Lundasumarið 2012

Mig langar að byrja á því að skora á Eyjamenn alla að beita sér fyrir því að allar pysjur sem finnast verði viktaðar og skráðar á sædýrasafninu, en mér er sagt að svo sé alls ekki og hef ég fengið  nokkur dæmi um það  og að ástæðan sé fyrst og fremst hugsunarleysi og leti, en að einhverju leyti líka mótmæli veiðimanna við vinnubrögðum Náttúrufræðistofu suðurlands og vinnubrögðum Umhverfis og skipulagsráðs Vestmannaeyja. Afskaplega dapurt ef svo er, því það er að mínu mati gríðarlega mikilvægur liður í því að  fylgjast með stofninum og í raun og veru það eina sem við höfum í dag sem eitthvað vit er í.

Fjölmargir veiðimenn höfðu samband við mig í sumar og höfðu miklar væntingar um það að það yrðu leyfðir einhverjir veiðidagar. Ég var ekki með slíkar væntingar, enda kannast ég við persónulegar skoðanir sumra sem sitja í Umhverfisráði og veit það, að sumir þar telja það beina og óbeina hagsmuni sína og Eyjamanna að standa gegn öllum lundaveiðum. Mér finnst það fyrst og fremst sorglegt að lundaveiðimenn séu algjörlega hundsaðir og í raun og veru má segja sem svo að sumir veiðimenn hafi nú þegar brugðist við því. Ég heyrði af því strax í fyrra að þegar allt fylltist hér af lunda í ágúst að einhverjir veiðimenn hefðu farið og náð sér í soðið og eftir að hafa spurst fyrir núna í sumar þá hef ég fengið það svona nokkurn veginn staðfest og ekki ólíklegt að nokkur hundruð lundar hafi verið veiddir í Vestmannaeyjum í sumar. Reyndar hafði ég nú ekki spurst lengi fyrir um, þegar ég fékk þá sögu í bakið að ég hefði veitt lunda í sumar, en svo er ekki og í raun og veru, eins og ég hef sagt áður, að þó að einhverjir dagar hefðu verið leyfðir, þá er ég ekkert viss um að ég hefði farið í lunda í sumar, enda borða ég mjög lítið af lunda og hef aðallega stundað veiðar undanfarna áratugi handa öðrum.

Ákvörðun Umhverfis og skipulagsráðs var röng á síðasta ári og hún var það líka núna í sumar, eða eins og ég hef sagt áður, það er jafn heimskulegt að leyfa frjálsar veiðar og að banna allar veiðar. Ég skil vel veiðimenn sem eru ósáttir og fara gegn ákvörðun ráðsins með þvi að ná sér í soðið, en það mikilvægasta, að mínu mati, við það er hvað það hefði verið gott að fá þessa hami til aldursgreiningar og geta þannig fylgst með því hvernig stofninn þróast, því eins og það hefur komið fram hjá mér áður, þá er ekki hægt að fylgjast með því hvernig stofninn þróast með því að fara eingöngu í holur. 

Einnig hef ég heyrt um nokkra sem hafa háfað og sleppt, en þeir eru allir sammála um að hér sé gríðarlegt magn af ungfugli á ferðinni. 

Varðandi síðustu fréttatilkynningar frá Erpi, þá eru þær í raun og veru jafn heimskulegar og allt annað sem frá honum hefur komið, en svona til útskýringar: Yfirlýsing hans um að hér megin vænta þess að við fáum allt að 200 þús pysjur, er að mínu mati algjörlega skot út í bláinn, en þess má þó geta að Erpur sagði frá því að 2007 hefði nýliðunin verið 76 þús pysjur, á sama tíma og ca. 2000 þysjur voru vigtaðar á Sædýrasafninu. Samkvæmt því ættu því um 5000 pysjur að skila sér þangað núna sem bæjarpysjur. Mínir útreikningar hinsvegar frá 2007 gengu út á það að bæjarpysjan væri 0,5% og því nýliðunin 2007 allt að 400 þús. pysjur og miðað við magn af unglunda síðustu árin, þá tel ég að ég sé mun nærri lagi en Erpur. Ég hef hins vegar ákveðið að breyta mínum útreikningum frá og með þessu ári, enda augljóst að eftir því sem umferðarþungi eykst upp og niður Heimaklettinn, þá hefur lundanum fækkað á því svæði og ætla ég hér með að reykna bæjarpysjuna sem 0,1%, sem þýðir að ein bæjarpysja sé samkvæmt því 1000 pysjur sem komast á legg í Vestmannaeyjum. Erpur segir líka í sinni grein að lundinn verði 15-20 ára gamall, en það eru mörg dæmi til um það að allt að 40 ára gamlir lundar hafi veiðst.

Eitt af því sem vakti mesta athygli mína í sumar er samtal við Simma á PH Víking. Simmi hefur fylgst með lundanum, eins og við hin, áratugum saman og þó svo að hann hafi atvinnu sína af því að sýna ferðamönnum lundann, þá er hann á móti þeim öfgum sem koma fram í ákvörðun Umhverfisráðs. Simmi hefur fylgst með hitastig sjávar við Eyjarnar árum saman og hann tók eftir því strax í vor, að eftir að hafa verið með sjóhita í 13-15 gráðum síðustu 4-5 árin, þá var hitastigið við Eyjar í sumar aðeins 10-11 gráður og vill hann meina það að það hafi hvað mest um það að segja að hér stefni í að verða meiri af pysjum en síðustu 4 árin. 

Hann kom líka inn á fækkun lundans vegna umferðar upp og niður Heimaklettinn, en einnig kom hann aðeins inn á þá útreikninga Erps, að eðlilegt varp hlutfall væri ca. 60% á hverju ári. Þetta finnst honum óvenju heimskulegt vegna þess, að ef hér væri alltaf 60% hlutfall, þá væri lundastofninn í Vestmannaeyjum ekki ca. 6 milljónir heldur sennilega nær 60 milljónum, og því augljóslega löngu búinn að éta upp allt það æti sem væri í boði í hafinu í kringum Eyjar. 

Greinin er orðin allt of löng, en ég ætla að enda hana með þessu: Ég ætla hér með að skora á Umhverfis og skipulagsráð að fara nú að ræða í alvöru við veiðimenn og menn eins og Simma. Ég veit það að Álseyingar voru spurðir í fyrra og að þeir sögðust styðja veiðibann, en þeir hafa hins vegar viðurkennt fyrir mér að það hafi verið röng ákvörðun.

Lundastofninn í Vestmanneyjum er amk. 6-8 milljónir og ég hef þá trú, að hann verði það líka löngu eftir minn dag þó að einhverjar veiðar yrðu leyfðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Held að Eyjamenn verði að grípa til sinna eiginráða, og fara að veiða makríl í net við Eyjar næsta sumar, svo makrílinn gangi ekki frá Lundanum, því sílið er ekki óþrjótandi, Eyjamenn verða að grípa til netaveiða, burt séð frá því hvað einhverjir Sinpansar í Reykjavík segja með Rglugerðarfargani.

Jón Ólafur (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 15:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband