28.12.2012 | 22:49
Áramót og úrsögn
Merkilegt ár að baki hjá mér að mörgu leiti, en í minningunni hjá mér mun 2012 vera t.d. fyrsta árið í 35 ár, sem ég veiði engan lunda. Var reyndar boðið að fara norður í land, en með svo stuttum fyrirvara að ég sleppti því. Það kom mér hins vegar ekki á óvart hversu mikið var af fugli við Eyjar í sumar.
Annað merkilegt er að í nóvember s.l. voru nákvæmlega 25 ár síðan ég keypti minn fyrsta bát, en árið hjá mér er sennilega það besta fiskilega séð frá upphafi. Horfur fyrir næsta ár eru hins vegar ekki mjög bjartar, enda mikið um verðlækkanir á afurðum og kvótaleigan er alltaf jafn erfið, en þetta mjatlast.
Það er komið að tímamótum hjá mér í pólitíkinni, en frá síðustu kosningum hef ég nokkrum sinnum farið fram á að sjávarútvegsstefna Frjálslynda Flokksins væri endurskoðuð, enda var henni breytt án þess að ég vissi af því rétt fyrir síðustu kosningar, breytingar sem ég er afar ósáttur við, en nánar um það síðar. Ég var mjög efins um að ganga til samstarfs við þau pólitísku öfl sem í dag eru kölluð Dögun, en tók samt þátt í stofnun flokksins s.l. vor í von um að hafa þau áhrif á sjávarútvegsstefnu flokksins að framboðið væri raunverulegur valmöguleiki fyrir sjómenn í komandi kosningum, niðurstaðan varð hins vegar ekki eins og ég hafði óskað mér og sagði ég mig úr Dögun fyrir jól og óska fyrrverandi félögum mínum alls hins best og þakka fyrir ágætt samstarf.
Vandamálið hjá mér er hins vegar það: Hvað á ég að gera í sambandi við Frjálslynda flokkinn? Það er nokkuð ljóst að FF mun ekki bjóða fram sér í vor, heldur mun stjórn flokksins að öllum líkindum starfa að öllu eða einhverju leiti innan Dögunar, þrátt fyrir að sjávarútvegsstefnan sé jafn galin og hún er og í raun og veru finnst mér ótrúlega margt líkt með stefnu Dögunar í þessum málaflokk, og stefnu núverandi ríkisstjórnarflokka, sem fyrir síðustu kosningar lofuðu því að breyta kvótakerfinu, loforð sem að eins og svo mörg önnur, hafa farið í vaskinn hjá þeim. Það sem ergir mig hvað mest með FF er að ég hef ítrekað gert athugasemd við eitt atriði í stefnu flokksins sem kemur fram á heimasíðu flokksins, xf.is, en hún er svona nokkurn veginn:
Við ætlum að breyta kvótakerfinu með því að (innkalla allar aflaheimildir). Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir frá mér síðust ár, þá hefur því ekki verið breytt. Ég hef rætt þessi mál, bæði varðandi Dögun og FF, ítrekað við stuðningsmenn mína í Vestmannaeyjum og er niðurstaða okkar þessi:
Ég segi mig hér með úr Frjálslynda flokknum.
Ég vil hins vegar taka það skýrt fram, að ég útiloka alls ekki að ef annar hvor eða báðir flokkar taka upp stefnu í sjávarútvegsmálum, sem ég tel að geti tryggt það að sjávarútvegsbyggðir, eins og Vestmannaeyjar, geti lifað áfram án þess að eiga það stöðugt í hættu að aflaheimildir séu seldar í burtu, með þeim hörmulegu afleiðingum sem við erum að verða vitni að hér í Vestmannaeyjum nýlega, og hafa verið að gerast allt í kringum landið, þá mun ég að sjálfsögðu taka þátt í því, en í bili þakka ég félögum mínum í FF fyrir ánægjulegt samstarf og oft erfitt, en alltaf gaman. Sérstaklega langar mig að þakka þeim Eyjamönnum sem gengið hafa til liðs við FF undanfarin ár, bæði til þess að styðja við mig og stefnu FF, en það hefur verið mér gríðarlega mikilvægt að finna fyrir stuðningi hér í minni heimabyggð, nægir eru víst andstæðingarnir.
Baráttan gegn kvótakerfinu líkur aldrei eða amk. aldrei á meðan við búum við þetta svokallaða frjálsa framsal með öllu því rugli sem því fylgir, það er þó ágætt að umborð hjá mér er þó amk. hreinn meirihluti gegn kvótakerfinu, enda alltaf starfað einn á bát.
Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs og takk fyrir það gamla.
24.11.2012 | 16:32
Landeyjahöfn
Ekki góðar fréttir að Herjólfur hafi hugsanlega tekið utan í, en sem betur fer virðist það ekki hafa verið mikið og engin slys á fólki.
Fyrst það jákvæða:
Tíðin hefur verið með afbrigðum góð í allt sumar og haust, eða eins og einn eldri Eyjamaður sagði við mig um daginn, besta tíð í Eyjum síðan 1939. Ekki man ég alveg svo langt, enda ekki fæddur þá, en þetta er vissulega búið að vera mjög gott. Landeyjahöfn því opin, sem er bara frábært og nýtt met slegið daglega í fjölda ferðamanna til Eyja, sem er að sjálfsögðu fagnaðefni fyrir okkur öll. Mér finnst líka að þjónustan hafi batnað verulega og er ánægður með það hvernig öll yfirstjórn samgöngumála okkar hefur stór batnað á þessu ári. Sjálfur hef ég oft bölvað því að þurfa að keyra lengri leið, en eftir því sem maður fer þetta oftar þá venst það. Allt saman bara jákvætt og gott og vonandi verður tíðin bara þokkaleg áfram, en ferðasumarið í Eyjum var frábært, en mig langar sérstaklega að taka fram hlut þeirra Rib safari manna, sem ég held að hafi haft mjög mikil og góð áhrif á ferðaþjónustuna í Eyjum, enda hafa þeir auglýst vel og rækilega um allt land og að sjálfsögðu þurfa allir sem koma til Eyja, hvort sem er til að fara með Rib safari eða PH Viking að nota aðra þjónustu.
Kaupmenn í Vestmannaeyjum ráku upp smá kvein í haust um að fólk væri farið að versla mun meira á höfuðborgarsvæðinu vegna þessarar góðu tíðar, en að sjálfsögðu er þetta einn af fylgihlutunum sem koma með Landeyjahöfn, ég held hins vegar að fólk gleymi stundum því að þó að úrvalið sé oft betra á höfuðborgarsvæðinu og í sumum tilvikum, hægt að finna hagstæðara verð, þá er það ekki alltaf og ég held að kaupmenn í Eyjum reyni nú að vera samkeppnishæfir og að sjálfsögðu kostar töluverða fjármuni að fara fram og tilbaka. Mín reynsla af kaupmönnum hér er sú, að ef mig vantar eitthvað sem ekki er til, þá er því einfaldlega flett upp í tölvunni og pantað samdægurs. Persónuleg og góð þjónusta það.
Það neikvæðasta er sennilega í nýjustu Fréttum, þar sem Siglingamálastofnun kemur enn einu sinni með fullyrðingar um að með nýrri ferju og endurbótum verði hún heilsárshöfn, en hafa verður í huga að útreykningar Siglingamálastofnunnar hafa hingað til að mestu leyti reynst rangar. Staðan er einfaldlega þannig, eins og kemur fram í ágætu viðtali við einn af skipstjórum Herjólfs frá því í haust, að fjaran er sífellt að færa sig suður meðfram hafnargörðunum og því augljóst að þegar vindáttir fara að verða suðlægar og austlægar mun sandburðurinn aukast enn frekar, en vonandi fara menn nú að koma með einhverjar lausnir á því.
Ég heyrði af því s.l. sumar að stjórnvöld væru búin að ákveða að setja 2 milljarða í Landeyjahöfn á þessu ári og annað eins á því næsta, nú er mér hins vegar sagt að þetta séu samtals 4 milljarðar og sé fyrst og fremst sú upphæð sem á að fara í að smíða nýja ferju og það ferju sem á fyrst og fremst að sigla í Landeyjahöfn og að í framtíðinni sé stefnt á að hætta öllum siglingum til Þorlákshafnar, svo ég ætla að segja þetta enn einu sinni:
Ég hef ekki trú á því að Landeyjahöfn geti orðið heilsárshöfn, hugsanlega 90% höfn og vonandi meira, en miðað við reynslu mína sem sjómaður sem stundað hef sjómennsku í kringum Eyjar í þessum mánuði í nkl. 25 ár, þá verður alltaf í hörðustu vetrarveðrunum ófært í Landeyjahöfn. Ef það væri hægt að minnka þessar frátafir niður í 4-6 vikur á ári og gera höfnina þannig að 90% höfn, þá væri það einfaldlega frábært. Hvort að það sé hinsvegar nóg fyrir okkur Eyjamenn er svo aftur stór spurning. Ný ferja verður að geta farið til Þorlákshafnar yfir hörðustu vetrar mánuðina .
30.9.2012 | 11:32
Kvótakerfið
Það er svolítið furðulegt að sjá viðbrögð sumra Eyjamanna við sölu útgerðar Magnúsar Kristinssonar til Samherja og það sérstaklega sjálfstæðismanna, sem sumir hverjir reyna að tengja söluna við skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á sjávarútveginum, en svona fyrir þá sem ekki vita, þá var þetta einu sinni útskýrt fyrir mér svona:
Sumir helstu sérfræðingar okkar sem útskýrt hafa hrun fjármálakerfisins hafa talað um frjálsa framsalið sem upphafið. Þetta er ekki að öllu leyti rétt, en þó í tilviki Magnúsar, því á sínum tíma seldi Magnús (eftir því sem mér er sagt) ca. 1200 tonn fyrir ca. 17-1800 milljónir og setti hverja einustu krónu í Straum. Þannig að í tilviki Magnúsar þá byrjaði þetta með frjálsa framsalinu sem er lykillinn í núverandi kvótakerfi og með þeim afleiðingum að nú er búið að afskrifa (eftir því sem mér er sagt) tæplega 70 milljarða vegna útrásar Magnúsar.
Annað sem vakti athygli mína er að Eyjamenn séu eitthvað hissa á því, að aflaheimildir geti farið frá Eyjum, en þetta hefur verið að gerast undafarin ár, en bara í minni skömmtum hingað til. Nú, hins vegar, er komið að því að við Eyjamenn fáum virkilega að finna fyrir því, hvernig frjálsa framsalið virkar, og þessu til viðbótar: Ég frétti það í vikunni að önnur öflug útgerð hér í Eyjum sé með bát sinn og allar aflaheimildir á sölu og spurning hvernig það fer, en höggið vegna sölu Magnúsar er gríðarlegt áfall fyrir alla Eyjamenn, en svona virkar frjálsa framsalið.
Við Eyjamenn vorum á besta stað þegar þetta kvótakerfi var sett á 84 með marga öfluga útgerðarmenn á besta aldri, en nú eru þetta allt orðnir fullornir menn, sem sumir hverjir vilja fara að hætta, en það er ekkert auðvelt þegar skuldirnar eru miklar og erfingjarnir margir, en það sorglega við þetta allt saman er, að þetta mun fyrst og fremst bitna á sjómönnunum, fiskverkafólkinu og bæjarfélaginu í heild sinni.
Viðbrögð þingmanna eru sorglega máttlaus, enda enginn vilji þar til þess að taka á þessu vandamáli sem frjálsa framsalið er, en það er mín skoðun að á meðan við úthlutum aflaheimildum í kílóum og tonnum sem hægt er að veðsetja eða spila með, þá verður þetta alltaf til vandræða, nær væri að taka frændur okkar Færeyinga til fyrirmyndar og úthluta veiðidögum, en það er mín skoðun að þannig og aðeins þannig væri hægt að leysa flest öll þau vandamál sem frjálsa framsalið er.
Ég tók þátt í stofnun Dögunnar s.l. vor ásamt flestum félögum mínum úr FF, fyrir nokkru síðan fékk ég í hendurnar fyrstu hugmyndir stjórnar Dögunnar um stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum, tilkynnti ég þá þegar stjórn flokksins að ef þetta yrði stefnan fyrir næstu kosningar, þá myndi ég þegar segja mig úr flokknum, sem hefur orðið til þess að eitthvað er verið að reyna að laga þetta til, en það mun skýrast á næstu vikum. Varðandi framboðsmál í vor, þá sé ég ekki fyrir mér í dag að ég verði í framboði, en ég hef einnig tilkynnt vini mínum Grétari Mar það að ég muni ekki styðja hann til að leiða framboð í suður kjördæmi, enda fór hann allt of frjálslega með stefnu FF í sjávarútvegsmálum um síðustu kosningar.
Það þarf að breyta þessu skelfilega kvótakerfi, en það er ekki sama hvernig. Útgerðin er lífæð okkar Eyjamanna og þess vegna verða allar breytingar að vera afar vel úthugsaðar, óvissan hefur aldrei verið meiri nú þegar amk. 200 ársverk hafa tapast. Ég ætla því að skora enn og aftur á útgerðarmenn í Eyjum að fara að koma í alvöru að því að breyta þessu skelfilega kerfi.
15.9.2012 | 22:25
Lundasumarið 2012 seinni hluti
Í gær var liðinn nákvæmlega mánuður síðan allur lundi úr eyjunum norðan við landið var farinn, á meðan enn er einn og einn að bera síli hér í Vestmanneyjum og því ljóst, að lundinn í Eyjum er búinn að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Þegar þessari helgi lýkur má reikna með að það verði komnar ca. 2000 bæjarpysjur, sem er mun betra en 2007 og því ljóst að við erum að fá gríðarlega sterkan árgang í ár og annan sterkan árganginn á síðustu 6 árum, hin 4 árin var þetta bæði lítið og lélegt, en þó samt alltaf eitthvað, eftir því sem kemur fram hjá Sædýrasafninu.
Í fyrri grein minni ákvað ég að breyta útreikningum mínum á bæjarpysjunni úr 0,5 í 0,1% af heildar pysjufjöldanum, en í raun og veru er nánast vonlaust að reikna þetta nákvæmlega út, en ef við tökum báðar tölurnar, miðað við 2000 pysjur, þá stefnir þetta í að vera amk. liðlega hálf milljón í það að vera á aðra milljón pysjur, sem er bara frábært.
Þó nokkrir veiðimenn telja að núverandi veiðibann snúist um umsóknarferlið um ingöngu í ESB og þá fjármuni sem eru í boði þar, en það kemur þá bara í ljós en ég er svolítið efins um að meirihluti bæjarstjórnarinnar í Eyjum styðji það á þeim forsendum .
Veiðimenn eru þegar farnir að tala um að nú verði leyfðar veiðar næsta sumar, ég hef ekki trú á því. Ef horft er á þá breytingu sem hefur orðið hjá lundanum, þá er nokkuð ljóst að ef einhverjar veiðar yrðu leyfðar, þá er það mitt mat að ekki sé óhætt að byrja veiðar fyrr en í fyrsta lagi í lok júlí, eða jafnvel ekki fyrr en í byrjun ágúst.
Ég hef töluvert verið spurður út í skoðanir mínar á Umhverfis- og skipulagsráði og ákvörðun hennar um lundaveiðibann, en þarf nú kannski ekki að bæta mikið þar við frá fyrri grein, en það þarf að sjálfsögðu að hafa það í huga, að ráðið byggir ákvörðun sína að mestu leyti á því sem kemur frá Náttúrufræði stofnun suðurlands, en sú stofnun er með það á sinni stefnuskrá að það eigi að banna allar lundaveiðar í Vestmannaeyjum. Helsti rannskóknaraðili þar er Erpur, sem lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali s.l. haust, að það væri hans persónulega skoðun að það ætti að banna allar lundaveiðar í Íslandi. Í norðureyjunum, norðan við landið, er einfaldlega hlegið að þessu hjá Erpi, en hér í Eyjum eru greinilega skiptar skoðanir.
Varðandi stöðu lundastofnsins í Vestmannaeyjum, þá finnst mér full ástæða til þess að taka mark á mönnum eins og Sigurgeiri í Álsey, sem lýsti því yfir í morgunblaðs viðtali í lok júlí, að hann hefði aldrei nokkurn tímann séð jafn mikinn lunda í Álsey áður, en Sigurgeir er búinn að vera þar meira og minna síðustu 70 árin.
Lundastofninn í Vestmannaeyjum er í sögulegu hámarki og hefur sennilega ekki verið stærri en síðan 1914, en árið 1890 var ákveðið að banna allar lundaveiðar í 10 ár, en það stóð í 24 ár. Hversu langt lundaveiðibannið verður núna, er því að mínu mati ómögulegt að segja til um. Veiðimenn hafa nefnt við mig að undanförnu þann möguleika, að veiðimenn tækju sig saman um að ákveða sjálfir veiðidaga eða jafnvel heildarveiði næsta sumar, ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um það, en við sjáum til. Allir erum amk. sammála um það að það er óhætt að leyfa mönnum að ná sér í soðið. Reyndar mátti byrja að skjóta lunda frá og með 1. sept. en það er nú ekki þekkt hér í Eyjum að skjóta lunda, en svolítið merkilegt að það skuli ekki hafa verið bannað.
2.9.2012 | 14:50
Lundasumarið 2012
Mig langar að byrja á því að skora á Eyjamenn alla að beita sér fyrir því að allar pysjur sem finnast verði viktaðar og skráðar á sædýrasafninu, en mér er sagt að svo sé alls ekki og hef ég fengið nokkur dæmi um það og að ástæðan sé fyrst og fremst hugsunarleysi og leti, en að einhverju leyti líka mótmæli veiðimanna við vinnubrögðum Náttúrufræðistofu suðurlands og vinnubrögðum Umhverfis og skipulagsráðs Vestmannaeyja. Afskaplega dapurt ef svo er, því það er að mínu mati gríðarlega mikilvægur liður í því að fylgjast með stofninum og í raun og veru það eina sem við höfum í dag sem eitthvað vit er í.
Fjölmargir veiðimenn höfðu samband við mig í sumar og höfðu miklar væntingar um það að það yrðu leyfðir einhverjir veiðidagar. Ég var ekki með slíkar væntingar, enda kannast ég við persónulegar skoðanir sumra sem sitja í Umhverfisráði og veit það, að sumir þar telja það beina og óbeina hagsmuni sína og Eyjamanna að standa gegn öllum lundaveiðum. Mér finnst það fyrst og fremst sorglegt að lundaveiðimenn séu algjörlega hundsaðir og í raun og veru má segja sem svo að sumir veiðimenn hafi nú þegar brugðist við því. Ég heyrði af því strax í fyrra að þegar allt fylltist hér af lunda í ágúst að einhverjir veiðimenn hefðu farið og náð sér í soðið og eftir að hafa spurst fyrir núna í sumar þá hef ég fengið það svona nokkurn veginn staðfest og ekki ólíklegt að nokkur hundruð lundar hafi verið veiddir í Vestmannaeyjum í sumar. Reyndar hafði ég nú ekki spurst lengi fyrir um, þegar ég fékk þá sögu í bakið að ég hefði veitt lunda í sumar, en svo er ekki og í raun og veru, eins og ég hef sagt áður, að þó að einhverjir dagar hefðu verið leyfðir, þá er ég ekkert viss um að ég hefði farið í lunda í sumar, enda borða ég mjög lítið af lunda og hef aðallega stundað veiðar undanfarna áratugi handa öðrum.
Ákvörðun Umhverfis og skipulagsráðs var röng á síðasta ári og hún var það líka núna í sumar, eða eins og ég hef sagt áður, það er jafn heimskulegt að leyfa frjálsar veiðar og að banna allar veiðar. Ég skil vel veiðimenn sem eru ósáttir og fara gegn ákvörðun ráðsins með þvi að ná sér í soðið, en það mikilvægasta, að mínu mati, við það er hvað það hefði verið gott að fá þessa hami til aldursgreiningar og geta þannig fylgst með því hvernig stofninn þróast, því eins og það hefur komið fram hjá mér áður, þá er ekki hægt að fylgjast með því hvernig stofninn þróast með því að fara eingöngu í holur.
Einnig hef ég heyrt um nokkra sem hafa háfað og sleppt, en þeir eru allir sammála um að hér sé gríðarlegt magn af ungfugli á ferðinni.
Varðandi síðustu fréttatilkynningar frá Erpi, þá eru þær í raun og veru jafn heimskulegar og allt annað sem frá honum hefur komið, en svona til útskýringar: Yfirlýsing hans um að hér megin vænta þess að við fáum allt að 200 þús pysjur, er að mínu mati algjörlega skot út í bláinn, en þess má þó geta að Erpur sagði frá því að 2007 hefði nýliðunin verið 76 þús pysjur, á sama tíma og ca. 2000 þysjur voru vigtaðar á Sædýrasafninu. Samkvæmt því ættu því um 5000 pysjur að skila sér þangað núna sem bæjarpysjur. Mínir útreikningar hinsvegar frá 2007 gengu út á það að bæjarpysjan væri 0,5% og því nýliðunin 2007 allt að 400 þús. pysjur og miðað við magn af unglunda síðustu árin, þá tel ég að ég sé mun nærri lagi en Erpur. Ég hef hins vegar ákveðið að breyta mínum útreikningum frá og með þessu ári, enda augljóst að eftir því sem umferðarþungi eykst upp og niður Heimaklettinn, þá hefur lundanum fækkað á því svæði og ætla ég hér með að reykna bæjarpysjuna sem 0,1%, sem þýðir að ein bæjarpysja sé samkvæmt því 1000 pysjur sem komast á legg í Vestmannaeyjum. Erpur segir líka í sinni grein að lundinn verði 15-20 ára gamall, en það eru mörg dæmi til um það að allt að 40 ára gamlir lundar hafi veiðst.
Eitt af því sem vakti mesta athygli mína í sumar er samtal við Simma á PH Víking. Simmi hefur fylgst með lundanum, eins og við hin, áratugum saman og þó svo að hann hafi atvinnu sína af því að sýna ferðamönnum lundann, þá er hann á móti þeim öfgum sem koma fram í ákvörðun Umhverfisráðs. Simmi hefur fylgst með hitastig sjávar við Eyjarnar árum saman og hann tók eftir því strax í vor, að eftir að hafa verið með sjóhita í 13-15 gráðum síðustu 4-5 árin, þá var hitastigið við Eyjar í sumar aðeins 10-11 gráður og vill hann meina það að það hafi hvað mest um það að segja að hér stefni í að verða meiri af pysjum en síðustu 4 árin.
Hann kom líka inn á fækkun lundans vegna umferðar upp og niður Heimaklettinn, en einnig kom hann aðeins inn á þá útreikninga Erps, að eðlilegt varp hlutfall væri ca. 60% á hverju ári. Þetta finnst honum óvenju heimskulegt vegna þess, að ef hér væri alltaf 60% hlutfall, þá væri lundastofninn í Vestmannaeyjum ekki ca. 6 milljónir heldur sennilega nær 60 milljónum, og því augljóslega löngu búinn að éta upp allt það æti sem væri í boði í hafinu í kringum Eyjar.
Greinin er orðin allt of löng, en ég ætla að enda hana með þessu: Ég ætla hér með að skora á Umhverfis og skipulagsráð að fara nú að ræða í alvöru við veiðimenn og menn eins og Simma. Ég veit það að Álseyingar voru spurðir í fyrra og að þeir sögðust styðja veiðibann, en þeir hafa hins vegar viðurkennt fyrir mér að það hafi verið röng ákvörðun.
Lundastofninn í Vestmanneyjum er amk. 6-8 milljónir og ég hef þá trú, að hann verði það líka löngu eftir minn dag þó að einhverjar veiðar yrðu leyfðar.
29.5.2012 | 21:45
Hetjur hafsins...............
.....................halda upp á sjómannadaginn um næstu helgi, en mig langar að tileinka sjómannadaginn að þessu sinni konum sjómanna, en mér finnst stundum vanta töluvert upp á að mikilvægi konunnar í lífi sjómannsins séu gerð góð skil, enda er það í flestum tilvikum í hlutverki konunnar að hugsa um allt sem viðkemur heimilinu, börnunum, fjármálunum og svo framvegis.
En svona í tilefni sjómannadagsins, lítil saga sem aldrei hefur verið sögð:
Í nóvember 1994 var ég staddur á bát mínum út við Urðavita að draga lítið síldarnet sem ég hafði lagt þar til þess að ná mér í beitu, en á meðan ég var að draga það, þá kulaði aðeins að norðan og var ég svo óheppinn að fá netið í skrúfuna, en mér til happs þá voru þeir á Létti einmitt á ferðinni þarna um sama leiti, en ég gaf þeim merki og þeir komu og drógu mig inn að smábátabryggju, þar sem trébryggjurnar eru. Hringdi ég þá í konuna, Matthildi, sem kom niður á bryggju ásamt dóttur okkar, Margréti nýorðin fjögurra ára. Fékk ég konuna til að halda í spottann á bátnum, en ég hafði fest hníf á spýtu og var að reyna að skera úr skrúfunni á bátnum, en Margrét stóð álengdar og fylgdist með. Eftir nokkra stund bað ég konuna um að strekkja vel á bandinu þannig að hún tók skref aftur á bak, en við höfðum ekki tekið eftir því að þar sem það var farið að skyggja og hálf kalt, þá hafði Margrét laumað sér upp að móður sinni til þess að fá skjól, en bakkaði um leið og móður hennar og féll við það í höfnina. Ekkert hljóð heirðist annað en lítið skvamp, og þegar ég leit við blasti við Margrét litla í höfninni að sökkva og móðir hennar, sem án þess að hika kastaði sér eftir henni, greip utanum barnið og hélt þeim á floti með því að synda með löppunum. Ég greip þegar til og ætlaði að taka barnið, en sjokkið og áfallið var svo mikið að konan neitaði í fyrstu að sleppa og varð ég að tala við hana í smá stund áður en hún fékkst til að sleppa barninu og rétta mér hana. Það eru engir stigar við gömlu trébryggjurnar og lentum við í raun og veru í smá vandræðum að koma konunni upp á bryggjuna, en það hafðist. Við flýttum okkur strax heim og þar sem þetta var svolítið neyðarlegt slys hjá okkur, þá ákváðum við að segja ekki frá þessu þá, en þar sem Margrét okkar er nú orðin ung og falleg kona og farin að búa, fannst mér rétt að segja frá þessu.
Svo að á sama tíma og ég óska sjómönnum til hamingju með daginn, þá langar mig að óska konum sjómanna sérstaklega til hamingju með sjómannadaginn, því hvar værum við án þeirra, enda eru þær svo sannarlega hetjur hafsins þegar á reynir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2012 | 09:09
Gleðilegt sumar!
Lundinn settist upp á sumardaginn fyrsta í Heimakletti, þannig að hann var óvenju jákvæmur í ár. Í gærkvöldi var síðan gríðarlegt lundaflug í öllum fjöllum og ljóst að lundinn er mættur í milljónatali að venju.
Varðandi lunda sumarið þá reikna ég frekar með því að umhverfisráðherra verði búinn að banna allar veiðar áður en veiðitíminn hefst og í samræmi við ákvörðun hennar við að stytta veiðitímabil svartfugls, án þess að ræða við nokkurn mann. Það sorglega við þetta allt saman er, að allt er þetta byggt á útreikningum Erps, sem hefur sagt að hann viti nákvæmlega um fjölda lunda á Íslandi, fjölda lundahola og nýtingu á holunum síðusta sumar. Þetta veit hann allt með því að hafa skoðað í 0,0013% af öllum lundaholum á Íslandi, en ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það séu 0,0013% líkur á því að þetta sé rétt. Varðandi vinnubrögð hans síðasta sumar, þar sem hann reyndi að draga nafn Eyjamanna niður í svaðið með kjaftasögum norðuri í landi, þá hefur hann enn ekki beðist afsökunar, sem gerir það aftur að verkum að trúverðugleiki Náttúrufræðistofu Suðurlands er engin. Ef hins vegar umhverfisráðherra grípur ekki inn í þá segi ég það enn og aftur, að frjálsar veiðar væru jafn heimskulegar og bann við öllum veiðum, en að leyfa veiðar nokkra daga, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að í ágúst s.l. reyndist 70% lundans sem háfaður var í tilraunaskyni, vera ungfugl.
Landeyjahöfn er aftur komin í gagnið og það mánuði fyrr en í fyrra, sem er bara ánægjulegt. Enn er þó ekkert að sjá í spilunum um að það eigi að laga höfnina þ.e.a.s. ef það er hægt, annað en að smíða skip sem sérstaklega er hannað fyrir höfnina, en að mínu mati er það langur vegur frá því að leysa vandamál hafnarinnar. Við munum áfram þurfa að treysta á Þorlákshöfn yfir vetrarmánuðina og ítreka það enn og aftur, það er svona hálf galið að ætla að smíða skip sem ekki getur siglt til Þorlákshafnar yfir vetrarmánuðina.
Heitasta umræðuefnið þessa dagana er sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Aðallega er fjallað um skatta frumvarpið, sem hefur lítil eða engin áhrif á mína útgerð, hins vegar en enn gert ráð fyrir því að bannað verði að flytja aflaheimildir á milli kerfa, sem þýðir einfaldlega það að mín útgerð, ásamt sennilega a.m.k. 100 sambærilegum útgerðum, mun ekki lifa þessar breytingar af, en í mínu tilviki þá hef ég verið að veiða ca. 150 tonn á ári en þar af koma tæp 100 tonn úr aflamarkskerfinu, sem verður bannað með frumvarpinu. Nær hefði verið að taka tegundir eins og keilu og löngu úr kvóta, enda vita það allir sem vilja vita að kvótasetningin á þeim tegundum var fyrst og fremst ákveðin vegna óska eins fyrirtækis, sem hafði undirbúið sig fyrir þá kvótasetningu á viðmiðunar árunum með stórfelldu svindli og fékk í sinn hlut um helminginn af kvóta Íslendinga í þessum tegundum, en á viðmiðunarárunum komu skip þessa fyrirtækis aldrei til Vestmannaeyja, en sendir nú reglulega skip sin til þess að ryksuga upp þessar tegundir kringum eyjar. Þeir ná því reyndar aldrei vegna þess hversu magnið er mikið og sem dæmi um þetta, þá voru tvö skip frá fyrirtækinu sunnan og austan við Eyjar í gær. Engir aðrir geta legið í veiðum á þessum tegundum, enda á þetta fyrirtæki í dag og stjórnar algjörlega, veiðum og vinnslum á þessum tegundum og eiga í raun og veru miðin líka.
Þeir flokkar sem stóðu að þessari kvótasetningu fyrir 12 árum síðan eiga mikla skömm skilið fyrir, en þeir sem hins vegar stjórna núna og taka ekki á þessu, bera að sjálfsögðu jafn mikla ábyrgð.
Meira seinna.
26.2.2012 | 20:23
Af fréttum og ekki fréttum og kannski smá jákvæðni, eða þannig
Margt fréttnæmt í síðustu viku, þó ekki hafi allt sem ég frétti ratað í fréttir, allavega ekki eftir því sem ég veit best.
Vikan byrjaði á því að vinnubílnum mínum var stolið aðfaranótt mánudagsins síðasta, sem rataði í fréttir, en það sem rataði ekki í fréttir er að þegar ég hringdi hálf fimm um nóttina í lögregluna, var mér sagt af þeim sem svaraði í símann:"Ég læt strákana vita þegar þeir mega mæta í vinnu í fyrramálið." Nánari útskýringu á þessu fékk ég seinna um daginn, en mér skilst að ríkið sé búið að skera svo mikið niður fjárveitingar til lögreglunnar, að þar hafi verið lagðar niður næturvaktir á virkum dögum og það á sama tíma og hér er unnið allan sólarhringinn við loðnufrystingu og löndun. Mjög undarlegt allt saman, en að mínu mati ætti það að vera lágmarks krafa okkar að a.m.k. 2 lögreglumenn væru á vakt á næturnar þannig að a.m.k. annar þeirra gæti þá farið eftirlits rúnt annað slagið og um leið augljóst að ef slys verða, þá væru menn þá fljótari á staðinn til þess að grípa inn í og aðstoða, ekki góður niðurskurður þetta.
En fleira vakti athygli mína sem ég hef ekki séð í fréttum. En mér er sagt að það sé búið að segja upp tveimur sjúkraliðum til að spara og auka þar með um leið álagið á hið frábæra starfsfólk sjúkrahússins enn meira. Þessu til viðbótar er mér sagt af sjúkraþjálfurum, að umsóknir þeirra um auka tíma handa sjúklingum þeirra sé nánast undantekningalaust hafnað af Tryggingastofnun ríkisins, en maður hlýtur að spyrja sig að því hvort að þetta sé rétt, vegna þess að sjúkraþjálfunin er augljóslega besta leiðin til þess að halda fólki sem á við alls konar vandamál að stríða, gangandi, og auka þar með um leið hugsanlega lyfjakostnað enn meira sem og fjarvistir fólks sem er að reyna að vinna þrátt fyrir ýmis vandamál og ég leyfi mér að efast um það, að þessar aðferðir skili þeim sparnaði sem til er ætlast a.m.k. til lengri tíma litið.
Það athyglisverðasta við fréttir sem að mínu mati hefði kannski frekar átt að gera minna úr, er vertíðin sem nú er í gangi. Vissulega er mikið að gera og unnið allan sólarhringinn í frystihúsunum og bræðslunum sem og löndun, en núna í jan. sáum við ma. bæjarstjórann okkar og bæjarblaðið Fréttir fjalla um mikla atvinnu möguleika, mikinn uppgang og jafnvel að allir fengu vinnu sem vettlingi gætu valdið. Allt vissulega að hluta til rétt, en þó ekki. Í fyrradag lenti ég í því að skutla tveimur ungum mönnum með sinn farangur í geymslur, en þeir höfðu komið hingað um miðjan jan. til þess að vinna á vertíðinni, leigt sér húsnæði og síðan byrjað að ganga á milli frystihúsanna í atvinnu leit, en eftir allan þennan tíma eru þeir að fara héðan án þess að hafa fengið nokkuð að gera. Í gær lenti ég svo á spjalli við konu sem hefur búið í Vestmannaeyjum til fjölda ára, hún hafði svipaða sögu að segja, sonur hennar 18 ára hafði gengið á milli frystihúsa undanfarnar vikur og alltaf fengið þessi loðnu svör :"Já nú er þetta alveg að bresta á, prófaðu að hringja í næstu viku." Til að kanna málið, þá hringdi ég í 3 verkstjóra í 3 frystihúsum og svörin eru einfaldlega þetta:"Það er vissulega vertíð, en vegna kreppunnar síðustu ár þá hefur fólki smátt og smátt verið fjólgað, en einfaldlega fært til eftir því hvar mest er að gera hjá fyrirtækjunum og þess vegna sára fá eða engin störf í boði á vertíðinni. Svo skilaboðin eru því skýr:"Það er vissulega vertíð, en hér vantar ekki fólk í frystihúsin." Leiðinlegt að heyra af ungu fólki, sem jafnvel hefur verið atvinnulaust lengi uppi á landi, sé að koma til Eyja með ærnum kostnaði út af einhverju blaðri frá bæjarstjóranum og fleirum um að hér sé svo mikill uppgangur.
Kannski smá jákvæðni að lokum, eða þannig.
Ég var ánægður með að heyra það að einn af skipstjórum Herjólfs skyldi loksins tjá sig um Landeyjahöfn, en þótti sorglegt að sjá viðbrögð yfirmanns Siglingamálastofnunnar, en mér finnst ansi margt benda til þess að það þurfi einhverjir aðrir en starfsmenn Siglingamálastofninnar að taka ákvörðun um næstu skref varðandi Landeyjahöfn.
Ég var einnig mjög ánægður með greinargerð og samþykkt bæjarstjórnarinnar vegna þessa svo kallaða svartfugla máls, en ég hafði einmitt áhyggjur af því að ákvörðun bæjarstjórnar frá s.l. sumri um að banna lundaveiðar hefðu þær afleiðingar, að öfgasinnaðir náttúruverndarsinnar innan Ríkisstjórnarinnar myndu nota það sem átyllu til að banna allar svartfuglaveiðar, en vonandi eru Eyjamenn farnir að átta sig á því hvað raunverulega er að gerast þarna, eða svo að ég vitni í fulltrúa bændasamtakanna:"Þetta snýst bara um aðlögunar ferlið að ESB og hefur ekkert með fuglaveiðar að gera."
Meira seinna.
2.2.2012 | 20:25
Landeyjarhöfn, staðan
Mikil umfjöllun um Landeyjarhöfn að undanförnu í Eyjamiðlum, en mig langar að byrja á að þakka Gísla Jónassyni og Sigmund Jóhannessyni fyrir þeirra framlög í síðustu fréttum, Gísli er reyndar með sömu grein eða svipaða og hann hefur skrifað frá því löngu áður en framkvæmdir við Landeyjarhöfn hófust, en Gísli, eins og svo margir þessir svo kölluðu úrtölumenn, hafa einfaldlega bara haft rétt fyrir sér í einu og öllu. En það sem helst hefur vakið athygli mína síðustu mánuði, er frétt um að verktakinn sem gerði veginn upp að námunni þar sem grjótið í höfnina var tekið, var fyrir nokkru tilkynnt að ef hann ekki gengi frá veginum upp að grjótnámunni þá fengi hann ekki borgað. Forsaga málsins er sú að hluti verksins var að breikka veginn fyrir þungavinnuvélar, en mér skilst að íbúarnir í nágreninnu hafi þótt vegurinn mun betri eftir breikkunina og vertakinn ýjað að því, hvort ekki yrði síðar meir frekari flutningar á grjóti úr námunni ( til dæmis ef byggja ætti varnargarð ) en svarið liggur sem sé fyrir.
Margar kjaftasögur eru í gangi varðandi hugsanlegan opnunartíma á Landeyjahöfn og það nýjasta sem ég hef heyrt er, að það eigi að reyna að opna í lok mars í fyrsta lagi, en í raun og veru skiptir engu máli hvað hver ákveður í þessu máli, því að veðrið einfaldlega ræður þessu, sem er eiginlega alveg með ólíkindum að búa við það á tuttugustu og fyrstu öldinni að veðurfar og vindáttir, ráði því hvort að höfnin sé nothæf eða ekki. Nýjasta nýtt frá bæjarstjórnar meirihlutanum, sem ég hef heyrt, er að þar tala menn nú um að eftir svona ca. 5 ár verði öll vandamál Landeyjahafnar að baki og menn muni einfaldlega hlægja að þessum vandræðagangi á fyrstu árum Landeyjahafnar. Það væri óskandi að þetta gengi eftir, en því miður sé ég ekkert í stöðunni í dag sem bendir til þess að þetta gangi eftir.
Það vakti athygli mína í síðustu viku, að á sama tíma og Samgönguráðherra gefur það út að það eigi að byggja nýtt skip, sérstaklega hannað fyrir Landeyjahöfn og megi að hámarki kosta ca. 4 milljarða, þá sjá bæjarstjórinn og fulltrúi minnihlutans ástæðu til þess að setja nöfn sín undir grein, þar sem þeir reyna að fullvissa Eyjamenn um að nýtt skip muni líka geta siglt til Þorlákshafnar. Þetta hljómar frekar ótrúverðugt amk. enda gert ráð fyrir því að nýtt skip muni rista amk. meter minna heldur en núverandi ferja og því augljóst að ef ekki verða gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir í smíði skipsins, þá mun það að öllum líkindum ekki geta siglt til Þorlákshafnar í jafn slæmum veðrum og núverandi ferja, en að mínu mati er það algjört lykilatriði að sjóhæfni nýrrar ferju verði sambærileg og núverandi ferju. Það er nógu slæmt að samgöngumál okkar séu núna í mun verri stöðu yfir vetrarmánuðina heldur en áður en Landeyjahöfn var byggð, og á það er ekki bætandi.
Í byrjun janúar fundaði bæjarstjórnin með Siglingamálastofnun og kom sú ályktun frá þeim fundi að enn væri stefnt að því að gera Landeyjahöfn að heilsárs höfn. Þetta breytir í sjálfu sér engu, það er hægt að segja hvað sem er og álykta hvernig sem er. Í einni af greinum Elliða kemur fram m.a. að hann hafi áhyggjur af því að ekkert muni gerast næstu 3 árin. Ég er sammála honum í því og einnig mjög ánægður með það, að bæjarstjórnin hafi áhuga á að skoða það að leiga lítið skip til farþegaflutninga í Landeyjahöfn þegar Herjólfur kemst þangað ekki, en ég hef sjálfur nokkrum sinnum orðað þann möguleika og væri það góð viðbót við Herjólf.
Eitt af því sem vakti mesta athygli mína í haust er einmitt viðtal við bæjarstjórann, þar sem Heilbrigðisráðherra boðaði hugsanlega sameiningu á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Suðurlands með fækkun starfa hér í Eyjum, eitthvað sem við Eyjamenn erum öll á móti, en í viðtali við Elliða, þá segir hann að menn verði að hafa það í huga að það tekur okkur Eyjamenn um 4 klst. að komast upp á Selfoss. Ekki orð um Landeyjahöfn þar, en þarna kom enn einu sinni fram eitt af því sem ég varaði við á árum áður ef Landeyjahöfn kemur einhvern tímann til með að virka, þá er enginn vafi á því að hvaða ríkisstjórn sem mun stjórna þá, þá mun hún að öllum líkindum fækka störfum hér á vegum Ríkisins í nafni hagræðinga og vegna bættra samgangna Eyjamanna við fastalandið og gegn því þarf að berjast.
Þetta er orðið ágætt í bili, meira seinna.
8.1.2012 | 18:57
Sjófuglar í Vestmannaeyjum
Formaður Fuglaverndunarsamtaka Íslands (man ekki nafnið á honum) tjáði sig í vikunni og lýsti þeirri skoðun sinni, að réttast væri að friða veiðar á öllum sjófuglum á Íslandi. Í fyrstu hélt ég að þetta væri einhvers konar grín, eða að hann væri náinn ættinig sjálfsmenntaðs lundasérfræðings Vestmanneyja, Erps Snæs Hanssonar, en ég þekki það bara ekki. En þar sem ég hef stundað eggjatöku og lundaveiði í 35 ár, langar mig að renna lauslega yfir stöðuna á þessum stofnum hér í Vestmannaeyjum.
Hér er engin kría og stofnar eins og teista og skarfur eru í það litlu magni, að þær eru lítið eða ekkert nýttar. Mjög lítið er hirt af mávseggjum en meindýraeiðir Vestmanneyja hefur oft verið sendur út af örkinni til að reyna að halda þeim stofni í skefjum. Skrofan er ekki nýtt, reyndar tók ég eftir því að Erpur og félagar á Náttúrfræðistofu Suðurlands hafa verið að rannsaka þann stofn og lýst því m.a. yfir, að aðeins finnist skrofa í Ystakletti og Elliðaey, en að venju er það rangt eins og annað sem kemur frá þeim félögum, enda þó nokkur skrofubyggð í Miðkletti og sjálfur hef ég rekist á skrofu bæði vestur á Dalfjalli og suður á Litlahöfða. Ritan er ekki nýtt.
Fýllinn í Vestmanneyjum, ætla ég að giska á að sé stofn upp á ca. milljón fugla, en m.a. á þeim árum sem ég stundaði eggjatöku í Duftþekjunni norður í Heilakletti, þá náði ég eitt vorið, bara á því svæði, liðlega 2000 eggjum, en það eru mörg ár síðan. Síðustu árin hefur eggjataka verið í kringum 3000 fýlsegg á ári og gróft ályktað eru teknir ca. 300 fýlsungar í salt á hverju hausti, en miðað við heildina er þetta eins og dropi í hafið.
Mesta uppsveiflan er í súlu, enda þrífst hún mjög vel á makríl sem flætt hefur hingað síðustu árin, en súlan er mjög harðgerður fugl og aðeins unginn hirtur, en síðustu árin aðeins brotabrot af varpinu og því gríðarleg fjölgun á þessum fugli.
Svartfuglar (álka, langvía, hringvía, stuttnefja). Ekki þori ég að giska á hversu stórir þessir stofnar eru hér í Vestmannaeyjum, en þeir skipta að sjálfsögðu hundruðir þúsunda. Ekki þekki ég heldur hve mikið er skotið af svartfugl á hverju ári, en ég held þó að það sé óverulegt. Eitthvað er hirt af eggjum, en varpið hefur ekki verið gott síðustu árin og eggjatakan þar af leiðandi minnkað verulega og t.d. síðast liðið sumar minnir mig að hún hafi aðeins náð nokkur hundrað svartfuglseggjum. Ég hef hins vegar fylgst með svartfuglabyggðunum í Klettsvíkinni og sérstaklega Miðkletts megin frá því ég var strákur, enda eru það byggðir sem fá alveg frið fyrir eggjatöku og þar hefur engi fækkun orðið.
Lundinn. Ég hef nokkuð oft skrifað um lundann, en til upprifjunar, þá lítur þetta svona út:
Lundastofninn í Vestmanneyjum hefur alltaf verið talinn vera 5-8 milljónir fugla. Holufjöldinn svona ca. 1500 þúsund holur. Erpur segir að 2005 hafi verið fyrsta árið sem varp misfórst í Vestmannaeyjum. Þetta er ekki rétt hjá honum, enda hóf hann ekki rannsóknir hér í Vestmannaeyjum fyrr en 2007, en mikið var af pysju 2005. 2006 kom fyrsta áfallið, þó að mikið væri af pysju, þá var hún mjög horuð og ræfilsleg og greinilegt að æti hefur vantað 2006, sem varð til þess að mikið af lundanum hóf ekki varp 2007, en ástandið 2007 reyndist vera mun betra. Töluvert var af pysju og t.d. var á Sædýrasafninu það sumarið vigtaðar yfir 2000 pysjur, sem þýðir að nýliðun 2007 var amk. nokkur hundruð þúsund pysjur. Í okt. 2007 ákvað þáverandi sjávarútvegsráðherra að opna alla suðurströndina fyrir snurvoð, en það er al þekkt að fuglinn leitar inn í fjöru þegar ætiskortur er. Einnig hefur makríllinn farið að láta sjá sig við Íslandsstrendur í miklu magni s.l. 3 árin og sílið um leið horfið. Að mínu mati eru þetta þær tvær helstu ástæður fyrir því að lunda varpið hefur að mikli leyti misfarist síðan 2007. Reyndar segir yfirmaður Náttúrufræðistofu Suðurlands í grein á síðasta ári, að varpið væri nú samt alltaf ca. 10% á hverju ári og miðað við holu nýtinguna, þá ætti það að gefa af sér ca. 70-80 þúsund pysjur á hverju ári og þegar við þetta er bætt þokkalegum pysjuárgangi frá 2007, þá er engi furða þó að öll fjöll í Vestmannaeyjum hafi fyllst af lunda í ágúst á síðasta ári. Lundastofninn í Vestmannaeyjum er, vegna viðbraðga lundaveiðimanna s.l. ár, sennilega í sögulegu hámarki og miðað við reynslu frá síðasta sumri, augljóst að ekki er hægt að fylgjast með breytingum á stofninum með því að fara eingöngu í holur. Ég segi það því enn og aftur:
Það er jafn vitlaust að banna fuglaveiðar og að leyfa frjálsar lundaveiðar, en veiðar einhverja örfáa daga til þess að menn geti fengið sér í soðið, get ég ekki skilið að geti skaðað stofninn.