Þjóðhátíðin 2014.......

.....var frábær eins og alltaf, brennan, flugeldasýningin, brekkusöngurinn og blysin tókust allt saman frábærlega, eins voru mörg skemmtiatriðin frábær og öll umgjörðin til fyrirmyndar. Töluvert kom af mínum ættingjum ofan af landi og eftir samtal við þau sem og aðra, bæði Eyjamenn og aðkomufólk, þá eru nokkur atriði sem hefðu mátt vera betri og í flestum tilvikum hægt að laga.

Varðandi tónlistarflutninginn, þá hef ég því miður engan hitt sem lýst hefur yfir ánægju með kvöldvökuna á laugardagskvöldinu eftir Skítamóral og fram að miðnætti og hafi þeir tónlistarmenn sem komu fram á þessu tímabili staðið langt undir væntingum Þjóðhátíðargesta. En úr þessu er að sjálfsögðu hægt að bæta á næstu Þjóðhátíð.

Fækkun bekkjarbíla er líka orðin afar slæm og maður fékk það stundum á tilfinninguna, þegar búið var að troða sem mest í bílana, að maður væri orðinn eins og síld í síldartunnu og einnig hef ég heyrt af því að undir morgun hafi stundum legið við slagsmálum við að reyna að komast í bílana. Klárlega mál sem þarf að endurskoða og það sem fyrst. 

Við konan gerðum það sem við gerum á hverju ári, að kíkja í veitingatjaldið síðustu nóttina, enda gott að fá sér eitthvað heitt áður en lagt er af stað heim á leið, en í þetta skipti var troðningurinn svo rosalegur að það var algjörlega vonlaust að komast að og við ekki tilbúin að hanga þarna í 1-2 tíma, svo við slepptum þessu í þetta skiptið, en ef ég man rétt, þá var Fabrikkan hérna bæði í fyrra og hitt í fyrra sem viðbót við veitingatjaldið og mun auðveldara að komast að bæði þau árin, Þjóðhátíðar gestir voru reyndar fleiri núna en síðustu tvö árin, en einmitt það áttu menn að geta séð fyrir vegna alls fjöldans sem var búinn að kaupa sér miða í forsölu og gera því ráðstafanir og í raun finnst mér furðulegt að Þjóðhátíðarnefnd skuli ekki setjast niður með "Eyjapeyjanum" Kára Fúsa t.d. og fá hann til að koma þarna inn á svæðið sem viðbót, en mér hefur verið sagt að Kári hafi sóst eftir því, en ekki fengið. 

Ég var mjög ánægður með það að salernisaðstöðunni skyldi vera svæðisskipt fyrir konur og karla sér og ljóst að hið mikla átak til að sporna við kynferðisafbrotum er virkilega farið að hafa áhrif í rétta átt. Hins vegar frétti ég af afar löngum biðröðum á salerninu við sviðið og spurning hvort að ekki sé hægt að bæta einhvern veginn úr því, en það eins og öll önnur atriði hljóta að koma til endurskoðunar fyrir næstu Þjóðhátíðir.

Eitt að lokum. Nú voru allar matvöruverslanir lokaðar á mánudeginum og þegar ég keyrði seinni partinn á mánudeginum fram hjá Kjarval, sem er einmitt rétt hjá mjög stóru tjaldsvæði, þá var fullt af ungu fólki þar, sem vissi ekkert hvert það ætti að fara til þess að ná sér í matvöru og ég velti því upp, hvort að ekki sé hægt að koma einhvern veginn til móts við þetta unga fólk á þessu svæði, með því t.d. að setja upp lítinn söluturn sem væri þá opinn fram á mánudagskvöld t.d. 

Eins og áður segir, frábær Þjóðhátíð annars að baki og sumir ættingjarnir ofan af landi nú þegar búnir að panta gistingu fyrir næstu Þjóðhátíð. Sjálfur gef ég það aldrei upp, hvort ég ætli að mæta næst fyrr en nær líður, en ef ég mæti næst, þá verður það Þjóðhátíð nr. 40 hjá mér í röð. En mig langar að lokum að þakka Þjóðhátíðarnefnd sem og öllum sem komu að hátíðinni á einn eða annan hátt fyrir frábæra þjónustu og skemmtun. 


Fjöldauppsagnir

Svolítið merkilegt að fylgjast með umræðunni vegna fjöldauppsagna starfsfólks Fiskistofu sem og starfsfólks fiskvinnslu fyrirtækisins Vísis á norðurlandi, og umræðan að mestu tæmd, en þó ekki.

Þegar ég heyrði fyrst af uppsögnum fiskvinnslu fyrirtækisins í Grindavík á starfsfólki sínu fyrir norðan, þá fór ég strax að reyna að komast að því, hver hin raunverulega ástæða væri og eftir því sem að mér er sagt, þá er Vísir orðið enn eitt af þeim fiskvinnslu fyrirtækjum með mikið af aflaheimildum til þess að veðsetja komið í útrás og eftir því sem að mér er sagt, þá hafi fyrirtækið tapað gríðarlegum fjármunum í einhvers konar braski vestur í Kanada og það hafi verið að kröfu viðskipta banka fyrirtækisins, sem fyrirtækið fór að leita leiða til þess að hagræða og þá m.a. með því að loka starfsstöðvum sínum norðuri í landi.

Því miður er þetta enn eitt dæmið um fyrirtæki, sem í krafti mikilla aflaheimilda og frjálsa framsalsins á aflaheimildum sem freistast til þess að leggja störf starfsfólks síns í hættu vegna græðgi.

Varðandi hins vegar starfsfólks Fiskistofu og umræðurnar um störf á vegum ríkissins, þá get ég vel tekið undir það sjónarmið okkar á landsbyggðinni að svo sannarlega mætti færa fleiri störf út á land, en gallinn við þessa ákvörðun um flutning Fiskistofu er ekki sú ákvörðun, heldur hvernig staðið er að henni. Að mínu mati hefði átt að gefa það strax út, að þessi störf yrðu flutt, en þá t.d. á kjörtímabilinu. Fá starfsfólk Fiskistofu til þess að taka þátt í verkefninu, hvort sem það ætlar að fylgja með eða ekki, en gefa um leið út þá tilkynningu að það starfsfólk Fiskistofu, sem ekki gæti eða vildi flytja sig norður í land, myndi hafa forgang á höfuðborgar svæðinu í önnur störf á vegum ríkisins. Mér finnst í umræðunni alveg hafa gleymst að horfa á hinn mannlega þátt málsins, því öll höfum við að sjálfsögðu fjölskyldu, heimili og fjár skuldbindingar sem ekki er alltaf hægt, í sumum tilvikum, að færa milli landshorna.

Ég verð að segja alveg eins og er, að ég þarf að hafa samband við Fiskistofa að jafnaði einu sinni í mánuði út af hinum ýmsu málum og fengið undantekningalaust frábæra þjónustu og afgreiðslu á mínum málum. Besta leiðin til þess að sú góða þjónusta haldi áfram, er að flutningurinn verður unninn í góðu samræði við þá sem starfa núna á Fiskistofu.

Varðandi þá ákvörun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að fagna því, að störf á vegum ríkisins séu flutt út á land, þá get ég vissulega tekið undir það, en ég hefði þó frekar viljað sjá meiri kraft lagðan í það að verja þau störf á vegum ríkisins sem enn eru hér í Vestmannaeyjum og þá sérstaklega á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. yfirstjórn sjúkrahússins, löggæslunnar, niðurlagning á starfi vitavarðar í Vestmannaeyjum, listinn er í raun endalaus þegar maður horfið til baka, en ég verð þó að segja það að lokum að ég hef mestar áhyggjur á því að niðurskurður á sjúkrahúsinu haldi áfram og svolítð galið að hugsa til þess, að ef fólk í Vestmannaeyjum vogar sér að vilja fjölga sér, þá þarf það að flytja á höfuðborgarsvæðið til að geta fætt börnin sín. 


1. júlí.......

......er í dag og sunnan strekkingur, sem hefði á árum áður þýtt það að talsverður fjöldi Eyjamanna hefði tekið strikið upp í fjöll og eyjar til lundaveiða og svona til þess að minnast míns gamla vinar, sem ekki er með okkur lengur, Hallgríms Þórðarsonar, þá renndi ég í morgun upp á flakkarann með sjónaukann og sá í raun og veru það sem ég bjóst við. Aðeins örfáir lundar á lofti. Það var nokkuð ljóst strax í maí að framundan væri erfitt sumar hjá lundanum, enda hefur makríllinn aldrei verið jafn snemma á ferðinni, eða um miðjan maí voru menn farnir að verða varir við hann. Sú staðreynd, ásamt ýmsu öðru gerir það að verkum, að lundinn þarf að sækja æ lengra eftir æti og miðað við hvað lítið hefur sést af lunda að undanförnu, þá er þetta orðið það langt í ætið að augljóslega mun varpið að mestu leyti misfarast, sem þýðir að sumarið í sumar verður að öllum líkindum fimmta sumarið af síðustu sjö, þar sem varpið misferst algjörlega.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að lundastofninn fyrir norðan land er í gríðarlegum vexti og hófust veiðar þar strax í morgun. 

Varðandi hugsanlegar lundaveiðar í Eyjum, þá er eins og ég hef sagt svo oft áður mín tilfinning sú að veiðidögum mínum í Vestmannaeyjum sé lokið og í raun og veru, eins og útlitið er núna, þá finnst mér ansi hæpið að tala um einhverja veiðidaga núna í júlí mánuði, eða fyrir Þjóðhátíð eins og áður fyr tíðkaðist. Almennt heyrist mér veiðimenn vera á þessari skoðun, en mig langar þó að taka undir með Sigurgeiri í Álsey, en Sigurgeir var á þerri skoðun, eins og svo margir reyndir veiðimenn, að veiðidagarnir sl. sumar hefðu verið of snemma á tímabilinu og hann spáði því að mikið yrði af lunda eftir Þjóðhátíð, sem að gekk að mestu leyti eftir og hann er á þeirri skoðun núna, að leyfa eigi veiðar eingöngu eina helgi í ágúst t.d. helgina eftir Þjóðhátíð. Væri þetta gert þá væri hægt að nota þá helgi til þess að kanna og aldursgreina lundastofninn í Eyjum, og komast þannig að því í raun hvernig aldurhlutfallið á lundastofninum sé orðið í dag.

Eitt að lokum sem að mér þætti áhugavert að væri skoðað. Ef við reynum að horfa á breytingar á lundastofnum á heimsvísu, þá er ljóst að stofninn er hruninn að mestu leyti í Færeyjum og Noregi, en á móti kemur að þá er mér sagt að lundastofninn fari stækkandi á Bretlandseyjum og Skotlandi og maður veltir því fyrir sér, að ef stærsta ástæðan sé makríllinn og hann sé búinn að færa sig það mikið norður á bóginn að hann sé hættur að hafa þessi slæmu áhrif á því svæði. Þetta þyrfti að sjálfsögðu að skoða betur, en vonandi nær lundastofninn sér á skrið aftur á næstu árum. 


Bæjarstjórnarkosningar 2014

Kosningaúrslitin liggja fyrir, bæjarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins bætir við sig einum manni á kostnað annarra flokka og óháðra og verða því 5 í meirihluta og 2 í minnihluta, en að sjálfsögðu óska ég þeim til hamingju með það. Það eru mörg erfið og brýn verkefni sem bíða nýs meirihluta á þessu kjörtímabili og ég neita því ekki, að ég hef talsverðar efasemdir um að þetta annars ágæta fólk í meirihlutanum hafi þá þekkingu og reynslu sem til þarf, til þess að leysa þau brýnu verkefni sem fram undan eru, vonandi munu Eyjamenn ekki þurfa að sjá eftir þessum stuðningi við meirihlutann að 4 árum liðnum. 

Úrslitin að öðru leyti komu mér ekki á óvart. Mér fannst alltaf liggja fyrir að við á Eyjalistanum áttum á brattann að sækja og alveg ljóst að gríðarlega mikla vinnu þurfti til þess að snúa þessari stöðu við, sem að mínu mati að mörgu leyti var ekki unnin. Úrslitin eru vissulega mikil vonbrigði, en það má kannski orða það svo að fyrir viku síðan hefði ég sagt að það þyrfti mikla vinnu til þess að ná þremur bæjarfulltrúum, en á kosningadag var mjög augljóst að það þyrfti kraftaverk til. 

Við á Eyjalistanum þurfum öll að sjálfsögðu að líta svolítið í eigin barm og læra af reynslunni. Framundan er sumar í Eyjum með vonandi góðu veðri og góðri tíð, en fyrir mitt leyti langar mig að þakka öllum frambjóðendum fyrir ánægjuleg kynni sem og öllum stuðningsmönnum Eyjalistans, bæði þeim sem kusu okkur, en ekki hvað síst þeim sem kíktu í kaffi. Ég ætla nú ekki að lýsa því yfir að ég ætli einhvern tímann að bjóða mig fram aftur, en ég hef hins vegar oft sagt að maður eigi aldrei að segja aldrei, en ég neita því hins vegar ekki að ég er rosalega feginn að þessu er lokið í bili, enda er þessi maí mánuður sem nú er að baki, einhver annasamasti mánuður í mínu lífi, vægast sagt.

Enn og aftur, takk allir fyrir stuðninginn.


Gleðilegt sumar

Lundinn er að setjast upp í kvöld, sem þýðir að þar með er komið sumar hjá mér, en þetta er í fyrsta skiptið sem það hittir nákvæmlega á sumardaginn fyrsta, en í öll þessi ár sem ég hef fylgst með komu lundans, hefur hann aldrei komið svona seint en t.d. bæði í fyrra og hitt í fyrra kom hann 13. apríl, sem er reyndar í það fyrsta.

Hvernig sumarið verður hinsvegar er algjörlega óskrifað blað, en það sem við vitum er að sílis stofninn er hruninn og makríllinn mun, að öllum líkindum, koma og éta upp meirihlutann af annarri fæðu sem nýst gæti lundanum. Stofninn er hins vegar sterkur og ekki þarf mikið að breytast, til þess að stofninn nái að jafna sig, en ég er ekkert of bjartsýnn á það.

Í ár eru 4 ár síðan ég veiddi síðast lunda í Vestmannaeyjum og ég sagði það þá og stend við, að ég væri svolítið hræddur um það, að þar hefði ég veitt í síðasta skiptið í Eyjum. Að því sögðu, þá mun ég samt, eins og í fyrra, styðja við það að leyfðar verði veiðar í einhverja ör fáa daga, en á ekki von á því að ég nýti mér það sjálfur, frekar en í fyrra, en út frá hefðinni, þekkingunni og vísindasjónarmiði, væri ég til í það að leyfa einhverja daga, en ég hef tekið þá ákvörðun að veiða ekki lunda oftar í Vestmannaeyjum nema ég sé algjörlega sannfærður um það, að þar sé um ungfugl að ræða og m.a.s. væri ég alveg til í að opna á það, að skreppa einhvern tímann í kringum Þjóðhátíð með stór vini mínum, Erpi, í góðri vindátt á góðan stað og háfa og sleppa og kanna þá um leið, hvort einhver ungfugl væri á ferðinni. En vonandi verður mikið af lunda í sumar og mikið af pysju í haust.


Samgönguvandræði......

......Eyjamanna halda áfram og nýjasti kaflinn er yfirvinnubann áhafnarinnar á Herjólfi og hafa fjölmargir Eyjamenn tjáð sig um þetta, sem er í sjálfu sér bara hið besta mál, en áður en ég var tilbúinn að tjá mig um þetta, þá kannaði ég lauslega launakjör áhafnarinnar og það verður bara að viðurkennast alveg eins og er, að fólk sem er á sjó meira og minna í öllum veðurm stóran hluta af árinu á þessu erfiða hafsvæði við suðurströnd landsins, þá er þetta fólk hreinlega á skíta kaupi og ég styð þau heilshugar í baráttu sinni. Vissulega er þetta mjög erfitt fyrir alla Eyjamenn, bæði fyrirtæki og fólk sem þarf að komast á milli daglega, og þá kannski sérstaklega með vörur, en að mínu mati er boltinn fyrst og fremst hjá þeirra viðsemjendum að koma fram með tilboð svo hægt sé að fara að finna út sanngjarna niðurstöðu og í raun og veru er svolíðið skrýtið að heyra og sjá fólk sem virkilega er á þeirri skoðun að það eigi að setja lög á þetta verkfall, en að mínu mati þá verða aðilar einfaldlega að fá að semja um sín mál, lög á verkföll hafa aldrei alið af sér annað en enn meiri óánægju og eru svo sannarlega ekki lausnin á þessu máli.

Það er þó eitt við þennan vandræða gang í samgöngumálum okkar sem býður upp á ákveðið tækifæri, því eins og komið hefur fram áður, þá hefur innanríkisráðherra boðað það, að boðið verði út smíði á nýrri ferju á næstunni, sem á að vera töluvert minni en núverandi ferja, með minni yfirbyggningu, taka aðeins færri bíla og ganga töluvert hægar en núverandi ferja. Á sama tíma virðist ekkert vera í undirbúningi varðandi lagfæringar á Landeyjahöfn, en eins og ég hef sagt svo oft áður, það er lágmarks krafa að gerður verði varnargarður til þess að verja innsiglingu Landeyjahafnar fyrir brotsjó. Gangi þessar ætlanir innanríkis ráðherra eftir og hingað komi ný ferja eftir svona ca. 2 ár og núverandi ferja verði þá hugsanlega seld í burtu á sama tíma, þá er ekkert ólíklegt annað en að allt of fáar ferðir þessar vikurnar verði það sem við munum hugsanlega þurfa að búa við, þ.e.a.s. miðað við að ný ferja geti ekki siglt til Þorlákshafnar í jafn slæmu veðri og núverandi ferja, og ekkert verði gert til þess að lagfæra Laneyjahöfn. Ekki góð spá þetta, en hingað til hafa allir spádómar mínir um Landeyjahöfn reynst réttir og ég tek undir það sem sumir hafa skrifað að undanförun og ég áður, stærsta vandamál okkar Eyjamanna er að forræðið á bæði höfn og ferju er í höndum fólks sem aldrei þarf að treysta á þessar samgöngur. 

Það er orðið ansi langt bil á milli raunveruleikans í dag og þeirra draumóra sem bæjarstjórinn okkar var með á sínum tíma um allt að 8 ferðir á dag, en vonandi verður búið að skipta honum út í vor, enda hefur aðkoma hans að þessum samgöngu vandamálum okkar á þessu kjörtímabili nú þegar skaðað hagsmuni okkar Eyjamanna allt of mikið. 

Það jákvæðasta í samgöngumálum okkar eru ferðir Víkings sem svo sannarlega munu nýtast okkur vel í sumar og vonandi fá þeir Rib safari menn líka að sigla í Landeyjahöfn í sumar, en að sjálfsögðu fer þetta allt saman fyrst og fremst eftir tíðarfarinu, en miðað við alla þá fjárfestingu sem bæði á og er að eiga sér stað í matsölu-kaff- og gistiaðstöðu, þá einfaldlega verður þetta allt saman að ganga upp. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar, en að mínu mati vantar fyrist og fremst skýr skilaboð frá okkur Eyjamönnum um það hvað VIÐ viljum að sett sé í forgang.


Áramót (seinni hluti)

Ég sé í athugasemdum að huldu persónan "Vestmanneyja-vaktin" hálfkvartar yfir því að ekki sé minnst á Landeyjarhöfn eða lundann í áramótagrein minni og ætla því að sjálfsögðu að bæta úr því. 

Lítið, og í raun og veru ekkert, er að gerast varðandi Landeyjarhöfn, sem að mér þykir merkilegt en það vakti þó athygli mína grein, í síðustu fréttum, um að þýskir sérfræðingar vilji gera breytingar á Herjólfi til þess að hann haldi betur stefnunni. Ekki þekki ég þetta vel, en ég er þó sammála því að Herjólfur rásar óvenju mikið á siglingu, sérstaklega eftir að hann hefur hægt ferðina, svo vonandi verður eitthvað hægt að laga það. En það sem mér þótti kannski meira merkilegt við þessa grein í fréttum er það sem stóð ekki þar, en augljóslega má lesa út úr greininni að ekki sé það komið á dagskrá að smíða nýtt skip, og að öllum líkindum, ekki næstu árin.
Lenti á spjalli við Simma víking í vikunni, en Simmi vill að við hættum að tala um Landeyjarhöfn, endurvekjum félagið Ægisdyr, og förum að tala um alvöru samgöngubætur. Ég er nokkuð sammála Simma í þessu, enda augljóst að Landeyjarhöfn er, og verður, að öllum líkindum, alltaf klúður.
Merkilegustu ummælin um Landeyjarhöfn eru að sjálfsögðu tengd pólitíkinni, og koma frá engum öðrum en sjálfum bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum, og birtust í fréttum í lok ágúst 2010. Þau voru svona: "Ég er stoltur af því að við í bæjarstjórninni skildum standa af okkur allar úrtölu- og niðurrifsraddir."
Daginn eftir að þessi grein bæjarstjórans birtist duttu út fyrstu ferðirnar í Landeyjarhöfn og vandræðagangurinn hófst. Nokkrum vikum síðar skoraði ég reyndar á bæjarstjórann og fleiri að axla nú ábyrgðina af þessu klúðri og segja af sér, en ég bjóst reyndar ekki við neinum viðbrigðum við því. En það er svolítið merkilegt að heyra nýju kjaftasöguna um það að bæjarstjórinn okkar sé hugsanlega að hætta í vor, og jafnvel hugsanlega að flytja í bæinn, en ég hef ekki mikla trú á því sjálfur.
En til að gæta jafnræðis, ein setning frá fulltrúa minnihlutans í sumar, sem vakti athygli mína, en hún var nokkurnvegin svona: "Við eigum að fara eftir því sem sérfræðingarnir segja og trúa og treysta þeim í einu og öllu."
Mér brá töluvert þegar ég heyrði þetta af bæjarstjórnarfundi síðastliðið sumar, enda hef ég oft fjallað um sérfræðingabáknið á Íslandi, og tel það vera eitt stærsta vandamálið á landinu okkar. En ummæli þessi áttu sér stað í umfjöllun um lundann þar sem að meirihluti vildi leyfa veiðidaga, en minnihlutinn ekki. Veiðidagar voru leyfðir, en lundinn lét bara ekki sjá sig. Lundinn hinsvegar kom í milljóna tali hérna síðastliðið sumar, þó hann stoppaði lítið við og varpið misfarist. En í dag eru sirka 15 vikur í að lundinn mæti aftur, og hann mun mæta í milljóna tali. 

Mig langar að setja fram eina ósk, sérstaklega ætlaða eyjamönnum. Það er til mjög góður og gildur siður út um allan heim, sem oft hefur verið talið merki um tillitssemi og skynsemi, og er í raun og veru bundið í lög, auk þess sem að þessi litla aðgerð hefur mjög oft komið í veg fyrir slys vegna misskilnings, en ég hef tekið eftir því undanfarna daga að virðist því miður gleymast ansi oft hér í Vestmannaeyjum. Svo ég ætla hér með að skora á alla eyjamenn að hefja nýja árið með loforði um það að gefa hér eftir stefnumerki. 

Ég ætla mér að vera rosalega bjartsýnn á nýja árið og spá því að tíðin verði bara nokkuð góð, aflabrögð góð, mikið af lunda, gott sumar, vonandi mikið af pysjum og ekki væri nú verra ef ÍBV kæmi heim með dollu í haust. 

Gleðilegt nýtt ár allir og takk fyrir það gamla! 


Áramót

Um jól og áramót er gott að geta slappað af í faðmi fjölskyldunnar en um leið tími til að skoða árið að baki og það sem er framundan.

Líf trillukarlsins í Vestmannaeyjum í ár hefur verið ágætt, þrátt fyrir að tíðarfarið hafi verið frekar erfitt, enda mikið um suðlægar áttir í ár. Helstu breytingar í sjávarútveginum eru þó fyrst og fremst þær sem tengjast pólitíkinni, en í vor kvaddi hin svokallaða norræna velferðar stjórn sem lofaði miklum breytingum í Íslenskum sjávarútvegi fjórum árum áður, en stóð ekki við neitt í þeim málum frekar en öðrum. Við tók ríkisstjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna sem alltaf hafa varið núverandi kvótakerfi. Afrek þeirrar ríkisstjórnar á sínum fyrstu mánuðum eru nú þegar töluverð, saman ber kvótasetning á blálöngu og fleiri tegundum sem engin smábátaútgerð bað um, ekki frekar en stækkun smábáta úr 15 tonnum í 30, að ósk hinna örfárra stærstu en gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar. Sorglegast af öllu er þó að horfa upp á minnihluta flokkana á Alþingi sem virðast hafa það eina fram að færa, að skattar verði hækkaðir á útgerðina, sem að sjálfsögðu leysir ekki neitt. Vandamálin eru því óbreytt, sjórinn er fullur af tegundum eins og t.d. ýsu sem enginn má veiða vegna þess að Hafró segir að það sé engin ýsa í sjónum og Fiskistofa kórónar síðan bullið með því að lýsa því yfir, að samkv. nýjustu útreikningum þeirra, þá sé brottkast á fiski á Íslandsmiðum úr sögunni. Margt mætti telja upp, en ég ætla að enda þennan kafla um sjávarútveginn með orðum starfsmanna Fiskistofu, sem sagði við mig á bryggjunni eftir að kvótasetning á keilu og löngu hafði tekið gildi um 2000:

"Núverandi kvótakerfi er sennilega eitthvað það skelfilegasta og versta fiskveiðistjórnarkerfi sem nokkurn tímann hefur verið fundi upp, hvað þá unnið eftir."

Það er nákvæmlega ár síðan ég sagði mig frá allri pólitík og þó svo að réttlætiskenndin ólgi stundum í blóðinu, þá er það nú orðið þannig að þar sem maður þekkir nú orðið hvernig pólitíkin virkar, þá er nú ekki laust við að það sækir stundum að manni létt velgju tilfinning á köflum, en það verður kosið til bæjarstjórnar í vor og nú þegar liggur fyrir að einhverjar breytingar verði í forystusveit meirihluta stjórn sjálfstæðismanna. Einnig er ljóst að breytingar verði hjá Vestmannaeyjalistanum, þar sem margir reynsluboltar hafa horfið af vellinum en um leið hefur Björt framtíð gengið til liðs við Vestmannaeyjalistans. Ekki geri ég mér grein fyrir því hvaða áhrif það hefur, ég er hinsvegar meiri spenntur fyrir því að eftir því sem hvíslað hefur verið að mér, þá verði að öllum líkindum fleiri framboð fyrir vorið, enda finnst mér vera komin töluverð þreyta í þetta ágæta fólk sem situr í núverandi bæjarstjórn, að maður tali nú ekki um þá staðreynd að hið mikla forskot sem meirihlutinn fékk fyrir 8 árum síðan með sölu hluts okkar í HS veitum uppá 3,6 milljarða og ágætis plan hjá þeim um að verja þá upphæð og nota einungis vextina til góðra verka sé hugsanlega að fara til verri vegar enda nokkuð ljóst að kostnaður við eldheima uppá sirka milljarð sem og kostnaður við fasteign uppá sirka 1600 milljónir mun taka drjúgt af þeirri upphæð. Einnig er ljóst að það stefnir í mikið vandamál í sorphirðu málum okkar eyjamanna og mér er sagt að meiri hlutinn hafi ekki áhuga á að kaupa nýja brennslu enda kostnaður við slíkt alveg gríðarlegur, og sem dæmi um hvaða breytingar þetta hefur haft á mína útgerð, þá var þetta þannig að fram á síðasta vetur var höfnin með gáma fyrir rusl frá öllum útgerðum á bryggjunum og maður fékk rukkun upp á nokkur þúsund á hverju ári í sorphirðugjöld, en í síðasta mánuði fór ég með eina ferð af rusli upp í Sorpu og fékk reikning upp á rúmar 20 þúsundir. Einnig hef ég tekið eftir því að eftir að gámarnir voru aflagðir, þá hefur sorp aukist verulega í höfninni, sem er nú ekki gott fyrir smábáta. Ég veit reyndar að hafnar starfsmennirnir gera sitt besta til að þrífa þetta reglulega, en fyrir mitt leiti þá mun það hafa töluverð áhrif á það hvað ég kem til með að kjósa í vor, hverjir koma með bestu lausnina á þessu sorp-vandamáli. Ég sé reyndar að meiri hlutinn er að kenna fyrrum umhverfisráðherra Vinstri grænna um að hafa lokað brennslunni, sem er að vissu leiti rétt, en hafa verður þó í huga að mengunin frá brennslunni var langt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem leyfð eru. Nú eru hinsvegar komnir nýir aðilar í landsstjórnina svo það er spurning hvort að ekki verði bara kveikt aftur á brennurunum, enda virðist stundum eins og sumir megi hreinlega gera hlutina eins og þeim sýnist en það kemur þó í ljós. 

Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla og gleðilegs árs, og takk fyrir það liðna. 


Peningar.......

.........eru nokkuð örugglega heitasta umræðuefnið í dag, og aðeins varðandi nýframkomið frumvarp Ríkisstjórnarinnar um niðurfærslu húsnæðisskulda, þá er ég að sjálfsögðu hlynntur þessu, en tek það þó fram að ef ekki verður tekið á verðtryggingunni, að maður tali nú ekki um að seinna komi fram skattareikningur frá ríkinu vegna niðurfærslunnar, þá hafi þetta í raun og veru engan tilgang.

Heitasta umræðuefnið í síðustu viku voru uppsagnir hjá Rúv, þar sem 39 manns var sagt upp og mikil mótmæli við því og umfjöllun, skiljanlega, þó svo að miðað við atvinnusvæði höfuðborgarinnar þetta sé nú ekki stór tala í því samhengi, en það hefur einmitt vakið athygli mína hér í Vestmannaeyjum lítil, eða réttara sagt engin, umfjöllum um uppsagnir á haustdögum. Sem dæmi þá voru um 40 manns sem misstu vinnuna þegar fiskvinnslan Pétursey lokaði í byrjun september, en hefur sem betur fer eftir því sem mér er sagt, verið reddað vinnu annarstaðar. Einnig misstu amk. 12 sjómenn atvinnuna þegar Kristbjörginni var lagt 1. okt. Í svona litlu bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum hefði maður haldið að þetta myndi teljast til fjölda uppsagna með mikilli umfjöllun í bæjarfélaginu, en um þetta virðist ríkja algjör dauðaþögn, skrítið mál það. 

Ég fór að reikna saman svona til gamans, hvar ég gæti hugsanlega fundið upphæðina sem skorið er niður hjá Rúv og sem vantar til þess að hægt sé að halda uppi fullum rekstri á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og viti menn, þetta er sennilega mjög nálægt þeirri upphæð sem nú þegar er búið að setja í að moka sandi í Landeyjahöfn síðustu árin, og maður hlýtur að velta því upp fyrir sér þvílík vitleysa það er að fara þannig með fjármagnið.

Talandi um Landeyjahöfn, þá vildi þannig til að snemma í haust var ég á leiðinni með Herjólfi yfir í Landeyjahöfn, mætti þar stýrimanninum á útleiðinni sem bauð mér að koma upp í brú og standa á milli stýrimannsins og skipstjórans á meðan siglt væri inn í höfnina, og ég verð að segja alveg eins og er að ég dáist að þeim fyrir þetta afrek að ná að sigla 70 metra ferju inn um 90 metra innsiglingu án þess að lenda í meira tjóni heldur en nú þegar er orðið, en sorgarsaga Landeyjahafnar mun vist, að öllu óbreyttu, halda áfram með tilheyrandi peningaaustri.

Eitt enn varðandi peninga. Nú er ljóst að það stefni í að fara í amk. um eða yfir milljarð í þessa svokölluðu Eldheima, sem ég ætla rétt að vona að muni þá skila einhverju á næstu árum, en ég lenti á spjalli við smiði um helgina sem sögðu mér það, að það væri verið að nota efni í Eldheima sem væri ekki ryðfrítt og þetta myndi ryðga niður á skömmum tíma, sem þýðir, ef rétt er, aukið fjármagn til viðhalds á næstu árum, vonandi er þetta ekki rétt. 


Landeyjahöfn

 Set hérna inn mynd úr nefndaráliti um hafnarmál suðurlands frá því í júlí 1978, en ef myndin sést vel? þá er nokkuð ljóst að munurinn á þessari höfn og Landeyjahöfn er gríðarlegur, en þessar teikningar voru gerðar þegar og á meðan var í umræðunni hugsanleg hafnargerð við Dyrhólaey og/eða við Þykkvabæjarfjöru. Myndirnar eru reyndar nokkrar, en eini munurinn er stærðin og er hann fyrst og fremst mælanlegur í innsiglingunni sem er frá 150 m upp í 250 m, eftir því hvort verið er að tala um litla eða stóra höfn fyrir lítil eða stór skip.

Það hefur töluverð umræða verið í Eyjum um það hversvegna Landeyjahöfn er eins lítil og hún og um leið hvers vegna ekki er farið í að klára höfnina. Svarið er bæði í þessari bók og í fyrstu greinum mínum um Landeyjahöfn 2006 og 2007. Í nefndarálitinu frá 78 kemur fram að ekki er talið verjandi að fara í stóra höfn, nema ef fyrir lægi einhvers konar stóriðja sem að skilað gæti tekjum sem réttlætt gæti hafnargerðina. Þar kemur einnig fram að svona stór höfn gæti skaðað tekjumöguleika annarra hafna sem fyrir eru.

Í greinum mínum í upphafi umræðunnar á bloggsíðunni hjá mér, þá fjallaði ég nokkuð oft um það, hvílíkur skaði það yrði fyrir Vestmannaeyjar ef löndunar og uppskipunar höfn yrði byggð í Bakkafjöru. Það er nokkuð ljóst að þetta er ein helsta ástæðan fyrir því að allt var gert til þess að reyna að hafa Landeyjahöfn sem minnsta, en um leið má taka sem dæmi um neikvæð áhrif Landeyjahafnar á Vestmannaeyjar úr eldri blogg færslum mínum, þar sem ég kem meðal annars inn á það, að hugsanlega yrði þessi höfn til þess að einhver ríkisstjórn sæi þarna tækifæri til þess að skerða þjónustu við Eyjamenn og sameina hana við aðra sambærilegar stofnanir á suðurlandi og nefndi ég þar m.a. sjúkrahús Vestmannaeyja.

Það er nú einu sinni staðreynd að við fáum aldrei allt fyrir ekki neitt. Kostnaður Eyjamanna við Landeyjahafnar er fyrir löngu kominn langt út fyrir það sem margir hefðu trúað í upphafi, og það þrátt fyrir að höfnin sé ennþá fyrst og fremst bara sumarhöfn. Lykilatriðið er þó, þrátt fyrir það allt, það að ef Landeyjahöfn á að verða framtíðar samgönguhöfn Eyjamanna við fastalandið, þá verður að klára höfnina.

P/S ég harma fullyrðingar bæjarstjórans okkar í síðustu Fréttum, um að fullyrðingar að heiman eigi sér litla stoð í veruleikanum og að málið leysist ekki með gífuryrðum og hávaða og bendi honum enn einu sinni á það að Eyjamenn óskuðu eftir því að fá að kjósa um sín framtíðar samgöngumál á sínum tíma, en Elliði hundsaði það algjörlega og ber þess vegna mesta ábyrgð á þessu klúðri í dag.

 

 

skanni_001_1217866.jpg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband