Lundasumarið 2013

Lundaballið er um næstu helgi og því rétt að gera upp sumarið.

Mjög merkilegt lundasumar að baki, en þó fyrst og fremst gríðarleg vonbrigði með varpið, en í þessum skrifuðum orðum eru komnar 25 pysjur á sædýrasafnið, sem þýðir að 2013 er fimmta árið af síðustu 7 þar sem varpið misferst nánast alveg, en þó verður að hafa í huga útreikninga mína á heildar pysjufjöldanum frá öllum Vestmannaeyjunum, en 25 bæjar pysjur þýða ca. 5.000 pysjur, sem er samt rosalega lítið en samt meira heldur en veitt var.

Á síðasta ári sagði ég frá kenningu Simma á Víking um að varpið myndi lagast ef sjávarhitinn við Eyjar lækkaði, enda þokkalegt varp í fyrra í mun kaldari sjó heldur en árin þar á undan. Í ár hinsvegar, var sjórinn enn kaldari heldur en í fyrra, sem þýðir að því miður stenst þessi kenning ekki. Að sjálfsögðu hefur sjávarhitinn mikil áhrif á lífríkið í heild sinni, en það jákvæða við þetta allt saman er þó það að nú liggur fyrir endanlega, hvert vandamálið er. Ég hef nokkrum sinnum nefnt makrílinn sem sökudólg á ætisskorti lundans, en hvorki Hafró né Erpur hafa viljað taka undir þetta, en í sumar kom þó frá sílarannsóknarleiðangri Hafró, að ástæðan fyrir hvarfi sílisins væri augljóslega afætur og er makríllinn nefndur þar sérstaklega, þannig að í samræmi við áskorun mína nýlega á núverandi sjávarútvegsráðherra, þá þarf að auka verulega makrílveiðar, en ég geri mér vel grein fyrir því, að það er allsendis óvíst að það myndi duga til að breyta nokkru úr þessu.

Ákvörðum bæjarráðs að leyfa 5 veiðidaga í sumar var í sjálfu sér ágæt, en því miður ekki tekin í samráði við veiðimenn, enda höfðu veiðimenn beðið um að fá að veiða frá 19. - 30. júlí, en fengu frá 19. - 23. Ef veiðimenn hefðu fengið að velja, þá hefðu þeir alltaf valið síðustu 5 dagana, enda meiri líkur á því að þá væri kominn einhver ungfugl. Lítið sást nema gamall lundi þessa 5 daga, enda fór veiðiháfurinn minn aldrei út fyrir hús. Veiðistofn lundans mætti hins vegar 28. júlí og ég verð að viðurkenna alveg eins og er að ég hef aldrei á ævinni séð jafn mikið af lunda og í suðurfjöllunum  þann dag og sorglegt að ekki skyldu vera leyfðar veiðar þá, þó ekki væri nema til þess að geta kannað aldurshlutfallið í veiðistofninum. Að mínu mati hefði verið miklu skynsamlegra að fara að tillögum veiðimanna, en setja inn að ætlast væri til þess að hver veiðimaður færi að hámarki 2-3 í veiði. Flestir veiðimenn fóru ekki neitt, en einstaka veiðimenn sátu töluvert við en fengu lítið.

Aðeins um Erp. Eins og kemur fram hérna fyrr þá er ég á þeirri skoðun að ástæðan fyrir öllum vandamálum lundans sé makríllinn og tel ég þar með störfum hans hér með lokið, enda engin ástæða til þess að henda frekari fjármunum í þessa vinnu hjá Erpi. Að því sögðu vil ég þó segja það, að ég er rosalega ánægður með fréttaflutning Erps á þessu ári, enda fréttir um ósjálfbærar veiðar í 45 ár, eða fréttir að aðkomu eða flækingslundum eða innflutnings lundum fyrst og hlátursefni hjá öllum þeim sem hafa þekkingu á lundanum, en fær svona þá sem að þekkja ekki til, til þess að verða svolítið hugsi í það minnsta. 

En svona til gamans þá langar mér að svara þessum atriðum að lokum. Ósjálfbærar veiðar í 45 ár er ekkert annað en brandari og eiginlega ekki svaravert, en ég efast ekki um það að Erpur getur búið til einhver gögn sem sýna þetta. Hins vegar varðandi aðkomu- eða flækingslunda, þá er það staðreynd að meira og minna alla síðustu öld hefur lundi verið merktur í Vestmannaeyjum sem nemur tugum þúsunda, en aldrei hefur einn einasti merktur lundi frá Vestmannaeyjum veiðst annar staðar á landinu, svo eina ástæðan sem ég gæti hugsanlega hugsað mér fyrir því að lundi færi að koma annar staðar frá til Vestmannaeyja, í hungursneyðina hér, væri þá kannski það að lundinn fyrir norðan væri kominn í megrun, en ég tel það svolítið hæpið. Það sem ég kalla veiðistofn lundans, er einfaldlega það varp sem hefur verið á hverju ári undanfarin ár, alltaf amk. nokkrir þúsund fuglar upp í nokkur hundruð þúsund, sem að sjálfsögðu kemur hingað sem ungfugl í veiðistofni og magnið er einfaldlega það mikið vegna þess að hér hefur ekkert verið veitt. Lundinn sem Erpur kallað aðkomu eða flækings lunda er því einfaldlega úr varpi í Eyjum og annað er bara tómst bull.

Lundinn kom til Eyja í sumar í milljóna tali eins og hann hefur alltaf gert, og hann mun líka gera það á næsta ári og nú vitum við, hvað þarf að gera til þess að hjálpa fuglinum.

Góða skemmtun allir á lundaballinu.


Sjúkrahús Vestmannaeyja og Landeyjahöfn.........

.......eru heitustu umræðuefnin í Vestmannaeyjum þessa dagana og vikurnar. Varðandi sjúkrahúsið þá er umræðan nánast tæmd, en samt varðandi lokun skurðstofunnar og það að fjölskyldur þurfi að flytja til Reykjavíkur til þess að eignast börnin sín. Ég ræddi þetta við vin minn sem að einmitt átti barn um síðustu mánaðarmót, en barnið fæddist viku eftir ásettan tíma, sem þýðir að með því að fara tímanlega fyrir ásettan tíma, þá hefðu þau þurft að dvelja í bænum í amk. 10 daga og kostnaðurinn því hlaupið á hundruð þúsunda þegar allt er talið. Ekki gott mál og því einfalt að mínu mati: það má ekki loka skurðstofunni.

Önnur hlið á þessu er varðandi hugsanlega fækkun legurýma og skerta þjónustu við aldraða. Svolítið skrítið, því eins og við vitum erum við alltaf að verða eldri og eldri og því svolítil vafasöm aðgerð að fara að skerða þjónustu við aldraða á sama tíma og öldruðum fjölgar. Lausnin á þessu öllu er að sjálfsögðu fólginn í því að leggja þessum málaflokki til meira fjármagn, en hvar á að taka það? Að mínu mati væri það kannski eitthvað sem ráðamenn þjóðarinnar ættu að hugleiða að taka ákveðna prósentu, segjum t.d. 10% af hinu nýja aflagjaldi sem nýlega var sett á Eyjamenn, en mér skilst að það sé einhverstaðar á milli 3-4 milljarðar sem bætast á útgerðir í Eyjum og spurning hvort að ekki yrði meiri sátt um þetta ef ákveðin prósenta af þessu t.d. 10% rynnu til sjúkrahús Vestmanneyja og leystu þar með þau fjárhagslegu vandamál sem stofnunin er í. Enn fremur þarf að skoða það hvort ekki verði að lagfæra laun þeirra sem þarna starfa, því að nú þegar fækkaði um einn læknir í sumar og annar hefur sagt upp, svo útlitið er ekki gott.

Mikil og merkileg umfjöllun um Landeyjahöfn í síðustu viku og svolítið merkilegt að sjá viðtöl við nokkra skipstjóra úr Eyjaflotanum, enda orðuðu þeir allir sínar skoðanir nánast orðrétt eins og ég hef skrifað þær frá sjálfum mér. Málið er ekki Herjólfur heldur höfnin. Inni á Eyjafréttum í síðustu viku var síðan mynd tekin af síðu Siglingamálastofnunnar, þar sem lagt er upp með það að það sé svo sannarlega rétt hjá þeim, að það sé skjól í Landeyjahöfn í suðvestan átt vegna nálægðar við Vestmannaeyjar og að staðsetning hafnarinnar sé því rétt út frá því sjónarmiði. Þetta er að sjálfsögðu al rangt að því leytinu til, að þó að kannski sé minni vindur norðaustan við eyjar í suðvestan átt, þá þekkja það allir sjófarendur að í alvöru suðvestan átt, þá brimar einfaldlega allan hringinn. Út frá því sjónarmiði skiptir því í raun og veru engu máli hvar höfnin væri, en ef höfnin hins vegar hefði verið nokkrum mílum vestar, þá hefði verið skjól þar í austan áttum, sem eru ríkjandi brælu áttir í Vestmannaeyjum.

Ég mætti á ágætan fund í vor hjá samtökum áhugafólks um bættar samgöngur, en hef ekki séð ástæðu fyrr til þess að fjalla um fundinn, vegna þess að allir frummælendur byrjuðu sína ræðu á því að tilkynna það að þeir væru ekki að tala gegn því að smíðuð væri ný ferja. En enn og aftur, málið snýst ekki um ferju, heldur höfnina. Mesta athygli vakti hörð gagnrýni Gríms Gíslasonar á Siglingamálastofnun, en svör Sigurðar Áss Grétarssonar sýndi kannski í hnotskurn hversu slæm staðan er í raun og veru, ég ætla að vitna hérna nokkurn veginn í eina setningu frá honum:

Við vitum nú orðið að hið erlenda fyrirtæki sem reiknaði þetta út fyrir okkur hafði rangt fyrir sér, en nú erum við  hins vegar búnir að reikna þetta aftur, vandamálið er ekki höfnin, heldur ferjan. 

Að lokum þetta: til mín kom maður í síðustu viku með gamlar teikningar frá því þegar í umræðunni voru þær hugmyndir að gera hugsanlega höfn við Dyrhólaey og/eða við Þykkvabæjarfjöru. Mjög merkilegar teikningar, því að á þeim kemur alveg skýrt fram, að gert er ráð fyrir innri og ytri höfn, á meðan í Landeyjahöfn er bara gert ráð fyrir innri höfn og höfnin algjörlega opin fyrir úthafs öldunni í suðlægum áttum. Ég ætla að reyna að ná í þessar teikningar á næstunni og birta þær hér á síðunni.


Gleðilegt nýtt ár

1. sept. hefst nýtt kvótaár og má því segja að nú séu áramót hjá sjómönnum og útgerðarmönnum. Árið hjá mér hefur verið ágætt, tæplega 220 tonn upp úr sjó, sem er nokkuð minna en í fyrra, enda mun verra tíðarfar nú í sumar heldur en þá. Mér er þó efst í huga þær ákvarðanir sem nú þegar hafa litið ljós hjá nýrri ríkisstjórn í sjávarútvegsmálum. Fyrst þessi ákvörðun um að leyfa stækkun krókaaflamarks báta úr 15 tonnum í 30 og það gegn ályktun Landssambands smábátaeiganda og miklum meirihluta smábáta eiganda en fyrst og fremst til þess að fara að óskum þeirra ör fáu sem eiga mestu kvótana. Slagurinn um kvótann verður því mun erfiaðir fyrir okkur þessa litlu leiguliða í greininni, svo útlitið er nú ekki bjart. Einnig þessi kvótasetning á litla karfa, gullax og blálöngu, sem gerir enn erfiðara fyrir einhverja nýja að byrja í útgerð og nokkuð ljóst að þessi ákvörðun, eins og hin fyrri, er gerð að kröfu þeirra fáu sem hafa hvað mesta hagsmuni að verja gegn kröfu meirihlutans, en eins og svo oft áður er það peningavaldið sem ræður. Vonandi fá þessir flokkar vel borgað fyrir greiðann.

Áskorun á sjávarútvegsráðherra Íslands.....

.......Sigurð Inga Jóhannsson.

Nú hefur það loksins verið staðfest af Hafró að makríllinn sé stærsti skaðvaldurinn og áhrifavaldurinn í því að varp fjölmargra fuglastofna á Íslandi hefur misfarist síðustu árin, m.a. lunda og kríu og þegar við horfum á þá staðreynd að makríllinn byrjaði fyrst fyrir sunnan lands og hefur síðan verið að færa sig vestur, og núna síðast norður fyrir land og einnig farinn að veiðast við Grænland, þá er nokkuð ljóst að makríllinn er stærsti skaðvaldurinn í sílastofni Íslands og alls ekki ólíklegt að hann muni einnig leggjast í át á seiðum annarra fiskistofna, að maður tali nú ekki um loðnuseiðin, með tilheyrandi tjóni fyrir okkur öll. Því skora ég hér með á sjávarútvegsráðherra að bæta nú verulega við aflaheimildir í makríl, enda er það að mínu mati það eina sem við getum gert til þess að sporna við uppgangi makrílsins og kannski svolítið skrítið að á sama tíma og fiskifræðingar mæla uþb. 1,5 mill. tonna í Íslensku lögsögunni, þá erum við aðeins að veiða liðlega 100 þús. tonn, en til samanburðar þá er veiðireglan varðandi loðnuna þannig að allt er veitt sem mælist umfram 400 þús. tonn. Ég sé líka í fréttum að núverandi sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg Hansen, segir í fréttum í síðustu viku að norðmenn hyggist auka verulega aflaheimildir sínar í makríl, enda sé stofninn stórlega vanmetinn. 

Varðandi afstöðu Evrópusambandsins, þá er þetta í mínum huga afar einfalt. Makríllinn margfaldar þyngd sína í lögsögu okkar og er m.a.s. farinn að hrygna í henni og ef við viljum ekki horfa upp á hugsanlega varanlegt tjón í fjölmörgum fuglastofnum okkar, þá verðum við einfaldlega að auka veiðarnar.  Tek það fram að ég er hvorki starfandi við veiðar né vinslu á makríl .


Ferðaþjónustan...........

...............er á mikilli siglingu þessa dagana (þeas ef undanskilinn er dagurinn í dag, ófært í Landeyjahöfn) en það eru þrjú atriði sem mig langar að koma inn á að gefnu tilefni.

Í fyrsta lagi, þá finnst mér vinnubrögð Siglingamálastofnunnar gagnvart Rib Safari og nýja bátnum hans Simma, Vikingi, afar furðuleg, en kannski ekki hvað síst vinnubrögðum, eða ætti maður kannski frekar að segja engum viðbrögðum hjá sjálfstæðismönnum, sem ekki bara sitja í hreinum meirihluta hér í bæjarstjórn, heldur eru líka í nýrri ríkisstjórn, flokkur sem að einu sinni gaf sig út fyrir það að styðja við frelsi einstaklingsins til að skapa sér og sínum atvinnu og tekjur, en virðist núna vera algjörlega fastur í því að stofnanavaldið eigi algjörlega að ráða ferðinni, en kannski er sjálfstæðisflokkurinn orðinn einhvers konar einu sinni var? 

Annað sem mig langar að nefna er að ég heyrði í hjónum sem komi til Vestmannaeyja í dagsferð nokkru fyrir Þjóðhátíð. Gengu upp á Dalfjall og víðar og nutu útsýnisins í frábæru veðri, fóru síðan niður í dal og fundu fínan stað rétt hjá salerninu inni í dal og ætluðu þar að snæða sitt nesti. Kom þá kona þar að og nánast rak þau í burtu og var að þeirra sögn afar illileg og orðhvöss í þeirra garð. Til þess að kanna þetta mál, þá hafði ég samband við Jónas hjá Sólbakkablómum sem sér um tjaldsvæðin og fékk þessa skýringu: Já, þetta er rétt, þetta er ekki í fyrsta skipti sem við þurfum að reka fólk í burtu sem ekki hefur greitt sig inn á tjaldsvæðið. Enn fremur vildi Jónas taka það skýrt fram að þeir sem hafa ekki greitt sig inn á tjaldsvæðið, þurfi að greiða 200 kr fyrir afnot af salerninu inni í dal. Ástæðan fyrir þessu er að þau fá ekkert greitt frá bænum, hvorki fyrir að þrífa salernin né tjaldsvæðin og tók hann sem dæmi um það að reglulega kæmu heilu rúturnar af ferðamönnum t.d. til að skoða Herjólfsbæ og oft notaði fólk tækifærið til þess að borða þar nestið sitt og nota salernið og alt of oft án þess að borga nokkuð fyrir. Að mínu mati heyrir þetta fyrst og fremst upp á bæinn, það er ekki nóg að henda hundruðum milljóna í verkefni eins og Eldheima, en að bjóða ferðamönnum á sama tíma upp á það að komast ekki einu sinni á salerni og miðað við reynslu mína af að ferðast um landið okkar, þá hefur það mikil áhrif á þá ákvörðun mína um hvort ég vilji heimsækja einhvern stað aftur, hvernig staðið er að hreinlætis og salernis málum og ef mið er tekið af spám um fjölgun ferðamanna, þá þykir mér nokkuð ljóst að þarna þurfi að bæta verulega úr og skora ég hér með á bæjarráð og ferðaþjónustu aðila að gera nú góðan skurk í þessu máli. Og að sjálfsögðu þurfa þeir sem eiga að sjá um þrif eftir ferðamennina að fá eitthvað greitt fyrir.

Í þriðja lagi, þá er það Herjólfur. Ég var uppi á landi í júlí og átti pantað heim á laugardegi, en þar sem ég var kominn á suðurlandið og frétti að það var mjög gott veður í eyjum, þá ákvað ég að hringja og athuga með ferð kl 7 á föstudeginum og fékk það svar að það væri laust fyrir bílinn, en að fellihýsið færi á biðlista. Ég tók að sjálfsögðu sénsinn á þessu og fékk far fyrir mig og fellihýsið, en samferða fólk mitt, sem statt var í Reykjavík og þekkir ekki til, var ekki tilbúið að keyra alla þessa leið upp á að vera á biðlista. Það sem sló mig hins vegar mest er að þegar allir voru komnir umborð var bílaþilfarið aðeins hálft, sem þýðir að allt að 30 bílar hefðu komist í viðbót. Þegar ég spurði stýrimanninn út í þetta, þá svaraði hann því til að þetta væri orðin viðtekin venja hjá fullt af fólki sem virtist vera alveg sama þó það borgaði 2000 kr á dag, bara ef það ætti öruggt pláss alla daga. Herjólfur tapar að sjálfsögðu engu á þessu, en að sjálfsögðu tapa allir aðrir ferðaþjónustuaðilar í Vestmannaeyjum á þessu, erfitt mál að leysa en ég velti því upp að ef það er rétt sem mér er sagt, að það sé oft jafnvel sama fólkið að panta alla vikuna, er þá ekki kominn tími til að slíkir aðilar, sem telja sig ekkert muna um það að borga 2000 kr á dag fyrir fast pláss, borgi einfaldlega meira? Amk held ég að það verði að taka á þessu máli, heildin á að sjálfsögðu ekki að líða fyrir persónulega hagsmuni örfárra.

Aðeins um lundann að lokum. Veiðistofninn er mættur í milljóna tali, mætti fyrst 28. júlí og því kjörið tækifæri þessa dagana að gera sér ferð út í eitthvert fjall og sjá þetta með eigin augum. 


Það gott að búa í Eyjum, en........

Mig langar að byrja þessa grein á að þakka þeim feðgum Pálma og Óskari í Höfðanum, fyrir góð störf undanfarin ár og áratugi við að sjá um og þjónusta Stórhöfðavita, en oft hefur geisli Stórhöfðavitans yljað manni á köldum vetrarnóttum og á fyrst árum minnar útgerðar, notaði maður einmitt vitana mikið til að staðsetja sig og til að finna fiskimið.

Fór í sundlaugina í gær og lenti í heitum potti sem var fullur af túristum, bæði Íslenskum og erlendum og var svolítið gaman að því hvað fólki fannst aðstaðan okkar í sundlauginni, og útisvæðinu sérstaklega frábær og löngu orðið ljóst að þær vel heppnuðu breytingar sem ráðist var í fyrir nokkrum árum síðan, er enn ein skrautfjöðurinn í þjónustu okkar við ferðamenn, enda öll þjónusta þar og umgjörð til mikilla fyrirmynda, það er gott að búa í Eyjum, en.............

........ekki er allt sem sýnist. Ég fékk fréttir í gær sem gerðu mig algjörlega gapandi af undrun. Ég hef nokkuð oft gagnrýnt Siglingamálastofnun vegna útreikninga þeirra og vinnubragða vegna Landeyjahafnar og í sjálfu sér hafa þeir, eins og flestir nú orðið vita, viðurkennt ótrúlega miklar vitleysur í útreikningi þeirra varðandi höfnina. Nýjasta afrek Siglingamálastofnunnar birtist okkur í vikunni með tilkynningu frá þeim til aðstandenda Rib-Safari um að þeir gætu ekki fengið að hefja siglingar í maí og ekki að sigla í október heldur, nema að allir farþegar hjá þeim væru í neyðarbjörgunarbúningi. Ég hef nú sjálfur prófað að fara í neyðarbjörgunarbúning og veit ég vel að það er afar óþægilegt og á ekkert sameiginlegt með skemmtisiglingu. Ákvörðun Siglingamálastofnunnar í þessu máli, sem að mér skilst að byggist á því að ákveðið hafi verið að taka upp einhverja Norska reglugerð, er að mínu mati ótrúlega vitlaus. Það sem verra er, Rib-Safari fólk var búið að vinna allan apríl við að undirbúa bátana og áttu þegar, bara þessa fyrstu helgi í maí, liðlega 200 manns bókað í Rib-Safari ferð. Tjónið er því gríðarlegt vegna þessar ákvörðunar Siglingamálastofnunnar. 

Önnur hlið á þessu er svo sú að auðvitað þó margir ferðamenn komi sérstaklega til þess að fara í Rib-Safari ferð, þá að sjálfsögðu notfæra þeir sér ýmislegt annað sem er í boði bæði í mat og drykk og verslun og sýningar o.a. Heildartjón Eyjamanna er því augljóslega nokkrar tugi milljóna og ég ætla hér með að skora á Siglingamálastofnun að endurskoða sína ákvörðun, enda að mínu mati engin rök fyrir henni.

Langar líka að skora á stjórn ferðamála í Vestmannaeyjum og bæjarstjórn og þingmenn að beita sér í þessu máli, þetta alræðis vald sem Siglingamálastofnun virðist geta tekið sér í þessu máli sem og öðrum sambærilegum, ásamt öðrum sambærilegum stofnunum og ákvörðun þeirra í hinum ýmsu málum er fyrir löngu orðið eitt af stærstu vandamálum í Íslensku samfélagi. 


Gleðilegt sumar

Lundinn er að setjast upp í fjöllunum hér í Eyjum í kvöld 17. apríl, og þar með er komið sumar hjá mér, og stenst það þar með því sem ég spáði, en ég hef oftast séð fyrsta lundann fljúga upp í fjöllin á tímabilinu 13. - 17. apríl.

Reyndar fékk fyrsti lundinn í ár ekki góðar móttökur, en ég frétti af mönnum á svartfuglaskytteríi fyrir viku síðan sem einmitt fengu einn lunda og svolítið skrítið að hugsa til þess, að mönnum er algjörlega frjálst að skjóta lunda, sem í flestum tilvikum er fullorðinn fugl, en á móti er bannað að taka lunda í háf, sem í flestum tilvikum er ungfugl eða ókynþroska fugl. 

Nokkuð margir lundaveiðimenn hafa að venju farið að gera sér vonir um að í sumar verði leyfð einhver veiði, en ég er ekki svo bjartsýnn. Að mínu mati er ákvörðun umhverfis og skipulags ráðs um að banna lundaveiðar byggð á rökum meints vísindamanns og því augljóst að á meðan ekki koma mótrök, þá hlýtur bannið að halda áfram og skiptir þá engu máli, þó að veiðimenn sem fylgst hafa með lundastofninum hér í Eyjum í meira en hálfa öld, tali um að aldrei hafi sést jafn mikið af lunda í Eyjum.

Margir hafa komið að máli við mig vegna skýrslu Erps sem birtist á Eyjamiðlunum í janúar, þar sem kemur fram að samkv. útreikningum hans hafi lundaveiðar í Vestmannaeyjum verið ósjálfbærar síðan 1968. Flestir hafa nú bara hlegið að þessu, en ég hafði svona hálft í hvoru vonað að Erpur myndi senda frá sér leiðréttingar skýrslu, enda eru þessir útreikningar ótrúlega galnir, en ef þeir væri réttir, þá væri að sjálfsögðu enginn lundi lengur í Vestmannaeyjum.

En ég ætla að enda þetta með því að vitna í Simma á Viking Tours: "Lundastofninn í Vestmannaeyjum telur ca. 7 milljónir fugla.


Landeyjahöfn

Svolítið merkilegt að fylgjast með Landeyjahöfn og fjörunni í vestur frá henni þessa dagana, þegar vindurinn er að jafnaði um 40 m/sek á Stórhöfða og svipað í Landeyjahöfn, þá eru tveir litlir snurvoðabátar á veiðum inni í fjöru, aðeins 8 mílum vestar en Landeyjahöfn er, í fínu veðri og hægum vindi. Ég segi þetta því enn og aftur: Stærstu mistök við gerð Landeyjahafnar er staðsetningin, en höfnin hefði augljóslega átt að vera töluvert vestar, enda ríkjandi bræluátt í Vestmannaeyjum austanátt.

Núna þegar talað er um að setja upp sanddælubúnað í höfnina og hugsanlega einhverja varnargarða til að verja innsiglinguna og að færa Markarfljótið eitthvað austar, þá verð ég að viðurkenna alveg eins og er, staðsetning hafnarinnar gerir það að verkum að öll vandamál hafnarinnar eru komin til að vera um ókomin ár og mig langar að velta því upp svona einu sinni hvort það væri hreinlega ekki skynsamlegast, til lengri tíma litið, að annaðhvort færa höfnina töluvert vestar, eða hreinlega byggja aðra höfn í fjörunni þar sem alltaf myndast logn í austanáttum vegna staðsetningar Eyjafjalla. Vissulega mjög róttæk hugmynd og mjög dýr í framkvæmd, en ég hlýt að velta því upp, hvort að þetta væri ekki það skynsamlegasta ef litið er til lengri tíma. 

Varðandi útreikninga þessa danska straummælinga fyrirtækis, sem fékk það út að það myndi ekki borga sig að lengja garðana, þá ætla ég ekki að tjá mig um það sérstaklega, enda hef ég fyrst og fremst verið á þeirri skoðun, að það verði að gera einhvers konar varnargarð til að verja innsiglinguna fyrir brotsjóum. Ég minni hins vegar á það, að á sínum tíma var fengið erlent fyrirtæki til að gera áhættumat á siglingaleiðinni Vestmannaeyjar-Þorlákshöfn, Vestmannaeyjar-Landeyjahöfn, og var niðurstaðan sú að Þorlákshafnar leiðin væri 6 sinnu hættulegri en Landeyjahafnar leiðin, eða eins og ég útskýrði það: Hálftíma ferð x 1, þriggja tíma ferð x 6. Mér þykir hins vegar mjög líklegt að eftir reynsluna við Landeyjahöfn, sé þetta mat orðið ansi mikið breytt.

Í umræðunni að undanförnu hefur mikið verið talað um smíði á nýjum Herjólfi, og ég er ánægður með það að Eyjamennirnir sem hafa komið að málinu, virðast vera nokkuð samstíga um það að það þurfi bæði að huga að lagfæringum á höfninni, sem og að ný ferja verði þannig útbúin að hún geti siglt til Þorlákshafnar. Ég er einnig ánægður með það að bæjarstjórinn okkar hafi gert sér grein fyrir því, að veðmál hans um að Landeyjahöfn myndi opnast 8. mars væri tóm vitleysa og að hann sé núna farinn að tala um það, sem er skynsamlegast, þ.e.a.s. að vonandi opnist höfnin fyrir páska.

Menn læra svo lengi sem þeir lifa.

Smá áskorun að lokum:

Í ríkisstjórn er núna maðurinn sem tók þá ákvörðun á sínum tíma að stytta núverandi Herjólf með þeim hörmulegu afleiðingum, að skipið varð mun verra sjóskip en það átti að verða, ákvörðun sem kostað hefur margan Eyjamanninn og Íslendingin æluna í gegnum árin. Vonandi verður tekið tillit til sjónarmiða Eyjamanna í þetta skiptið. Það á ekki bara að horfa á peninga hliðina þegar kemur að því að smíða nýja ferju, heldur fyrst og fremst hvað hentar okkur Eyjamönnum best og þjónar okkur best, kæri vinur ekki gera sömu mistökin aftur.


Hin raunverulegu fórnarlömb fíkniefna

Mikil umræða hefur verið um ákvörðun Vinnslustöðvarinnar um að segja upp 11 sjómönnum sem reyndust hafa neytt fíkniefna samkvæmt rannsókn.

Ég er sammála ákvörðun VSV og að mestu leiti bæjarstjórans okkar, en er þó mest sáttur við viðbrögð Sjómannasambandsins um að bjóða sjómönnunum aðstoð við að losna úr fjötrum fíkniefna. Vonandi verður það til þess að þeir fái aftur boð frá VSV um að snúa aftur til vinnu sinnar og mig langar að skora á yfirmenn VSV að taka nú tillit til þess, ef þessir sjómenn nái að bæta ráð sitt því það sem mér finnst hafa vantað töluvert i umræðuna er það, hver eru hin raunverulegu fórnarlömb í málinu?

Öll þekkjum við fólk og fjölskyldur sem lent hafa undir í baráttunni við fíkniefna vandann. Sjálfur þekki ég þetta úr minni eigin fjölskyldu og þó svo að ég hafi aldrei prufað nein fíkniefni og þekki því ekki áhrif þeirra, þá er fíkniefna vandinn eitt það stærsta vandamáli á Íslandi í dag og bara frábært ef allir Eyjamenn leggjast á eitt að takast á þessu vandamáli. Hugur minn er þó fyrst og fremst hjá hinum raunverulegu fórnarlömbum í þessu máli þ.e.a.s. fjölskyldum þeirra og börnum, ekki bara það að missa fyrirvinnuna heldur hugsanlega að fá á sig einhverskonar stimpil sem erfitt er að losna við og því afar mikilvægt að þessum mönnum verði hjálpað með öllum tiltækum ráðum og ég ætla að skora á bæjaryfirvöld að passa sérstaklega upp á fjölskyldur þessara manna, þær eiga ekki að líða fyrir mistök þeirra.

Ég þekki nú lítið til þess hversu lítil eða mikil fíkniefnaneysla er hérna í Vestmannaeyjum, en mér er sagt að það sé töluvert.

Mig langar að enda þetta með smá áskorun á unga fólkið hér í bæ. Ég man eftir því þegar ég var ca. 16 ára gamall og sumir félagana voru farnir að fikta við að reykja hass (eða hvað sem þetta heitir) en fyrst í stað tókst mér á ýmsan hátt að koma mér undan því að taka þátt í þessu, en seinna meir þá tilkynnti ég einfaldlega mínum félögum og vinum að ég hefði einfaldlega tekið þá ákvörðun að prufa aldrei neitt, sem ég væri algjörlega handviss um að ég ætlaði mér ekki að nota í framtíðinni. Félagarnir tóku þessu bara vel og enn þann dag í dag fæ ég stundum að heyra þetta hjá sumum þeirra. Ákvörðunin um að neyta fíkniefna er eitthvað sem við verðum að taka ákvörðun um hver fyrir sig, það er hinsvegar ekkert mál að segja bara NEI. 


Vor í lofti og nýjustu kjaftasögurnar

Það er farið að birta að degi og ég tók eftir því í gær að það var bjart alveg fram undir 6 um kvöldið. Einnig hef ég tekið eftir því að undanförnu á sjónum, að í þessu hlýindaskeiði að svartfuglinn er mættur á hafið við Eyjar, svo vorið er ekki svo langt undan.

Smá ábending fyrst til bæjarstarfsmanna eða bæjarstjórnar: Nú hefur sá ágæti siður verið tekinn upp síðustu ár að bæjarbúar láta jólaljósin loga fram á afmælisdag eldgossins og bara gaman að því, en mér finnst orðið svolítið dapurlegt að horfa á t.d. Kirkjuveginn, þar sem mér sýnist að þessi ágætu ljós sem sett eru af bænum á ljósastaurana, það logi ekki nema ca. annað hvert ljós. Mér finnst jólaljósin mjög falleg, en mér finnst ekkert ljótara heldur en biluð ljós og lítill sómi af þeim.

Ég tók eftir grein í síðustu viku eftir "stórvin" minn Erp, meintan lundasérfræðing, þar sem hann segir m.a. að lundaveiðar í Vestmannaeyjum hafi ekki verið sjálfbærar síðustu áratugi. Mér finnst alltaf jafn ótrúlegt að hugsa til þess, að það sé virkilega til fólk sem trúir því sem þessi maður lætur frá sér, en nóg um það.

Ég hef fengið á mig nokkrar spurningar að undanförnu varðandi það hvar ég ætli að staðsetja mig í pólitíkinni, eða hvar ég verði í flokki í vor. Til að svara þessu, þá er þetta nokkurn veginn þannig að ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á pólitík sem slíkri, heldur hef ég fyrst og fremst verið að skipta mér af vegna þeirrar hugsjónar minnar, að það verði að breyta þessu skelfilega kvótakerfi. Skoðanir mínar þar hafa þróast áfram og í dag er ég orðinn mun harðari á einföldum og skýrum lausnum og ekki tilbúinn að taka þátt í eða hlusta á, einhver óljós og oft á tíðum innihaldslaus loforð. Það er voðalega einfalt að segjast vilja breyta hlutunum, það er hins vegar miklu, miklu erfiðara að segja hvernig. Þess vegna m.a. er ég hættur bæði í Dögun og FF og þegar ég lít yfir önnur framboð, þá er þetta nokkuð skýrt:

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur vilja óbreytt kvótakerfi, Samfylking og Vinstri grænir líka, en þó með þeim breytingum að þjóðin, eða ríkið, fái stærri hlut af arðinum. Ég skoðaði í gær mér til gamans stefnu þessa nýjasta framboð sem er að mælast ágætlega í skoðanakönnunum, eða Björt framtíð, en BF er með nánast nákvæmlega  sömu stefnu og Samfylkingin, þannig að því miður er enginn flokkur í dag með stefnu sem getur komið í veg fyrir að aflaheimildir flytjist landshluta á milli eftir fjármagni, en vonandi mun einhver flokkur koma fram fyrir vorið með skýrar lausnir í sjávarútvegsmálum, en ef kosið væri á morgun þá myndi ég sennilegast skila auðu. 

Að lokum smá úr sjávarútvegnum, svona nýjustu kjaftasögurnar úr Eyjum: Það virðist vera á allra vitorði, alla vega sem ég hef hitt, að í fyrsta lagi þá muni útgerð Magnúsar Kristinssonar ekki fara frá Eyjum fyrr en eftir kosningar og þar hafi Sjálfstæðisflokkurinn kippt í spotta, enda ekki gott fyrir þá að 200 störf í Eyjum tapist rétt fyrir kosningar. Hin sagan gengur út á það, að Samherji sé hugsanlega að kaupa út hlut Guðmundar í Brim í Vinnslustöðinni og ætli sér þar enn stærri hlut í framtíðinni, sem geta nú varla talist góðar fréttir fyrir Eyjamenn, en það eru ýmsar blikur í sjávarútveginum í dag og algjörlega óljóst hvernig þetta fer allt saman, svo ég ætla að enda þetta eins og svo oft áður með þessum orðum:
Eina leiðin til að losna við allt sem heitir brottkast, svindl framhjá vigt, kvótaleigubrask og veðsetning, með öllum þeim hörmungum sem við Eyjamenn höfuð verið vitni að frá hruni, er veiðidaga kerfi. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband