13.6.2021 | 20:52
Trillukarlar og draumur trillukarlsins
Ég var ansi dapur yfir atkvæðagreiðslunni núna fyrir helgi, þar sem lögð var fram tillaga um að tryggja nægar aflaheimildir, eða amk. þessa 48 strandveiðidaga á ári áfram, en þeir sem studdu málið voru þingmenn Pírata, Flokki fólksins og einn þingmaður Vinstri grænna. Aðrir þingmenn úr meirihlutanum greiddu atkvæði gegn málinu og þingmenn úr öðrum flokkum sátu flest allir hjá.
Það góða við þetta er þó það, að þarna eru þá alveg skýrar línur um það, hvaða flokkar standa með trillusjómönnum. Staðan að öðru leiti í dag er ótrúlega slæm. Pottar í línuívilnun er öllum lokið, sem dæmi, en hvers vegna láta þessir flokkar svona?
Ástæðurnar eru örugglega mý margar að mati þingmanna í þessum flokkum, en það hvarflar að mér hvort að það hafi ekki töluvert að segja, amk. hjá meirihlutanum, ályktun SFS frá því í vetur en hún var svo hljóðandi, ef ég man alveg rétt:
SFS leggur til að strandveiðar verði aflagðar og aflaheimildunum "skilað" til þeirra sem þær hafa misst.
Undir þetta skrifuðu allar stórútgerðir á landinu. Ansi dapurlegt, en svona er nú bara veruleikinn, það er eiginlega svona hálf súrrelasiskt að hugsa til þess, að flestar þessar stórútgerðir eru svo að leigja frá sér gríðarlegt magn af aflaheimildum og borga þar af leiðandi af þeim engin veiðigjöld, en borga hins vegar vel og dyggilega til sumra stjórnmálaflokka og merkilegt nokkuð, sérstaklega þeirra flokka sem skipa núverandi ríkisstjórnar meirihluta.
En svona til gamans, hvernig horfði ungur maður á þessa trillumennsku fyrir meira en 30 árum síðan?
Svarið felst í hinni gömlu sögu, Draumur trillukarlsins.
Það var eitt sinn ungur maður í Vestmannaeyjum sem hafði gengið með þann draum í maganum að fara í útgerð, enda höfðu bæði afi hans og langafi verið þekktir útgerðarmenn í Eyjum, svo ungi maðurinn keypti sér trillu og byrjaði að róa. Útgerðin gekk svona upp og niður framanaf, en frá fyrsta degi gekk ágætlega að fiska, en sagan hefst sem sé á fögrum vordegi,
Ungi maðurinn fer niður á bryggju, veðurspáin er góð og útlitið eftir því, svo ungi maðurinn setur í gang og leggur frá bryggju og siglir út höfnina, en þegar út fyrir Klettsnefir er komið bregður unga manninum við, því við honum blasir sjón sem hann hafði aldrei séð áður. Eftir að hafa fengið að kynnast briminu og og ofsanum í veðrinu allan veturinn, blasti við spegil sléttur sjórinn og tilfinningin var svo sterk, að sem snöggvast brá fyrir í huga unga mannsins mynd úr gamalli, góðri bók sem hann las spjaldanna á milli á sínum yngri árum, ar sem m.a. segir frá manni sem eftir því sem sagan segir, gekk á vatni.
Ungi maðurinn hristi þetta af sér og steig út úr stýrishúsinu, kannski til að virða þetta betur fyrir sér, en líka til að hlusta. Ekki heyrðist neitt brimhljóð, en í staðinn fyrir lágvært malið í vélinni kom nánast ærangi gargið í fuglinum.
Ungi maðurinn leit upp eftir Ystakletti, allur fuglinn var sestur upp og allt iðandi af lífi, og fann hvernig þessi sýn snerti hann á sama hátt og eitthvað sem hefur mikil áhrif á okkur. Fór hann síðan aftur inn í stýrishús og lagaði stefnuna, steig síðan út til að virða þetta allt saman betur fyrir sér og var að horfa á eyjarnar í austri, þegar skyndilega fyrsti geisli sólarinnar kom eins og elding austan við jökul. Birtan var svo ofboðsleg að það dugði unga manninum ekki að bera hendinni fyrir og lokaði hann því augunum, en í huga unga mannsins kom algjörlega ósjálfrátt þessi litla ósk einhvern veginn svona:
Bara ef, bara ef ég gæti fengið að lifa og starfa í friði, ég verð aldrei ríkur en hugsanlega, með hörku og dugnaði, get ég séð fyrir mér og mínum.
Ungi maðurinn hristi þetta nú fljótt af sér og hugsaði með sér:
Ætli það verði ekki einhver bankastjórinn, eða þetta nýjasta kvótakerfi, sem gerir út af við einhverja svona draumóra.
Hann lagaði stefnuna á bátnum betur, en var síðan litið til baka á Heimaey sem fjarlægðist óðum, þá kom þessi viðbót:
Og þó, hér á einhverjum fallegasta stað í heiminum, hér gæti ég svo sannarlega hugsað mér að bera beinin.
Aftur hristi ungi maðurinn af sér þessar hugleiðingar af sér og tautaði með sjálfum sér:
Vonandi á ég nokkur góð ár eftir, og hélt sína leið.
Eins og gefur að skilja, þá þekkti ég þennan unga mann mjög vel og þekki hann kannski ennþá betur í dag, en draumur trillukarlsins lifir enn í daga og þegar við horfum á allar þær hörmungar sem dunuð hafa yfir okkur síðust mánuði og sjáum svo sömu stóru flokkana sem bera ábyrgðina á þessum hörmungum óska enn og aftur eftir því að fá nýtt umboð til að stjórna, þá er aldrei eins mikilvægt og nú að við skoðum þann möguleika að gefa nýjum flokkum og nýju fólki tækifæri á að taka við og fyrir mitt leiti, þá mun ég amk. alltaf kjósa flokka sem styðja við smábátaveiðar og gleymum því heldur ekki að núverandi kvótakerfi hefur aldrei skilað því sem það átti að skila, þeas. uppbygging fiskistofnanna en nánast allir fiskistofnar eru að mælast á niðurleið. Það þarf að breyta, en það þarf að gera það af skynsemi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn er með drauma þína á stefnuskrá sinni ásamt hverskonar uppbyggingu eins og vegagerð og rest af Íslandsbanka renni til Íslendinga (nánar hjá Guðmundi Franklín Jónssyni og Magnúsi?).Ég hélt þú værir systur sonur minn sem er sjóari,þegar ég sa´bloggið þitt fyrst.Þú líkist honum á myndinni en hann heitir Einar Sigþórsson en langt síðan ég hef séð hann,sem kom oft til mín á mótórhjóli þegar hann var unglingur.Mb.kv.
Helga Kristjánsdóttir, 15.6.2021 kl. 03:55
Sæl Helga
Nei, við erum ekkert skyld, en ég vinn hins vegar með syni Einars Sigþórssonar. Varðandi Guðmund Franklín og Frjálslynda lýðræðisflokkinn hans, þá er það eiginlega alveg nóg fyrir mig að Guðmundur Franklín hafi á sínum tíma farið í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum og verið hafnað, stofnað síðan Hægri græna með gall hörðum sjálfstæðismönnum, m.a. hér út Eyjum og líka verið hafnað þar. Atkvæði greidd þessu nýja framboði hans eru því fyrst og fremst glötuð atkvæði, sem fyrst og fremst munu nýtast hans gömlu félögum í Sjálfstæðisflokknum, vegna þess að sjálfstæðismenn munu aldrei kjósa þetta framboð og því öll atkvæði sem þetta framboð fær fyrst og fremst tekin frá öðrum litlum framboðum sem eiga raunverulega möguleika á að ná inn mönnum. Ég hvet þig því endregið til þess að endurskoða stuðning þinn við þetta dauðadæmda framboð. Kærar kveðjur.
Georg Eiður Arnarson, 15.6.2021 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.