Hetjur hafsins...............

.....................halda upp á sjómannadaginn um næstu helgi, en mig langar að tileinka sjómannadaginn að þessu sinni konum sjómanna, en mér finnst stundum vanta töluvert upp á að mikilvægi konunnar í lífi sjómannsins séu gerð góð skil, enda er það í flestum tilvikum í hlutverki konunnar að hugsa um allt sem viðkemur heimilinu, börnunum, fjármálunum og svo framvegis.

En svona í tilefni sjómannadagsins, lítil saga sem aldrei hefur verið sögð:

Í nóvember 1994 var ég staddur á bát mínum út við Urðavita að draga lítið síldarnet sem ég hafði lagt þar til þess að ná mér í beitu, en á meðan ég var að draga það, þá kulaði aðeins að norðan og var ég svo óheppinn að fá netið í skrúfuna, en mér til happs þá voru þeir á Létti einmitt á ferðinni þarna um sama leiti, en ég gaf þeim merki og þeir komu og drógu mig inn að smábátabryggju, þar sem trébryggjurnar eru. Hringdi ég þá í konuna, Matthildi, sem kom niður á bryggju ásamt dóttur okkar, Margréti nýorðin fjögurra ára. Fékk ég konuna til að halda í spottann á bátnum, en ég hafði fest hníf á spýtu og var að reyna að skera úr skrúfunni á bátnum, en Margrét stóð álengdar og fylgdist með. Eftir nokkra stund bað ég konuna um að strekkja vel á bandinu þannig að hún tók skref aftur á bak, en við höfðum ekki tekið eftir því að þar sem það var farið að skyggja og hálf kalt, þá hafði Margrét laumað sér upp að móður sinni til þess að fá skjól, en bakkaði um leið og móður hennar og féll við það í höfnina. Ekkert hljóð heirðist annað en lítið skvamp, og þegar ég leit við blasti við Margrét litla í höfninni að sökkva og móðir hennar, sem án þess að hika kastaði sér eftir henni, greip utanum barnið og hélt þeim á floti með því að synda með löppunum. Ég greip þegar til og ætlaði að taka barnið, en sjokkið og áfallið var svo mikið að konan neitaði í fyrstu að sleppa og varð ég að tala við hana í smá stund áður en hún fékkst til að sleppa barninu og rétta mér hana. Það eru engir stigar við gömlu trébryggjurnar og lentum við í raun og veru í smá vandræðum að koma konunni upp á bryggjuna, en það hafðist. Við flýttum okkur strax heim og þar sem þetta var svolítið neyðarlegt slys hjá okkur, þá ákváðum við að segja ekki frá þessu þá, en þar sem Margrét okkar er nú orðin ung og falleg kona og farin að búa, fannst mér rétt að segja frá þessu.

Svo að á sama tíma og ég óska sjómönnum til hamingju með daginn, þá langar mig að óska konum sjómanna sérstaklega til hamingju með sjómannadaginn, því hvar værum við án þeirra, enda eru þær svo sannarlega hetjur hafsins þegar á reynir.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Kristmundsdóttir

Já henni Margréti ykkar hefur ekki orðið meint af þessu sem betur fer. Ekki amalegt að "eiga" hana fyrir tengdadóttur :)

Kærar kveðjur í bæinn. 

Sigurbjörg 

Sigurbjörg Kristmundsdóttir, 30.5.2012 kl. 00:14

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góð saga Georg og sannarlega eiga sjómannskonur hetjunafnbótina skilið.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.5.2012 kl. 02:09

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Georg, það er sko hverju orði sannara hjá þér kallin minn, með eiginkonur sjómanna. Það er gott að eiginkonan og barn sluppu heilar úr hildarleiknum við Edinborgarbryggju.

kær kveðja.

Helgi Þór Gunnarsson, 30.5.2012 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband