Landeyjahöfn, enn einu sinni

.......en vonandi samt í síðasta skipti, að minnsta kosti í bili.

Eins gott að fara að klára þetta mál, enda gætu verið að koma kosningar.

Ótrúlega margt hefur gerst á aðeins einni viku sem vakið hefur athygli mína. Í fyrsta lagi, ágæt grein Páls Imsland, þar sem hann segir að Landeyjahöfn verði alltaf til vandræða vegna þess hvernig straumar fara hringinn í kringum eyjarnar og safna sandinum saman þar sem Landeyjahöfn er. Nokkuð til í þessu hjá Páli, en ég held hins vegar að þegar mikið er um hæga vinda eins og stundum á sumrin, þá eigi nú að vera hægt að halda höfninni opinni.

Í öðru lagi, ágætt viðtal við Gísla Viggósson í Viðskiptablaðinu þar sem Gísli segir, sem satt er, að aldrei yrði hægt að nota Herjólf nema að mesta lagi á tímabilinu maí-ágúst og því er ég nokkuð sammála.

Í þriðja lagi, útboð Siglingastofnunar vegna dýpkunar í og við Landeyjahöfn. Það sem vekur athygli við þetta er að þarna er verið að tala um næstu 3 árin og tímabilið okt.-apríl á hverju ári. Það sem vekur strax athygli í þessu er að september er sleppt þrátt fyrir allan vandræðaganginn í haust. Að öðru leyti held ég að þetta sé skref í rétta átt, því að með þessu útboði er hægt að fá nokkuð góða hugmynd um hvað það kæmi til með að kosta að halda höfninni opinni yfir vetrarmánuðina næstu 3 árin og þá hægt að bregðast við því.

Í fjórða lagi, heyrði ég mjög undarlega frásögn af ráðningarmálum umborð í Herjólfi. Eins og allir vita, þá hefur þurft að fjölga fólki eftir að siglingar hófust til Þorlákshafnar aftur, en mér er sagt að þeim sem sjá um þrifin umborð hefðu fengið ráðningu, að sögn, tímabundið eða a.m.k. fram að næstu áramótum, en fengið síðan um síðustu mánaðamót, enn og aftur, uppsögn með þriggja mánaða fyrirvara sem tekur þá gildi frá og með áramótum, þannig að nú verður merkilegt að sjá hvað gerist í janúar. 

Í fimmta lagi, heyrði ég í kunningja mínum sem fór með síðustu ferð úr Landeyjahöfn, að það væri eitthvað undarlegt að gerast með pípurnar og púðana í innsiglingunni og mér er nú sagt að nokkrir púðar séu horfnir og a.m.k. 3 eða 4 rör eða pípur við innsiglinguna og það án þess að hér hafi komið neitt raunverulegt vetrarveður.

Í sjötta lagi, þá langar mig að þakka Viðar Togga fyrir ágæta grein hans í Fréttum í síðustu viku, þar sem Viðar kemur með það sjónarmið sem hann og bæjarstjórinn og fjölmargir hér í Eyjum eiga við að stríða, þ.e.a.s. sjóveiki og öll þau óþægindi sem fylgja því að fara í þriggja tíma sjóferð. Ég er Viðari algjörlega sammála að þessu leytinu til, 25 mínútna ferð er að sjálfsögðu miklu betri kostur heldur en 3 tíma ferð, enda er lykilatriði í mínum málflutningi í þessu máli að næsti Herjólfur verði stærri og gangmeiri heldur en núverandi, en ekki minni eins og hugmyndir eru um til siglinga í Landeyjahöfn með þá hugsanlega útilokun á því, að þegar ófært er þá sé hægt að sigla til Þorlákshafnar. Það er vel skiljanlegt að fólk sem er sjóveikt og líður illa, horfi mikið til Landeyjahafna, en ég spyr á móti, hvað með Fiskmarkaðinn og fiskvinnslustöðvarnar sem þurfa að flytja hráefni á milli alla virka daga, hvað með öll litlu fyrirtækin eins og Grím kokk, Geisla, Miðstöðina, Húsasmiðjuna o.sfrv. sem þurfa að treysta á vörur oft daglega, að maður tali nú ekki um allar verslanirnar, en við fengur svo sannarlega sýnishorn núna í sept. þegar mjólkurlaust varð í Eyjum? Þess vegna er mitt sjónarmið afar einfalt, lítið skip sem siglir til Landeyjahafnar og getur ekki þjónustað okkur þegar ófært er þar með því að sigla til Þorlákshafnar er augljóslega ekki besti kosturinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband