29.5.2016 | 22:16
Sjómannadagurinn 2016
Sjómannadagshelgin fram undan og því rétt að fara yfir fiskveiðiárið að venju.
Þetta er 29. fiskveiðiárið sem ég geri út hér í Eyjum og það lang, lang erfiðasta. Tíðin hefur reyndar verið mjög góð og nóg af fiski í sjónum, en eins og ég hef áður sagt í greinum um sjávarútvegsmálin, þá eru inngrip núverandi ríkisstjórnar með því verra sem ég hef upplifað.
Eins og ég spáði fyrir um, þá hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leyfa stækkun krókaaflamarks báta gert það að verkum að slagurinn um kvótann hefur aldrei verið meiri, auk þess sem stórútgerðin er komin með áhuga á króka kerfinu og er byrjuð að kaupa það upp.
Færsla veiðigjalda frá og með 1. sept. sl. frá úthlutuðum aflaheimildum yfir í landaðan afla hefur nánast algjörlega gert út af við alla leiguliða og ótrúlegt, að þeir sem hafa mest út úr kvótanum í dag séu þeir, sem eru hvað harðastir í að spila á kerfið.
Það er einnig ljóst að hrunið á mörkuðum Íslendinga í Nígeríu hefur haft mikil og slæm áhrif og leitt til verulegrar lækkunar á fiskmörkuðum, en svona til gamans fyrir þá sem ekki þekkja til hvernig dæmið lítur út í dag með þorskkvótann og leiguliðann, þá er leiga á þorsk kílóinu rétt tæplega 230 kr (af því greiðir eigandinn af kvótanum ekkert til ríkisins). Veiðigjaldið sem leiguliðinn þarf svo síðan að skila til ríkisins eru tæpar 17 kr og með sölukostnaði inni á markaði, þá er er ljóst að kostnaður leiguliðans við að veiða og landa einu þorsk kílói er í kringum 250 kr, en þá á leiguliðinn að sjálfsögðu eftir að borga sinn eigin kostnað við að veiða þetta kíló. Veruleikinn er síðan sá, að meðalverð á þorski á fiskmörkuðunum á vertíðinni er ekki nema rétt í kring um 250 kr.
Í febrúar sl. mætti þáverandi sjávarútvegsáðherra á fund til Eyja og ég náði honum á eintal eftir fundinn og spurði hann ma. þessara spurninga:
Hvers vegna ertu búinn að færa veiðigjöldin yfir á leiguliðana?
Svar: Ég hef ekki gert það,
Þessu svaraði ég þannig:
En þú færðir veiðigjöldin yfir á landaðan afla.
Svar: Það er reyndar rétt.
Þá spurði ég: Ertu ekki hræddur um að veiðigjöldin verði til þess að brottkast á verðlausum fiski aukist verulega?
Svar: Nei, það er bannað með lögum, en það er leiðinlegt að heyra ef svo er.
Þessi fyrrum sjávarútvegsráðherra Íslands er núna forsætisráðherra Íslands.
Það er frekar dapurlegt að fylgjast með hvernig starfsumhverfi sjómanna hefur þróast síðustu árin. Skipin stækka, sjómönnum fækkar og sjómenn sem að ráða sig í pláss hjá útgerðum með litlar aflaheimildir, þurfa orðið oft að sætta sig við það, að um leið og þeir eru búnir að fá ráðningarsamninginn, þá fá þeir oft uppsagnarbréfið, sem miðast þá við að búið sé að veiða aflaheimildir útgerðarinnar. Ekki beint spennandi framtíð þar.
Þetta erfiða ár hefur gert það að verkum að áhugi minn í að starfa í útgerð hefur minnkað stórlega, auk þess sem að núna í maí kom að því, sem ég vissi alltaf að kæmi að fyrr eða síðar, að ég yrði sjálfur að fara í slipp. Ég get ekki svarað því í dag, hvort ég hreinlega leggi það á mig að hefja aftur róðra með haustinu, þökk sé kvótakerfinu og núverandi ríkisstjórn.
En þar sem kosningar eru nú fram undan og sumir flokkar eru farnir að tala um breytingar á kvótakerfinu, og sjálfur veit ég ekkert hvað ég á að kjósa í haust, þá langar mið að koma með smá hugmynd um það, hvernig stefnu og tillögur ég t.d. gæti hugsað mér að styðja og kjósa og það meira að segja þrátt fyrir að ég myndi sjálfur ekki nenna að starfa í slíku kerfi, en það eina jákvæða sem við sjáum í Íslenskum sjávarútvegi i dag og m.a. hér í Vestmannaeyjum er, að bátum í strandveiðum fjölgaði í vor. Reyndar fengu strandveiðibátar í D svæði ekki góða sendingu frá ríkisstjórninni, enda voru aflaheimildir í D svæði, eina svæðið þar sem þær voru minnkaðar.
En hvað hefði ég viljað sjá koma frá framboði næsta haust?
Ég hefði viljað sjá strandveiðitímabilið lengt um helming og t.d. hér í Vestmannaeyjum yrði það mjög vinsælt hjá strandveiðimönnum ef tímabilið stæði frá 1. jan og út ágúst. Veðurfarið er náttúrulega mjög erfitt oft á þessum vetrar mánuðum, en það vandamál væri t.d. hægt að leysa þannig, að hver bátur fengi úthlutað 3 veiðidögum á viku, sem þeir gætu valið sjálfir, sem myndi svo minnka hættuna stórlega á því að menn taki áhættuna á því að róa í slæmum veðrum.
Einnig teldi ég mjög sterkt til þess að auka líkurnar á því, að menn gætu farið langt með að lifa á þessu yfir árið, að aflinn yrði aukinn upp í 1 tonn af þorskígildi í róðri. Augljóslega, að mínu mati, myndi þetta gera það að verkum að möguleikar landsbyggðarinnar myndu aukast verulega. Að sjálfsögðu myndi öll stórútgerðin verða alveg brjáluð gegn öllum slíkum hugmyndum, en þá kemur einmitt, að mínu mati, að lykilatriðinu í hugmyndinni. Ég tel nú þegar verið orðnar það miklar skekkjur í flestum fiskistofnum á Íslandsmiðum, að það sé einfaldlega pláss fyrir svona kerfi og það þrátt fyrir að það færi jafnvel yfir 20 þúsund tonn, að það væri óhætt að hafa þetta kerfi utan úthlutaðra aflaheimilda, enda er ég algjörlega á móti öllu bulli um einhverja potta eða uppboð á öllum aflaheimildum eða einhverju slíku bulli.
Gleymum því ekki að auðlindin er sameign þjóðarinnar. Það þarf að gera ákveðnar breytingar á kerfinu en það er ekki sama hvernig.
Ég auglýsi hér með eftir stjórnmálaflokki eða hreyfingu, sem er tilbúin að vinna eftir svipuðum hugmyndum sem þessari og ég mun svo sannarlega styðja við og kjósa slíkt framboð.
Óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar sjómannadagshelgar.
Georg E. Arnarson
14.5.2016 | 21:24
Áskorun á rekstraraðila Herjólfs
Það hafa óvenju margir komið á máli við mig að undanförnu og kvartað sáran yfir fargjöldum með Herjólfi. Þetta hefur lengi verið mál sem hefur verið á milli tannanna á Eyjamönnum og það er ósköp skiljanlegt, vegna þess að fargjöldin eru allt of há og í engu samræmi við vegalengdina sem farin er. Það ganga nú orðið sögur út um allan bæ að það sé bullandi hagnaður á rekstri Herjólfs og að greiðslurnar frá ríkinu, fari beint í vasa rekstraraðila. Ekki veit ég, hvort þetta er satt, en ég skora hér með á rekstraraðila Herjólfs að birta ársuppgjör nokkur ár aftur í tímann, og þá um leið hvort og þá hversu mikill hagnaður er af rekstrinum og um leið, hversu hátt hlutfall af hagnaðinum kemur frá ríkinu (ef það er hagnaður).
Miðað við fjölgun farþega og lækkun olíukostnaðar síðustu ár, þá hlýtur reksturinn að hafa lagast mikið síðustu ár, en samt hækkaði gjaldið með skipinu s.l. vetur.
Ég tel að almennt séu Eyjamenn á þeirri skoðun, að gjaldtaka á þessum þjóðvegi okkar eigi ekki að vera hærri en sem nemur kostnaði annara Íslendinga við að ferðast sambærilega vegalengd.
Með von um skjót svör.
Georg Eiður Arnarson
23.4.2016 | 18:05
Gleðilegt sumar og af forseta framboði
Lundinn settist upp þann 19. og þar með byrjaði sumarið hjá mér, tveimur dögum fyrir sumardaginn fyrsta.
Ég er óvenju spenntur fyrir þessu lunda sumri, enda var bæjarpysjan í Vestmannaeyjum á síðasta ári hátt í 4000 pysjur og því gríðarlega spennandi að sjá, hvort að sá frábæri viðsnúningur komi með framhald í ár. Ekki minnkaði bjartsýnin við að heimsækja nokkrar eyjar fyrir norðan land s.l. sumar og sjá, hversu gríðarlega sterkur lundastofninn á Íslandi er.
Ekki nýtti ég mér veiðidagana í eyjum s.l. sumar frekar en síðustu ár, en hef eftir þeim sem fóru til veiða að töluvert hafi verið af ungfugli í veiðinni, sem klárlega réttlætir það, að einhverjir dagar verði leyfðir í sumar, en ég er hins vegar sammála þeirri breytingu að þeir verði þá ekki fyrr en í ágúst.
Toppurinn á árinu hjá mér var klárlega ferð til Grímseyjar s.l. sumar, þar sem ma. menn fengu að ná sér í soðið. Merkilegt nokkuð, þá veiddust einir 4 merktir lundar í ferðinni og hefur komið í ljós, að 2 þeirra voru merktir á sínum tíma í Vestmannaeyjum. Þannig að þar með er það sannað endanlega að mínu viti að lundinn flakkar um eða færir sig til eftir ætinu.
Forsetaframboð eru mikið í umræðunni að undanförnu. Sjálfur hef ég ma. fengið nokkrar áskoranir, sem sumar hverjar hafa komið mér nokkuð á óvart. Reyndar sagði ágætur vinur við mig um daginn, að af ég færi í framboð, þá myndi hann kjósa mig en bætti svo við eftir smá umhugsun: Nei heyrðu, þá verður þú að fara frá eyjum, en það vill ég ekki, þannig að ég er hættur við að kjósa þig.
Því verður hins vegar ekki neitað að laun upp á rúmar 2 milljónir á mánuði, einka bílstjóra, ferðalög út um allan heim, veisluhöld er kannski aðeins meira freistandi heldur en að standa niðri í beituskúr allt árið, eða veltast í öldunni við eyjar.
Ég hef því ákveðið eftir að hafa ráðfært mig við stórfjölskylduna, að taka áskorun frá fjölmörgum aðilum hér í bæ og af fastalandinu, um að bjóða mig hér með EKKI fram til forseta Íslands.
Gleðilegt sumar allir.
25.3.2016 | 15:54
Landeyjahöfn og séfræðingarnir
Það er greinilega komið vor í Eyjum með föstum vorboðum. Farfuglarnir byrjaðir að koma og páskahretið á leiðinni og það nýjasta, Landeyjahöfn eins og vanalega full af sandi.
Það hefur ótrúlega mikið verið skrifað um Landeyjahöfn að undanförnu og margt mjög athyglisvert þar. Sérstaklega þóttu mér góðar greinarnar frá skipstjóranum á Lóðsinum og skipstjóranum á Dísu, enda eru þar á ferðinni menn, sem eru að skrifa út frá þekkingu og reynslu.
Mig langar hins vegar að koma aðeins inn á ræðu bæjarstjórans frá því í bæjarstjórn fyrir rúmu ári síðan (tek það fram að ég var ekki á staðnum og þetta er ekki orðrétt), en svona var mér sagt að bæjarstjórinn hefði orðað það: "Ég hef ekkert vit á samgöngum á sjó, og það hafið þið ekki heldur. Við eigum og verðum að treysta sérfræðingunum." (Vonandi er þetta amk nálægt því að vera rétt).
Þessum orðum bæjarstjórans er ég alveg sammála, en svo skilur á milli, því þegar bæjarstjórinn talar um sérfræðinga, þá er hann að sjálfsögðu að tala um þá sem tóku ákvörðun um að gera þessa höfn á þessum stað, og um leið þá sem bera hvað mesta ábyrgð á öllu þessu klúðri sem Landeyjahöfn er. Í mínum huga, hins vegar, eru hinir einu réttu sérfræðingar á samgöngum á sjó, sjómennirnir og skipstjórarnir sem starfað hafa á svæðinu, en merkilegt nokkuð, bæjarstjórnin virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að fara að ráðum þeirra sérfræðinga.
Reyndar finnst mér þetta orð, sérfræðingur, afar leiðinlegt og svolítið sérstakt þegar maður hugsar til baka um sumar fullyrðingar sem bæði hafa verið skrifaðar og sagðar af sérfræðingum Vegagerðarinnar og Siglingamálastofnunar í gegnum árin, eins og t.d. varðandi sandburðinn, hér hefir orðið gos sem ekki var reiknað með, óvenju harður vetur, náttúran mun taka höfnina í sátt, vandamálin eru vegna Markarfljóts og síðan í haust, vissi alltaf að útreikningar dönsku sérfræðinganna varðandi sandburð væri rangir. Aðrar fullyrðingar eins og hafðu ekki áhyggjur af austanáttinni, það kemur nánast aldrei austanátt í Eyjum, frátafir upp á 1,6%, 10 dagar, 20 dagar, 10%, 20-30 dagar, 30-70 dagar, 2-3 mánuðir, allt meira og minna ágiskanir algjörlega út í loftið. Spá mín um frátafirnar frá 2007 var, í góðum árum 4-6 mánuðir, í mjög vondum veður árum allt að 8 mánuðir (að gefnu tilefni þá hefur veturinn í vetur verið óvenju mildur).
Aðeins að grein bæjarstjórans þar sem hann orðaði þetta þannig: "Ef menn hefðu vitað um sandburðinn fyrir fram, þá hefðu menn sennilega ekki gert þessa höfn og hvar stæðum við þá."
Ég hef nú svarað þessu áður og get svo sem endurtekið það, að sögn sumra úr stjórn Ægisdyra, sem fullyrða það að ef þeir hefðu haft stuðning bæjarstjórnarinnar á sínum tíma, þá værum við komin með göng í dag. (tek það fram að ég er ekki í stjórn Ægisdyra)
Lokaorð: Ég er á þeirri skoðun að skynsamlegast væri í dag að fá stærri og gangmeiri ferju, til þess að geta betur tekist á við þá auknu flutnings þörf sem blasir við, en auðvitað þyrfti sú ferja að geta siglt í báðar hafnirnar (með ólíkindum að það eigi að fara að smíða ferju, sem siglt verður að öllum líkindum á 12,5-13 mílna ferð og með hámarks ganghraða upp á 15 mílur, á meðan meira að segja gámaskipin sigla á þetta 15-18 mílna hraða).
Það eru í gangi gríðarlega margar og miklar kjaftasögur, bæði um þessa nýsmíði og um Landeyjahöfn og að mínu vita væri skynsamlegast í stöðunni að boða til borgarafundar, þar sem smíðanefnd og hönnuðir á ferjunni gætu þá svarað öllum þessum kjaftasögum varðandi nýju ferjuna.
Einnig væri skynsamlegt að fá á fundinn fulltrúa ríkisins, sem hefur nú þegar sett, eftir því sem mér er sagt, á fjárhagsáætlun ákveðna upphæð sem merkt er lagfæringum á Landeyjahöfn og fá þá skýr svör um það, í hverju þær lagfæringar felast.
Ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér í því, að boðað verði til slíks borgarafundar, enda veitir ekki af, sérstaklega ef tekið er tillit til nýrrar skoðanakönnunar MMR þar sem klárlega kemur fram djúp gjá milli yfirgnæfandi meirihluta bæjarbúa og bæjarstjórnar um það, hvað gera eigi næst.
21.2.2016 | 16:34
Landeyjahöfn 21.2.2016
Það er mikið fjallað um Landeyjahöfn þessa dagana, skiljanlega. En mig langar að byrja á því að lýsa yfir mikilli ánægju með það að skipstjórarnir, sem að sjálfsögðu eru sérfræðingar í því að nýta Landeyjahöfn, skyldu fá fund með innanríkisráðherra, eða fulltrúum hennar, en mig langar líka að senda henni baráttukveðju frá okkur Eyjamönnum í sínum veikindum.
Ég vona það að þessi fundur, ásamt skrifum fjölmargra sem vit hafa á málinu, verði til þess, að smíðinni á nýrri ferju verði frestað, enda mikilvægast í stöðinni að fá óháða aðila til þess að gera nákvæma úttekt á höfninni og gríðarlega mikilvægt að áður en farið verður í að smíða þessa sér hönnuðu ferju fyrir Landeyjahöfn að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hvort það sé einhver möguleiki á því að Landeyjahöfn verði einhvern tímann heilsárs höfn, en ég er á þeirri skoðun að svo verði ekki.
Varðandi skoðunarkönnun bæjarstjórnarinnar, þá er hún eiginlega ekki svara verð.
Einnig er ég ósammála stefnu bæjarstjórnarinnar og hefði sjálfur aldrei skrifað upp á þessi vinnubrögð.
Ég skil reyndar vel skoðanir sumra, en tel enn að vandamál bæjarstjórnarinnar sé það, að þar séu menn enn að reyna að réttlæta fyrri ákvarðanir í samgöngumálum okkar.
Það er með ólíkindum að horfa upp á alla þessa ferðamenn á landinu okkar á meðan enginn kemur til Eyja og skelfilegt að hugsa til þess, að gríðarlegur fjöldi fólks hér í Vestmannaeyjum hefur lagt allt sitt undir í að reyna að skapa sér og sínum tekjur í ferðaþjónustu tengdum greinum. Við sjáum þetta kannski best núna þegar sum gistiheimilin hafa lokað yfir vetrartímann, sem og sumir veitingastaðir
Það er mikið hlegið að því þessa dagana að menn þurfi að fá Dísu til þess að grynnka í Landeyjahöfn til þess að Belgarnir komist inn í höfnina til þess að grynnka, og það segir sig svolítið sjálft að ætla sér að nota grafskip sem rista hátt í 4 metra til þess að dæla í burtu sandi, þar sem dýpið er einhver staðar í kring um 2 metra, getur orðið ansi flókið, að maður tali ekki um þá staðreynd að það þarf að byrja við innsiglinguna, sem þýðir að það er alveg vonlaust fyrir þessi skip að vinna þarna nema í mesta lagi 1-1.5 metra ölduhæð.
Ég tók líka eftir því í umfjöllun um Landeyjahöfn á fundi með framsóknarmönnum í síðustu viku, að þegar kvartað var yfir háum fargjöldum með Herjólfi, þá var bent á það að augljóslega fengust engar lækkanir á fargjöldum á meðan dæla þyrfti hundruðum milljóna í að dæla burtu sand úr höfninni og ég tók líka eftir því, að þingmaðurinn með reynslu sjómannsins í liði framsóknarmanna, furðaði sig á því að í hvert skipti sem vindur og alda dytti niður í nokkra daga yfir vetrarmánuðina, að þá kæmi fram krafa frá Eyjamönnum um að senda þegar grafskipin af stað til þess að reyna að moka út úr höfninni, sem er augljóslega alveg glórulaust, enda hef ég stundum fengið það á tilfinninguna að yfir vetrarmánuðina sé náttúran stundum fljótari að fylla höfnina heldur en við að tæma hana.
Varðandi fullyrðingar úr bæjarstjórninni að það þurfi ekki stærri ferju vegna þess að það séu ekki allar ferðir fullar yfir sumarmánuðina, þá vil ég benda á það, að það hefur ekki verið gerð könnun á því hversu margir ferðamenn hætta við að koma til Vestmannaeyjar vegna þess að þeir lenda á biðlista á sumrin, en það segir sig svolítið sjálft að þegar við sjálf erum að ferðast í öðrum löndum, þá fer maður ekki að ferðast langa vegalengd í von og óvon vitandi það að vera á biðlista. Eina svarið við þessu er stærri ferja, með helst amk. þrefalda flutningsgetu á við núverandi ferju. Það er nóg til af slíkum ferjum, bæði til sölu og leigu út um allan heim. Verði niðurstaðan sú með Landeyjahöfn, að hún verði aldrei heilsárshöfn, þá er það mín skoðun, að smíða þurfi þetta stóra ferju sem siglt getur til Þorlákshafnar á innan við 2 tímum, með öllum þeim nútíma þægindum sem við Eyjamenn eigum rétt á. Síðan er einfaldlega að bjóða út rekstur Landeyjahafnar yfir sumar mánuðina með ferju sem þá hentaði í þá flutninga sem fylgja sumar mánuðunum. Auðvitað er alltaf hægt að fara í göng, en eins og ágæt vinkona mín spáði fyrir um á síðasta ári, þá er ég sammála þeirri skoðun að það muni taka þingheim amk. nokkur ár í viðbót í tilraunastarfsemi í Landeyjahöfn, reyndar er veðurspáin fyrir vinnu í Landeyjahöfn næstu dagana óvenju góð, gallinn er bara sá að merkilegt nokkuð þá á hann örugglega eftir að hvessa aftur.
20.1.2016 | 22:06
Söngur teistunnar
Ég hef oft fengið að heyra það að ég sé hálfgert náttúrubarn og ætla mér ekki að neita því, enda verið svo heppinn að alast upp í Vestmannaeyjum og upplifa allt það sem eyjarnar hafa upp á að bjóða, bæði klifrað eftir eggjum á unga aldri og stundað lundaveiðar á árum áður að maður tali nú ekki um sjómennskuna á smábátum í tæp 30 ár. Smátt og smátt lærir maður ósjálfrátt að lesa í veður og vindáttir og lendir m.a. ansi oft í því, að vakna við það að vindinn lægi.
Það að hafa haft þessi forréttindi að upplifa náttúruna hér i Vestmannaeyjum á jafn sterkan hátt og ég hef gert kennir manni líka að meta það sem kannski ekki allir sjá og þegar ég horfi til baka þá man ég eftir mörgum veiðiferðum hér í fjöllunum, þar sem stundum var lítið um veiði en samt hægt að sitja jafnvel klukkutímum saman og dáðst að því, sem fyrir augum bar.
Fyrir nokkrum árum síðan var keypt til Vestmannaeyja lítil trilla sem er í sömu flotbryggju og ég og fékk mér til mikillar ánægju nafnið á besta vini mínum, Dolli á Sjónarhól. Það hefur verið ansi skemmtilegt á síðustu árum að koma stundum á nóttuni á bryggjuna á leiðinni á sjó og upplifa það, að teystu fjölskylda virtist hafa mikið dálæti á flapsanum aftan á Dollanum og ótrúlega skemmtilegt stundum að horfa á teisturnar sitja þarna saman og syngja . Síðasta vetur voru teisturnar orðnar 6 sem söfnuðust þarna saman, en í vetur aðeins 4. Ég hafði ekki tekið eftir teistunum í svolítinn tíma núna fyrir jól, þegar ég rakst á fésbókar færslu hjá ungum sjómanni hér í bæ, sem sagði frá því að hann hefði skroppið út til að sjá, hvort hann fengi nokkurn svartfugl en fékk ekki, en sýndi svo stoltur mynd af því, að á heimleiðinni hefði hann rekist á hóp af teistum og náð að skjóta 3. Í framhaldi af þessu fjölgaði ég ferðum mínum niður að bát og lifnaði nú yfir mér þegar ég heyrði flaut í teistu, en dofnaði heldur þegar ég sá að þar var aðeins 1 teista, enda var flautið í henni ekkert líkt söngi lengur heldur miklu frekar eins og neyðarkall.
Ég ætla ekki að álasa hinum unga sjómanni, en beini því kannski fyrst og fremst til þeirra sem hafa gaman af því að fara út á skytterí að ganga kannski aðeins hægar um gleðinnar dyr og stundum er miklu skemmtilegra að horfa heldur en skjóta.
20.1.2016 | 20:57
Málefni eldri borgara og öryrkja....
......eru mikið í umræðunni þessa dagana og hannski hvað helst slæm kjör þeirra, en ég var svolítið hugsi fyrir nokkru síðan þegar ég hlustaði á afar sérstakan og kaldhæðin pistil í Samfélaginu á RÚV (man ekki nafnið á pistlahöfundi), en í pistli höfundar kom m.a. fram að á öldum áður hefði verið til klettur sem var kallaður Stapinn og þegar þeir sem gátu ekki lengur unnið fyrir sér eða áttu ekkert lengur til að borða, þá hafi þeir einfaldlega fengið sér göngu upp á Stapann og hoppað fram af.
Pistlahöfundur hélt svo áfram með það á þennan hátt, að þar sem ríkisstjórninni fyndist allt of margir eldri borgarar og öryrkjar vera orðnir á Íslandi, hvort ekki væri ráð fyrir ríkisstjórnina að finna einhvern heppilegan klett, svipaðan og Stapann, og hugsanlega jafnvel flýta fyrir með því að setja lyftu upp.
Afar kaldhæðinn pistill, vægast sagt, en vakti mig samt til umhugsunar um þessa þrjá valkosti sem að við flest öll munum þurfa að standa frammi fyrir og þá ekki hvað kannski helst hver kosturinn er skástur, þeas. dauðinn sem bíður okkar allra, örorka sem ekki er ólíklegt að bíði sjómanns sem starfað hefur áratugum saman í miklum veltingi og í sambærilegum störfum eða það að verða eldri borgari. Þegar maður horfir á biðraðir af eldri borgurum og öryrkjum fyrir framan hjálparstofnanir um hátíðirnar, þá fara nú að renna á mann amk. þrjár grímur, því ekki er þetta spennandi staða og kjör eldri borgara og öryrkja til háborinnar skammar fyrir þjóðina.
Kannski má líka segja sem svo að þessi staða að einhverju leyti skýri niðurstöðuna í nýlegri skoðunarkönnun, þar sem 75% þjóðarinnar reyndist vera hlynntur líknardrápum, svo klárlega er ýmislegt í þessu sem þarf að skoða betur. Ekki það að ég hafi neina sérstaka skoðun á þessu, en set þetta fram kannski fyrst og fremst til umhugsunar. Reyndar er staða eldri borgara og öryrkja hér í Vestmannaeyjum bara nokkuð góða, en ég hef þó áhyggjur af því, hvort og þá hvaða afleiðingar útboð á þjónustunni á Hraunbúðum muni hafa. Er reyndar sérstaklega ánægður með það, að búið sé að eyrnarmerkja fjármuni frá Vestmannaeyjabæ til stækkunar Hraunbúða. Það er eitt að segjast vilja búa eldri borgurum áhyggjulaust ævikvöld, en stundum þurfa líka aðgerðir að fylgja orðum.
Að lokum aðeins um áramóta grein mína, sem fékk nú aðeins meira athygli heldur en ég bjóst við. Reyndar er málinu ekki lokið alveg frá minni hendi, en mig langar að gefnu tilefni að þakka öllum þeim gífurlega mikla fjölda fólks sem haft hefur samband og lýst yfir ánægju með greinina, einnig þeim sem sent hafa skilaboð, bæði beint og óbeint, kærar þakkir allir.
29.12.2015 | 21:09
Árið 2015 gert upp
Það er ágætur siður hjá mörgum að gera upp árið sem er að líða, og það ætla ég líka að gera eins og vanalega.
Tíðin síðasta vetur var hundleiðinleg, þó svo að ég benti á það að ég hefði séð það verra. Það voru ansi margir sem kvörtuðu en ég hef svolitlar áhyggjur af því, miðað við veðrið um jól og áramót, hvort að þessi vetur verði enn verri, en vonandi verður svo ekki.
Mikið af lunda og lundapysju í haust, sem er mjög ánægjulegt, en í sumar lét ég loksins verða af gömlum draum að heimsækja Grímsey fyrir norðan land og mæli eindregið með því, enda Grímseyingar góðir heim að sækja. Náttúran og fuglalífið rosalegt og ég er strax farinn að gera mér vonir um að komast þangað einhvern tímann aftur. Náði líka síðan í fríinu í ágúst að heimsækja bæði Vigur í Ísafjarðardjúpi og litlu Grímsey við Drangsnes. Gríðarlega mikið af lunda í öllum þessum eyjum.
Pólitíkin er farin að spila töluvert inn í mitt líf. Reyndar hafa óvenju margir spurt mig að því að undanförnu, hvort að ég sé kominn í bæjarstjórn, en svo er ekki. Ég er hins vegar í stjórn Náttúrustofu suðurlands og í Framkvæmda og hafnarráði. Í störfum mínum þar hef ég lagt fram þó nokkrar tillögur og bókanir, sem að sjálfsögðu fara síðan líka sjálfkrafa til umfjöllunar í bæjarstjórn. Meirihlutinn hefur, eins og ég bjóst við, verið á móti öllum tillögum og bókunum frá okkur á Eyjalistanum og það hvarflar að mér að við á Eyjalistanum séum að vinna fyrir bæjarbúa, en meirihlutinn fyrst og fremst fyrir bæjarstjórann og þennan hóp sem er í kring um hann. Ég neyta því ekki að þetta eru viss vonbrigði, en kannski má segja sem svo að maður hafi kannski orðið töluverðar áhyggjur af því, hvernig mál eru að þróast hér í bæ, þar sem stefna bæjarstjórans virðist vera sú að koma einhverjum úr hirðinni í kring um sig inn í allar stjórnir og stofnanir á vegum bæjarins og sem dæmi um það nýjasta, þá var hlutverk skipstjórans á Lóðsinum sem vara hafnarstjóri tekið af honum og fært í aðrar hendur, að sögn vegna samskipta örðuleika og þessu til viðbótar ganga síðan sögusagnir út um allan bæ um að starf slökkviliðsstjóra, sem hættir núna um áramótin vegna aldurs, standi ekki vara slökkviliðsstjóra til boða, sem starfað hefur í slökkviliði Vestmannaeyja í yfir 40 ár, né heldur eigi að auglýsa stöðuna, heldur standi til að setja þetta mikilvæga starf í hendurnar á einhverjum úr hirðinni í kring um bæjarstjórann. En eins og staðan er í dag, þá hefur þetta mál ekki verið borið undir fagráð, en nýr slökkviliðsstjóri á samkv. öllu að taka við starfinu föstudaginn 1. janúar. Mjög undarleg vinnubrögð þetta og það getur ekki verið holt fyrir nokkurt bæjarfélag að allir þeir sem fara með ábyrgðarstöður á vegum bæjarins koma úr einhverjum þröngum hóp og maður spyr sig, hvað gerist ef upp koma mál þar sem fólk lendir hugsanlega í þeirri aðstöðu að vera á móti skoðunum bæjarstjórans?
Að vissu leyti get ég svarað þessu sjálfur og gerði það í raun og veru í grein í apríl s.l. þar sem ég fjallaði um tillögur frá bæjarstjóranum á borði stjórnar Náttúrustofu suðurlands, sem ég ætla ekki að endurtaka hér, en langar að gefnu tilefni að hafa eftir orð eins fulltrúa meirihlutans í stjórninni, sem sagði þetta fyrir ári síðan: Hva, er eitthvað að þessu?
Eftir mótmæli og ábendingar hjá mér kom sami aðili með þetta ári síðar á fundi í nóvember s.l.: Þetta fer aldrei í gegn.
En nóg um pólitík.
Fyrir mig persónulega var þetta ár mjög erfitt. Ég hef t.d. haft það fyrir venju síðan ég fór að búa, að senda pabba mínum fisk fyrir jólin og hringja síðan í hann um jól og áramót, en hann lést í sumar. Sólargeislinn er síðan lítil dama sem kom í heiminn í nóvember s.l. og eru afabörnin þar með orðin 3 og eitt á leiðinni, svo það má í sjálfu sér segja að lífið heldur áfram. Hvernig næsta ár verður er ómögulegt að segja, en ég neita því ekki að það er smá beygur í mér, ekki bara fyrir mína hönd heldur okkar Eyjamanna allra. Samgöngurnar verða greinilega áfram í tómu rugli, fargjöldin á Herjólfi voru að hækka töluvert þó að reksturinn sé í hagnaði og vakti athygli að þeir hækkuðu meira í siglingum í Landeyjahöfn og ekkert heyrist frá bæjarráði.
Ég hringdi niður í Landsbankann í gær til að fá stöðu á reikningi og fékk að heyra það, að ef ég fengi að heyra það hvað væri á bókinni minni, þá yrði ég rukkaður um 95 kr fyrir það.
Það er mikið byggt af iðnaðarhúsnæði í Eyjum þessa mánuðina, en á sama tíma er störfum að fækka vegna hagræðingar og ég heyrði það hjá faseignasala fyrir nokkru að stærri eignir í Vestmannaeyjum hreyfðust varla og hef séð dæmi um það, að eignir séu jafnvel seldar á í kring um 20 milljónir, en sambærilegar eignir væru metnar í kring um 80 milljónir á höfuðborgarsvæðinu. Einnig virðist vera óvenju mikið framboð á leiguhúsnæði í Vestmannaeyjum, svo maður fær svolítið á tilfinninguna að staðan sé aðeins niður á við hjá okkur Eyjamönnum, en við erum svo sem ekkert óvön því að þurfa að berjast fyrir tilveru okkar og framtíðin er óskrifað blað. Mitt áramótaheit er það sama á hverju ári, að reyna að gera betur í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur en ég gerði á síðasta ári.
Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.
21.12.2015 | 22:03
Grand seduction
Er kvikmynd sem ég horfði á snemma í haust. Myndin vakti athygli mína vegna þess að hún fjallar um lítið sjávarþorp í Canada, þar sem fiskimiðin eru uppurin, unga fólkið flest farið í burtu og flestir sem eftir eru frekar í eldri kantinum og þurfa að sætta við það að þurfa, um hver mánaðamót, að mæta niður á félagsmálastofnun og sækja bæturnar sínar þar.
Bæjarbúar una þessu ílla og ákveða að bregðast við, í fyrsta lagi með því að ráða til sín ungan lækni sem er eitthvað sem lengi hefur vantað í þorpið. Ýmsum brögðum er beitt til þess að fá hann til þess að setjast þarna að, en fyrir mig sjómanninn var kannski broslegast, þegar farið er með unga læknirinn út að dorga og til þess að tryggja það, að hann fái nú fisk, þá er kafari sendur með frosinn fisk til þess að krækja á krókinn hjá lækninum unga, og svolítið sérstakt að fylgjast með útskýringum heimamanna á því, hvers vegna fiskurinn er óvenju kaldur.
Hitt baráttumálið er að sannfæra olíufyrirtæki um að setja upp einhvers konar hreinsistöð í þorpinu. Fulltrúar fyrirtækisins eru ekki vissir um að það búi nógu margir í þorpinu til þess að hægt sé að reka litla verksmiðju þar og reynir því mikið á hina brögðóttu heimamenn, og ná ma. með brögðum að fá fulltrúa fyrirtækisins til þess að telja heimamenn tvisvar sinnum.
Ég hef oft fjallað um kvótakerfið á Íslandi og ég neita því ekki, að oft á meðan ég horfði á myndina, þá komu í huga mér hin ýmsu þorp á landinu okkar, sem reyndar búa ekki við dauð fiskimið, heldur mun verra ástand, vegna þess einfaldlega að allar aflaheimildir hafa verið seldar í burtu og eftir situr fólkið í þorpunum, sem unnið hefur oft á tíðum lungann úr sinni ævi hörðum höndum í fiski, hvort sem er til sjós eða lands, atvinnulaust og með eignir og skuldir þar sem eignirnar eru orðnar algjörlega verðlausar oft á tíðum og við sjáum ma. reglulega fréttir af því, þar sem heimamenn leita að sjálfsögðu allra ráða til þess að skapa sér atvinnu og tekjur og við þekkjum öll fréttirnar um álver, fiskeldi og margt mætti telja, en mér finnst einmitt það gleymast algjörlega í umræðunni um kvótann, fólkið í þorpunum, byggðirnar sem sitja að gríðarlega mikilli auðlind með fram allri strönd landsins okkar, en eiga engan rétt til þess að nýta sér hann.
Ég hef oft velt uppi ýmsum hugmyndum um það, hvernig og hvort það sé hægt að breyta þessu á einhvern hátt og án þess að skaða þá sem veðsett hafa fyrirtæki sín upp í rjáfur við að kaupa upp hina, en þegar maður horfir á stöðuna í dag og reynir að finna eitthvað, sem hægt er að tala um sem jákvætt fyrir byggðir landsins, þá er það eina sem að maður sér svona sem vott um tækifæri, það eru þessar svokölluðu strandveiðar. Því miður eru þær aðeins 4 mánuði á ári og því enginn möguleiki fyrir nokkurn mann að lifa á þeim á ársgrundvelli, en því verður hins vegar ekki neitað, að það lifnar verulega yfir byggðum landsins, þessa 4 mánuði sem strandveirarnar eru virkar.
En svo til gamans, smá hugmynd frá mér. Fyrir tæplega hálfum mánuði gaus upp ágætis ufsaveiði hér við Vestmannaeyjar hjá færabátum og fengu sumir fullfermi eftir daginn. Það entist hins vegar ekki lengi, vegna þess að um leið og þetta fréttist, þá mættu hingað 2 aðkomu netabátar og hreinlega hreinsuðu upp miðin á örfáum dögum, en þetta hefur einmitt verið vandamálið hjá smábátum víða um landið. Ef þeir lenda í fiski, þá mætir eitthvert stórt veiðiskip að kvöldlagi, leggur undir sig miðin og fer ekki fyrr en það er búið að hreínsa upp allt sem er í boði. En hvernig væri, ef byggðir landsins, og þar með talið Vestmannaeyjar, fengju t.d. 3 mílna landhelgi, þar sem allar veiðar væru bannaðar, nema krókabátum og með því skilyrði að þeir yrðu að landa á fiskmarkaði í sínum heimabæ. Hverju myndi þetta skila t.d. fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Jú, bátum myndi fjölga verulega, veiðarnar væru vistvænar þannig að miðin biðu ekki tjón af. Að mínu mati hefið þetta óveruleg áhrif á fiskistofnana. Störfum myndi fjölga, möguleikar fyrir nýliðun í sjávarútveginum yrðu aftur að veruleika og öll stórútgerðin yrði alveg brjáluð.
Ég endurtek, að ég set þetta fram bara til gamans, en allir sjómenn þekkja orðið kostnað hagræðingannar. Störfum sjómanna hefur fækkað gríðarlega á síðustu árum, en þarna væri kannski tækifæri fyrir eldri sjómenn sérstaklega, en ég tók eftir því að í umræðum á Alþingi í síðustu viku, þá fór Bjarni Benediktsson, formaður sjálfstæðisflokksins, mikinn í umræðunni um mikla fjölgun ungra öryrkja, sem að í mörgum tilvikum væru orðnir öryrkjar eiginlega vegna þess fyrst og fresmt, að hafa búið við atvinnuleysi árum saman, en þegar ég horfi á mín unglingsár hér í Vestmannaeyjum, þá einfaldlega fengu allir vinnu sem vildu. Vissulega var margt að því kvótakerfi sem var í gildi á mínum unglingsárum, en ég velti þessu svona upp með það í huga, hvort það sé þess virði, öll þessi hagræðing í sjávarútvegi með tilheyrandi atvinnuleysi og hörmungum allt í kring um landið og bara til þess eins að geta sagt að við séum með sjálfbæran sjávarútveg.
Tek það annars skýrt fram, að ég er algjörlega á móti öllum hugmyndum um að taka aflaheimildir af þeim sem hafa þær í dag, til þess eins að afhenda þeim einhverjum öðrum, en það má klárlega laga þetta kerfi töluvert.
Hér í Vestmannaeyjum erum við rosalega heppin. Hér er gríðarlega öflug útgerð og útgerðin er lífæð okkar Eyjamanna. Sem betur fer hafa flestir þeirra sem hætt hafa og selt á undanförnum árum selt innanbæjar, sem er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega eftir að það var staðfest að lögin um forkaupsrétt sjávarbyggða á kvótanum, er ekki pappírsins virði og gríðarlega mikilvægt að taka á því.
Í myndinni, Grand seduction, endar þetta allt saman vel. Sama er ekki hægt að segja um því miður allt of mörg þorp á Íslandi sem berjast í bökkum, eftir að kvótinn er seldur í burtu. Það er hins vegar hægt að breyta þessu og ég tel t.d. að breytingum væri mikið aðuveldara að koma á, ef tillit væri tekið til skoðanna sjómanna á stöðu fiskistofnana. Auknir skattar á stórútgerðina breyta þar engu um. Allt er hægt, ef við bara viljum það nógu mikið. Eða eins og Forest Gump orðaði það á sínum tíma: Lífið er eins og konfektkassi, þú veist aldrei hvernig næsti biti smakkast.
Fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla.
25.10.2015 | 13:30
Landeyjahöfn, staðan 25.10.2015
Það er greinilega kominn vetur og einn og einn dagur farinn að detta út í Landeyjahöfn þó tíðin hafi verið þokkaleg í haust. Það er orðið ansi langt síðan ég skrifaði um Landeyjahöfn, en ég ætla að byrja að fara yfir nokkur atriði sem vöktu athygli mína á fundi sem haldinn var í Ráðhúsinu 15. okt. sl. meðal annars með hönnuðum nýrrar ferju.
Það kom mjög skýrt fram í máli þeirra að þeir væru fyrst og fremst að hanna ferju sérstaklega fyrir Landeyjahöfn og ekkert tillit í raun og veru tekið til þess að stundum þurfi að sigla til Þorlákshafnar, þó svo að ferjan gæti að sjálfsögðu líka siglt þangað. Það var líka mjög skýrt í máli hönnuðuna að nýja ferjan ætti alltaf að geta siglt til Landeyjahafnar í amk. 3,5 m ölduhæð, sem væri nú bara óskandi að gæti gengið eftir, en ég skaut því að Sigurði Áss hvort að þetta væri ekki einmitt það sama og sagt var í upphafi með núverandi ferju og Landeyjahöfn, en hann kannaðist nú ekki við það.
Fullyrðingar Sigurðar Áss um frátafir upp á aðeins 10 daga á ári er annað sem mér finnst að hafi verið sagt áður en vonandi gengur það eftir núna. Ég spurði Sigurð Áss út í útreikningar dönsku sérfræðingana um hversu mikinn sand þyrfti að dæla úr höfninni á árs grundvelli. Kom hann mér þá á óvart með því að segja að hann hefði alltaf haldið að útreikningar þeirra væru rangir. Einnig spurði ég hann út í það, hvers vegna ekki væri útbúinn varnar garður til þess að verja innsiglinguna fyrir öldugangi, en sagðist hann þá vera algjörlega sammála mér í þessu, en vandamálið væri það, að samkv. útreikningum þeirra myndi slíkur varnargarður gera það að verkum að sandurinn myndi safnast það mikið upp að honum, að það yrði jafnvel enn meira vandamála að dæla úr innsiglingunni heldur en núna og sama máli gilti varðandi þær skoðanir margra Eyjamanna um að það yrði að lengja garðana út fyrir rif. Að allar þessar hugmundir væru fyrst og fremst skammtíma lausnir sem ekki myndu duga til lengri tíma og að leitað hefði verið til sérfræðinga víða í öðrum löndum um varanlega lausn um sandburðinn við Landeyjahöfn, en því miður engar varnlegar lausnir fundist og þess vegna stæði ekki til að gera neitt til þess að leysa vandamál Landeyjahafnar. Ekki góðar fréttir það og ég fékk það svolítið á tilfinninguna, sem ég hef fjallað um áður, að það sé orðin það mikil hræðsla hjá hönnuðum Landeyjahafnar við að leggja til einhverjar tillögur til þess að laga höfnina, að þeir telji það jafnvel betri kost að gera einfaldlega ekki neitt, sem að sjálfsögðu kostar þar af leiðandi ekki neitt. Klárlega þarf að skipta út fólki þarna og fá óháða aðila til þess að taka út höfnina.
Það vakti athygli, tilkynning um það að ákveðið hefði verið að lengja ferjuna um liðlega 4 metra og nú liggur fyrir hvers vegna. Í prufunum í herminum sl. vetur var upplýst að nýja ferjan hefði tekið niður í 3,5 m ölduhæð og þess vegna hefði verið ákveðið að það væri hægt að leysa það vandamál með því að lengja ferjuna, en það kom alveg skýrt fram í máli hönnuðina að þar með væri ferjan komin í mestu lengd sem hún mætti vera í án þess að fjölga frátöfum í Landeyjahöfn og þá breytti það engu hvort hún væri lengd meira eða breikkuð, frátafir myndu alltaf aukast. Það er gert ráð fyrir að kojurnar verði milli 30-36, en svolítið skrýtið að í þeim tölum er gert ráð fyrir að hægt verði að leigja út 4 kojur sem ættu annars að vera hluti af aðstöðu áhafnarinnar umborð og maður hlýtur að spyrja sig, hvort það sé leyfilegt?
Ég spurði um það, hvað myndi gerast ef við fengjum vetur eins og síðasta vetur, þar sem að ekki var hægt að dæla úr Landeyjahöfn meira og minna í 5 mánuði vegna ölduhæðar og höfnin þess vegna fylltist af sandi, sem gerði hana ófæra nánast öllum skipum, en eitthvað var nú lítið um svör við því. Margir Eyjamenn voru spenntir fyrir því að sjá þetta Belgíska sanddæluskip koma hingað, og ma. höfðu sumri fullyrt við mig í sumar að þetta dæluskip gæti unnið í jafnvel 3-4 m ölduhæð. Veruleikinn er hins vegar sá, eins og kemur fram í viðtali við skipstjórann á skipinu, að þeir geti ekki unnið í meiri ölduhæð en hin sanddælu skipin, svo því miður en engin lausn sjáanleg um það, hvernig eigi að leysa sandburðinn.
Niðurstaðan er því þessi:
Það á ekkert að gera fyrir Landeyjahöfn.
Ný ferja mun koma að öllum líkindum vorið 2018, en ég tók eftir því að Elliði óskaði sérstaklega eftir því, enda kosningar þá um vorið. Það kom hins vegar fram hjá hönnuðunum að ferja gæti hugsanlega verið tilbúin haustið 2017 í fyrsta lagi og ég hef svolítið velt því fyrir mér, hvort það væri ekki betra að fá skipið að vetri til og láta þar með reyna á það strax og eiga þá kannski meiri möguleika á að halda núverandi ferju fyrsta veturinn?
Ný ferja mun vonandi geta siglt í 3,5 m ölduhæð til Landeyjahafnar, en þar sem hún er ekki með brim brjót framan á sér og töluvert þverari stefnið heldur en núverandi ferja, þá munu siglingar til Þorlákshafnar í vondum veðurm, verða mjög erfiðar og töluverðar líkur á því að fleiri dagar á siglingum þangað detta út, frekar en með núverandi ferju, auk þess sem að kojurnar verða miklu færri og líka hærra í skipinu, en það kom fram, að nýjar reglugerðir um hönnum farþegaferja banna kojur og farþegarými í sömu hæð og eða fyrir neðan bíladekk. Ég benti á það að það væri kannski sterkur leikur í stöðunni, að útbúa sætin í ferjunni þannig að hægt væri að halla þeim töluvert, en fékk engin skýr svör við það, enda augljóst að slík sæti mundu kosta töluvert meira. Ég spurði líka um ganghraðann og enn og aftur var fullyrt að nýja ferjan væri með sambærilegan ganghraða og Herjólfi er siglt núna, en á kynningunni á síðasta ári var talað um að æskilegur siglingahraði á ferjunni yrði 12-13 mílur, sem í sjálfu sér breytir engu með siglingar til Landeyjahafnar en lengir ferðina til Þorlákshafnar, sem að mínu mati er klárlega afturför. Einnig kom fram hörð gagnrýni okkar Eyjamanna um aðstöðuna í Landeyjahöfn og um það, hvernig hægt væri að bæta hana.
Ég vona það svo sannarlega að þessi ferja verði framför í samgöngumálum okkar Eyjamanna, en ég neita því ekki, eftir reynslu síðustu ára, að ég er fullur efasemda og maður fær það svolítið sterkt á tilfinninguna, að allt of mikið af fólki sem barðist fyrir því, að þessi leið var valin á sínum tíma, sé enn að reyna að réttlæt þá ákvörðun, en ég spurði fulltrúa ríkisins ennar auka spurningar, sem var einhvern veginn þannig:
Afhverju eruð þið að henda öllum þessum peningum í að moka sand allan ársins hring, væri ekki nær að nota þá til þess að leysa vandamálið varanlega með göngum?
Kom hann mér á óvart með því að taka undir þetta mál mitt,en það var nú fljótt þaggað niður af öðrum fundarmönnum.
Tek það fram að þessi skrif eru ekki tæmandi um allt það sem kom fram á fundinum og er fyrst og fremst mitt sjónarmið, byggt á þekkingu og reynslu sjómannsins.