Lundasumarið 2021

Ekkert lundaball í ár frekar en á síðasta ári og kosningarnar að baki og því rétt að gera sumarið upp eins og venjulega.

Fyrst langar mig að hrósa öllum þeim fjölmörgu aðilum, sem hafa verið að mynda í fjöllunum bæði lunda sem og landslagsmyndir og má þar m.a. nefna Stebba í Gerði, Adda í London, Jóa Myndó, Helga Tórs, Tóa, Halldór Halldórs og fleiri og fleiri. Kærar þakkir allir fyrir frábærar myndir og ég hvet ykkur eindregið, sem og alla aðra, til þess að halda þessu áfram, enda algjör forréttindi að búa á svona fallegum stað og hér í Eyjum þar sem myndefnið er endalaust.

Það eru einmitt þessi forréttindi sem að mínu mati gera það að verkum að margir lundaveiðimenn, eins og ég, hafa látið lundaveiðar í Eyjum alveg eiga sig, eins og í mínu tilviki síðustu 13 árin og þar með látið lundann njóta vafans og svo sannarlega erum við að uppskera og alveg ótrúlega skemmtilegt að fá fréttir af fyrstu pysju í Vestmannaeyjum fyrir Þjóðhátíð. Eitthvað sem ég man ekki hversu langt er síðan gerðist.

Í pysjueftirlitinu voru aðeins skráðar tæplega 5000 pysjur, en ég held að það sé enn minna að marka þessar tölur í ár heldur en undanfarin ár, einfaldlega vegna þess að pysjan var svo ofboðslega vel gerð í ár, sem dæmi þá töldum við einn daginn 120 pysjur í höfninni. Allan daginn voru þær að fljúga fram og aftur og æfa sig og daginn eftir var meirihlutinn horfinn og eina skýringin er sú, að þær einfaldlega flugu í burtu. 

Enn eitt árið fór ég ásamt vinum mínum norður til Grímseyjar, þar sem við veiddum vel í soðið og ég held að við munum seint geta full þakkað vinum okkar í Grímsey fyrir, en þetta var 7unda árið í röð sem ég fer til Grímseyjar, sem svo sannarlega er perla norðursins og ég mæli eindregið með því fyrir fólk sem hefur áhuga á að sjá þessa fuglaparadís, sem Grímsey er, að kíkja þangað. 

Varðandi framhaldið, þá er ljóst að nú eru komin 6 ár síðan þessi frábæri uppgangur hjá lundanum hófst, sem þýðir að á þessu ári og því næsta munu fyrstu árgangarnir fara að koma inn sem fullþroska lundar, gera sér holu og hefja varp. Útlitið er því ótrúlega gott.

Varðandi veiðarnar í sumar, þá skilst mér að ekki hafi verið mikið veitt hér á heimalandinu, en eitthvað meira í sumum úteyjum, en góðu fréttirnar eru þær að þetta er allt sjálfbært og miðað við magnið sem var hérna í eyjunum og fjöllunum í sumar, þá er nokkuð ljóst að veiðistofn lundans er alveg við það að vera í hámarki og ég myndi telja, að við þyrftum ekki nema kannski ca. 2 ári í viðbót til þess að sjá lundastofninn í Eyjum í svipaðri stöðu eins og þegar hann var mestur. Áhyggjuefnið er hins vegar það, að mjög lítið sést af lunda í júní, sem og í byrjun júlí. Hins vegar var gríðarlegt æti við Eyjar í allt sumar og ef mið er tekið af því, að við séum að fá inn gríðarlega sterkan, vonandi, loðnustofn, þá er útlitið ótrúlega bjart. 

Ég er ótrúlega stoltur af því hvernig flest allir veiðimenn hafa staðið sig í því að láta lundann njóta vafans og frábært að fá að upplifa það, að við séum að uppskera loksins.

Til hamingju allir með frábæran árangur við að byggja upp lundastofninn okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband