Samgöngur og veður

Er það heitasta í umræðunni í dag og margir eru á því, að veðurfarið að undanförnu sé búið að vera óvenju erfitt, en ég er ekki sammála því, þó þetta hafi vissulega verið leiðinleg tíð, þá er alltaf möguleiki á sjóveðri hjá mér þegar lægðirnar enda í norðanátt. 

Ég man hins vegar eftir febrúar mánuði fyrir ca. 20 árum eða svo, þar sem ég komst aðeins einu sinni á sjó, en í þessum febrúar mánuði er ég kominn með 12 róðra, sem telst þar með vera mjög góður mánuður á trillu í Vestmannaeyjum. Reyndar verið svolítið hvasst í sumum róðrunum, en bullandi fiskur. 

Varðandi samgöngurnar, þá er aldeilis mikið búið að gerast frá því að ég skrifaði síðast og tók m.a. eftir því að í síðustu viku, lýsti bæjarstjórninn, með bæjarstjórann í fararbroddi, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar yfir stuðningi við skipstjórana á Herjólfi, en einhverjir hafa verið að kvarta yfir því að margar ferðir væru að detta út, en þetta var bara mjög ánægjulegt í svona nokkurs konar framhaldi af áramóta grein minni, batnandi mönnum er best að lifa. 

Frétti reyndar af því um daginn að upp hefði komið sú staða umborð í Herjólfi, að menn hefðu verið í vafa hvort þeir ættu að fara eða ekki, en einhver sagði víst: "Við verðum víst að fara, því Blíðan er farin á sjó." 

Grein Sveins Rúnars Valgeirssonar var afar góð, enda Svenni nokkuð örugglega sá maður hér í Eyjum sem þekkir aðstæður við Landeyjahöfn hvað best. Ég er hins vegar ekki alveg sammála honum í því að höfnin sjálf sé ekki hluti af vandamálinu, enda kom fram í viðtali við verktakana sem voru nýlega að gera veg að innanverðu við austari garðinn, að sandfjaran inni í höfninni væri farin að ganga inn í höfnina sjálfa, svo eitthvað verður nú að gera í því. Svo er aftur spurning hvort að, ef mönnum beri gæfa til þess, að fá stærri og gangmeiri ferju heldur en núverandi Herjólf, hvort það sé nokkuð svo mikið mál að stækka höfnina aðeins?

Ég skoraði á Eyjamiðlana í haust, í grein, að setja af stað skoðanakönnun meðal Eyjamanna um framtíð samgöngumála okkar og er mjög ánægður með að sjá viðbrögðin við því og m.a.s. bæjarstjórinn er farinn að tala um að kanna hug Eyjamanna, en mér finnst það reyndar vera svolítið seint í rassinn gripið hjá honum. 

Þær niðurstöður sem liggja nú þegar fyrir inni á eyjar.net eru ótrúlega skýrar, og að mínu mati, mjóg ánægjulegar. Milli 80 og 90% þeirra sem spurðir voru telja það lykilatriði að næsta ferja verði stærri, gangmeiri heldur en núverandi ferja og geti með öruggum hætti siglt til Þorlákshafnar. Niðurstaðan kemur í sjálfu sér ekki á óvart, en ég held að þeir sem ekki eru sammála þessu, ættu að hafa það í huga að það er algjörlega óvíst að minni og léttari ferja, með minni ganghraða og minni djúpristu heldur en núverandi ferja, geti haldið uppi siglingum alla daga yfir háveturin til Þorlákshafnar , en Landeyjahöfn er að sjálfsögðu meira og minna stífluð af sandi, eins og fram kom í byrjun ársins. 

Ég sá að Sigurður Áss tjáði sig um grein Sveins, og í sjálfu sér lítið um það að segja, en enn og aftur talar Sigurður um að vandamál Landeyjahafnar séu fyrst og fremst sandburður og ekki rétta ferjan í höfnina, og enn og aftur er ég honum algjörlega ósammála. Ölduhæðin og straumar hafa að sjálfsögðu mikið að segja líka og í sjálfu sér vill ég ekki hugsa þá hugsun til enda, eða amk. ekki orða hana, hvað gerist ef þessi sérhannaða ferja fyrir Landeyjahöfn kemur einhvern tímann, og sérfræðingarnir hafa enn einu sinni reiknað rangt og búið verði að selja Herjóf í burtu héðan. 

Þetta eru einfaldlega atriði sem mega ekki verða.

Ég mætti á súpufund Ásmundar Friðrikssonar fyrir nokkru síðan og tók eftir því að flestar fyrirspurnir voru varðandi niðurskurði á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, en ég spáði því einmitt strax 2007, að ef Landeyjahafnar leiðin yrið valin, þá myndi ríkið nota það sem afsökun til þess að skera niður það fjármagn sem færi m.a. til Sjúkrahúss Vestmannaeyja og ég tel að það hafi einmitt gengið eftir, við Eyjamenn munum aldrei fá allt fyrir ekki neitt.

Að lokum þetta: Það er mikið fjallað um hversu gríðarleg aukning hefur orðið á ferðamönnum til Eyja með tilkomu Landeyjahafnar, 300.000 farþegar á móti 120.000 þegar bara var siglt til Þorlákshafnar, en að sjálfsögðu hefði líka orðið aukning á ferðamönnum ef stærri og gangmeiri ferja hefði verið fengin til siglinar til Þorlákshafnar og að sjálfsögðu, ef við værum að tala um að það væru komin göng, þá værum við sennilega að tala um allt að milljón ferðamenn til Eyja á hverju ári.


Árið 2014

Ótrúlega erfitt ár að baki hjá mér á nánast öllum sviðum.

En árið byrjaði með því að í janúar jörðuðum við systur mína, aðeins 48 ára gamla eftir mjög erfiða baráttu við krabbamein. Reyndar hafa óvenju margir eyjamenn látist að undanförnu og ekki bara fullorðið fólk, heldur líka fólk á besta aldri. Ljósið í myrkrinu er lítill afastrákur sem fæddist í haust og fékk mitt millinafn og var skírður Eiður Snær. 

Útgerðin hjá mér varð fyrir ýmsum áföllum á árinu. Eftir rótar fiskirí fyrstu tvo mánuði ársins, gafst vélin upp í gamla bátnum. Ég hafði nú oft velt því fyrir mér, hvernig ég myndi bregðast við ef sú staða kæmi upp og notaði ég þessa stöðu til þess að byggja upp til framtíðar með því að opna á alla möguleika, bæði að gera bátinn upp með nýrri vél og/eða að setja hann upp í stærri bát, sem að úr varð. Skipti ég þannig úr liðlega 7 tonna bát í 10 tonna bát, sem er að öllu leyti stærri og öflugri heldur en gamli báturinn. 

Sumarið var í sjálfu sér ágætt og náði ég í ca. 100 tonn út ágúst á nýja bátnum. Haustið hefur hins vegar verið mjög erfitt, tíðarfarið afskaplega erfitt og ég hef lent í smávægilegu bileríi í haust, sem kannski má segja að hafi náð toppnum 5 dögum fyrir jól, en þá bilaði önnur vélin það illa í bátnum, að hún er komin upp á verkstæði og í parta, en það er ætlunin að hefja róðra strax eftir áramót á einni vél, en það má segja að það hafi verið ein stærsta ástæða fyrir því að ég keypti þennan bát þeas. tvær vélar og möguleiki á að róa á annarri þó hin bili. 

Aflabrögð í haust eru ekkert sérstök, komin í ca. 70 tonn, en framundan er vertíðin og svo sumarið, svo eitthvað á nú eftir að reytast inn.

Ég hef oft sinnis fjallað um kvótakerfið í gegnum árin, en um síðustu áramót sendi ég ríkisstjórninni svolítið tóninn vegna þeirrar ákvörðunar hennar um að leyfa stækkun smábáta, sem áttu að hámarki vera 15 tonn, en mega nú vera allt að 30 tonn og ég spáði því að þessi ákvörðun myndi hafa þær afleiðingar að fjöl margir myndu missa vinnuna vegna þessarar ákvörðunar, sem hefur gengið eftir, en ég er ánægður með það að nýlega sagði þingmaður úr meirihlutanum við mig, að þetta hefði verið alveg rétt hjá mér. Sé reyndar í fréttum í dag, að einn harðasti baráttumaðurinn fyrir þessari stækkun og með næst mestu aflaheimildirnar í krókaaflamarkskerfinu, útgerð JV frá Bolungarvík, sem hefur m.a. lýst því yfir nýlega að nú sé tímabært að fara að sameina þessi tvö kvótakerfi, en þegar rýnt er í tölurnar þá myndi slík aðgerð færa þessum útgerðarmanni sem nemur mismuninum á verði aflaheimilda í stóra og litla kerfin við sameiningu, allt að 2 milljarða upp í hendurnar, en í fréttunum kemur fram að þessi útgerðarmaður fór á hausinn 2012, fékk samt að flytja aflaheimildirnar yfir í annað félag og samkvæmt fréttinni, er síðan bankinn hans að afskrifa hjá honum 9 milljörðum króna. Er nema furða þó að vextir frá bönkunum séu háir. 

Ég er einn af mörgum sjómönnum sem hefur kvartað yfir Hafró, sérstaklega yfir útreikningum þeirra á ýsustofninum. Merkilegt að sjá niðurstöðuna úr haustralli Hafró, þar sem nýjasti ýsustofninn mælist sá næst stærsti sem nokkrum sinnum hefur mælst. En spurningin er þessi: Hafró er búin að segja það í 3 ár að ýsan er algjörlega hruninn, en hvaða fiskur er það þá sem er að hrygna öllum þessum ýsuseiðum?

Ég tók þátt í kosningunum í vor. Hafði engan áhuga á því í byrjun ársins, en þegar leið á vorið og búið að ræða við mig nokkrum sinnum, ásamt því að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mörgum málum sem snerta bæjarfélag Vestmannaeyja, þá lét ég til leiðast, en með því skilyrði að ég yrði ekki í einu af efstu sætunum. Eftir á að hyggja þá tel ég að það skilyrði hafi ekki verið rétt ákvörðun hjá mér, enda ansi margt sem fór úrskeiðis í þessu framboði. Úrslitin komu enda ekkert á óvart, en klárlega hefði verið hægt að gera mun betur, en eins og við vitum öll þá búum við í bæjarfélagi þar sem öll störf sem tengjast einhvers konar stofnun eða rekstri, eru full af sjálfstæðismönnum sem allir taka þátt í kosningabaráttunni. Sú grein sem vakti kannski hvað mesta athygli frá mér í kosningabaráttunni, var áskorun mín á bæjarstjórann um að biðjast nú afsökunar á því að hafa reynt að þvinga skipstjóra Herjólf haustið 2010 til þess að sigla í Landeyjahöfn, eftir sínum skoðunum. Flestir sem hafa nefnt þetta við mig hafa reyndar sagt: Já, ég var búinn að heyra þetta.

Hitti reyndar þekktan skipstjóra að máli núna í desember, sem kom inn á þetta af fyrra bragði og sagðist ekki hafa verið búinn að heyra þetta, en hann þekkti einn af skipstjórum Herjólfs, hafði samband við hann og fékk þetta staðfest. Ég ætla því að endurtaka áskorunina. Þetta er afar einfalt Elliði, þú hringir í skipstjórana, biður þá afsökunar og biður þá einnig um að láta mig vita og þar með er málið úr sögunni. 

Samgöngumálin eru eins og svo oft, það sem ég hef oftast fjallað um á árinu. Þessi svokallaða nýsmíði er að mínu mati klárlega afturför, því að því hefur þegar verið hvíslað að  á þeirri ferju verði ekki silgt til Þorlákshafnar og þegar horft er til þessa erfiða tíðarfars að undanförnu, og þeirrar staðreyndar mér er sagt að í nýjustu mælingu inni í Landeyjahöfn, hafi verið aðeins 1,5 metri niður í sand og höfnin þess vegna lokuð. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við eyjamenn stöndum nú saman í baráttunni með strákunum í áhugahópnum um bættar samgöngur og fáum þessa grísku ferju til reynslu, þetta er einfaldlega svo augljóst að ferja sem er með þrefalda flutningsgetu á við núverandi ferju, og getur samt siglt til Landeyjahafnar og til Þorlákshafnar á mun meiri hraða en nýsmíðin, en lengdin á grísku ferjunni er mjög nálægt því sem Herjólfur átti að vera fyrst þegar hann var teiknaður, og telst því vera tveggja öldu skip, sem er nákvæmlega það sem okkur vantar.

Það eru gríðarlega mikil átök á landinu okkar þessa dagana. Verkföll og hótanir frá læknum m.a. um að yfirgefa landið. Skuldaleiðréttingin er komin í gegn og ég hef sagt það áður að ég sé nú fylgjandi þessari skuldaleiðréttingu, enda varð forsendu brestur í hruninu, en ég verð að viðurkenna eins og er, að miðað við allar þær skattahækkanir og þann niðurskurð sem eru í gangi núna, þá held ég að menn hefðu betur látið þetta eiga sig og reynt frekar að verja störfin og hlúa betur að þeim sem minna meiga sín. Eins hef ég sagt það að ef ekki verður tekið á verðtryggingunni, þá mun þessi skuldaleiðrétting brenna upp á örfáum árum, ég hefði frekar viljað fá verðtrygginguna af heldur en þessa skuldaleiðréttingu. 

Ég lenti á spjalli við gamlan kunningja í Eyjum í gær, sem flutti fyrir 10 árum til Noregs, en er hérna í heimsókn yfir jól og áramót. Hann sagði mér frá því, að hann hefði eftir smá tíma í Noregi fengið 100% lán til að kaupa sér húsnæði og hann tók eftir því, að við fyrstu greiðslu, sem var alls ekki óeðlilega há, þá lækkaði höfuðstóllinn. Eitthvað sem við Íslendingar þekkjum ekki, enda er mér kunnugt um það, að miðað við 40 ára lán, hækki skuldin stöðugt fyrstu 25 árin. Það er margt skrítið á landinu okkar og mikið óréttlæti að venjulegt fólk skuli þurfa að borga okur vexti alla sína æfi bara til þess að eignast þak yfir höfuðið, á meðan útrásar víkingar fá afskrifaða milljarða, og þá oftast bara út á einhvern klíkuskap. 

Fyrir nokkrum árum síðan sagði ágætur eldri vinur minn við mig, að þegar hagræðingunni í sjávarútvegi verður loksins endanlega lokið, þá munu búa í Vestmannaeyjum svona ca. 3200 manns. Ég tók þennan spádóm ekkert mjög alvarlega, en mér finnst vera töluverðar blikur á lofti. Það er alveg ljóst að við Eyjamenn þurfum að taka á öllu okkar á tímum hagræðingar og niðurskurðar til þess að hér verði lífvænlegt í framtíðinni. 

En ég ætla að enda þetta svona:

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein sem hét draumur trillukarlsins. Mörgum þótti sagan góð og það fannst mér líka, enda algjörlega sönn en ágætur vinur minn spurði mig að því nokkru síðar: En hvernig endar svo sagan? Ég þurfti nú að velta þessu fyrir mér í svolítinn tíma, en hitti hann svo aftur að máli og sagði: Þetta er afar einfalt, þegar yfir líkur þá sé ég fyrir mér fallegan grænan blett hér uppi í garði, en svolítið austarlega svo það sé nú gott útsýni út í Miðklett, sem er einn af mínum uppáhalds.

Gleðilegt nýtt ár allir. 


The hunger games

Ég horfði á bíómyndina The hunger games 2 um helgina. Myndir sem hafa fengið mikið lof og eru verðlaunaðar víða erlendis, en ég verð að viðurkenna alveg eins og er að mér fannst önnur myndin alveg jafn léleg og fyrsta myndin, og söguþráðurinn ansi þvælukenndur, en eitt greip þó athygli mína. Í myndunum kemur fram gríðarlega mikill munur á þeim ríku og þeim fátæku.

Í síðustu viku hlustaði ég svo á umræður á RÚV um nýlega könnun, þar sem kannað var hvaða áhrif það hefði haft hjá þjóðum eins og t.d. á Íslandi, þar sem ráðamenn gera allt sem þeir geta til þess að styðja við þá sem hafa fjármagn til þess að reka fyrirtæki í von um að skapa þannig fleiri atvinnu tækifæri til þess að auka tekjur hjá öllum. Það sem vakti mesta athygli við þessa könnun er að niðurstaða könnunarinnar að þar sem stuðningur ráðamanna við þá ríku gerðu fyrst og fremst væri að auka bilið enn meira milli ríka og fátæka. Þeir ríku ruðu sem sé ríkari, og þeir fátæku fátækari.

Sjálfstætt starfandi iðnaðarmaður í Vestmannaeyjum sagði við mig fyrir nokkru síðan, að hér í bæ væri til svo ríkt fólk að það gæti í raun og veru leyft sér hvað sem er og gerði það.

Fyrir nokkru síðan var ég staddur í Lyf og heilsu, þar sem á undan mér var maður sem ég veit að er öryrki og það vakti athygli mína að þessi öryrki var að biðja lyfsalann um að lána sér lífin sín því hann gæti ekki borgað þau fyrr en um mánaðarmótin. Það er því miður staðreynd að munurinn á milli þeirra ríku og fátæku hefur sennilega aldrei verið meiri á Íslandi heldur en í dag.

Margir hafa sagt við mig í Eyjum að undanförnu á þessum tímum hagræðingar og fækkun starfa í sjávarútvegi, að það hefði viljað sjá miklu meira af hagnaði stóru fyrirtækjanna skila sér aftur til Eyja í frekari atvinnusköpun, enda hafa margir misst vinnuna í nafni hagræðingarinnar á undanförnum árum og klárlega vantar a.m.k. eitthvað uppá að hinir sterk efnuðu skynji betur samfélagslegu ábyrgð sína á bæjarfélaginu og nýti meira af hagnaði sínum hér í Eyjum frekar en til fjárfestingar annar staðar.

Sem betur fer verða aldrei haldnir Hungur leikar á Íslandi og sem betur fer eru fjölmörg tækifæri til staðar fyrir þá, sem eru sterk efnaðir til þess að láta gott af sér leiða, og sem betur fer eru margir sem nýta sér það, en þörfin er gríðarleg. Það er afskaplega góð tilfinning að geta látið gott af sér leiða.

Með von um kærleiksrík og ánægjuleg jól, óska ég öllum Eyjamönnum sem og landsmönnum gleðilegra jóla.


Að lokum þetta (um samgöngumál)

Ótrúlega flókin staða í samgöngumálum Eyjamanna, eins og vanalega, og ástæðan, Landeyjahöfn virkar ekki.

Lenti í því fyrir ca. 3 vikum síðan að ætla mér heim seinni part á laugardegi,en Herjólfur hafði siglt til Þorlákshafnar um morguninn. Fljótlega upp úr hádegi kom hins vegar tilkynning um það, að ætlunin væri að sigla til Landeyjahafnar seinnipartinn vegna lækkandi ölduhæðar þar. Þetta gekk hins vegar ekki eftir og ekki var siglt meira þennan dag, þannig að enn einu sinni þurftu Eyjamenn að sætta sig við það að þurfa að kaupa sér eina auka nótt í gistingu á fastalandinu.

Veðurspáin daginn eftir var mjög góð, sem gekk eftir en bræla restina af vikunni. Fyrir trillukarlinn var þetta því tjón sem skiptir hundruðum þúsunda og ákvað ég því að spyrja lögfræðing um það, hvort það væru einhver dæmi um það að fólk hefði leitað réttar síns í sambærilegum málum, enda klárlega fært í seinni ferðina til Þorlákshafnar. Í sjálfu sér ætla ég ekki að fara með þetta lengra í bili, en fyrr eða síðar hlýtur að koma að því, að einhverjir Eyjamenn leiti réttar síns, en tjónið hjá flestum er kannski minna því þetta var um helgi í þetta skiptið, en klárlega þarf að taka prófmál um það, hvort og þá hver beri ábyrgð á þessu bæði fjárhagslegu tapi og kostnaði við auka gistingu.

Staðan varðandi þessa grísku ferju er einnig nokkuð flókin, en eins og ég hef sagt áður er þetta far spennandi kostur, fyrst og fremst vegna þess hversu mikil flutningsgetan er miðað við núverandi ferju og fyrir huguðu nýsmíði og ég hefði gjarnan viljað sjá á þetta reynt. Ég hef ekki trú á því að ef smíðuð verði ný ferja sérstaklega hönnuð fyrir Landeyjahöfn, sem reynist síðan ekki standast þær væntingar um frátafir og annað sem lagt er með upp í upphafi, að hægt verði að heimta nýja stærri ferju eða eitthvað annað slíkt, efir á að hyggja. Það verður að hafa það í huga að samgöngur við Eyjamenn í dag kosta ríkið 1 milljarð á hverju ári og það þrátt fyrir að það sem við borgum fyrir ferðina sé allt of hátt.

Að lokum þetta:

Það er þrennt sem mig langar að setja hérna fram að lokum,í fyrsta lagi hvet ég áhugahópinn um bættar samgöngur sem er að vinna að því að fá þessa grísku ferju til dáða, það er einfaldlega ekki hægt að gefast upp, það er einfaldleg allt of mikið í húfi.

Í öðru lagi langar mig að skora á strákana í Ægisdyrum, að hefja nú baráttuna upp á nýtt, við vitum öll að það er augljóst að við erum ekki að fá göng alveg á næstu árum, og ég hef nú spáð því að ég muni ekki lifa það að sjá gögn milli lands og Eyja, en auðvitað væri göng eina varanlega lausnin á öllum þessu samgöngu vandamálum. Ég veit reyndar að þeir félagarnir voru komnir ansi langt með málið og urðu fyrir miklum vonbrigðum með það, að þegar á reyndi, þá voru bæði þingmenn og bæjarfulltrúar fljótir að snúa við þeim bakinu. Ég hef einnig heyrt að mörgum eyjamönnum hugnast ekki göng vegna jarðskjálfta og eldgosa hættu, sem og hversu langt er hérna á milli, en ég spyr: Hvar er ekki jarðskjálfta og eldgosa hætta, og ef ég man rétt, þá minnir mig að ég hafi einhvern tímann heyrt að lengstu göng í heiminum væru um 600 km og því okkar 18 km alls ekki svo stórt í því samhengi.

Í þriðja lagi: Ég sá að enn einu sinni er hafin undirskriftar söfnun sem tengd er samgöngumálum okkar, en þær eru orðnar nokkrar á síðust árum, en mig langar að skora á eyja miðlana að setja af stað einfalda kosningu, þar sem eyjamenn geta kosið um sín samgöngumál. Að sjálfsögðu yrði kosningin leynileg, en fólk yrði nú að sjálfsögðu að gefa upp kennitölu, en ég sæi fyrir mér 3 spurningar, einhvern veginn svona:

Í fyrsta lagi, ert þú sammála því að það eigi að hafa forgang að smíða nýja ferju sem hentar sérstaklega í Landeyjahöfn.

Í öðru lagi, vilt þú að ný ferja verði stærri og gangmeiri heldur en núverandi ferja (eins og t.d. gríska ferjan).

Í þriðja lagi, vilt þú að öll samgöngu vandamál eyjamanna verði leyst endanlega með göngum?


Að gefnu tilefni: Um Landeyjahöfn og hugsanlega leigu á notaðri ferju

Mig langar að byrja á því að þakka Guðmundi Þ.B. fyrir skrif hans um samgöngumál okkar Eyjamanna, það er gríðarlega mikilvægt að sem flestir tjái sig og umræðan verði áfram opin, en snúist ekki um einhverja vafasama útreikninga hjá einhverjum meintum sérfræðingum.

Ástæðan fyrir þessari grein minni núna eru fyrst og fremst fullyrðingar Sigurðar Áss um að staðsetning Landeyjahafnar, væri sú besta með allri suðurströndinni. Ég hef marg oft sagt það og skrifað, að miðað við þekkingu mína og reynslu eftir tæplega 30 ára sjómennsku hér við Eyjar, þá sé einmitt staðsetning Landeyjahafnar sennilega eitt stærsta klúðrið í öllu ferlinu, og í raun og veru tel ég að það sé hreinlega ekki til verri staðsetning en einmitt þar sem höfnin er.

En hver er þessi munur á skoðunum mínum og Sigurðar Ás? Á kynningarfundinum um Landeyjahöfn á sínum tíma, kom alveg skírt fram hjá Gísla Viggóssyni að stærsta ástæðan fyrir staðsetningu Landeyjahafnar, væri sú staðreynd að í Vestmannaeyjum væri ríkjandi vindátt suðvestan átt. Ef þetta væri rétt hjá Gísla, þá væri þetta hárrétt staðsetning á höfninni, en flest allir Eyjamenn vita það, að svo er ekki. Ríkjandi bræluátt er austan átt, eins og við sjáum undanfarna daga, sem gerir það að verkum að staðsetning hafnarinnar er eitt allsherjar klúður.

Ég hef bent fólki á það að skoða það t.d. inni á belging.is hvar rokið kemur undan Eyjafjöllum, en um leið hvar lognið er aðeins vestar og norður úr Eyjum. Einnig er hægt að skoða þetta mjög vel í austan brælum inni á marinetraffic.com, en þá sést vel að nokkrum mílum vestar eru bátar á veiðum inni í fjöru í logni.

Að mínu mati hefði höfnin miklu frekar átt að vera á þeim slóðum og með innsiglinguna í beinni línu frá Vestmannaeyjum og þannig með fast land í beinni línu frá innsiglingunni, sem hefur einmitt skipt svo miklu máli varðandi höfnina í Vestmannaeyjum sem og höfnina í Þorlákshöfn sem er með stefnu á Stokkseyri. Ef hins vegar er tekin bein lína út úr innsiglingunni í Landeyjahöfn, þá er næsta fasta land sennilega einhver staðar í Bandaríkjunum. Þess vegna verður að verja innsiglinguna fyrir grunn brotsjó og úthafs öldu. Mér líst ágætlega á teikninguna sem Halldór B. Nellett er með inni á eyjamiðlunum, þó að sjálfsögðu megi útfæra þetta á margan hátt.

Aðeins um þessa grísku ferju sem Simmi á Víking hefur verið að sýna okkur myndir af inni á eyjamiðlunum. Þarna erum við að tala um gríðarlega mikla aukningu á flutningsgetu, bæði á bifreiðum og fólki, og ef skipið gengur að jafnaði 16,5 mílur, þá er það að fara aðeins hraðari en Herjólfur og miklu hraðari en hin nýja ferja á að ganga. Eini mínusinn sem ég sé í fljótu bragði er stefnið á ferjunni, sem mér finnst vera full flatt og breitt, en ég hefði þurft að sjá þetta skip sigla í slæmu veðri til þess að geta úttalað mig alveg um það, en að öðru leyti held ég að þarna sé komið fram tækifæri sem við ættum virkilega að skoða í alvöru.  

 


Á flótta undan ýsu

Það er undarleg staða á fiskimiðunum við Eyjar eins og reyndar allt í kringum landið. Allt vaðandi í ýsu sem Hafró segir að sé ekki til og enginn hefur aflaheimildir til þess að veiða og ástandið farið að minna ískyggilega mikið á stöðuna fyrir liðlega áratug síðan, en þá var það þáverandi sjávarútvegsráðherra sem greip inn í og tók fram fyrir hendurnar á Hafró og jók ýsukvótann, en í framhaldi af því rumskaði Hafró úr værum svefni og á árunum á eftir fylgdi gríðarleg aukning á aflaheimildum á ýsu og þegar mest var, fór ýsukvótinn yfir 100 þúsund tonn með tilheyrandi verðfalli á afurðum, en er aðeins 30 þúsund tonn í dag og mörg dæmi um það að útgerðarmenn línubáta sendi báta sína austur á land, eða þar sem mestur möguleiki er á að fá blóðsíld í beitu, sem ýsan er ekki hrifin af og heyrði ég nýlega af dæmi um útgerðarmann, sem hreinlega bannaði sinni áhöfn að róa nema með blóðsíld. 

Ég hef gert út hér í Vestmannaeyjum í tæp 30 ár og ég er á þeirri skoðun að togararall Hafró nái alls ekki að fylgjast nægilega vel með því hvernig sumir fiskistofnar þróast, og veit að sumar aðferðir við að stofnmæla sumar tegundir, eru ansi vafasamar eins og t.d. varðandi keiluna.

Á sama tíma og allt logar í verkföllum og ríkiskassinn er tómur, þá finnst mér frekar furðulegt að ekki sé gripið til þeirra leiða sem alltaf hafa bjargað okkur, eða amk. síðustu 100 árin úr hinum ýmsu kreppum, þeas. vinna meira, eða í þessu tilviki að veiða meira, en það er að mínu mati óhætt að auka töluvert við í flest öllum bolfisktegundum sem við Íslendingar veiðum, en til þess þarf kjark og inngrip frá Ríkisstjórninni.

Það er ljóst að núverandi sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að "rugga bátnum" með því að fara gegn tillögum Hafró og ég beini þessu því til annarra þingmanna, hvort sem er í meiri eða minni hluta. Ég tel augljóst að varðandi ýsuna sérstaklega, þá muni Hafró reyna að hanga á sínum útreikningum í einhver ár í víðbót, síðan mun verða sprenging og ýsukvótinn aftur ná sömu hæðum og í síðustu uppsveiflu með tilheyrandi verðfalli á afurðum og ótrúlegt að þessi stofnun skyldi leggja blessun sína yfir það að öll fjaran við suðurströndina varð opnuð fyrir snurvoð, bara til þess að einhverjir örfáir bátar gætu náð ýsukvótanum sínum á meðan kvótinn var í 100 þús tonnum en gríðarlegt magn af smáýsu var drepin hérna eftir að fjaran var opnuð 2007, en merkilegt nokkuð, ýsukvótinn er kominn niður í 30 þús tonn, en enn er fjaran opin. 

Ég skora hér með á alla þingmenn að gefa nú okkur sjómönnum og þjóðinni betra tækifæri til að takast á við þau fjárhagslegu vandamál sem þjóðin á í í dag og auka við aflaheimildir. Ekki bara í ýsu, heldur einnig í öðrum tegundum. Það er óhætt. 


Nýr Herjólfur

Fundurinn um hönnun og smíði nýrrar ferju var að mörgu leiti ágætur og upplýsandi, en ég hef svona aðeins þurft að melta með mér allt það sem kom fram á fundinum. Það fyrsta sem vakti athygli mína var þegar ég fékk flash back sem skeði þegar Sigurður Áss fór að tala um útreikningana varðandi það, hversu margar frátafir yrðu, en þetta minnti ótrúlega mikið á fundinn vegna byggingar á Landeyjahöfn og tölurnar ótrúlega svipaðar frá þeim tíma, en hvort að frátafir verði 10 dagar, 20 dagar eða jafnvel 100 dagar er algjörlega vonlaust að spá fyrir um.

Við vitum ekkert hvernig skipið kemur til með að reynast, eða hvernig höfnin mun þróast og í raun og veru er frekar ótrúlegt að horfa upp á þessa spá eða fullyrðingar eins og að með nýrri ferju þurfi aldrei oftar að moka sandi úr höfninni. Hefði reyndar skilið það ef það væru dekk neðan á ferjunni, en svo er ekki, en það hvarflar að manni að þarna sé verið að nota sambærileg rök og fyrir smíði hafnarinnar, en auðvitað mun þurfa að moka sandi úr Landeyjahöfn næstu árin.

Fullyrðing eins af hönnuðinum um að það skipti engu máli, hvort að ferjan sigli á 12 mílna hraða eða 15, er ég algjörlega ósammála og eiginlega furðulegt að ætla sér að smíða nýja ferju á 21. öldinni með þetta jafn lítinn ganghraða. Mín skoðun er óbreytt frá fyrri greinum um hugsanlega nýja ferju. Ný ferja þarf að geta farið amk. 20 mílur og farið þannig á 2 tímum til Þorlákshafnar þegar Landeyjahöfn lokast. 

En miðað við þessar upplýsingar sem komu fram á fundinum, þá erum við að tala um amk. 3,5 til 4 klukkutíma þegar siglt er til Þorlákshafnar og það er klárlega mikil afturför. 

Fullyrðing hönnuðar um að það eigi að vera hægt að losa og lesta ferjuna (bílaþilfarið) á aðeins 15 mínútum og það með minni mannskap heldur en er nú á Herjólfi, tel ég vera tóma vitleysu og ef rétt er, að ekki verði hægt að keyra í gegnum ferjuna eins og núverandi ferju, þá tel ég augljóst að þetta muni að öllum líkindum taka lengri tíma, að tæma skipið heldur en núverandi ferju. Einnig kom fram hjá hönnuðinum hugmyndir um að setja hugsanlega ekki veltiugga á skipið, ég er ansi hræddur um að það gæti þá orðið erfið sigling til Þorlákshafnar fyrir þá sem eru sjóveikir. Ég er hins vegar mjög ánægður með það, að ferjan verði hönnuð þannig að hún taki mun minni vind á sig en núverandi ferja.

Nokkrar fyrirspurnir komu fram á fundinum um hversvegna ekki væri verið að sigla fleiri ferðir, eins og lofað hafði verið, en hönnuður talaði um að það yrði ekkert mál að sigla nýju ferjunni 8 sinnum á dag. Hugsanlega verður hægt að fjölga ferðum með nýrri ferju, vegna þess að með öllum líkindum verður kostnaður minni en með núverandi ferju, en að sjálfsögðu snýst þetta allt saman um peninga og þýðir því lítið að ræða það við þá sem hanna eða smíða ferjuna. 

Stærstu vonbrigðin við þetta allt saman er þó fyrst og fremst það, að ég heyri það út um allan bæ, að ráðamenn bæjarins séu búnir að gefast upp á því að reyna að fá fjármagn í endurbætur á höfninni. Verði það niðurstaðan að ekkert verður gert til þess að verja innsiglinguna fyrir grunnbrotsjó, þá er ansi hætt við því að ný ferja muni jafnvel litlu breyta varðandi frátafir í Landeyjahöfn, en ég vona svo sannarlega að þetta sé ekki rétt hjá mér og vonandi verður Landeyjahöfn með nýrri ferju 90% höfn.


Landeyjahöfn, staðan í dag

Það er farið að hausta hressilega og um leið byrjar vandræðagangurinn í kring um Landeyjahöfn. Engar framkvæmdir eru hafnar við að lagfæra höfnina og í ný tilkomnu fjárlagafrumvarpi Ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir krónu í nýtt skip né lagfæringar á höfninni.

Nýjasta kjaftasagan sem ég heyrði fyrir nokkru síðan gengur út á það, að það sé amk. 6-8 ár í nýja ferju. Ástæðan sé sú, að nú sé verið að gera töluverðar breytingar á Herjólfi til þess að gera hann stefnu fastari í siglingum inn og út úr Landeyjahöfn og að þær breytingar séu ekki fjármagnaðar með það í huga að duga aðeins í ca. 2 ár. Ekki veit ég hvort þetta sé rétt, en óneytanlega hefur það vakið athygli mína, að allir þeir sem ég hef rætt þetta við telja að það séu amk. 4 ár í nýja ferju og merkilegt nokkuð, almennt virðast Eyjamenn vera nokkuð sáttir við það að ekki sé verið að setja fjármagn í nýja ferju og vilja miklu frekar að sett sé alvöru fjármagn í langfæringar á höfninni. Þessu er ég nokkuð sammála, en að mínu mati þarf þó fyrst að fá skýrari svör við þeirri spurningu sem óneytanlega vaknaði á borgarafundi Árna Johnsen í vor, en þar fullyrti Árni það að Sigurður Ás Grétarsson hjá Siglingamálastofnun hefði sagt við sig í samtali, að hann væri kominn á þá skoðun, að alveg sama hvað gert væri fyrir Landeyjahöfn þá yrði höfnin aldrei heilsárshöfn. Ég er reyndar sammála þessari skoðun, en er að sjálfsögðu ekki tilbúinn að gefast upp, en maður hlýtur samt að velta því fyrir sér hvort að þessi "skoðun" Sigurðar sé kannski ástæðan fyrir því að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjárframlögum frá ríkinu í Landeyjahöfn?

Sumarið var annars nokkuð gott þó að hann lægi full mikið í suðlægum áttum, þá duttu ekki út nema 2-3 dagar í allt sumar, ef ég man rétt. Tíðin framundan er hins vegar, út frá trillusjónarmiðum, óspennandi og veturinn algjörlega óskrifað blað, en vonandi fáum við bara mildan vetur.


Lunda sumarið 2014

Afar sérstakt lunda sumar að baki og að venju ætla ég að stikla á því helsta.

Fyrst af veiðidögunum sem áttu að vera 5, en voru reyndar 6. Eins og ég bjóst við þá fór háfurinn hjá mér ekki út úr húsi að venju, enda lítið af lunda þessa veiðidaga og veiðin eftir því hjá þeim sem reyndu, en margir veiðimenn úr ýmsum félögum og eyjum nýttu sér einmitt þessa daga til þess að gera þessa ferð út í eyjar og það þrátt fyrir að menn hafi almennt ekki reynt að veiða, þá hef ég þegar heyrt í mörgum veiðimönnum sem eru ánægðir með það að einhverjir dagar séu leyfðir og vilja að því sé haldið áfram. 

Ekki eru komnar margar pysjur í þessum skrifuðu orðum (ca. 40 á sædýrasafninu), en það verður þó að hafa það í huga, að nokkrar bæjarpysjur þýða að sjálfsögðu nokkur þúsund pysjur úr öllum fjöllum Vestmannaeyja og um síðustu helgi var t.d. mikið um lunda í mörgum úteyjum, sem eru á fullu að bera síli ennþá, sem er í samræmi við það sem ég hef séð á sjónum að undanförnu og því nokkuð ljóst að reikna má með, að einhverjar pysjur verði hugsanlega enn á ferli í byrjun október, en ég frétti einmitt af því í sumar að það hafði sést pysja í höfninni 10. okt. í fyrra. 

Það hefur lítið heyrst í Erpi að undanförnu, en ég var mjög ánægður með tvö viðtöl sem birtust við hann á rúv í sumar. Í fyrra viðtalinu, sem bæði voru reyndar tekin vestur í Akurey, þá voru einmitt óvæntar gleði fregnir að mjög gott varp var í Akurey eftir nokkur mögur ár, en í seinna viðtalinu kom hann inn á stöðuna í Eyjum og orðaði þetta nokkurn veginn svona: "Stærsta vandamál lundans í Vestmannaeyjum er að lundinn er svo heimakær í Eyjum, að hann fer ekkert annað þrátt fyrir ætisskort og afrækir frekar eða sleppir varpi, heldur en að fara eitthvað annað þar sem aðstæður eru betri." Þarna var ég mjög ánægður með Erp, enda gagnrýndi ég hann harðlega fyrir ca. 3 árum síðan, þegar hann talaði um að mikill ungfugl við Eyjar það sumarið væri að öllum líkindum aðkomu- og flækings lundar. Það er alltaf gott þegar menn leiðrétta sjálfa sig. 

Lífríkið við Vestmannaeyjar hefur að mörgu leyti verið stór furðulegt í sumar, t.d. hafa hvalveiðiskipin verið djúpt suður að Vestmannaeyjum lengst af sumri og veitt vel og það, eftir því sem mér er sagt,hval sem hefur verið þar í mikilli sílis veislu á þeim slóðum meðal annars. Einnig er það stór furðulegt að hér sé allt vaðandi í túnfisk við Eyjar. Nú makríllinn kom og margir hafa orðið miklar áhyggjur af því, hvort og þá hversu mikill skaðvaldur hann er fyrir lífríkið í hafinu við Ísland og eiginlega alveg með ólíkindum að ekki skuli vera veitt meiri af honum. Framtíðin er því óvenju óljós. Góðu fréttirnar eru þó þær að það komu dagar í sumar þar sem gríðarlegt magn af lunda sást við Eyjar. Nokkur þúsund pysjur munu greinilega viðhalda stofninum enn um sinn amk og lundinn mun mæta aftur næsta sumar. 


Gleðilegt nýtt ár........

.....eða réttara sagt, fiskveiðiár, sem hófst 1. sept. og margt og mikið búið að gerast á þessu fiskveiðiári hjá mér, en mér hefði ekki órað fyrir því fyrir ári síðan, að ég yrði kominn með nýjan og stærri bát. Árið er hins vegar búið að vera ágætt, en mér sýnist að á báðum bátunum hafi ég náð ca. 245 tonn upp úr sjó, sem gerir ný afstaðið fiskveiðaár næst besta ár hjá mér, en metið er 260 tonn, en seinna í haust byrja ég 28. árið mitt í trilluútgerð.

Það er flestum trillukörlum nokkuð ljóst að þetta fiskveiðiár verður mjög erfitt. Loforð Hafró um auknar aflaheimildir í þorski gengu ekki eftir. Það, ásamt gríðarlegum niðurskurði í tegundum eins og ýsu og keilu og öðrum breytingum eins og t.d. sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leyfa smærri útgerðum sem sterkari eru í ufsa, að skipta ufsa út fyrir ýsu úr aflamarkskerfinu, gerir að mínu mati augljóslega það að verkum, að handfæraveiðar smábáta á sumrin verða að mestu úr sögunni, nema þá hjá þeim sem eru í þessum svokölluðu strandveiðum. 

Að mínu mati voru engin rök fyrir því að skerða hvorki ýsu né keilu, eina breytingin sem orðið hefur á síðustu árum,er að þessar tegundir hafa fært sig meira upp á grunninn og mælast því ekki í togararalli Hafró, en það má þó segja með keiluna að vandamálið þar sé flóknara, enda var úthlutun keilukvótans á sínum tíma byggð á röngum forsendum, og að mínu mati hefði þessi tegund aldrei átt að fara í kvóta. 

Nýja fiskveiði árið verður því erfitt, en eins og venjulega mun ég að sjálfsögðu halda mínu striki. 

Varðandi kvótakerfið sjálft, þá er afstaða mín til þess óbreytt, ég tel einfaldlega að það sé hreinlega ekki til verra kvótakerfi heldur en þetta sem við búum við í dag, en á móti kemur að ef því yrði einhvertímann breytt, þá er það að sjálfsögðu ekki sama hvernig því yrði breytt, en það er sorgleg staðreynd að á Alþingi Íslendinga er í dag enginn starfandi stjórnmálaflokkur sem hefur áhuga á að breyta þessu kerfi, heldur aðeins áhuga á því hversu mikið er hægt að skattleggja kerfið. 

Ég hitti að máli um daginn fyrrum stór útgerðarmann sem er búinn að selja allan kvótann og fá allt borgað, mann sem hefur í gegnum árin varið kvótakerfið með kjafti og klóm, en ég spurði hann hvað honum þætti nú um kvótakerfið og svarið kom mér ekki á óvart: "Ég hef aldrei verið hrifinn af þessu kvótakerfi." 

Sorglegast er þó þær fréttir að þeir stærstu séu orðnir það stórir í dag, að sjómenn sem kannski eru komnir af besta aldri og í sumum tilvikum kannski farnir að þurfa að vera frá vinnu vegna veikinda í lengri eða skemmri tíma, eru farnir að fá uppsagnarbréf án nokkurra skýringa og því er orðið fleygt meðal sjómanna að það að koma umborð í sum af nýjustu skipunum, sé eins og að koma á ættarmót hjá sumum toppunum og jafnvel þaulvanir sjómenn látnir víkja fyrir óreyndum sjómönnum vegna ættartengsla. Afskaplega dapurt allt saman, en samt um leið skýrir þetta að minnsta kosti að hluta til ástæðuna fyrir því, að ég hef valið að róa á eigin bát sem leiguliði, sem er nú ekkert grín, en þessi þróun er eitthvað sem ég hef alltaf séð fyrir, eða eins og ég hef sagt svo oft í greinum mínum um sjávarútveginn: Lengi getur vont versnað. 

Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegt nýtt fiskveiðiár. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband