Lundasumarið 2018

Aðeins 1 pysja vigtuð á Sædýrasafninu í dag og lundaballið um næstu helgi og því rétt að gera upp lundasumarið.

Lundaballið í ár er á vegum Álseyinga sem gerðu eins og önnur félög undanfarin ár, þeas. gerðu sér ferð alla leið norður í perlu norðursins, Grímsey, til þess að geta boðið upp á lunda á lundaballinu, en Grímseyingar hafa heldur betur bjargað okkur Eyjamönnum undanfarin ár.

Sjálfur var ég svo heppinn að komast líka til Grímseyjar og kannski má segja sem svo, að besta lýsingin á þessum ferðum þangað sé sú, að vonandi fær maður að koma þangað aftur. 

Eins og allir vita, þá var slegið met í fjölda bæjarpysja um 5600 pysjur og ef tekið er inn í dæmið öll pysjan sem fór í höfnina þá eru þetta amk. 7000 pysjur sem lentu hér í ár. Miðað við margföldunarregluna má reikna með að amk. 6-700 þúsund pysjur hafi komist á legg þetta sumarið hér í Eyjum, sem gerir það að verkum að þetta er 4. árið í röð, sem við fáum góðan árgang inn í stofninn. Engar tölur liggja fyrir um það frá fyrri tíð hve mikið af pysjum komu í bæinn á þessum bestu árum hér áður fyrr, en ég tel að fjöldinn í sumar sé virkilega farinn að nálgast þá tölu, hver sem hún er. 

Leyfðir voru 6 veiðidagar í eyjum í sumar, frá og með 10. til og með 15. ágúst, sem er fjölgun um 3 daga frá síðustu árum. Ég tel að þessi fjölgun hafi verið vel réttlætanleg, enda mikilvægt að fá úr því skorið hvernig stofninn er að þróast, en ef aðeins hefðu verið leyfðir 3 síðastnefndir dagar eins og í fyrra, þá hefði sára lítið eða ekkert verið veitt, enda mest veitt fyrstu 3 dagana, en miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá sýnist mér að veiðin hafi verið einhverstaðar á milli 3 og 400 lundar og það sem mestu skiptir, nánast eingöngu unglundi, þannig að útlitið er mjög bjart, en ég fór að sjálfsögðu ekkert í veiðar frekar en síðustu ár en vegna þess hversu seint pysjurnar komu, þá tel ég að það séu enn mörg ár í að hægt verði að leyfa einhverjar veiðar í júlí og ekkert óeðlilegt að reikna með því að þó að þetta góða varp haldi áfram næstu árin, þá taki það hugsanlega allt að 10 ár í viðbót fyrir lundastofninn að ná sínum fyrri styrk.

Ég sá á fésinu í sumar að sumir voru óhressir með það að einstaka veiðimenn, sem þegar höfðu náð sér í soðið norður í landi, færu til veiða þessa daga hér í Eyjum. Að mörgu leyti get ég vel skilið það og að vissu leyti tekið undir, en það verður þó að taka það fram að í þeim tilvikum er oftast um að ræða veiðimenn sem eru að sýna sonum sínum hina helstu veiði staði og kenna þeim jafnvel, hvar best er að vera eftir vindáttum og miðað við hve lítið var veitt, þá er þetta kannski í sjálfu sér svolítið auka atriði þegar á heildina er litið.

Ég heyrði líka að til væri sú skoðun hjá sumum að hugsanlega væri þessi mikli fjöldi lunda hér í byrjun ágúst, lundi sem væri að koma norður úr landi. Það liggur nú engin sönnun fyrir því og sjálfur tel ég þetta vera bölvaða vitleysu. 

Stærsta áhyggjuefnið að mínu mati eru furðulegar fréttir um það, að í sumar hafi norskt fyrirtæki fengið leyfi til tilrauna veiða vestur í Ísafjarðardjúpi á ljósátu. Nú veit ég ekki hvort að þetta hafi einhver áhrif en, reynslan er sú, að allt æti sem tekið er úr hafinu og lífríkinu komi í bakið á okkur síðar, og við þekkjum það svo vel hér í Eyjum, hvaða áhrif það hafði þegar sílið hvarf og merkilegt nokkuð, mér skilst að ekki hefði fengist neinir fjármunir til sílisrannsókna hér við suðurströndina eins og stundaðar voru hér á árum áður (skilst reyndar að Bjarni Sæmunds hafi tekið einhverjar sköfur hérna við Eyjar) en nóg um það.

En jú, lundaballið er um helgina og að venju kem ég með litla sögu, sem er reyndar ekki veiðisaga í ár, heldur sagan af hinum litríka og skemmtilega Tóta lunda, sem því miður lést í sumar, en sagan er einhvern veginn svona:

Það var í ágúst fyrir 7 árum síðan að ég hafði ný lokið við að landa inni í Friðarhöfn á Blíðunni minni. Þetta var á meðan Hlíðardalur var ennþá starfandi, og Hallgrímur Rögnvaldsson, sem nú rekur Canton, var á lyftara að taka á móti fiskinum hjá mér. Eftir að löndun lauk, byrjar Hallgrímur að keyra fiskinum yfir á vigtina. Í síðustu ferðinni, rétt á meðan ég er að klára að þrífa bátinn tek ég eftir því að á leiðinni með síðasta karið, þá stöðvar hann allt í einu lyftarann í beygjunni til móts við Klifið, stekkur út, gengur að rótum brekkunnar, beygir sig niður og tekur eitthvað upp. Kemur svo keyrandi aftur til mín, kemur til mín og sýnir mér: Sjáðu hvað ég fann. 

Við mér blasti pínulítil pysja, öll dúnuð. Hann bað mig um að taka hana og ég hringdi strax í konuna og bað hana um að koma, en fór í millitíðinni um borð hjá mér og skar smá fiskibút úr soðningunni minni, sem litla greyið var nú fljótt að gleypa í sig. Konan og yngri dætur mínar tvær komu og sóttu pysjuna, en ma. var tekin mynd af þeim með hana sem birtist á forsíðu Frétta (því miður á ég ekki lengur myndina) enda var þetta fyrsta pysja sumarsins. Þær urðu nú ekki margar þetta sumarið, en mig minnir að nafnið Tóti hafi komið til vegna þess að Þórarinn Ingi Valdimarsson hafi skorað fyrir ÍBV í þessari viku, en Tóti var mikill gleiðgjafi, bæði fyrir börn og fullorðna og að maður tali nú ekki um ferðamenn þessi 7 ár sem hann lifði og verður lengi sárt saknað. 

Gleðilega skemmtun allir á lundaballinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband