og kemst því að öllum líkindum ekki, en svona til gamans, ein lítil, gömul veiðisaga frá mér.

Saga drottningar

Það var á föstudegi viku fyrir Þjóðahátið sumarið 1987, að ég sat á mínum uppáhalds veiðistað í Miðklett í ágætis veiði, sól og blíðu, þegar skyndilega var eins og einn geislinn frá sólinni hefði breytst í fugl og flogið framhjá. Eftir smá stund áttaði ég mig á því, að þarna var kominn lundaalbinói og eftir að hafa séð betur, sá ég að þetta var lundadrottning, alhvít með pínulítið af ljósbrúnu í bakinu.

Ekki stoppaði hún lengi við, en hvarf yfir í Ystaklett og reiknaði ég ekki með að sjá hana aftur, en daginn eftir kom hún aftur og fór að fljúga fram og aftur í Miðkletti og ég hljóp upp þar sem hún sýndist koma yfir, en þá kom hún að neðan. Svo fór ég neðar en þá kom hún fyrir ofan. Svona gekk þetta í smá stund, þar til ég gafst upp og fljótlega eftir það lét hún sig aftur hverfa.

En á sunnudeginum kom hún enn og aftur, en núna fór hún beint mjög vestarlega í Miðklettinum, eða rétt hjá stað sem við köllum Kyppunef og settist þar innan um hóp af lundum. Ég hélt áfram að veiða, en hafði samt auga með henni enda sást hún langar leiðir.

Eitt skiptið sem ég lít við sé ég að hún flýgur af stað og með stefnu töluvert langt fyrir ofan mig. Ég snéri mér við í sætinu og var að horfa á hana þegar það hvarflaði að mér að kannski sæi hún flaggið frá mér, svo ég dró háfinn til mín og sat því öfugur í sætinu og þegar hún átti nokkra metra eftir, þá blakti flaggið hjá mér, hún sá það og steypti sér niður. Ég reif upp háfinn af öllum kröftum, en þar sem ég sat öfugur í sætinu, þá að sjálfsögðu datt ég ofan í holuna og rétt náði að halda í stöngina með annari hendi og fann því ekki, hvort ég hefði náð henni, en þegar ég dró háfinn til mín lá hún í netinu. 

Ég fór í land daginn eftir og beint með drottninguna til uppstoppunar hjá Inga Sigurjóns á Hólagötunni. Hann lét mig hafa hana aftur fyrir Þjóðhátíð, en þar sem tíminn var of lítill þá náði hann aldrei að klára hana þeas. að mála á henni nefið og lappirnar.

Þegar ég horfi á drottninguna í glerskápnum í stofunni heima og við hliðina á henni aðra drottningu sem ég veiddi nokkrum árum síðar í Kervíkurfjalli, þá finnst mér einfaldlega sú gamla alltaf flottust. Hún varð 30 ára í sumar og hún er veidd sama ár og ég byrjaði í útgerð og líka sama ár og ég eignaðist frumburðinn. 

Óska öllum gleðilegrar skemmtunar á lundaballinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband