Leiðrétting vegna braskara ríkisstjórn

Ég man ekki eftir því að hafa lent í því áður að þurfa að leiðrétta tölur í greinum mínum og það alls ekki tvisvar sinnum eins og ég ætla að gera núna, en það er bara ágætt að vera svolítið mannlegur, en í grein minni skrifaði ég um að veiðigjöld vegna 100 tonn af þorski og 100 tonn af ýsu, væru liðlega 6,4 milljónir, sem er ekki rétt, heldur er upphæðin samkv. þeim tölum liðlega 3,2 milljónir, sem ég þarf hins vegar líka að leiðrétta.

En í dag frétti ég það, að ráðherra hefði breytt veiðigjöldum sem hingað til alltaf hafa verið miðað við slægðan fisk, yfir í blóðgaðan fisk sem þýðir að samtals talan er því nákvæmlega 3.852.000 krónur. Breytingin er sú að veiðigjöld á þorski 13,30 kr. kg. en verður núna 16,60 kr. kg. og á ýsu 18,19 kr. kg. en verður núna 21,92 kr. kg. Fyrir leiguliða þýðir þetta það, að fyrst þarf að borga eigendanum af kvótanum fyrir 1 tonn af þorski og 1 tonn af ýsu samtals ca. 400 þúsund eins og leigan er í dag og tveimur mánuðum seinna, tæplega 40 þúsund í veiðigjöld til ríkisins, á meðan eigandinn af kvótanum borgar ekki neitt. Leiguliðinn þarf síðan að borga allan kostnað við veiðarnar, en miðað við verðin á mörkuðunum í þessari viku, þá er 1 tonn af þorski og 1 tonn af ýsu að skila rétt liðlega 600 þúsundum, þannig að ansi lítið er eftir handa þeim sem vinnur alla vinnuna og maður spyr sig, hvað ríkisstjórnin er eiginlega að hugsa með því að ráðast svona á sjómenn allt í kringum landið, því að sjálfsögðu mun þetta hafa áhrif á laun þeirra, og svolítið skrítið að hugsa til þess að það eina sem heyrst hefur frá minnihlutanum á þingi, er að það þurfi að hækka veiðigjöldin. Greinilega fullt af fólki á Alþingi íslendinga sem veit ekkert í sinn haus  varðandi sjávarútveg . 


"Braskara ríkisstjórnin"

Ágætur vinur minn sagði mér frá því í vikunni, að samkv. nýjasta greiðsluseðli sínum af húsnæðisláni sínu þá væri verðtryggingin nánast alveg búin að éta upp helminginn af skuldaleiðréttingunni sem hann fékk, sem þýðir að samkv. því, þá verði verðtryggingin búin að éta upp alla hans leiðréttingu svona ca. upp úr miðju næsta ári, og maður spyr sig: til hvers var þá þessi leiðrétting, því þetta virkar orðið svolítið eins og rétta fólki fjármuni með annarri hendi og taka það með hinni. En nóg um það.

Aðal ástæðan fyrir þessari grein eru breytingar á veiðigjöldum, sem ég viðurkenni nú alveg að ég hafði nú ekki velt neitt sérstaklega fyrir mér, enda kvótinn minn svo lítill að hann dugi yfirleitt ekki nema fyrsta mánuðinn af nýju fiskveiðiári og veiðigjöldin hingað til verið í samræmi við það. En nú á heldur betur að láta mig borga, því að fyrir þetta fiskveiðiár er sú breyting gerð að í staðinn fyrir að útgerðir borgi fyrir úthlutaðan kvóta, þá verður nýja veiðigjaldið miðað við landaðan afla, sem þýðir verulega hækkun á því sem ég þarf að borga, en merkilegt nokkuð, þeir sem leigja frá sér kvótann og veiða hann ekki borga ekkert. 

Nú veit ég að kvótaeigendur margir hafa barist fyrir þessu lengi og um stórar upphæðir hjá þeim sem hafa mestu aflaheimildirnar um að ræða, en þeir hafa líka mestu tekjurnar, og svo ég taki sem dæmi af útgerð sem t.d. leigir frá sér 100 tonn af þorski og 100 tonn af ýsu, þá borgar sú útgerð ekkert veiðigjald af þessum 200 tonnum, en sá leigir til sín og veiðir þarf að borga til ríkisins liðlega 6,4 milljónir í veiðigjöld. Vissulega er það nú samt þannig að flestar útgerðir veiða sína kvóta sjálfar og leigja ekki frá sér nema það sem þeir nýta ekki, en klárlega munu þeir sem hafa jafnvel árum saman spilað á kvótakerfið, hvort sem er með svo kallaðri kína leigu eða einhvers konar kvótabraski (og tek það fram að þeir eru nú ekki bestir í krókakerfinu) munu klárlega hafa lang mest út úr þessari breytingu hjá ríkisstjórninni og þess vegna hef ég ákveðið að skíra ríkisstjórnina "Braskara ríkisstjórnina"


Gleðilegt nýtt kvótaár

Á þriðjudaginn 1. sept. hefst nýtt kvótaár, en árið hjá mér hefur verið frekar erfitt, en er samt að ná sama afla og á síðasta ári. 

Eins og aðrir sjómenn, þá velti ég oft fyrir mér vinnubrögðum Hafró og hef gagnrýnt þau oft og mörgum sinnum, en ég hef hins vegar aldrei sett upp, hvernig ég myndi vilja sjá staðið að ákvörðunum um hvað mikið á að veiða. Vissulega þurfum við á vísindamönnunum að halda, en eins og marg hafur komið fram þá eru þeir því miður oftast nokkrum árum á eftir því sem í raun og veru er að gerast í hafinu og kannski gott dæmi um það, niðurstöður úr nýlegum rækjuleiðangri, þar sem sára lítið fannst af rækju en óvenju mikið af þorskseiðum. Þetta er ekkert flókið, það þarf að veiða meiri þorst ef menn ætla sér ekki að láta éta upp stofna eins og rækju, humar og fleira. 

En hvernig hefði ég t.d. viljar sjá úthlutun á þorski fyrir komandi fiskveiði ár?

Ef skoðað er hvað flestir sjómenn og útgerðarmenn eru að tala um, þá værum við að öllum líkindum að tala um ca. 300 þúsund tonn af þorski. Tillaga Hafró var tæð 240 þúsund tonn. Ef meðaltalið væri hins vegar tekið, þá væri hún 270 þúsund tonn af þorski, sem er að mínu mati miklu skynsamari tala. 

Ef við skoðum þetta hinsvegar út frá tillögu Hafró í löngu, þá eykur Hafró löngukvótann úr 14 þúsund tonnum í 16 þúsund tonn, á meðan mín reynsla á lönguveiðum segir mér það, að löngustofninn hafi toppað fyrir tveimur árum síðan og myndi því leggja til að hámarki 12 þúsund tonn, sem þar af leiðandi gæfi svipaðan kvóta og á ný afstaðnu kvótaári og svolítið merkilegt að lesa í júní sl. grein eftir forstjóra Hafró, þar sem hann spáir því að vegna nýjustu niðurstaðna varðandi t.d. löngustofninn, þá bendi nýjustu rannsóknir til þess að löngukvótinn muni fara niður fyrir 10 þúsund tonn á næstu árum. 

Þessi vinnubrögð sem ég er að tala um hér, hefðu einnig komið sér mjög vel í hinni rosalegri sveiflu sem ýsan hefur tekið sl. áratug, eða úr tæpum 40 þúsund tonnum upp í 105 þúsund tonn og svo aftur niður í 30 þúsund tonn. Að mínu mati einfaldlega fáránleg vinnubrögð. 

Það er mjög merkilegt að horfa á fréttirnar á rúv í kvöld, þar sem sveitastjórinn á Djúpavogi bölvaði núverandi kvótakerfi í sand og ösku, enda sveitafélagið búið að missa nánast allar sínar aflaheimildir. Ekki þarf að fara nema svona ca. áratug aftur í tímann, en þá hefði að öllum líkindum þessi sami sveitastjóri talað um besta kvótakerfi í öllum heiminum. En svona virkar frjálsa framsalið og svolítið merkilegt að heyra það nýlega að þrátt fyrir að störfum hér í Eyjum hafi fækkað verulega síðustu árin, þá hafi þó nokkrar útgerðir, sérstaklega smærri útgerðir, átt í töluverðum erfiðleikum með að manna sín skip í sumar. Hver veit nema við séum að detta inn í svipað ástand og í aðdraganda hrunsins, þar sem landsbyggðarfólk flykktist á höfuðborgarsvæðið til þess að taka þátt í veisluhöldunum þar? Og að sum leiti kannski skiljanlegt enda starfsöryggið í sjávarútveginum í dag afar lítið.

Merkilegt að fylgjast með þróun á uppsjávarveiðum og lokun Rússlands markað. Að sjálfsögðu kemur þetta sér mjög illa fyrir bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar, en þó afar misjafnt eftir fyrirtækjum. En eins og svo oft áður, þá er kannski stærsta vandamálið það að búið er að veðsetja allan þennan kvóta með kaupum á nýjum skipum, tækjum og búnaði og öðru, en vonandi tekst að leysa þetta fyrir loðnuvertíð.

Aðeins af smábátum. Það er greinilega orðið mjög brýnt ef smábátaútgerð í línuveiðum á að haldast í landinu, að fara að setja landhelgi á þessi stærstu línuveiði skip og ótrúlegt að horfa eins og síðustu daga á stórt línuveiði skip sem leggur og dregur alla vikuna, vera komið upp í kálgarða hér í Eyjum. Varðandi strandveiðarnar, þá er ég nú sammála því að þeir eigi að fá auknar heimildi í samræmi við það að kvótinn aukist, en miðað við það sem ég hef heyrt og séð, þá held ég að það myndi engan saka þó að aðrar tegundir en þorskur væru einfaldlega utan kvóta, enda staðreynd að enn eitt árið eru hundruðir og þúsundir tonna af t.d. ufsa að brenna inni, engum til gagns.

Óska öllum sjómönnum og kvótaeigendum gleðilegs nýs árs.


Fimmtudagurinn 6. ágúst 2015

Sagði við vinn minn áðan að ég væri á leiðinni í Herjólf á eftir í helgarferð út á land, en fékk þá þessi viðbrögð: En bíddu við, það má veiða lunda um helgina. Margir hafa komið að orði við mig að undanförnu að þeim finnist mikið af lunda í Eyjum, en miðað við mína reynslu sem veiðimaður í yfir 30 ár, þá verður bara að viðurkennast alveg eins og er að það sem fólk kallar mikið af lunda í dag, er ekki nema brot af því sem ég sá á mínum veiði árum. Ég mun því ekki veiða lunda á þessu ári, frekar en þau síðustu, og skora á veiðimenn að ganga gætilega um gleðinnar dyr. 

Ég fór reyndar upp á Heimaklett í gær og sá m.a. nokkra lunda að vera að bera síli í holur, sem er nú bara jákvætt og bendir til þess að hugsanlega verði einhverjar pysjur í ár.

Aðeins að Þjóðhátíðinni. Þjóðhátíðin í ár var sú fertugasta í röð hjá mér, en mikil breyting hefur orðið frá því að vera í því að bera fulla poka af glerflöskum heim á fyrstu árum mínum á Þjóðhátíð. Umgjörðin í dag orðin allt önnur og meiri og mín tilfinning er sú að Þjóðhátíðin í ár komist klárlega í topp 5 yfir bestu Þjóðhátíðir sem ég hef verið á. Dagskráin þétt og góð, gæslan og teymi lögreglunnar og öll umgjörðin til fyrirmyndar og svolítið sérstakt að fylgjast með hinni neikvæðu umræðu í garð fréttatilkynningar lögreglustjórans okkar fyrir Þjóðhátíð. Eftir að hafa setjið í brekkunni og fylgst með stöðugum áróðri gegn kynferðisbrotum m.a. á skjánum stóra sviðinu á milli skemmti atriða auk merkimiða á öll tjöld í dalnum með áróðri, að maður tali nú ekki um allt gæsluliðið sem var als staðar sjáanlegt, en kannski má segja sem svo að fréttatilkynning lögreglustjórans hefði kannski mátt vera betur orðuð, eða enn betra kannski alveg sleppt og málið kannski frekar unnið innan rannsakanda hér í Eyjum og fyrirspurnum frá fréttamönnum því einfaldlega svarað með því að einhver mál væru í rannsókn, en að gefin yrði út fréttatilkynning að rannsókn lokinni. Það er rosalega leiðinlegt eins og t.d. fyrir mánuði síðan að taka þátt í frábærri goslokahátíð með frábærum sýningum og atriðum út um allan bæ og sjá síðan að það eina sem birtist hjá fjölmiðlum, var hugsanlega ein tilraun til nauðgunar á goslokahátíð. En þessi mál eru og verða alltaf afskaplega viðkvæm og ég er ekkert viss um að fórnarlömbunum líði nokkuð betur við að sjá þessi mál í öllum fjölmiðlum.

En fyrir mína hönd og fyrir mína fjölskyldu þakka ég Þjóðhátíðarnefnd, ÍBV, gæslu og lögreglu, öllum starfsmönnum, tónlistarmönnum og ekki hvað síst þrif genginu sem sá um að hreinsa dalinn eftir Þjóðhátíð fyrir frábæra Þjóðhátíð.


Landeyjahöfn og goslok

Svolítið sérstakt að fylgjast með því hvernig umræðan um Landeyjahöfn lognast niður yfir sumarmánuðina, eða á meðan höfnin virkar. Reyndar er tíðin búin að vera hund leiðinleg og eitthvað um frátafir í sumar, en það sem er kannski verst fyrir ferðaþjónustuaðilana hér í Eyjum er að fólk ofan af landi er greinilega líka farið að fylgjast vel með veðurspám og mikið um afpantanir þegar veðurspáin er varasöm. 

Heitasta umræðuefnið í vor var sennilega þegar fyrst Herjólfur og síðan Víkingur snérust í innsiglingunni í Landeyjahöfn. Reyndar fannst mér sú umræða vera full öfgafull, enda þekkja allir skipstjórar það að skip sem er á siglingu með ölduna fyrir aftan sig (á lensi) að ekki er óalgengt að skip snúist við þær aðstæður og að sjálfsögðu eru allir vanir skipstjórnendur með höndina á stýrinu við þær aðstæður, en skip eru að sjálfsögðu misjafnlega góð að taka við sér og miðað við mína reynslu, þá eru t.d. skip sem eru sérstaklega flatbotna, eins og þessi nýja ferja á að vera, mikið lengur að taka við sér. 

Ég hef lent nokkuð oft í umræðu um möguleikann á göngum. Margir hafa sagt að þetta sé ekki raunhæft vegna þess, að það muni aldrei fást fjármagn í göng, en mín skoðun er einfaldlega sú, sem flestir viðmælendur mínir enda alltaf á, að auðvitað væri best ef við gætum fengið göng og ég segi því: Til hvers að vera að tala um eitthvað annað. Eigum við Eyjamenn ekki skilið það besta? Og er eitthvað í spilunum eitthvað sem segir, að vandamál Landeyjahafnar sé að fara að leysast á næstu árum? 

Það er þegar ljóst að kostnaður við að moka sand úr Landeyjahöfn á þessu ári er kominn yfir 500 milljónir og innanríkisráðherra er búinn að gefa það út, að það eigi að setja 1300 milljónir í Landeyjahöfn næstu 3 árin, sem samkvæmt þessu ári mun því gera lítið annað en að duga fyrir sandmokstri.

Varðandi gangaumræðuna, þá hefur það vakið athygli mína að mikið af eldra fólkinu okkar bregst við þeirri umræðu með því að fara að tala um eldgos og jarðskjálfta, og það hvarflar stundum að manni að þarna sé hugsanlega um að ræða einhvers konar afleiðingar af gosinu.

Tók eftir því að nýlega var tekin ákvörðun um að setja aukið fjármagn til þess að hefja aftur áfallahjálp meðal fólksins sem lenti hvað verst í snjóflóðunum fyrir vestan, en eins og við vitum flest öll, þá er mikill fjöldi Eyjamanna sem flúði Vestmannaeyjar 1973 enn án þess að hafa fengið nokkra hjálp til þess að takast á við áfallið sem margir urðu fyrir í gosinu og fullt af fólki hefur aldrei komið aftur til Eyja eftir gos og ég velti því upp, hvort ekki væri, þó seint sé, tími til kominn að fara að veita einhverju af þessu fólki áfallahjálp, því klárlega mun fullt af fólki sem, að upplifði þá ógn sem fylgdi gosinu á sínum tíma, aldrei losna undan áfallinu sem því fylgdi. 

Mig langar því að tileinka goslokahátíðinni í ár fólkinu sem aldrei kom aftur, í von um að það fari nú að láta sjá sig og sjá, hversu frábærlega okkur hefur tekist að byggja upp fallega bæinn okkar og að sjálfsögðu verður opið hús í Blíðukró á laugardagskvöldið.                                                    Gleðilega goslokahátíð .


Sjómannadagurinn 2015

Það hefur heldur betur gefið á bátinn hjá sjómönnum í vetur, en hjá sumum kannski svolítið meira heldur en hjá öðrum, en það vakti töluverða athygli hérna í Eyjum t.d. í febrúar að þegar landlega var í suðlægum áttum og 10-12 metra ölduhæð sunnan við Eyjar og allur eyjaflotinn í landi, þá voru að koma línuveiðarar frá Grindavík og byrja að leggja og draga sunnan við Eyjar. Það kom því ekki á óvart þegar fréttist að nokkrir línubátar frá Grindavík hefðu fengir á sig brotsjóa í vetur og m.a. amk. tveir orðið fyrir nokkru tjóni, en spurningin er sú, hvers vegna eru menn að róa í svona hættulegum aðstæðum?

Þekktur skipstjóri hér úr Eyjum, sagði mér frá því að hann hefði haft samband við skipstjóra á línubát sem lenti í tjóni í febrúar, en skipstjórinn þar umborð vildi bara sem minnst segja um málið.

Það eru í gangi sögur um að hjá einstaka fyrirtækjum í Grindavík séu það ekki skipstjórarnir, í öllum tilvikum, sem ákveða hvort farið sé á sjó eða ekki.

Ég hringdi í vikunni umborð í línuveiði skipið Fjölni frá Grindavík, sem hefur síðustu daga verið að ryksuga upp trillu miðin við Eyjar (ótrúlegt að þessi öflugu skip skuli ekki þurfa að sæta sömu landhelgis takmörkunum og önnur togskip). Sá sem var á vakt sagðist að sjálfsögðu ekki kannast neitt við að útgerðar fyrirtækið sem hann starfaði hjá væri með nokkur óvenjuleg vinnubrögð, en sagði þó þekkt að í Grindavík væri einmitt annað línu útgerðar fyrirtæki, sem sjómenn í Grindavík forðuðust í lengstu löð að ráða sig hjá, nema ef ekkert annað væri í boði. Vonandi verður tekið á þessu í sjóprófum sem haldin voru vegna þessara tjóna en sennilega verður þetta þaggað niður 

Makrílveiðar smábáta hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu, en ég tók fyrst þátt í umræðunni á landsþingi smábátaeiganda, en innan LS hafði verið sett saman svokölluð makrílnefnd frá helstu hagsmuna aðilum og í forsvari fyrir þeirri nefnd var ungur maður, sem er í dag, eftir því sem ég veit best, með mestu aflareynsluna. Fljótlega kom frá þessari nefnd tillaga um að frumkvöðlaréttur yrði virtur. Að sjálfsögðu var skotið á þessa menn að þeir væru bara að biðja um kvóta, en því var alfarið hafnað af nefndinni og ítrekað að það væri bara verið að tala um að virða frumkvöðlarétt. Tillögu þessari var að sjálfsögðu hafnað af LS. 

Í mars sl. var ég að horfa á umræður um makrílveiða smábáta á Alþingi og það vakti töluverða athygli mína orð sjávarútvegsráðherra, en þau voru nokkurn veginn svona: 

"Ég ætla að sjálfsögðu að tryggja það, að frumkvöðlaréttur smábáta verði virtur."

Aftur þetta orð, frumkvöðlaréttur. Eftir að hafa spurst lítillega fyrir um, þá var því hvíslað að mér að þessi ungi maður, sem var í forsvari fyrir makríl nefnd LS með þessa mikla aflareynslu í makrílveiðum, hefðu undanfarin ár verið einn af forystu mönnum í félagi ungra Framsóknarmanna og ég sé í dag að hann er í varastjórn ungra Framsóknarmanna, og til að kóróna það, þá fékk þessi sami maður nýlega 40 milljón króna styrk vegna tilrauna og frumkvöðla vinnu við nýtingar á öðrum ónýttum sjávar auðlindum, en mér er sagt að miðað við gangverð á makríl kvóta í dag, þá gæti söluandvirði makrílkvóta þessa unga manns numið allt að 300 milljónum. Reyndar hafði því verið hvíslað að mér áður að þar sem annar hagsmuna aðili í þessum sama geira væri nú á þingi einmitt fyrir Framsóknarflokkinn, þá væri nú nánast öruggt að þetta frumvarp færi í gegn, svo það klárlega amk. peningalega borgar sig að vera í Framsóknarflokknum.

Ég var reyndar að spá í það, hvort ég ætti kannski að sækja um styrk vegna frumkvöðlaréttar míns fyrir að gagnrýna vinnubrögðin við Landeyjahöfn og sjá hvort að einhverja millur dyttu inn um lúguna? En sennilega myndi það ekki ganga enda er ég ekki skráður í Framsóknarflokkinn.

Ég hef oft gagnrýnt vinnubrögð Hafró og ætla ekki að sleppa því nú, frekar en áður. Sjómenn fá reyndar oft að heyra það, að þeir vilji bara veiða óheft og helst klára allt í sjónum, en svo er alls ekki. Í mínum huga er sjómaður ekki ósvipaður og bóndinn sem vill sá og uppskera á hverju ári með skynsamlegri nýtingu. Það er ljóst af vinnubrögðum Hafró að þar er ekki í gangi nýtingar stefna, heldur fyrst og fremst verndar stefna og ég get vel skilið það að fyrir fólk sem þekkir ekki til, hvort sem er á þingi eða annar staðar, að það sé í sumum tilvikum auðvelt að selja þeim hugmundina um að geyma í hafinu til að veiða seinna, en svona bara virkar þetta ekki. 

Það eru amk. 2-3 ár síðan að aukning í aflaheimildum í þorski hefði átt að byrja, og jafnvel ennþá fyrr ef út í það er farið. Afleiðingarnar af því að þetta hafi ekki verið gert sjáum við í dag. Ég hef aldrei séð aðra eins þorsk gengd við Eyjar og núna á vertíðinni og á sama tíma sjáum við að humarkvótinn er skorinn niður núna á hverju ári og ég heyrði í humar skipstjóra um daginn, að það væri nánast enginn smá humar að hafa á miðunum og raunar lítið annað en þorsk og löngu sem, eins og allir sjómenn vita, éta gríðarlegt magn af humri. Það er því ljóst að það er komin stór skekkja í hafinu og gríðarlega mikilvægt að leiðrétta sem fyrst.

Þarna hefði ráðherra átt að grípa inn í, sem og varðandi aðrar tegundir, og svolítið sorglegt að horfa upp á ráðherra fela sig stöðugt á bak við gölluð gögn Hafró og í raun svolítið furðulegt, að þessir tveir flokkar sem mynda meirihluta á þingi í dag, skuli svona oft velja sér sjávarútvegsráðherra sem fyrst og fremst hefur unnið sér það til menntunnar, að kunna að mæla hitann í beljum og með afar takmarkaða þekkingu á sjávarútvegi. Reyndar hafa einstaka þingmenn talað um að taka ætti mark á þekkingu og reynslu sjómanna, en þetta heyrist nú yfirleitt aðeins rétt fyrir kosningar. 

Að lokum þetta:

Maður heyrir oft úr fréttum þessar öfgafullu fréttir af ofsa veiði eða ofsa gróða sumra útgerðarfyrirtækja og t.d. í nýjustu fiskifréttum er fullt af myndum af nýju, glæsilegu uppsjávar veiðiskipi, en það fer frekar lítið fyrir hinni hliðinni. Ný skip færri störf, meiri gróði meiri hagræðing, færri störf sjómanna, slagurinn um hvert pláss gríðarlegur og þegar maður horfið á umræður á Alþingi Íslendinga um skattlagningu á útgerðina, þá virðist enginn muna eftir sjómönnunum, lausir samningar sjómanna árum saman, sjómanna afslátturinn tekinn af, lög á verkföll sjómanna og það gleymist því miður allt of oft í æsi fréttamennsku fjölmiðlanna, að þó svo að margir sjómenn hafi mjög góð laun, þá er það svo sannarlega misjafnt eftir útgerðum og miðað við mína þekkingu og reynslu, þá vinna þeir svo sannarlega fyrir hverri einustu krónu. Það er ekkert grín að vera sjómaður á landinu okkar þegar veðrið er eins og í vetur og ég ætla eins og aðrir sjómenn að halda sjómannadaginn hátíðlega og óska því öllum sjómönnum til hamingju með daginn. 

 


Húrra fyrir hetjum Landeyjahafnar

Fyrst aðeins að grein minni í 1. maí blaði Eyjalistans. 

Þar m.a. kemur fram að sé horft til næstu 30 ára með Landeyjahöfn eins og hún er í dag, þá muni hún að öllum líkindum vera búin að kosta ríkið 50-60 milljarða og samt með sömu og/eða svipuð vandamál og í dag. Varanleg lausn hins vegar á samgöngum okkar eyjamanna myndi hins vegar ekki kosta okkur nema liðlega 30 milljarða, og því til viðbótar má bæta við, að augljóslega mundi sparast miklir fjármunir í framtíðinni með því að geta tekið og endurnýjar allar lagnir milli lands og eyja í gegnum göng. 

Ég las grein fyrir nokkru, skrifaða af dæmigerðum landkrabba hér í eyjum, þar sem hann gerði frekar lítið úr vinnu þeirra sem unnið hafa að undanförnu við að dýpka í Landeyjahöfn og tók eftir því að um svipað leyti kom fram tilkynning um að það væri ætlunin að reyna að fá öflugri dæluskip, til þess að vinna verkið hraðar og betur, en frétti ég síðan af því, að haft var samband við erlenda fyrirtækið sem að, á sínum tíma, bauð á móti Björgun í útboði varðandi sanddælingu úr Landeyjahöfn.

Svörin vöktu sérstaka athygli mína, því að í svari hins erlenda fyrirtækis kom fram, að það fyrirtæki hefði engan áhuga að koma frekar að þessari sanddælingu í Landeyjahöfn, vegna þess að þar væri verið að vinna við aðstæður, sem væru ekki bara fáránlegar heldur líka hættulegar, því að það væri einfaldlega þannig að sanddælingar með sanddæluskipum, væru fyrst og fremst unnar við aðstæðum þar sem boðið væri upp á ládauðann sjó og það að bjóða mönnum upp á að vinna upp í 2-3 metra ölduhæð, væri algjörlega galið og ekki bjóðandi upp á.

Þannig að um leið og ég fagna því, eins og allir eyjamenn, að Landeyjahöfn sé loksins opnuð og að veðurspá næstu vikuna sé afar hagstæð, þá er ágætt að vita það hér með að þær aðstæður sem við búum núna við í Landeyjahöfn er eitthvað sem við munum þurfa að búa við, að óbreyttu, í framtíðinni. Ég ætla því að enda þetta með því að segja:

HÚRRA FYRIR HETJUM LANDEYJAHAFNAR

eða þ.e.a.s. áhöfnunum á sanddæluskipunum, sem vinna á skipum sem eru löngu komin á tíma og við aðstæður, sem að samkv. því sem hér kemur fram, engir aðrir myndu láta bjóða sér upp á.


Gleðilegt sumar 2015

Lundinn settist upp í gærkvöldi 18. apríl, sem er 5 dögum fyrr heldur en í fyrra, en þar með er komið sumar hjá mér. Reyndar hefur verið töluvert af lunda í kring um Eyjar undanfarna daga, en ég hef ekki séð hann setjast upp fyrr en í gær.

Hvort það hafi einhverja þýðingu fyrir sumarið, að lundinn komi aðeins fyrr veit ég ekki, en það er mjög áhugavert að fylgjast með nýjustu spám um veðurfars breytingar á næstu árum og það að sjórinn sé töluvert kaldari sunnan við Eyjar en síðustu ár er vonandi ávísun á það að aðstæður fyrir lundann í Vestmannaeyjum fari nú að batna, en það verður tíminn einfaldlega að leiða í ljós.

Stærsta áhyggjuefnið varðandi lundann, sem og aðra fuglastofna við Eyjar þetta sumar, er sú ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að semja við ríkið um að sett verði af stað svokölluð verndaráætlun fyrir fuglastofna í Vestmannaeyjum, en í því ráði eiga að vera 5 aðilar. Einn frá ríkinu, einn frá Náttúrustofu Íslands, einn frá Náttúrustofu suðurlands, einn frá Vestmannaeyjabæ og einn frá hagsmunaaðilum. Ég reikna með því að Erpur verði þarna fyrir NS og því augljóst að mínu mati, að Eyjamenn verða þarna í minnihluta og að mínu mati, þá mun það ekkert þýða fyrir landeigandann, Vestmannaeyjabæ, sem að sjálfsögðu hefur alltaf loka orðið að segja nei við tillögum meirihlutans í þessu ráði, vegna þess að fjármagnið á bak við þetta ráð kemur frá ríkinu, en mér segir svo hugur að allir þeir fjöl mörgu eyjamenn sem hafa í dag rétt á margs konar nytjum á fuglastofnunum við Eyjar muni nú ekki kyngja því þegjandi ef Erpur á að fara að stjórna því, hvað sé nýtt og hvað ekki. 

En vonandi verður sumarið gott fyrir bæði menn og fugla.


Landeyjahöfn eða sandeyjahöfn

Landeyjahöfn er enn einu sinni komin í fréttirnar og enn og aftur fyrir það að höfnin sé full af sandi. Þegar maður skoðar myndina inni á eyjafréttum, sem fylgir fréttinni, þá sést vel að það er hægt að ganga þurrum fótum um hluta af höfninni og það rifjaðist upp fyrir mér, svona til gamans, sumar af yfirlýsingum Sigurðar Áss í gegnum árin. Fyrst, þessi óvenju mikli sandburður er vegna goss í Eyjafjallajökli. Við vitum öll í dag að þetta var bara bull, sem og yfirlýsing hans um að Markarfljót væri að flytja óvenju mikinn sand niður og lagt í mikinn kostnað við að breyta farvegi þess til einskis. Síðan þá heyrum við hann reglulega lýsa því yfir að sandburðurinn hafi ekki aukist, en eins og ég hef orðað það svo oft áður, þá fer þetta algjörlega eftir veðri og vindum og bull Sigurðar um að náttúran myndi taka höfnina í sátt, er kannski besta dæmið um það, þegar menn eru að tala um hluti sem þeir hafa ekkert vit á, enda mun náttúran alltaf leitast við að útrýma þessu mannanna verki.

Eftir kynningarfundin í haust um nýsmíðina fjallaði ég um það að ég hefði fengið flass back þegar Sigurður sagði frá því, að reiknað væri með því að með nýsmíðinni yrðu frátafir í Landeyjahöfn aðeins 10 dagar. Nýlega var þessu breytt inni hjá Siglingamálastofnun í 10% og í ágætri kynningu á nýsmíðinni sem ég fékk frá Adda Steina, þá vorum við hins vegar algjörlega sammála um það, að það viti að sjálfsögðu enginn hversu miklar frátafirnar verða, en einn af skipstjórum Herjólfs sagði við mig fyrir nokkru síðan, að hann teldi að frátafirnar yrðu sambærilegar og á Herjólfi, og það sem verra væri, þessi nýja ferja gæti ekki siglt til Þorlákshafnar í tíðarfari eins og í vetur. Ég er nú ekki alveg sammála því, en eins og þekktur skipstjóri hér í bæ orðaði það við mig :"Þetta verður engin skemmtisigling." Og nokkuð ljóst að fækkun koja um 2/3 er eitthvað sem Eyjamönnum hugnast svo sannarlega ekki.

Ég skrifaði grein í júlí 2013, minnir mig, þar sem ég gagnrýndi það að ekki væri tekið á þessum  pöntunum fyrir pláss á bíladekkinu, þar sem að mörg dæmi eru um, og fleiri hafa fjallað um, að þrátt fyrir að Herjólfur sé fullbókaður, þá sé jafnvel dæmi um það að meiri en 30 bílar af biðlistum hafi komist með, og ég velti því upp hvort ekki væri rétt að sekta þá sem ættu bókað en mættu ekki, en mér var hins vegar nýlega bent á það, að í flestum tilvikum væru þetta flutningsfyrirtækin sem ættu stundum bókað fyrir allt að 6-7 gáma, en mættu svo kannski bara með 2-3, skil vel að Eimskip eigi kannski erfitt með að beita sektum á sig sjálft, svo klárlega er þetta stærra vandamál heldur en ég hélt og tjónið fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum gríðarlegt. Nú liggur fyrir að hönnuninni á nýju ferjunni er lokið og ljóst, að með henni verður nánast stöðnun í samgöngumálum okkar, þó svo að það eigi að reyna að bæta eitthvað við ferðum yfir sumar mánuðina. Yfir vetrar mánuðina, hins vegar, gæti þetta klárlega orðið afturför ef allt fer á versta veg.

Ég sá ágæta grein fyrir um mánuði síðan frá bæjarstjóranum okkar, þar sem hann kvartaði sáran yfir því, að tekjur bæjarins hefðu minnkað verulega vegna fækkun starfa til sjós, sem einmitt ég hef varað við árum saman, sem eina af afleiðingum hins svokallaða frjálsa framsals. Þeim mun sárara er þá að ná því ekki að nýta okkur þessar spár um verulega aukningu ferðamanna á næstu árum með því að fá hingað stærri og gangmeiri ferju, en ekki er búið að fjármagna nýsmíðina ennþá, svo það er enn hægt að grípa inn í og þess vegna hægt að stækka ferjuna ef menn vilja.

Heyrði sagt frá því fyrir nokkru síðan að þingmaður Sjálfstæðisflokksins í suður kjördæmi, hefði látið hafa eftir sér að það væri gríðarlega mikilvægt að nýsmíðin væri komin til Eyja rétt fyrir kosningarnar 2017. Ótrúlega margir hafa líka sagt við mig að þetta sé líka það sem bæjarstjórinn okkar sé að hugsa, enda hugi hann á framboð einmitt það vor, ekki veit ég hvort að það sé rétt, en ég myndi hins vegar skilja það mjög vel enda bæjarstjórinn okkar í svipuðum málum og Landeyjahöfn, það fjarar svolítið hratt undan.


Veðrið og gæludýrin okkar

Veðrið núna í mars hefur versnað heldur betur frá því sem var í febrúar, en eins og ég sagði í síðustu grein minni, þá er oft séns á sjóveðri hér í Eyjum þegar lægðirnar enda í norðan áttum. Þegar hins vegar hann liggur í suðlægum áttum, er alveg vonlaust að komast á sjó og soldið merkilegt að þessi vonda tíð núna byrjaði 4. mars, en 5. mars í fyrra hrundi vélin í gamla bátnum mínum og hvessti seinni partinn þann dag og gaf ekki á sjó hjá smábátum í hálfan mánuð eftir það og ef eitthvað er að marka veðurspána fyrir næstu vikuna, þá virðist stefna í að mars verði mjög svipaður og í fyrra. Þetta er hins vegar ekki al slæmt, enda daginn farið að lengja og maður sér að fýllinn er farinn að máta hreiðrin sín og svartfuglinn allur sestur upp, en svona er nú einu sinni vorið. Baráttan á milli heita og kalda loftsins mun eitthvað halda áfram.

Sem gæludýra eigandi ákvað ég að skoða aðeins þær reglur sem nýlega voru samþykktar hjá Vestmannaeyjabæ, eða réttara sagt írtekaðar, vegna þess að reglur um gæludýra hald hafa að sjálfsögðu verið í gildi í mörg ár, en ekki kannski verið tekið á því áður hér í Vestmannaeyjum. Það er hægt að lesa, að mestu leyti, um reglurnar sjálfar inni á vef Vestmannaeyjabæjar en til þess að fá það sem upp á vantar, ræddi ég við meindýraeiðir og gæludýraeftirlitsmanns Vestmannaeyjabæjar og úr þessu öllu kemur þetta:

Það er öllum skylt að láta örmerkja dýr sín, en það fæst aðeins gert hjá dýralækni. Einnig þarf að ormahreinsa þau og það er skylt að tryggja alla hunda. Einnig er stranglega bannað að láta hunda ganga lausa. Eftir að dýrið hefur verið örmerkt þarf að fara til eftirlitsmanns og skrá og borga fyrir við fyrstu skráningu 7000 kr, en síðan 5000 kr á ári. Þetta gjald er notað af bænum til þess að standa undir kostnaði við geymslusvæði fyrir dýr sem annaðhvort sleppa eða týnast, en nýlega var keyptur gámur, innréttaður með bælum og búrum og afgirtu útisvæði, en þessu hefur öllu verið fundinn staður inni á svæði Áhaldahússins.

Varðandi dýr sem tekin eru og eru ekki með neina örkerkingu eða aðra merkingu, þá ber eftirlitsmanni að geyma þau í hámark í 7 daga ber honum að lóga þeim, ef þau hins vegar eru merkt, en ekki örmerkt og óskráð, þá verður að sjálfsögðu haft samband við eigendur, en sé dýrið ekki örmerkt liggja við því sektir, og sé sama dýrið tekið oftar en einu sinni, verða sektir fljótlega mun hærri heldur en skráningargjaldið. 

Einnig vildi eftirlitsmaður taka það fram, að Haugasvæðið þar sem fólk hefur farið með hundana sína og leyft þeim að hlaupa um, er EKKI einhvers konar úti kamar, að sjálfsögðu á fólk að taka upp eftir dýrin sín þar eins og annar staðar. Það hafa einhverjir gæludýraeigendur verið að tala um það, að það þurfi að fara að opna annað útisvæði vegna þess hversu slæm umhirðan er orðin þarna, en þarna þyrfti hreinlega að þrífa allt svæðið og búa betur um þannig að fólk eigi betur með að losa sig við það sem dýrin skilja eftir. 

Ég hlýt að velta því upp sem gæludýra eigandi, hvort að gæludýra eigendur í Vestmannaeyjum þurfi ekki hreinlega að stofna lítið félag, það er reyndar ágæt gæludýra síða inni á FB, en spurning hvort að ekki þurfi að standa betur að þessu hér í Eyjum, enda gæludýra eigendum fjölgað alveg gríðarlega á síðustu árum. 

Ég er einn af þeim sem fer stundum út með hundinn minn að labba, og á sumrin kemur því miður allt of oft fyrir að maður rekur augun í afurðir einhvers hundsins á göngunni, sem einhver eigandinn hefur ekki nennt að taka upp. Því miður er allt of mikið um þetta, og ekki þarf nema einn til að koma slæmu orði á okkur hin, en þetta er rosalega slæmt, því öll viljum við búa í hreinum og fallegum bæ, og Vestmannaeyjabær verður alltaf fallegur bær, en Vestmannaeyjabær er líka túnið okkar allra og mér finnst að við ættum að hugsa svolítið betur um túnið okkar. Frekar leiðinlegt að horfa upp á þúsundir ferðamanna þramma frá hafnarsvæðinu upp í bæ og þurfa að segja frá einhverri hundaskítsklessu á miðri gangstéttinni. En þetta getum við lagað.

Óska öllum Eyjamönnum gleðilegs vors.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband